GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Grunnhyggni

Strákar hugsa bara um útlit stelpna en stelpur eru ekki svo grunnhyggnar og leggja meiri áherslu á persónuleikann.

Þetta er klisja sem oftar en ekki heyrist og er kannski rétt að einhverju leyti. Ég er nokkuð sannfærður um að þótt stelpur hugsi að sjálfsögðu eitthvað um útlit stráka og strákar taki eitthvað tillit til persónuleika stelpna þá líti stelpur frekar fram hjá útlitinu heldur en strákar. Hvort þetta er almennt gott eða slæmt skal ég ekki segja en það hlýtur að velta á einstaklingunum. Fyrir mig og aðra stráka sem eiga erfitt uppdráttar í fyrirsætubransanum hlýtur það að vera hughreystandi að við séum ekki dæmdir til einlífis eingöngu útlitsins vegna. Að sama skapi getur mörgum stelpum leyfst að hafa gufusoðið heilabú svo fremi sem þær séu þolanlega útlítandi.

Stelpur kvarta auðvitað mikið undan því að þurfa stöðugar áhyggjur af línunum og öðrum útlitslegum þáttum eingöngu vegna þess hve kröfuharður karlamarkaðurinn er. Mörgum útlitslegum þáttum er hins vegar hægt að breyta hjá stelpunum. Fatnaður er mjög mikilvægur í útliti kvenna og honum er auðvitað hægt að haga eftir höfði hverrar stelpu og sömuleiðis er það mögulegt fyrir holdugar stúlkur að fara niður um nokkrar fatastærðir ef viljinn er fyrir hendi.

Karlar, sem eiga sína velgegni í mökunarmálum að miklu leyti undir persónuleikanum, eiga hins vegar ekki svo gott. Persónuleiki er eitthvað sem flestir fæðast með að mestu og þróast svo með tíð og tíma. Greind, húmor og aðra þætti sem stelpur segjast iðulega laðast að er mjög erfittt fyrir strák að laga. Ég veit ekki til þess að hægt sé að fara í greindarmeðferð sama hvað viljinn er sterkur og um húmor gildir næstum það sama, sumir eru bara fyndnir og sumir ekki.

Eini sanngjarni mælikvarðinn á gæði einhleyps fólks úti á markaðinum hlýtur því að vera persónulegir eiginleikar sem hægt er að breyta. Allt sem er meðfætt hlýtur að vera ósanngjarnt að meta fólk eftir. Því væri til dæmis hægt að segja að manngæska sé eitthvað sem hægt er að dæma eftir. Það er flestum mögulegt að læra að haga sér vel í samskiptum og koma vel fram við aðra.

Því segi ég við kvenþjóðina:

Næst þegar þið laðist að karlmanni af því að hann er svo greindur, fyndinn eða skemmtilegur og haldið að það sé miklu dýpra hugsað en aðlöðun karla að útliti, staldrið þið þá aðeins við. Stelpur heillast kannski að miklu leyti í gegnum eyrun og strákar í gegnum augun en á endanum er erfitt að halda því fram að annað sé ósanngjarnara en hitt.

Með pistli þessum telst haustönn Skítsins 2004 hafin.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Haustboðinn ljúfi kominn til Íslands

Jæja, þá er kallinn kominn á Klakann heilu og höldnu. 8 vikna þýskunám og rannsóknir á þýsku mannlífi afstaðnar. Að sjálfsögðu var rannsóknavinna mjög handahófskennd og því ekki von á rannsóknarniðurstöðum alveg í bráð. Þær munu væntanlega títrast út í pistlum komandi vikna og mánuða. Annars gleymdi ég alveg klósettúttekt þarna úti og mun bæta úr því núna.

