GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, júní 17, 2004

Dýraklám til bjargar

Deilt hefur verið um ágæti erótísks áróðurs frá því menn byrjuðu að meitla í steina og rita á papýrus til forna. Ávallt má finna fólk sem er tilbúið að draga upp hina myrkustu mynd af erótík hvort sem erótíkin birtist í máli, myndum eða persónu. Nú hefur það hins vegar verið endanlega sannað að klám er gott.

Pöndubirnir eru í útrýmingarhættu en í dýragarði í Bandaríkjunum hefur mikið verið reynt til þess að gera pöndubirnuna Hua Mei ólétta. Pöndurnar virðast hins vegar vera mjög latar til kynmaka, sem er kannski ástæðan fyrir því að þær eru í útrýmingarhættu. Nú er Hua Mei blessunarlega orðin ólétt. Það sem gerði útslagið voru kvikmyndir sem henni voru sýndar af öðrum pöndum í ástarleikjum. Af þeim lærði Hua hina ýmsu klæki bólfara og kviknaði þar ástarþrá sem leiddi til núverandi óléttu.

Meira má lesa um þessa baráttusögu hérna.

Ég óska klámiðnaðinum til hamingju með árangurinn.

Góðar stundir.

mánudagur, júní 14, 2004

Klæddu þig eins og maður, maður

Ég reif mig aðeins upp úr venjunni um síðustu helgi og skellti mér í sund í þynnkunni. Ég dýfði mér í pottana í Laugardalnum með félaga mínum og ræddi menn og málefni eins og gömul kempa. Þegar ég var svo að klæða mig sá ég svona gamla kempu, nokkuð vel í holdum og komin með þó nokkur ár í reynslubankann, vera að klæða sig. Öllu heldur sá ég hann þegar hann var kominn í báða sokkana og ekkert annað. Þetta er sjón sem ég vil helst ekki sjá aftur. Þetta brýtur í bága við allt sem mér finnst gott og eðlilegt varðandi það hvernig maður á að klæða sig.

Þegar karlmaður klæðir sig eru tvö grundvallarsjónarmið sem þarf að taka tillit til. Það eru annars vegar útlitssjónarmið og hins vegar hagnýt sjónarmið. Almennt skal klæða sig þannig að á sérhverjum tímapunkti væri hægt að labba inn á mann og maður liti ekki út eins og kjáni. Einnig skal reyna að hámarka hluta líkama sem er hulinn þegar hver flík er klædd á. Það eru mest megnis karlmenn sem eru í kring og almennt vilja þeir sem minnst af öðrum karlmönnum sjá. Þá aðeins má víkja frá þessari reglu ef slíkt skapar sérstaka örðugleika við íklæðningu eða ef miklum þægindum er fórnað.

Grundvallarregla

Fyrsta flík sem líkaminn er klæddur í skal ávallt vera nærbrók. Það er fátt kjánalegra en maður í sokkum eða bol einum saman. Þessi regla er aðeins frávíkjanleg ef ekki er ætlunin að vera í nokkurri nærbrók (eða vera commando eins og sagt er). Þá skal jafnan klæða sig fyrst í innstu brókina, hver sem hún má vera.

Viðmiðunarregla 1

Að undanskillinni nærbrók skal aldrei vera tveimur flíkum meira á efri líkama heldur en neðri eða öfugt. Til dæmis skal ekki klæða sig í bol og peysu áður en í buxurnar er komið. Einnig er óeðlilegt að ef tvennar buxur, svo sem stillongs og ytri buxur, eru planaðar í klæðnaðinum að í þær báðar sé farið áður en eitthvað er komið á efri hlutann. Helsta undantekningin frá þessari reglu er sú að ef endanlegur alklæðnaður brýtur gegn reglunni er ekkert við því að gera. Til dæmis ef alklæðnaður samanstendur af nærbuxum, sokkum, bol, peysu, jakka og buxum er ómögulegt annað en á einhverjum tímapunkti verði tveimur flíkum meira á efri hluta líkamans.

Viðmiðunarregla 2

Sokkar eru lítils háttar atriði í alklæðnaði í samanburði við aðra þætti. Íklæðning þeirra er ekki forgangsatriði og skal að jafnaði vera komin flík á efri og neðri hluta líkamans (fyrir utan nærbrók) áður en sokkarnir eru settir á fæturna. Engu að síður eru sokkar hluti af innsta lagi klæðnaðarins svo að eðlilegt er að röðin komi að sokkunum þegar ein flík að ofan og ein að neðan er íklædd. Helstu undanþágur frá þessari reglu eru ef sokkar eru sérstaklega erfiðir í að klæðast, til dæmis vegna stærðar, eða ef almenn lýti eru á fótum sem ástæða er að hylja.

Þessar reglur eiga við klæðnað karlmanna en nokkuð samsvarandi reglur ættu að gilda um konur, eðlilegt er að nærbrók og svo brjóstahaldari séu fyrstu skref íklæðningar kvenna. Svo væri eðlilegt að pils/buxur/sokkabuxur kæmu næstar. Þó eru málefnaleg rök fyrir því að, ef ætlunin er að vera í sérlega þröngum bol eða toppi, þá sé klætt í hann áður en neðri hlutinn er hulinn. Þessar hugleiðingar mínar geta þó aldrei verið annað en vangaveltur þar sem ég hef ekki kynnst því að klæða mig í alklæðnað kvenna og þeim vandræðum og sjónarmiðum sem kunna að vakna er íklæðningin er tvinnuð saman við farðaásetningu og þess háttar.

Góðar stundir og gleðilegar íklæðningar

fimmtudagur, júní 03, 2004

Skíturinn á breytingaskeiði

Eins og gestir síðunnar hafa tekið eftir er komið nýtt útlit á síðuna. Þetta útlit er í boði blogger.com sem hingað til hefur verið mjög erfitt í viðskiptum og boðið upp á fáa möguleika í viðmóti. Ég verð að segja að þetta gefur skítnum aðeins ferskara yfirbragð. Svo má benda lesendum á að í kjölfar þessara breytinga hafa gamlir pistlar skotið upp kollinum og má nú lesa pistla sem ná langt aftur til ársins 2003.

Vænta má fleiri breytinga eftir því sem líður á fríið.



Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com