GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, ágúst 29, 2004

Grunnhyggni

Strákar hugsa bara um útlit stelpna en stelpur eru ekki svo grunnhyggnar og leggja meiri áherslu á persónuleikann.

Þetta er klisja sem oftar en ekki heyrist og er kannski rétt að einhverju leyti. Ég er nokkuð sannfærður um að þótt stelpur hugsi að sjálfsögðu eitthvað um útlit stráka og strákar taki eitthvað tillit til persónuleika stelpna þá líti stelpur frekar fram hjá útlitinu heldur en strákar. Hvort þetta er almennt gott eða slæmt skal ég ekki segja en það hlýtur að velta á einstaklingunum. Fyrir mig og aðra stráka sem eiga erfitt uppdráttar í fyrirsætubransanum hlýtur það að vera hughreystandi að við séum ekki dæmdir til einlífis eingöngu útlitsins vegna. Að sama skapi getur mörgum stelpum leyfst að hafa gufusoðið heilabú svo fremi sem þær séu þolanlega útlítandi.

Stelpur kvarta auðvitað mikið undan því að þurfa stöðugar áhyggjur af línunum og öðrum útlitslegum þáttum eingöngu vegna þess hve kröfuharður karlamarkaðurinn er. Mörgum útlitslegum þáttum er hins vegar hægt að breyta hjá stelpunum. Fatnaður er mjög mikilvægur í útliti kvenna og honum er auðvitað hægt að haga eftir höfði hverrar stelpu og sömuleiðis er það mögulegt fyrir holdugar stúlkur að fara niður um nokkrar fatastærðir ef viljinn er fyrir hendi.

Karlar, sem eiga sína velgegni í mökunarmálum að miklu leyti undir persónuleikanum, eiga hins vegar ekki svo gott. Persónuleiki er eitthvað sem flestir fæðast með að mestu og þróast svo með tíð og tíma. Greind, húmor og aðra þætti sem stelpur segjast iðulega laðast að er mjög erfittt fyrir strák að laga. Ég veit ekki til þess að hægt sé að fara í greindarmeðferð sama hvað viljinn er sterkur og um húmor gildir næstum það sama, sumir eru bara fyndnir og sumir ekki.

Eini sanngjarni mælikvarðinn á gæði einhleyps fólks úti á markaðinum hlýtur því að vera persónulegir eiginleikar sem hægt er að breyta. Allt sem er meðfætt hlýtur að vera ósanngjarnt að meta fólk eftir. Því væri til dæmis hægt að segja að manngæska sé eitthvað sem hægt er að dæma eftir. Það er flestum mögulegt að læra að haga sér vel í samskiptum og koma vel fram við aðra.

Því segi ég við kvenþjóðina:

Næst þegar þið laðist að karlmanni af því að hann er svo greindur, fyndinn eða skemmtilegur og haldið að það sé miklu dýpra hugsað en aðlöðun karla að útliti, staldrið þið þá aðeins við. Stelpur heillast kannski að miklu leyti í gegnum eyrun og strákar í gegnum augun en á endanum er erfitt að halda því fram að annað sé ósanngjarnara en hitt.

Með pistli þessum telst haustönn Skítsins 2004 hafin.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com