Klósettúttekt í München

Fyrsta klósettið sem ég mætti var hjá Herr Ögmundi Peterssyni. Það var svokallaður þyrlupallur, sem áður hefur komið við sögu á Skítnum. Það er að segja að það sem fellur ofan í salernið lendir ekki strax í votri gröf heldur hefur viðdvöl á palli. Að öllum stærri verkum loknum er því hægt að sjá afrakstur erfiðisins. Því næst kemur svo þessi líka iðnaðarsturtun til þess að skola herlegheitunum burt. Ég verð að viðurkenna að ég sá meira en ég vildi. Þyrlupallar eru ágætir í stuttan tíma en til lengri tíma held ég að gamla góða blúbbsklósettið sé betra.

Almenningssalerni voru yfirleitt býsna góð. Þrifnaður var mikill nánast hvert sem farið var og klósett almennt lítið sjúskuð. En sá bögull fylgir þessu skammrifi að jafnan var ætlast til þess að einhver greiðsla væri innt af hendi fyrir veitta þjónustu. Þótt þetta sé óvenjulegt fyrir Íslending er ég í sjálfu sér ekki á móti því að borga eitthvert smáræði fyrir notkun á salerni. Ef þetta veldur því að því sem næst öll salerni verða tvistfær er þetta auðvitað jákvætt. Hins vegar er óþolandi að þurfa alltaf að hafa rétta klinkið á sér til þess að borga svona smáupphæðir. Þá pirraði það mig mjög að fólkið sem sá um að halda salerninu hreinu sat alltaf og horfði á mann labba út og neyddi mann þar með til þess að henda einhverju klinki í það. Það virðist vera að svona þriðjungur starfsins hafi verið að viðhalda þrifnaði og tveir þriðju að stinga fólk á hol með augnaráðinu ef það borgaði ekki.

München er almennt frekar rík og þrifaleg borg svo að ég hugsa að það sé ekki hægt að heimfæra Münchenska klósettmenningu á allt Þýskaland.

Að lokum vil ég spyrja Skítsmenn hvort næsta vika sé sú fyrsta í nýjum, ferskum grænum vetri. Hvað segja menn? Á ég að henda fyrsta pistli á mánudaginn?

fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Ljúfsár móment

Þá sem ekki eru vel drukknir eða sérstaklega tilfinninganæmir vil ég biðja að staldra aðeins við og reyna að tengja við innri manninn.

Ég var að koma af sídasta djamminu hérna í München. Það er óhætt að segja að það hafi verið ljúfsárt. Fyrir mig var ágústmánuðurinn nokkuð öflugri en júlí og kynntist ég nokkrum krökkum mjög vel núna í ágúst. Því var það nokkuð súrt að þurfa að kveðja fólk sem maður hafði smám saman verið að átta sig á að manni líkaði mjög vel við.

Að kynnast nýju fólki til skamms tíma hefur þann kost og stundum ókost að væntanlega mun maður aldrei hitta viðkomandi aftur. Það er ágætt þegar maður kynnist engum sem mann langar að þekkja en þegar maður hittir einhvern sem maður virkilega fílar vel er það nokkuð erfitt að sætta sig við það að væntanlega muni maður aldrei hitta viðkomandi aftur. Vissulega reynir fólk að sannfæra hvort annað um að það muni halda sambandi í gegnum tölvupóst og þvílíkt en auðvitað er það bara blekking. Í raun og veru er viðkomandi samband á enda.

Ég sé eftir tveimur vinum sem ég hefði alveg getað ímyndað mér að ég gæti þróað vináttu til lengri tíma með. Þeir voru reyndar nokkuð eldri en ég, 29 og 27 ára, en það skiptir auðvitað litlu máli þegar komið er fram yfir tvítugsaldurinn. Þeir verða báðir áfram hér í München og munu reyna að vera í sambandi við Ögmundinn eftir tækifærum. Auðvitað er skynsama hugsunin í mér ánægð með að fólk sem mér líkar vel við á báða bóga geti haldið áfram að skemmta sér. Hins vegar er undirmeðvitundin öfundsjúk yfir því að ég fái ekki að vera með.

Þetta er allt saman mjög sérstakt og skrítið að fara í gegnum. Ég hef einu sinni gengið í gegnum þetta áður en annaðhvort áttaði ég mig ekki á aðstæðunum jafnvel þá eða ég er of drukkinn núna.

