GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

miðvikudagur, ágúst 04, 2004

Úr kojunni í kennslustundina

Í ljósi þess að bolta á gervigrasi var aflýst sökum veðurs vil ég færa Reykvíkingum þær fregnir að þegar þessi orð eru skrifuð er 28°C og léttskýjað hér í München. Svona í það heitasta fyrir albínóa frá Íslandi en maður sættir sig við ýmislegt.

Annars er ég núna byrjaður í nýju námskeiði og hið gamla búið. Gamla námskeiðið var blásið af með lokapartýi fyrir sléttri viku og enduðum við nokkur á Karaoke-bar þar sem kallinn lét að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja. Það var Suspicious Minds með sem var tekið og við góðar undirtektir.

Annars er ég búinn að vera á hálfgerðu kojufylleríi síðustu daga. Síðasta helgi var sú síðasta fyrir flesta Íslendinga hér í München (sem ég þekki a.m.k.) og Verslunarmannahelgi þar að auki og því vart annað hægt en að taka þrist.

Mánudagurinn var svo tekinn í túrisma í magnaðan kastala sem snargeðveikur, samkynhneigður (ekki það að það sé eitthvað að því) kóngur byggði fyrir rúmum 100 árum.

Svo er ég kominn í nýjan bekk. Meðalaldurinn lækkaði örlítið en ekki mikið. Þó sýnist mér eldri mannskapurinn vera hressari en í síðasta bekk. Margir sem ég var að hanga með í júlí eru flognir á brott en einhverjir eru eftir og svo er bara að kynnast nýju fólki.

Í dag skellti ég mér svo í bjórgarð eftir skóla með tyrkneskum félaga og við lentum á spjalli við hinn týpiska Þjóðverja, með þykka hormottu og alles. Sá hafði lifað tímana tvenna og leiddist ekkert að kenna tveimur ungum mönnum á lífið og tilveruna. Ég skildi svona 70% af því sem hann sagði og tel ég það bara nokkuð gott.

Að lokum vil ég óska íslenska knattspyrnulandsliðinu til hamingju með 81. sætið á heimslistanum. Maður ætti kannski að fara að bjóða fram krafta sína.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com