GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Of fáir tímar í sólarhringnum

Fyrir fótboltaáhugamenn bendi ég á skráningu hér að neðan.

Tíminn hefur flogið síðustu daga. Einkunnasjúklingurinn í mér ákvað að skrá mig í próf til að ég geti haft eitthvað skjalfest um mína þýskukunnáttu. Prófið er í þannig styrkleika að í augnablikinu held ég að það sé u.þ.b. 50/50 á því hvort ég nái því eður ei. Harkalegur lærdómur hefði átt að kýla líkurnar upp í 75-80% og fyrir síðustu helgi var ég harðákveðinn í því að þessi vika yrði róleg enda er umrætt próf núna á laugardaginn. Hins vegar hefur mér ekki orðið kápan úr því klæðinu þar sem ég hef verið "neyddur" í einhverskonar drykkju hvert kvöld frá því á fimmtudaginn síðasta. Prófið nálgast nú óðfluga og berst nú akademíski metnaðurinn í mér við hinn félagslega. Þar sem lærdómur veldur aðeins samfelldri aukningu á væntum akademískum árangri(þ.e. í líkum á að ná prófinu) en hver ákvörðun um að fara á djammið eða ekki er stafræn í eðli sínu, á félagslegan mælikvarða, sé ég ekki fram á að hafna djammi fyrr en föstudagskvöldið. Þá tel ég samfelld áhrif á líkur á að standast prófið vera umtalsvert meiri en félagslegur hagnaður af djammi. Reyndar var ég heppinn í dag þegar ég var of seinn að skrá mig í ferð í bruggverksmiðju og hef þá ekkert að gera nema læra (og vera á netinu auðvitað sem tekur alltaf tíma). Það er ágætt þegar völdin eru tekin svona úr höndunum á manni því eins og maður sagði á sá kvölina sem á völina. Ég hef nú reyndar alveg heyrt um kvalafyllri aðstæður en að þurfa að fara á djammið á hverju kvöldi þannig að ég græt mig ekkert í svefn út af þessu.

Annars fór ég í missjón að kaupa stuttbuxur um daginn og ákvað að takmarka mig við buxur með einhverjum renndum vösum. Þessi skorða var vægast sagt takmarkandi og endaði ég á því að kaupa einhvers konar blöndu af stuttbuxum og hinum sívinsælu hnébuxum. Held reyndar að mínar buxur séu of stuttar til þess að vera seldar í GK en þetta er samt á mörkunum.

Svo sá ég í fyrsta skipti svartan mann í skotapilsi um daginn. Ég var í neðanjarðarlest hérna og brá nokkuð við sjónina. Þó sá ég ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við klæðnaðinn en það gerði hins vegar um fimmtugur Þjóðverji. Hann spurði "Skotann" ítrekað út í klæðnaðinn og hló mikið að honum en sá í pilsinu hafði lítið gaman að. Þeir fóru út úr lestinni þegar rifrildið var enn í fullu fjöri en ég vona nú að þeir hafi fundið friðsama lausn á deilunni.

Ég hef verið fremur duglegur við að bæta myndum inn á myndasíðuna, sem væntanlega Ellert hefur sett link á hér til hægri. Til þess að liðið hérna úti geti séð myndirnar auðveldlega hef ég reyndar líka linkað bjarni.com á myndasíðuna. Enn hef ég ekki rekist á neinar takmarkanir á fjölda mynda sem ég get geymt þrátt fyrir að vera kominn með um 50 myndir þangað.

Jæja, ætla að reyna að fara að læra eitthvað en vil að lokum benda á umræður um "Vængmanninn" sem er vel í ætt við Menn og Meinsemdir.

Tschüss.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com