GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, janúar 29, 2004

Listagagnrýni

Ólafur Elíasson* vs. Erró***1/2


Það var ekki alls fyrir löngu að ég setti upp listaspírugleraugun og keypti mig inn á sýningu “hinna ginkeyptu” sem Ólafur Elíasson hefur komið á laggirnar í Listastafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Sýningin nefnist hinu ægilega nafni Frost Activity og á að vera óður til íslensks rýmis og formgerðar og ég veit ekki hvað menn geta nefnt bull mörgum nöfnum. Nema hvað.Til að gera langa sögu stutta þá er sýningin er bara bull og hundakex , með dashi af prumpi í kokteilsósu.

Maður veit ekkert hvernig maður á að láta þegar maður er hafður jafn heiftarlega að fífli. Það verk sem hefur fengið hvað mesta athygli (og Gísli Marteinn hreinlega kömmaði yfir sig út af) er Stóri speglasalurinn sem er ekkert annað en leiðinleg útfærsla á hinum sígilda speglasal Tívolíanna. Speglarnir hanga í loftinu og eru ósköp venjulegir í alla staði. Ekkert fyndið við það.Gólfið ku víst vera listaverk líka en það er hellulagt. Alveg frábært verk þar á ferð. Já, sæll.

Ég gekk inn í salinn, leit upp, gekk hring í salnum og gekk út. Mjög simpelt. Tók mig 2 mínútur. En ég sá að í salnum var fólk sem (líkt og ég) skildi ekki neitt í neinu. Fólk var ýmist með hendur í vösum, borandi í nefið eða gónandi upp í loft eins og að gá til veðurs. Það vildi fá meira fyrir peninginn og fór að haga sér eins og fífl. Lagðist á gólfið og velti sér um, hoppaði og lét eins og það væri hælismatur. Þessi hegðan fór mjög í taugarnar á mér.Ég hálf skammaðist mín fyrir að vera í sama húsi og þetta snarbilaða pakk og var við það að stinga út augun á einum liggjandi listunanndanum sem var kominn á fjóra og farinn að hrína sem svín. Eða ekki.

En af öllu illu leiðir eitthvað gott. Eftir að hafa spísporað um ganga listasafnsins og látist áhugasamur með því að dvelja a.m.k. 15 sekúndur fyrir framan hvern einasta óskapnað sem var á veggjum varð mér litið inn í hliðarsal. Þóttist ég kenna verk Errós á veggjum. Vakti það strax áhuga minn. Og ekki dró úr áhuga þegar ég sá að sýningin bar yfirskriftina Stríð. Í salnum voru um 20+ verk og hvert öðru áhugaverðara. Erró er í mínum huga mikill meistari, mikill sögumaður og ekki síðri húmoristi. Í stríðsæsingamyndum sínum fer hann á kostum í ádeilu sinni og fer illa með suma þjóðarleiðtoga og herforingja. En það tekur langan tíma að skoða hverja myndi því smáatriðin eru nánast óendanleg og öll útpæld.

Í einni og sömu myndinni mátti sjá Araba teyga Absolut Jihad og Saddam skeina sér á Resolution 666. Ennfremur sjást Bandarískir stjórnmálamenn gefa ísraelskum þjóðarleiðtoga brjóstamjólk nema hvað mjólkin er í formi peninga. Sömuleiðis sjást ísraelskir leiðtogar draga víglínur á kort og alltaf kemur út sama myndin, Davíðsstjarnan. Erfitt að lýsa þessu gríni en sjón er sögu ríkari. Náði ég aðeins að skoða 4-5 myndir að einhverju ráði áður en samferðamenn mínir vildu fara að hakka í sig kökur og kaffi. Maður lét undan þeim þrýstingi og beilaði en mun vonandi kíkja aftur, í góðu tómi.

mánudagur, janúar 26, 2004

Bushido

Ég fór, eins og fleiri úr ritstjórn skítsins, á Síðasta samúræjann fyrir helgi. Myndin var nokkuð góð, ágætis skemmtun en þó nokkuð um klisjur og galla sem koma í veg fyrir að mér finnist hún komast í hóp gæðamynda. Ég myndi setja 2,75 stjörnur á hana. Hins vegar vakti hún áhuga minn á samúræjum og lífsmáta þeirra. Í kjölfarið skellti ég mér á alnetið og aflaði mér upplýsinga.