Á endanum hlýtur maður að fagna þeirri reynslu sem maður hefur þó fengið. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og það er víst alveg öruggt að heildaráhrif svona reynslu eru jákvæð. Þetta vekur vissulega von um að það sé nóg af viðkunnanlegu fólki í heiminum. Leitið og þér munið finna segir einhvers staðar í biblíunni að ég held og þótt ég sé langt frá því að vera trúaður þá má víða finna vit í heilögu bókinni og þarna held ég að naglinn sé sleginn í hausinn.

Allt ofansagt er skrifað í fullri alvöru svo að fólk er vinsamlegast beðið um að halda aftur af hláturtaugunum.

Þangað til á Íslandi.




Hættað horfá ólympíuleikana, kondí bíó !

Gleðilega hátíð góðir gestir, gleðilega kvikmyndahátíð.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá hafa einhverjir framtaksamir einstaklingar tekið sig til og fretað upp einni glæsilegustu kvikmyndahátíð síðari tíma. Tryggir lesendur skítsins kannast eflaust við síuna mína margumtöluðu og er þessi kvikmyndahátíð svo þéttskipuð góðum myndum að aðeins 3 af 10 eru ekki að standast síuna eða 30%. Er það ansi lágt hlutfall af frásíuðum myndum á svo skömmu tímabili en gróflega áætlað hygg ég að árlega ráðleggi sían mér að sleppa 75-85% af þeim myndum sem koma í íslensk kvikmyndahús.

Réttast er að nefna þær myndir sem sían hafnar. Þær eru (með rauðu letri):
  1. Bollywood/Hollywood,
  2. My first mister
  3. Saved!
Aðrar myndir eru möst fyrir fólk sem hefur gaman af því að fara í bíó. Þess má geta að hægt er að kaupa passa á allar myndirnar á skitinn 5000 kall (4000 ef í Landsbankanum) og er það ekki jack fyrir góða stemmningu.

A.m.k. 7 myndum hátíðarinnar verða gerð skil af gagnrýnendasveit skítsins. Af því tilefni verður útbúin hliðarsíða skítsins hvar skítaskrifarar geta í framtíðinni riggað upp gagnrýni á ýmsar afurðir menningarlífsins; kvikmyndir, bókmenntir, tónlist og sjónvarpsviðburði. Verður einkum fróðlegt að fá pistla frá hinu danska baunaveldi í boði ritstjórans og suðurhluta Frakklands hvar Björninn mun dæla út pistlum með brie í annarri og baguette í hinni. Síðan er í vinnslu en fréttatilkynning verður send til fjölmiðla um leið og hún kemst í gagnið.

Sjitt, fokk, reip!


sunnudagur, ágúst 22, 2004

Vínmenning

Ég veit ekki alveg hvaða stimpil ég hef á mér varðandi drykkju en ég vil auðvitað meina að mín drykkja sé ekki vandamál þótt mér þyki gaman að gleðjast í góðra vina hópi með bjór í hendi. Stemmningin gagnvart bjór hér í München er mjög afslöppuð og í góðu veðri þykir ekkert sjálfsagðara en að skella sér í bjórgarð, stúta einum mab og fara yfir stöðu heimsmála. Svo er ég líka í hálfgerðu fríi hérna svo að ég hef drukkið mun oftar en ég myndi nokkurn tíma gera á Íslandi. Hins vegar drekk ég mun minna í hvert skipti heldur en heima. Ég hugsa að hér hafi ég aldrei drukkið meira á einu kvöldi en ég drekk að meðaltali á Íslandi.

