GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, ágúst 22, 2004

Vínmenning

Ég veit ekki alveg hvaða stimpil ég hef á mér varðandi drykkju en ég vil auðvitað meina að mín drykkja sé ekki vandamál þótt mér þyki gaman að gleðjast í góðra vina hópi með bjór í hendi. Stemmningin gagnvart bjór hér í München er mjög afslöppuð og í góðu veðri þykir ekkert sjálfsagðara en að skella sér í bjórgarð, stúta einum mab og fara yfir stöðu heimsmála. Svo er ég líka í hálfgerðu fríi hérna svo að ég hef drukkið mun oftar en ég myndi nokkurn tíma gera á Íslandi. Hins vegar drekk ég mun minna í hvert skipti heldur en heima. Ég hugsa að hér hafi ég aldrei drukkið meira á einu kvöldi en ég drekk að meðaltali á Íslandi.

Að fara á djammið hérna felst yfirleitt í því að fara út að borða, fá sér vín eða bjór með matnum og halda svo áfram að sötra einn og einn bjór á veitingastaðnum, kaffihúsi eða bar. Hálfslítra bjór kostar yfirleitt um 3 evrur hér sem eru tæpar 300 krónur svo að það er fjárhagslega gerlegt að haga kvöldinu svona. Því er ekki nauðsynlegt að taka Íslendinginn á þetta, að reyna að besta ódýra drykkju í heimahúsi þannig að víman endist fram eftir kvöldi í bænum. Svo fremi sem áfengisverð lækkar ekki á Íslandi verður væntanlega ekki mikil breyting á þessu, því miður.

Því er ég eiginlega kominn á það að áfengisskattur á Íslandi skuli lækkaður. Hingað til hefur mér fundist allt í lagi að skattleggja áfengisdrykkju, sem er í sjálfu sér ekki sérlega æskileg og eflaust fylgir áfengisneyslu talsverður þjóðfélagslegur hliðarkostnaður vegna ofbeldis, slysa og almenns heilbrigðiskostnaðar. Hins vegar tel ég að markmiði áfengisskattsins, sem er væntanlega að draga úr áfengisneyslu, verði betur náð með lægri áfengissköttum. Óhófleg áfengisneysla ætti að minnsta kosti að minnka talsvert ef menningin myndi breytast.

Það vill reyndar svo heppilega til að nánast sama upphæð fæst með áfengisskattinum og ríkið sóar í landbúnaðarstyrki, um 7 milljarðar króna árlega. Því væri hægt að vinna það þjóðþrifaverk að slá tvær flugur í einu höggi, henda áfengisskattinum og landbúnaðarstyrkjunum, án þess að högg sæist á vatni í fjárlögunum. Hringið endilega í þingmanninn ykkar og bendið honum á þetta.


Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com