Samúræjar voru, eins og flestir vita, stríðsmenn með ágætum. Þeir beittu ýmsum vopnum en sverðið er þeirra frægast. Raunar var það kennimerki samúræja sem hóps að þeir báru tvö sverð á meðan aðrir báru aðeins eitt. Ímyndin sem fyrrnefnd kvikmynd dregur upp af samúraæjanum er rómantísk, hann er náttúruunnandi og virðist nokkurs konar frelsishetja sem berst fyrir réttlæti gegn ranglæti. Þessi mynd er ekki alveg rétt því sannleikinn var sá að samúræjar voru stétt málaliða. Þeir voru hermenn Japans til forna nokkuð svipað og riddarar miðaldanna í Evrópu. Þeir þjónuðu stríðsherrum, daimyo, sem svöruðu svo aftur til shogunsins sem var æðsti stríðsherra Japans. Hollusta við húsbóndann var ávallt það mikilvægasta í lífi samúræjans.

Sem herstétt nutu þeir forréttinda og í þjóðfélagsstiganum komu þeir á undan bændum, verkamönnum og í raun öllum nema ofangreindum stríðsherrum. Þannig má velda því fyrir sér hvort tilgangur þeirra hafi verið göfugur eða hvort margir þeirra hafi einfaldlega séð frama í því að gerast samúræjar og verið tilbúnir að berjast fyrir slíkum frama.

Því er þó ekki að neita að lífsreglur samúræjans eru harðar og bera mikinn vott um aga og æðruleysi. Örlög hvers manns verða ekki umflúin og því best að óttast ekkert og taka öllu með stóískri ró. Dauðinn er álitinn jafnmikilvægur og lífið og glæsilegur dauðdagi er lykilatriði. Að mörgu leyti komast AHA-menn best að orði um þetta í laginu Living Daylights er þeir segja: “Living’s in the way we die”. Einnig er það lýsandi fyrir það hversu dauðinn er álitinn sjálfsagður og eðlilegur að í ummælum 16. aldar samúræjans Torii Mototada veltir hann fyrir sér hinum hræðilegu afleiðingum þess ef samúræjinn færi að meta líf sitt einhvers. Reyndar var þetta æðruleysi og húsbóndahollusta líklegast útbreitt meðal allra Japana sem aðhylltust heimspeki Konfúsíusar hins kínverska. Því er spurning hversu mikið samúræjar skörðuðu fram úr öðrum í þeim efnum.

Á friðartímum var samúræjinn í vandræðum. Mikið atvinnuleysi var í stéttinni og margir samúræjar urðu húsbóndalausir og kölluðust þá Ronin. Samúræjar lögðu þá sverðin umvörpum frá sér og urðu möppudýr eða kennarar og sitthvað þess háttar.

Heimspeki samúræjanna, bushido, er þó hrein og heiður, hollusta og óttaleysi voru öll lykilatriði í henni. Ég hef skellt saman tveimur limrupörum um málið.

Sorgmæddi samúræjinn

Frá fæðingu ljóst var að yrði
Aldrei mitt líf neins virði.
Í æsku ég var
Inntur um það
Hvort berjast og drepa ég þyrði.

Um líf mitt er þetta að segja:
Ég á bara stríð að heyja,
Setja upp verð,
Draga mitt sverð
Og sigra en ellegar deyja.

Spillti samúræjinn

Ég fæ alltaf nóg að borða,
Ég á jafnvel aukaforða
Já, ég hef það fínt
Því ég hef það sýnt
Að ég kann á flugbeittan korða.

Um fjöll og firnindi þeysi,
Og berst og brenni fólks hreysi.
Ég gef engin grið
Ég vil engan frið
Því þá kemur atvinnuleysi.

fimmtudagur, janúar 22, 2004

Ísland á EM

Ég verð nú að setja spurningamerki við síðasta pistl Hrollvekju Bjössa. (kallinn!!) En annars hvet ég Björninn til að pósta sama pistil á laugardaginn, enda örugglega margir sem náðu ekki innihaldi pistilsins sem vakti upp margar spurningar. Spurningin sem ég spyr sjálfan mig er hvort skíturinn þurfi ekki að semja við eitthvað slefandi tölvudýr um að forrita litla heimasíðu fyrir hinn Græna Saur hvar hægt væri að pósta án vandkvæða, setja inn kannanir og jafnvel koma upp litlum gagnagrunni þar sem hægt væri að fletta upp í eldri pistlum. Stundum leiðinlegt að geta ekki vísað í fyrri pistla einhvers saurpennans.