Að fara á djammið hérna felst yfirleitt í því að fara út að borða, fá sér vín eða bjór með matnum og halda svo áfram að sötra einn og einn bjór á veitingastaðnum, kaffihúsi eða bar. Hálfslítra bjór kostar yfirleitt um 3 evrur hér sem eru tæpar 300 krónur svo að það er fjárhagslega gerlegt að haga kvöldinu svona. Því er ekki nauðsynlegt að taka Íslendinginn á þetta, að reyna að besta ódýra drykkju í heimahúsi þannig að víman endist fram eftir kvöldi í bænum. Svo fremi sem áfengisverð lækkar ekki á Íslandi verður væntanlega ekki mikil breyting á þessu, því miður.

Því er ég eiginlega kominn á það að áfengisskattur á Íslandi skuli lækkaður. Hingað til hefur mér fundist allt í lagi að skattleggja áfengisdrykkju, sem er í sjálfu sér ekki sérlega æskileg og eflaust fylgir áfengisneyslu talsverður þjóðfélagslegur hliðarkostnaður vegna ofbeldis, slysa og almenns heilbrigðiskostnaðar. Hins vegar tel ég að markmiði áfengisskattsins, sem er væntanlega að draga úr áfengisneyslu, verði betur náð með lægri áfengissköttum. Óhófleg áfengisneysla ætti að minnsta kosti að minnka talsvert ef menningin myndi breytast.

Það vill reyndar svo heppilega til að nánast sama upphæð fæst með áfengisskattinum og ríkið sóar í landbúnaðarstyrki, um 7 milljarðar króna árlega. Því væri hægt að vinna það þjóðþrifaverk að slá tvær flugur í einu höggi, henda áfengisskattinum og landbúnaðarstyrkjunum, án þess að högg sæist á vatni í fjárlögunum. Hringið endilega í þingmanninn ykkar og bendið honum á þetta.


laugardagur, ágúst 21, 2004

Befriedigend

Jæja, prófin eru afstaðin og niðurstaðan er ljós. Ég stóðst prófið á endanum en það er samt óþarfi að segja að ég hafi gert það með glæsibrag. Ég fékk heildareinkunnina "Befriedigend" sem er þriðja einkunn af sex mögulegum þar sem tvær neðstu eru falleinkunnir. Ég veit ekki alveg hvernig er best að þýða "Befriedigend" fyrir þá sem ekki hafa lært þýsku en best er líklegast að gera það út frá orðinu "zufrieden". Það þýðir í raun "sáttur" og "Befriedigend" er lýsingarorð yfir þann sem gerir einhvern sáttan. Því má segja að ég hafi fengið einkunnina "Ásættanlegt" svona gróft séð. Þessa orðskýringu verður svo að sjálfsögðu að skoða í ljósi þess að ég fékk bara "Befriedigend" sem einkunn svo að líklega er hægt að skýra þetta betur.

Markmiðinu var þó náð, ég er nú með Mittelstufeprüfung í þýsku sem er nokkuð meira en ég reiknaði með þegar ég lagði af stað í þetta missjón.

Matarlega séð gerðist tvennt merkilegt í dag. Ég eldaði í u.þ.b. sjötta skiptið hér í München (alltaf sama pastað auðvitað) og svo lenti ég í þeirri lukku að fá tvær súrgúrkusneiðar á sama hamborgarann á McDonald's.

Fyrir utan reglulegt djamm og drykkju held ég ekki að annað merkwürdigt hafi gerst síðan síðast.


sunnudagur, ágúst 15, 2004

Das Model

Á föstudaginn hóf ég löngu tímabæran fyrirsætuferil minn. Þá sat ég fyrir, ásamt 8 öðrum, sem nemi í kennslustund en myndirnar sem teknar voru munu birtast í nýrri kennslubók í þýsku. Eins og fólk veit er fyrirsætubransinn harður og á botninum fær maður ekki mikið greitt. Ég fékk aðeins 15 evrur fyrir 45 mínútna fyrirsetu. Svo verð ég að koma einu að. Í þessu fótósjúti, eins og sagt er í bransanum, var annar strákur sem var alltaf að lauma því að hvað honum fyndist þetta nú kjánalegt, svona til þess að halda kúlinu. Ég veit ekki alveg hvernig myndatöku hann hélt að hann væri að fara í en hann valdi þetta og ætti bara að standa við það val. Svona væl og afsakanir eru fyrir aumingja.

