GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Sjaldan er góð vísa of oft kveðin

Nú eru páskarnir frekar nýlega liðnir og þá er jafnan viðeigandi að setjast niður og íhuga mikilvægasta innyfli páskaeggsins, málsháttinn. Reyndar er þessi pistill kannski svolítið seint á ferðinni enda voru páskarnir óvenjusnemma þetta árið.

Málshættir eru leið fyrir eldri kynslóðir að koma einfaldri lífsspeki til hinna yngri á auðveldan, hefðbundinn og kannski skemmtilegan hátt. Sumir þeirra lýsa tiltölulega augljósum staðreyndum á myndrænan hátt: "Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni." Aðrir eru skynsamlegar og vinsamlegar leiðbeiningar til þess að lágmarka árekstra í lífinu: "Oft má satt kyrrt liggja." Síðan eru þeir líka til sem veita tilmæli sem eru örlítið ákveðnari og þá oft til þess að vara mann við að verða of mikill með sig: "Margur verður af aurum api." Loks eru þeir margir sem eru til þess að veita manni huggun og von þegar lífið virðist standa gegn manni: "Fátt er svo með öllu illt" og "Margur er knár þótt hann sé smár."

Allir eru þessir málshættir hljómfagrir og gefa manni þá tilfinningu að maður sé einhvern veginn betri og greindari þegar maður nær að slengja þeim fram á viðeigandi augnabliki. Einnig er það stór kostur við íslenska málshætti að fæstir þeirra eru fullkomnar fullyrðingar í hæsta stigi. Orð eins og oft, margur og sjaldan gefa málsháttunum þá hógværð sem sönn speki felur jafnan í sér. Það eru fáar reglur um samskipti eða hegðun sem eru algildar og íslensku málshættirnir þykjast ekki vita betur.

Þó eru þeir til málshættirnir sem taka aðeins stærra upp í sig. "Hæst bylur í tómri tunnu" sagði einhver og svo er það víst almennt viðtekið að "Enginn verður óbarinn biskup." Seinni fullyrðingin er nú örugglega ekki alveg rétt enda bæði til raunverulega óbarðir biskupar og eins hinir myndrænu óbörðu biskupar. Maður verður þó að vera umburðarlyndur því oft er erfitt að orða svona málshætti. Til dæmis myndi það ekki hljóma mjög vel að segja "Fáir verða biskupar óbarðir" eða "Margur biskupinn verður barinn" enda hljómar það frekar eins og hótun en málsháttur. Einnig má nefna málshætti eins og "Betur sjá augu en auga", rétt er það.

Einn er samt sá fullyrðingarmálshátturinn sem er mér óþægur ljár í þúfu og Þrándur í Götu. Það er málshátturinn "Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi." Þessa fullyrðingu er ég alls ekki sáttur við enda hunsar hún algjörlega það hvers virði fuglinn er okkur einn og sér, hversu nytsamlegir tveir fuglar eru og síðast en ekki síst hversu miklar líkur eru nú á því að ná þessum tveimur í skóginum.

Ef við höfum til dæmis tvo sérstaklega vitlausa fugla í skóginum og/eða mjög góða veiðitækni þannig að líkurnar á að veiða hvorn þeirra um sig séu 95% missir fuglinn í hendinni nokkuð verðmæti sitt miðað við hina tvo í skóginum. Þá eru 90,25% líkur á að við náum báðum, 9,5% líkur á að við náum öðrum og aðeins 0,25% líkur á að við endum tómhentir! Væntigildi upp á 1,9 fugl! Hver vill einn fugl í hendi þegar hann getur fengið þessar líkur og 1,9 fugl að meðaltali? Einnig getur vel verið að við þurfum hreinlega að fá tvo fugla og einn sé okkur einskis virði. Með þeim eina í hendinni er ljóst að við fáum aldrei tvo fugla en með þessa tvo heimsku í skóginum eru 90,25% líkur á að við endum með tvo fugla í lúkunum!

En líklegast hafa fæstir málshættir verið smíðaðir með væntigildi og nytjaföll í huga og því verð ég bara að sætta mig við ófullkomleika málsháttanna því enginn er víst fullkominn.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com