En nú að máli málanna. Það er bara komið að Evrópukeppninni í Handbolta. Já Hanbolta, segi ég og skrifa. Nokkuð ljóst að maður mun líma sig við skjáinn og hvetja sína menn, málaður í framan í Óla Stef peysunni sinni og blása í herlúðra fyrir hvern leik. Já sæll.

Ég verð ekki lengi að fletta yfir íþróttasíður Moggans hvar lesa má fyrirsagnir eins og “Gáfu ekkert eftir”, “Hetjur” “Markvarslan í sérflokki” (líklegt) “Sýnd veiði en ekki gefin” ,” Börðust allir sem einn” og svo framvegis. Þætti undirrituðum mjög áhugavert ef eitthvert blaðanna myndi hreinlega ekki fjalla um þetta mót. Sjá hvort einhver myndi vekja athygli á því.

Ellihruma markkeilan Gummi Hrafnkels segir sigur á Slóvenum í dag vera bestu afmælisgjöfina. Eins gott að hann fái þá nóg af boltum í sig enda ekki að fara að verja blöðru af sjálfsdáðum, verandi 39 og aldrei feitari. Vil ég benda fólki á mynd á bls.22 í Fréttablaðinu í dag. Sjáið svitann á einum manni. Hvernig er hægt að verða svona sveittur í marki? Er maðurinn að farast úr stressi? Sjáið síðan aðra markmenn í handbolta. Ekki eru þeir svona marineraðir í eigin svita. Ætli hann sé bara krónisk sveittur og með svíðandi svita í augum? Með öll sæti í bílnum sínum plöstuð og sofandi í þurrbúning? Hvað segir konan hans við því. Ég hef áhyggjur af honum Gumma okkar. Þetta er ekki eðlilegt.

Annars finnst mér alltaf skemmtilegast að sjá myndir í Mogganum sem bera fyrirsagnirnar “Stund milli stríða” hvar landsliðsmenn bregða á leik fyrir ljósmyndara blaðsins. Halda á vangefnum börnum eða klæðast einkennishúfum innfæddra. Bendi ég á mynd í dag hvar fjórir leikmenn standa fyrir framan smokkastand og virða fyrir sér úrvalið. Ljósmyndarinn setur myndatexann, “Íslensku leikmennirnir fóru í stórmarkað eftir æfingu í gær til að kaupa sælgæti fyrir átökin”. Alveg brillijant.

Farinn á handboltaæfingu!

mánudagur, janúar 19, 2004

Veruleikinn snýr aftur

Nú helgin er liðin svo helvíti fljótt
og heilafrumurnar færri.
Og mánudagsins, myrkur sem nótt,
morgun svo asskoti nærri.

Á föstudegi fjörið hefst,
fyrsti sopinn er laptur.
En fyrsti sopinn félaga krefst
og fljótlega sopið er aftur.

Gamanið ríkir með gleði við völd
og gleymast áhyggjur allar.
Fjörið er mikið og fagurt er kvöld,
nú fögnum við konur og kallar.

Lítið frábrugðið laugardagskvöld
líður á svipaðan hátt.
Aftur er gaman og gleði við völd
og gengur svo langt fram á nátt.

En svo kemur sunnunnar dagur
og sviptir mann vímunni.
Og þá upphefst þunglyndisbragur
Í þynnkuglímunni.

Já, glíman er hörð og glíman er römm,
nú glímir hver fylliraftur.
Því vínið er svikult og víman er skömm
og veruleikinn snýr aftur.

fimmtudagur, janúar 15, 2004

Miðvikudagskvöld við Imbann

Herra forseti, frú, ráðherrar og aðrir landsmenn. Velkomin á Grænan skít. Ég hef hugsað mér að taka Gísla Martein Baldursson til fyrirmyndar í gríni og glensi enda er hann botnlaus brunnur gamanmáls og frumlegra athugasemda. Tókst honum og Evu Maríu Jónsdóttur að gera Hin Íslensku Tónlistarverðlaun að svo fyndnum sjónvarpsþætti að ég hélt ég væri að horfa á áramótaskaupið. Svei mér þá.