Ég skellti mér annars í diskó á miðvikudaginn og þar sá ég olíubornari menn en mér er hollt. Ég hugsa að þeir hefðu gefið mikið fyrir að vera í mínum sporum, þ.e. í fyrirsætubransanum. Auðvitað er nauðgunarverðlag á svona diskóum, maður borgar sig inn og verður svo að sætta sig við 50-100% hærra verðlag en á öðrum börum. Svo er maður náttúrulega ekki til í að beila vegna upphaflegu inngangsfjárfestingarinnar. Svo fór ég aftur í diskó í gær, sem er mun stærri en fyrra diskóið, og fyrirfram hélt ég að ég myndi ausa skít og drullu yfir það. Hins vegar reyndist það bara hið ágætasta. Ég þurfti reyndar að borga 10 evrur inn en áfengið var á fínu verði, 2,50 evrur fyrir flöskubjór sem er bara mjög ásættanlegt. Tónlistin var líka ekki alveg eftir mínu höfði, það var alveg slæðingur af góðum lögum en allt þarf að vera remixað á svona stöðum.

Er að fara að horfa á tvo leiki úr enska boltanum, guði sé lof.

L

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Of fáir tímar í sólarhringnum

Fyrir fótboltaáhugamenn bendi ég á skráningu hér að neðan.

Tíminn hefur flogið síðustu daga. Einkunnasjúklingurinn í mér ákvað að skrá mig í próf til að ég geti haft eitthvað skjalfest um mína þýskukunnáttu. Prófið er í þannig styrkleika að í augnablikinu held ég að það sé u.þ.b. 50/50 á því hvort ég nái því eður ei. Harkalegur lærdómur hefði átt að kýla líkurnar upp í 75-80% og fyrir síðustu helgi var ég harðákveðinn í því að þessi vika yrði róleg enda er umrætt próf núna á laugardaginn. Hins vegar hefur mér ekki orðið kápan úr því klæðinu þar sem ég hef verið "neyddur" í einhverskonar drykkju hvert kvöld frá því á fimmtudaginn síðasta. Prófið nálgast nú óðfluga og berst nú akademíski metnaðurinn í mér við hinn félagslega. Þar sem lærdómur veldur aðeins samfelldri aukningu á væntum akademískum árangri(þ.e. í líkum á að ná prófinu) en hver ákvörðun um að fara á djammið eða ekki er stafræn í eðli sínu, á félagslegan mælikvarða, sé ég ekki fram á að hafna djammi fyrr en föstudagskvöldið. Þá tel ég samfelld áhrif á líkur á að standast prófið vera umtalsvert meiri en félagslegur hagnaður af djammi. Reyndar var ég heppinn í dag þegar ég var of seinn að skrá mig í ferð í bruggverksmiðju og hef þá ekkert að gera nema læra (og vera á netinu auðvitað sem tekur alltaf tíma). Það er ágætt þegar völdin eru tekin svona úr höndunum á manni því eins og maður sagði á sá kvölina sem á völina. Ég hef nú reyndar alveg heyrt um kvalafyllri aðstæður en að þurfa að fara á djammið á hverju kvöldi þannig að ég græt mig ekkert í svefn út af þessu.

Annars fór ég í missjón að kaupa stuttbuxur um daginn og ákvað að takmarka mig við buxur með einhverjum renndum vösum. Þessi skorða var vægast sagt takmarkandi og endaði ég á því að kaupa einhvers konar blöndu af stuttbuxum og hinum sívinsælu hnébuxum. Held reyndar að mínar buxur séu of stuttar til þess að vera seldar í GK en þetta er samt á mörkunum.

Svo sá ég í fyrsta skipti svartan mann í skotapilsi um daginn. Ég var í neðanjarðarlest hérna og brá nokkuð við sjónina. Þó sá ég ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við klæðnaðinn en það gerði hins vegar um fimmtugur Þjóðverji. Hann spurði "Skotann" ítrekað út í klæðnaðinn og hló mikið að honum en sá í pilsinu hafði lítið gaman að. Þeir fóru út úr lestinni þegar rifrildið var enn í fullu fjöri en ég vona nú að þeir hafi fundið friðsama lausn á deilunni.

