GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

föstudagur, ágúst 27, 2004

Haustboðinn ljúfi kominn til Íslands

Jæja, þá er kallinn kominn á Klakann heilu og höldnu. 8 vikna þýskunám og rannsóknir á þýsku mannlífi afstaðnar. Að sjálfsögðu var rannsóknavinna mjög handahófskennd og því ekki von á rannsóknarniðurstöðum alveg í bráð. Þær munu væntanlega títrast út í pistlum komandi vikna og mánuða. Annars gleymdi ég alveg klósettúttekt þarna úti og mun bæta úr því núna.

Klósettúttekt í München

Fyrsta klósettið sem ég mætti var hjá Herr Ögmundi Peterssyni. Það var svokallaður þyrlupallur, sem áður hefur komið við sögu á Skítnum. Það er að segja að það sem fellur ofan í salernið lendir ekki strax í votri gröf heldur hefur viðdvöl á palli. Að öllum stærri verkum loknum er því hægt að sjá afrakstur erfiðisins. Því næst kemur svo þessi líka iðnaðarsturtun til þess að skola herlegheitunum burt. Ég verð að viðurkenna að ég sá meira en ég vildi. Þyrlupallar eru ágætir í stuttan tíma en til lengri tíma held ég að gamla góða blúbbsklósettið sé betra.

Almenningssalerni voru yfirleitt býsna góð. Þrifnaður var mikill nánast hvert sem farið var og klósett almennt lítið sjúskuð. En sá bögull fylgir þessu skammrifi að jafnan var ætlast til þess að einhver greiðsla væri innt af hendi fyrir veitta þjónustu. Þótt þetta sé óvenjulegt fyrir Íslending er ég í sjálfu sér ekki á móti því að borga eitthvert smáræði fyrir notkun á salerni. Ef þetta veldur því að því sem næst öll salerni verða tvistfær er þetta auðvitað jákvætt. Hins vegar er óþolandi að þurfa alltaf að hafa rétta klinkið á sér til þess að borga svona smáupphæðir. Þá pirraði það mig mjög að fólkið sem sá um að halda salerninu hreinu sat alltaf og horfði á mann labba út og neyddi mann þar með til þess að henda einhverju klinki í það. Það virðist vera að svona þriðjungur starfsins hafi verið að viðhalda þrifnaði og tveir þriðju að stinga fólk á hol með augnaráðinu ef það borgaði ekki.

München er almennt frekar rík og þrifaleg borg svo að ég hugsa að það sé ekki hægt að heimfæra Münchenska klósettmenningu á allt Þýskaland.

Að lokum vil ég spyrja Skítsmenn hvort næsta vika sé sú fyrsta í nýjum, ferskum grænum vetri. Hvað segja menn? Á ég að henda fyrsta pistli á mánudaginn?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com