Annars eyddi ég gærkvöldinu í heild sinn í prumpusófanum fræga og seytti lofttegundum, andfýlu og svita út í andrúmsloftið milli þess sem ég bölvaði tónlistarverðlaununum, íþróttafréttum á Rúv og svo Pressuþættinum á Rúv.

Nenni ekki að fara í ítarlegar lýsingar á tónlistarverðlaununum. Athyglin var mest í byrjun hvar ég varð vitni að uppvakningunum í Hljómum spangóla einhverja drullu (“þú, ég, við, saman, gaman, sólarlag og hundakex, O-LE!”), hrynjandi í sundur af elli. Ágætis skemmtiatriði þar á ferð. Eftir það fór allt í rugl, einhver klassísk atriði sem engan enda ætluðu að taka og svo grín Gísla og Evu Maríu sem hefði örugglega þótt bara nokkuð gott á Grænu deildinni á Sólbrekku, gamla leikskólanum mínum.

En besta tónlistaratriði þessara verðlauna var sóló Hilmars Jenssonar á rafgítarinn sinn. Hingað til hefur Hilmar virkað á mig sem snarbilaður jazzgeggjari án jarðsambands sem aðeins hefur getað framið gallsúra,taktlausa hávaðagrauta með volumetökkum og feedbacki. Í þetta sinn lék hann “no bullshit”-lag eftir sjálfan sig og hafði flutningur hans algera yfirburði yfir aðra gjörninga á þessari hátíð. Fagmennska í fyrirrúmi.

Þar á eftir voru ræðuhöld og rembingur allsráðandi og ég nennti ekki að horfa meir. Skipti því yfir á Skjá 1 og sá að Jón Gnarr var að setjast í settið hjá henni Sirrý. Og viti menn, þetta var trúlega eitt besta viðtal sem ég hef séð Jón koma fram í. Ótrúlegt en satt. Þema þáttarins var trú og trúarbrögð. Sem fyrr var salurinn fullur af hlandbrunnum gimpum með þrefaldar undirhökur. En til að gera langa sögu stutta fór Gnarrinn á kostum og lék við hvurn sinn fingur. Öfugt við það sem maður á að venjast var kallinn bara einlægur og hreinskilinn og alveg mör-fyndinn út viðtalið í útskýringum á trúnni og viðhorfi manna almenn til trúarbragða. Þetta var allavegna betra en síðasti Ali g sem olli mér miklum vonbrigðum og hvet ég fólk hiklaust að horfa á endursýningu þessa þáttar, jafnvel þótt Sirrý geti verið með alveg viðbjóðslega leiðinlega þætti sem fjalla yfirleitt um kökukrem og sellólíta.

En eftir verðlaunin tók ég enn eitt kastið á íþróttadeild rúv sem sagði Eið Smára hafa skorað í kvöld en ætlaði ekki að sýna markið heldur sýna 5 mínútna úttekt á stjörnuleik kvenna í körfubolta. Er ekki allt í LAGI!!!. Ég nánast missti saur og andann af brjálæði þegar þessi óskapnaður birtist í stað marks Eiðs Smára. Þeir þurfa að vara fólk við svona myndum af konum í körfubolta . En kannski ekki bara konum þetta á líka við karla í körfu. Þetta er bara svo leiðinleg íþrótt að mig langar helst að senda þessu íþróttafólki samúðarskeyti.