Ég hef verið fremur duglegur við að bæta myndum inn á myndasíðuna, sem væntanlega Ellert hefur sett link á hér til hægri. Til þess að liðið hérna úti geti séð myndirnar auðveldlega hef ég reyndar líka linkað bjarni.com á myndasíðuna. Enn hef ég ekki rekist á neinar takmarkanir á fjölda mynda sem ég get geymt þrátt fyrir að vera kominn með um 50 myndir þangað.

Jæja, ætla að reyna að fara að læra eitthvað en vil að lokum benda á umræður um "Vængmanninn" sem er vel í ætt við Menn og Meinsemdir.

Tschüss.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Myndasíða opnuð

Eftir mikla yfirlegu hefur Ellert nú aflað sér það mikillar þekkingar um internetið að hann gat leiðbeint mér í gegnum byggingu myndasíðu. Fyrsta myndasíðan frá München opnast því hér með og er hérna og vonandi verður settur linkur á hann einhvers staðar hérna við hliðina bráðlega.

Myndirnar sem nú eru birtar eru brot af því sem ég hef tekið hingað til og sýna í grófum dráttum stemmningu hérna í München. Nú þegar tæknin er komin í gang mun ég væntanlega uppfæra síðuna þegar myndefni og aðstæður leyfa. Myndirnar eru gróflega í öfugri tímaröð svo fyrir þá sem vilja ekki ögra tíma og rúmi bendi ég á að hefja yfirferðina neðst.

Er að fara í bjórgarð í kvöld svo það er aldrei að vita nema eitthvað gerist fljótlega.

Kveðjur að sunnan.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Úr kojunni í kennslustundina

Í ljósi þess að bolta á gervigrasi var aflýst sökum veðurs vil ég færa Reykvíkingum þær fregnir að þegar þessi orð eru skrifuð er 28°C og léttskýjað hér í München. Svona í það heitasta fyrir albínóa frá Íslandi en maður sættir sig við ýmislegt.

Annars er ég núna byrjaður í nýju námskeiði og hið gamla búið. Gamla námskeiðið var blásið af með lokapartýi fyrir sléttri viku og enduðum við nokkur á Karaoke-bar þar sem kallinn lét að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja. Það var Suspicious Minds með sem var tekið og við góðar undirtektir.

Annars er ég búinn að vera á hálfgerðu kojufylleríi síðustu daga. Síðasta helgi var sú síðasta fyrir flesta Íslendinga hér í München (sem ég þekki a.m.k.) og Verslunarmannahelgi þar að auki og því vart annað hægt en að taka þrist.

Mánudagurinn var svo tekinn í túrisma í magnaðan kastala sem snargeðveikur, samkynhneigður (ekki það að það sé eitthvað að því) kóngur byggði fyrir rúmum 100 árum.

Svo er ég kominn í nýjan bekk. Meðalaldurinn lækkaði örlítið en ekki mikið. Þó sýnist mér eldri mannskapurinn vera hressari en í síðasta bekk. Margir sem ég var að hanga með í júlí eru flognir á brott en einhverjir eru eftir og svo er bara að kynnast nýju fólki.

Í dag skellti ég mér svo í bjórgarð eftir skóla með tyrkneskum félaga og við lentum á spjalli við hinn týpiska Þjóðverja, með þykka hormottu og alles. Sá hafði lifað tímana tvenna og leiddist ekkert að kenna tveimur ungum mönnum á lífið og tilveruna. Ég skildi svona 70% af því sem hann sagði og tel ég það bara nokkuð gott.

Að lokum vil ég óska íslenska knattspyrnulandsliðinu til hamingju með 81. sætið á heimslistanum. Maður ætti kannski að fara að bjóða fram krafta sína.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com