GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Eru atvik slæm?

[Ég vænti þess síður að Tobbi muni skila pistli svo að ég ætla bara að kasta þessum fram í tilraun til að bæta fyrir slugsaskap síðustu tveggja vikna.]

Leiðtogi okkar allra, Jóhannes Páll páfi II. í Róm, hefur undanfarna daga átt við erfið veikindi að stríða. Það kemur víst fáum á óvart miðað við hvernig hann hefur komið fyrir sjónir undanfarin ár. Páfinn hefur enda ekki sloppið alveg áfallalaust í gegnum lífið, til dæmis lifði hann skotárás af fyrir um 20 árum. Þrátt fyrir andúð mína á trúarbrögðum hef ég fátt á móti páfanum sjálfum enda held ég að hann sé að gera sitt besta í því að reyna að vinna að friði og mannréttindum og óska honum bara alls hins besta.

Í umfjöllun um veikindi páfans kom fram að heilsa hans væri "góð eftir atvikum". Þetta heyrir maður oft þegar fólk hefur lent í slæmum slysum, aðgerðum eða veikindum. Að heilsa sé góð eftir atvikum þýðir að sjálfsögðu að miðað við það sem undangengið er þá sé heilsan bara nokkuð góð. Oft heyrir maður líka að líðan einhvers sé "eftir atvikum". Það þýðir þá að ástand sé í takt við þá atburði sem á undan eru gengnir. Yfirleitt er frekar neikvætt að heyra þetta.

Maður heyrir hins vegar aldrei að líðan einhvers sé "slæm eftir atvikum". Maður hlýtur að spyrja sig hvers vegna það er svo. Eru ekki til slík atvik að manni geti tekist að koma alveg ótrúlega illa út úr þeim miðað við hvað þau ættu að vera saklaus. Ég man til dæmis eftir því þegar ég var að skera laufabrauð sem ungur drengur og ákvað að kanna hvort hnífurinn sem ég var að nota í verknaðinn væri ekki örugglega nógu beittur. Þar sem ég vildi auðvitað ekki skemma neina hluti ákvað ég að prófa að skera í þumalputtann og viti menn, hnífurinn var flugbeittur og ég þurfti að fara upp á slysó til þess að láta loka því djúpa sári sem ég hafði valdið sjálfum mér. Nú er spurningin, hvað var "atvikið". Ég myndi segja að í ljósi þess að ég var að skera laufabrauð væri líðan mín mjög slæm því almennt sleppur fólk býsna heilt út úr laufabrauðsgerð og því myndi ég segja að heilsa mín væri slæm eftir atvikum. Svo má auðvitað horfa á þetta frá hinni hliðinni og hugsa sér að í ljósi þess að ég hafði djúpan skurð á puttanum þá leið mér bara nokkuð í takt við það, mér blæddi duglega og fannst þetta bara helvíti vont. Því væri hægt að segja að líðan mín hafi verið eftir atvikum.

Þetta virðist því á endanum vera spurning um hvar maður velur núllpunktinn. Hefðin virðist vera að velja þann tímapunkt sem er hvað svartastur og miða við hann. Því á maður að skilja það að líðan sé "góð eftir atvikum" sem svo að viðkomandi hafi á einhverjum tímapunkti í náinni fortíð liðið nokkuð verr en nú. Ef heilsan er "eftir atvikum" er viðkomandi hins vegar í tómi tjóni, hefur ekki liðið verr í langan tíma og engin sérstök ástæða til að ætla að hann sé á einhverri uppleið.

Þar með virðast atvik vera, samkvæmt skilgreiningu, slæm og verri en allir aðrir tímapunktar í nánd við atvikið.

Ég vildi að það yrði tekin upp hefð að úr því að það á að vera að segja manni hvernig líðan einhvers miðað við undangengin "atvik". Ef viðkomandi datt á hjólabretti (sem virkar ekkert rosalegt) og tókst að brjóta á sér hálsinn eða eitthvað á bara að slengja því framan í mann að líðan hans sé bara helvíti slæm eftir atvikum.

Þá gæti maður að minnsta kosti staðið í þeirri trú að ekki væru öll atvik slæm. En ég fæ víst ekki að ráða öllu svo ég verð bara að lifa með þessari staðreynd lífsins.

Guð forði okkur frá atvikum.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com