Að lokum kíkti ég á Pressukvöld. Þetta var alveg ótrúlega slakur þáttur. Jón Ásgeir sat fyrir svörum og sem fyrr sendi hann spyrjendur sína (sem skulfu eins kjúklingar bíðandi eftir eigin slátrun) grenjandi heim með skottið á milli lappanna. En alveg þykir mér undarlegur ómálefnalegur þessi málflutningur Sjálfstæðismanna og Framsóknar sem vilja koma á lögum um eignarhald á fjölmiðlum. Vil ég meina að hér sé um ofsóknarbrjálæði og móðursýki að ræða. Engin rök eða staðreyndir eru borin á borð bara kenningar um hitt og þetta sem ekkert er á bak við. Og viti menn, það er loks nú sem Morgunblaðið þarf að fara að gera eitthvað. Rembast við að gefa út hálfgerð Fókusblöð, hafa lækkað smáauglýsingaverð niður í 500, eru farnir að koma fram í fjölmiðlum og látnir svara fyrir sig usw.usw. Kominn tími á þetta ellihruma blað að gera eitthvað.

Niðurstaða kvöldsins var að Fólk með Sirrý var áhugaverðasta sjónvarpsefni þessa kvölds. Er þá ekki eitthvað að í þessum heimi? Nei, ég bara spyr.

mánudagur, janúar 12, 2004

Hass eða bjór?

Undirheimar Íslands hafa mikið verið í umræðunni að undanförnu. Bankarán eru í tísku og æ meira heyrist af ofbeldisverkum. Að mjög miklu leyti virðist þetta eiga rætur sínar að rekja til fíkniefnaheimsins. Á RÚV er nú í gangi heimildaþáttaröð sem ber nafnið “Dópstríðið” og fjallar um ýmsa þætti þessa grimma heims. Undirritaður sá síðasta þátt sem var í sjónvarpinu í gær.

Eyðileggingaráhrif fíkniefnaneyslu má í megindráttum flokka í tvennt: Annars vegar er hið líkamlegt tjón sem neytandinn verður fyrir við neyslu og áhrif þess á aðstandendur. Hins vegar er það skaði sem fólk sem kemur fíkniefnaheiminum ekkert við. Þar má nefna innbrot eða rán til þess að fjármagna neyslu og ofbeldisverk sem unnin eru annaðhvort af neytendum í vímu eða af innheimtuaðilum gagnvart aðstandendum eða öðrum tengdum neytendum. Þegar aðgerðir í stríðinu gegn fíkniefnum eru athugaðar verður að skoða hvaða áhrif þær hafa á þessa tvo þætti.

Eins og staðan er núna er baráttan við fíkniefnin háð þannig að harðir dómar (á íslenskan mælikvarða a.m.k.) liggja við innflutningi og sölu fíkniefna og mikilli löggæslu gagnvart innflutningi. Þetta veldur því að minna er af fíkniefnum er í umferð en ella og því er væntanlega samanlagt líkamlegt tjón allra neytenda minna. Hins vegar veldur þetta háu verði á fíkniefnum. Því verður neytandinn oft að afla fjár til neyslunnar á ólögmætan hátt sem bitnar yfirleitt á heiðarlegu fólki sem á ekki sökótt við neinn. Erfitt er fyrir neytendur að losna út úr þessum lífshætti þar sem vandamál þess er yfirleitt vel falið enda ólöglegt. Einnig er ofbeldið gróft þar sem dómar gegn ofbeldi eru vægir.

Til þess að ná betri árangri gegn fíkniefnum og fylgifiskum þeirra tel ég að lykilatriði sé að hækka refsingu við grófum líkamsmeiðingum. Eins og staðan er núna er refsiramminn fyrir grófa líkamsárás aðeins 3 ár nema “stórfellt líkams- eða heilsutjón” hljótist af og sá refsirammi er sjaldnast nýttur til fulls. Löggjafinn verður að senda skilaboð til dómstóla með þyngdri löggjöf gagnvart ofbeldisglæpum.

Lögleiðing “léttari” efnanna, hass og marijúana, er einnig eitthvað sem mér finnst eðlilegt að athuga. Ef eitthvað er að marka áðurnefndan heimildarþátt þá standa þessi efni fyrir 2/3 af allri veltu í fíkniefnaheiminum. Með því að draga þá veltu upp á yfirborðið yrðu völd og áhrif hinna ofbeldisfullu eiturlyfjasala minnkuð niður í þriðjung miðað við núverandi ástand. Verð þessara efna myndi einnig lækka og neytendur þeirra bæði þyrftu síður að snúa sér til glæpa til þess að afla fjár til neyslunnar og myndu hika frekar við það þar sem þeir væru enn ekki búnir að stíga skrefið yfir línunna milli hins löglega og ólöglega.

