GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Örviðtöl

Lengi hef ég verið uppiskroppa með umræðuefni hér á Sketunni grænu. Les blöðin eins og vitfirringur en finn ekki baun til að fjalla um. Maður er kannski ekki nógu einbeittur við þetta. Kannski farinn að eldast. Kannski maður sé orðinn svo ánetjaður launaðri vinnu að maður gerir ekki neitt nema fá borgað fyrir það.

Bjarni er eini sem heldur ótrauður áfram og á hann hrós skilið fyrir það. Ekki einleikið að vera með ritgerð á mánudagsmorgni vikulega. Nógu erfitt að sulla mjólkinni á Cherrios-ið án þess að allt fari niður á gólf.

Nema hvað.

Nú er mér er orðið sama um hverja einustu frétt í blöðum og sjónvarpi, er hættur að kippa mér upp við skoðanir vitmagurra stjórnmálamanna og er kominn í poppið. Öll lesendabréfin um láglaunaða útlendinga að Kárahnjúkum, utanríkismálanefnd Alþingis, hamfarirnar í Asíu og undirbúning íslenska handknattleiksliðsins fara beint í tunnuna.Horfi bara á E! og les bara fólk í fréttum, Fókus og F2. Eins og kelling sem hlustar bara á Bylgjuna.

Þá er ein tegund lesefnis sem ég hef sérstaklega gaman af að lesa og les af mikilli áfergju. Það eru örviðtöl. Þessi hérna, sjáiði til:

“Hvað ertu með í vasanum”? : Dæmigert svar: Lykla, tyggjó, bíómiða, visakvittanir
“Besta bók sem þú hefur lesið”?
“Kynþokkafyllsta kona í heimi”
“Á hvað ertu að hlusta”?
“hvað ertu að lesa”?
O.s.frv.

Þessi viðtöl finnst mér einna skemmtilegust og hvað mest upplýsandi um þann sem spurður er. Hreinlega skera úr um hvort viðkomandi sé fáviti eða bara þokkalegasta manneskja. Þessi örviðtöl eru a.m.k. miklu betri 4 síðna Mannlífsviðtöl um einhvað kjaftæði eins og leiðina að frægðinni, veikindin, móðurmissi, sorgina, skilnaðinn eða eitthvað álíka ömurlegt raus. Mannlífsviðtöl og opnuviðtöl í DV segja manni ekkert nema að viðkomandi hefur ekkert áhugavert að segja og er í tómu tjóni alla daga en tekur einn dag fyrir í einu.

Nú er ég orðinn svo mikill spekúlant að ég er farinn að brennimerkja fólk eftir því hvernig það svarar ákveðnum spurningum.

Dæmi 1
Ef stúlkukind (t.d. leikarastelpa eða hljómlistarkona) svarar eftirfarandi spurningu með eftirfarandi hætti:
“ Hver er besta bók sem þú hefur lesið? ”
Svar: Englar Alheimsins
þá hugsa ég með mér. Já sæll að hún hafi lesið þá bók, hvað þá haldið á bók almennt. Kannski séð myndina, en bókina? Ekki séns.

Dæmi 2
Ef karlmaður er spurður “hver er fallegasta kona sem þú hefur séð (fyrir utan maka)?” og hann svarar einhverju af eftirfarandi :

  • a) mamma
  • b) amma
  • c) tengdó

Þá er eftirfarandi einstaklingur

  • a) vangefinn
  • b) fífl
  • c) vangefinn
  • d) undir hælnum hjá frúnni og sambandið á bláþræði.

Dæmi 3
Ef einhver er spurður “Á hvað ertu að hlusta”?
og hann svarar einhverju af eftirfarandi :

  • a) Slowblow
  • b) Damien Rice
  • c) Tom Waits
  • d) Where´s my drumstick með Funky Chicken

þá er viðkomandi einstaklingur

a) að rembast b) illt í maganum c) með harðlífi.

Dæmi 4
Ef einhver er spurður “hvað ertu með í vasanum?” og “ógreiddir reikningar” kemur fyrir í svarinu þá er viðkomandi

a) leikari

b) tónlistamaður

c) að ljúga til að fólk haldi að hann sé a) leikari b) tónlistamaður c) töff.

Og svona gæti ég haldið áfram endalaust að dæma fólk eftir örviðtölum. Nú bíð ég bara eftir að vera tekinn í örviðtal af einhverju blaðinu til að ég geti svarað einhverju ógeðslega frumlegu. En það er einmitt það sem maður er alltaf að bíða eftir. Að einhver komi með ný svör við klisjukenndum spurningum. Einhver svari “No lettuce on my hamburgahh” með Double Cheeseburgah þegar hann er spurður “á hvað ertu að hlusta?” í stað þess að segjast vera að hlusta á nýju plötuna með Tom Waits, Slowblow, Sigurrós eða eitthvað annað jarm sem enginn nennir að hlusta á en allir segjast vera að hlusta.

Og svo búið.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com