Ókostir lögleiðingarinnar eru að sjálfsögðu þó nokkrir. Augljóslega myndi neysla á hassi og marijúana aukast, með lægra verði og auknu aðgengi myndu fleiri prófa efnin auk þess sem þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að vera að gera eitthvað rangt. Þrátt fyrir að þessi efni séu vissulega skaðleg er þó nokkuð umdeilt hvort þau séu skaðlegri en okkar löglegi vímugjafi, áfengið, og eftir því sem ég best veit eru þau minna ávanabindandi en áfengið. Einnig eru þau slævandi þannig að þau auka ekki árásarhneigð manna eins og áfengið gerir. Því er alls óvíst að hófleg neysla þessara efna myndi vera nokkuð verri fyrir þjóðfélagið en sú firrta áfengismenning sem viðgengst á Íslandi. Mögulega yrðu áhrifin á neytendurna verri en áhrif á þá sem utan fíkniefna standa myndu minnka.

Einnig verður að velta fyrir sér hvort aukin neysla hass og marijúana myndi leiða til aukinnar neyslu á hinum sterkari efnum, kókaíni, amfetamíni, e-töflum og morfínefnum eins og heróíni. Vel gæti verið að hinn aukni neytendafjöldi myndi valda því að fleiri myndu leita til sterkari efna en ég tel einnig að verið gæti að fíkniefnaþörf fólks yrði svalað í áfengi, hassi og marijúana og fólk myndi frekar hika við að fara í sterkari efnin þar sem þá væri stigið yfir fyrrnefnda línu milli rétts og rangs.

Því hvet ég hina fjölmörgu lesendur skítsins sem á Alþingi sitja til þess að herða löggjöf gegn ofbeldisglæpum og kanna kosti og galla lögleiðingar kannabissefna án fordóma.

Það skal tekið fram að undirritaður hefur ekki reynt neitt sterkara en 47,5% gin svo að hann getur seint talist fræðimaður um fíkniefni.


fimmtudagur, janúar 08, 2004

Íslenskar menningarafurðir

Jæja, kallinn er nú loksins búinn að skella sér á hina stórkostlegu mynd, Hilmir snýr heim. Hér er náttúrulega bara snilld á ferð. Þvílíkar tæknibrellur, þvílíkar persónur.Hver man ekki eftir Gimli, alveg frábær karakter og svo snípnum Pípinn. Nei, nei, skal ekki að grínast meira.

Annars þótti mér myndin bara fín (eins trúverðuglega og það kann að hljóma), langdregin til að byrja með en færist í aukana eftir rúma 2 tíma. Sannarlega á hún hrós skilið fyrir tæknibrellur, búninga og önnur smáatriði en sama má segja um myndir eins og Matrix og Star Wars. En það sem Lorrarinn hefur umfram Matrix og Star Wars er sagan. Það er allavega einhver sjáanlegur tilgangur með öllum þessu bardögum og hamagangi öfugt við hinar myndirnar. Mörgum þykir sagan ótrúlega góð og jafnvel frábær. Sumir hafa lesið hana tvisvar og nánast ælt á sig úr spenningi í bæði skiptin. Sjálfum finnst mér þessi saga ekkert sérstaklega spennandi, stundum stórkostlega leiðinleg en stundum á hún fína spretti. Hún má eiga það. Meðalsaga. Gef’essu *** þ.e. mynd þess verðug að sjá í bíó.

Fór á Kaldaljós um daginn. Þessi mynd er bara grín og áskrift á góðan svefn. Menn vilja meina að bókin Kaldaljós sé alger snilld. Svo má vel vera en myndin er rotnandi sorp. Kannski ekki alveg “rotnandi sorp” en hún daðrar við sorptunnuna . Þetta er gríðarlega hægfara mynd sem nánast ekkert fram að færa. Leikur er stirður og litlaus og samtöl illa skrifuð. Er ráfað fram og aftur í tíma til að segja sögu einhvers Gríms sem er alveg óhemju leiðinlegur myndlistarnemi í tilvistarkrepppu. Skil ég ekki frásögn af Grími í nútíð enda er hún bara notuð sem uppfyllingarefni án nokkurs tilgangs. Íslenskir gagnrýnendur hafa nokkur vel valin orð yfir hægfara og slakar íslenskar myndir. Eru þær sagðar ‘afskaplega ljóð- eða táknrænar’. Ljóðrænt minn rass, segi ég nú bara á slæmri íslensku og fordæmi íslenska gagnrýnendur fyrir að tjá sig með svo villandi hætti. Myndin skipar sér í flokk með myndum eins og Fálkum hans Friðriks Þórs og Opinberun Hannesar hans Hrafns. Eiga allar þessar myndir það sameiginlegt að fara út fyrir öll velsæmismörk í leiðindum og hugmyndaleysi. Fá þessar myndir yfirleitt prýðilega dóma hjá íslenskum gagnrýnendum (sem þannig grafa undan eigin trúverðugleik). Hrafn a bætir gráu ofan á svart með ömurlegu handbragði í Opinberun Hannesar. T.d. skiptust á skin og skúrir í einu og sama 1 mínútu atriðinu. Hvernig má það vera í 60 milljón króna mynd? Var maðurinn snarölvaður við gerð myndarinnar? Maður spyr sig.Annars gef ég Kaldaljósi ** fyrir viðleitni og svo leik Helgu Brögu sem virtist sú eina sem ekki var að drulla á sig úr tilgerð.

Opinberun Hannesar get ég ekki dæmt, lak útaf eftir 10 mínútur. Góð hljóðvinnsla samt........ já sæll.

Í Jólafríinu gerði ég svo misheppnaða tilraun til að lesa nýjasta afturkreisting Hallgríms Helgasonar, Hr. Alheim. DjíSÖss hvað þetta er slök bók. Er Hallgrímur endanlega búinn að missa það? Veit ekki hvaða bull þetta er.Gafst upp eftir tæpar 100 blaðsíður þó fyrr hefði verið. Alger tímasóun. Beint á brennuna með þetta.

Hvet þá sem enn eiga eftir að sjá myndirnar Kill Bill og City of God ***1/2 að drulla sér sem fyrst. Þetta eru engar meðalmyndir. “Cutting-edge”-kvikmyndagerð, hvernig sem menn túlka það. Sá svo nýjustu hetjumyndina sem mun brátt skola út úr kvikmyndahúsunum. Er það Master and Commander með tónlistarmanninum sívinsæla, Russel Crowe. Smyr ég *** á hana og lýk máli mínu að sinni.

Björn, eru Chelsea búnir að missaða? Maður spyr sig.

mánudagur, janúar 05, 2004

Skák og mát

Jólaspilið í ár var ekki jafnhresst og party & co og ekki jafnháfleygt og Séð og heyrt spilið. Það er heldur ekki enn eitt spurningaspilið (það hefur ekki verið þörf fyrir slík spil síðan Trivial kom fyrst út). Nei, það er gamla og göfuga listin skák, sem oft hefur verið nefndur leikur konunga, færð í nýjan og skemmtilegan búning. Spilið nefnist Hrókurinn og kom nú fyrir jólin út í fyrsta skipti á íslensku.

Hrókurinn er leikinn á klassísku 8x8 svarthvítu taflborði með aukalínu af reitum í kring, þannig að borðið verður 10x10 reitir. Hver leikmaður fær svo 16 spjöld sem hver hefur tákn taflmanns, 8 peð, 2 riddarar, biskupar og hrókar ásamt kóngi og drottningu. Saman mynda þessi 16 spjöld því hina 16 taflmenn sem í klassíska taflinu eru. Svo er spjöldum hvers leikmanns raðað á sinn kant en á hvolfi og enginn veit hvaða spjöld eru hvar. Svo er byrjað að snúa spjöldunum smám saman við og þannig koma taflmenn hvers og eins í ljós en í handahófskenndri röð. Svo gildir almennur manngangur eftir að búið er að snúa spjöldunum við.

Spilið er sagt vera fyrir 2-4 en eftir að hafa spilað það í fjögurra manna hópi sé ég ekki hversu mikið er varið í að vera 2 eða 3 í því. Þegar ég spilaði það var spilað þannig að tveir og tveir voru saman í liði og er markmiðið, eins og í hinni klassísku skák, að króa hilmi andstæðingsins af og taka hann af lífi en í Hróknum þarf að máta hvorn tveggja andstæðinganna.

Í þessu spili er því eins konar parskák í gangi, liðsandinn er algjörlega nauðsynlegur og samvinna er algjör lykill að sigri. Hér er líka heppnin með í spilum þannig að lakari spilarar geta sigrað mun sterkari einstaklinga. Pirringur getur þó risið þegar makkerinn leikur af sér á krítísku augnabliki.

Hrókurinn er eins og segir í auglýsingunni skemmtilegur fyrir bæði lengra og stytt komna þótt venjulegir skákhæfileikar nýtist óneitanlega mjög vel í spilinu. Ég hlýt að mæla með spilinu við skákáhugamenn og loku er langt frá því að vera skotið fyrir að ég festi kaup á þessu ágæta spili. Ég veit ekki alveg hvað spilið kostar en þess skal þó getið að 300 krónur af andvirði hvers selds spils rennur til æskulýðsstarfs Skákfélagsins Hróksins.

fimmtudagur, janúar 01, 2004

Nýárslortur

Bjarni lítur björtum augum á komandi veiðitímabil, ætlar að fá sér vöðlur og vaða út í strauminn í leit að vænni hrygnu. Leggja netin. Háleitt markmið og göfugt. Vonandi að það náist. Aldrei að vita nema maður setji sér svipað markmið án þess að opinbera það hér. Enda getur opinberun markmiðs sett allt úr skorðum. Pressa kann að verða of mikil frá utanaðkomandi aðilum og örvænting kann að grípa um sig. Slíkt getur aðeins leitt til óæskilegrar niðurstöðu. Maður gæti t.a.m. gefið sig á vald örvæntingar og hætt að elta vænustu hrygnurnar, farið að dorga upp úr drullupollum latar, offeitar og særðar hrygnur sem þrá það eitt að verða veiddar af vingjarnlegum veiðimönnum. Þannig getur kokteillinn “markmið og stolt” ofan í blöndur bakkusar knúið mann til fólskuverka. Snýst þá markmið upp í andhverfu sína og fer að vinna gegn manni en ekki með. Því ber að hafa í huga að markmið eru aldrei fyrir óviðkomandi.

En samkvæmt stjörnuspá Morgunblaðisns ætti árið 2004 að verða mér gjöfult. Það er öskrandi Júpíter í Voginni í september sem mun vara fram í október 2005 (Júpíter=þensla, fyrir þá sem ekki eru inni í stjörnumerkjafræðunum). Ég hef því 9 mánuði til að útbúa ítarlegan óskalista og velta framtíðinni fyrir mér. Þetta á vel við mig enda með áhugamál á við 4 einstaklinga og erfitt með að gera upp á milli þeirra. En svo heldur Morgunblaðið áfram “ heppnin verður með Voginni og áhrifamiklir einstaklingar munu vilja leggja henni lið, en hún þarf sjálf að taka fyrsta skrefið”. Allt í læ. Ennfremur segir Mbl: “Náin sambönd munu veita Voginni gleði á árinu... ...Árið 2004 verður upphafið að glænýju tímabili í lífi Vogarinnar og alger happafengur.” Nohh. Ekkert neikvætt gefur að líta í þessari spá nema hvað mér er spáð því að ég muni skipta um starfsvettvang. Það getur vel passað enda að ljúka námi í vor og mun ryðja mér til rúms á hinum almenna vinnumarkaði eftir útskrift.

Annars er vinsælt að nefna hvað stóð uppúr á árinu. Veit ekki hvað maður getur nefnt. Maður gleymir öllu jafnóðum og það gerist. En í mínum huga er tilkoma Iceland Express hátt á lista yfir minnistæða atburði þessa árs. Þvílík búbót fyrir íslenska neytendur. Sé ég nú Flugleiðir sligast í sundur í dauðakippum ef ekki verða til róttækar breytingar á rekstri þess enda svifaseint og kostnaðarsamt batterí sem á erfitt tímabil framundan.

Nenni ekki að setja mig í frekari fræðimannastellingar og ætla að slútta með því að óska öllum gleðilegs (h)árs.Smútaah

Farinn að horfa á skaupið aftur, það var svo viðbjóðslega fyndið......já sæll

O LE

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com