GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Útlenska, sveiattann!

Í sumar háðu íslensku einkareknu sjónvarpsstöðvarnar einvígi um enska boltann enda er þetta með vinsælasta og skemmtilegasta sjónvarpsefni sem finna má á Íslandi. Orrustunni lauk með sigri Skjáseins sem hefur aldeilis nýtt boltann út í ystu æsar. Skjárinn hefur verið að sýna þetta 5-6 leiki í viku hverri og með samstarfi við Símann eru sýndir 8 leikir af 10 í umferð þegar best lætur. Þetta er að sjálfsögðu gargandi snilld. Til þess að stemma stigu við kostnaði hefur hluti leikjanna verið sýndur með enskum lýsingum. Þetta hafa fótboltaunnendur unað vel við og sumum finnst þetta jafnvel betra en íslensku lýsingarnar.

Nú hefur Þorsteinn Gunnarsson kært þetta með tilvísan í eina af þeim reglum sem eiga að vera til þess að vernda íslenska tungu en hún bannar að hafa ótextað erlent sjónvarpsefni á íslenskum sjónvarpsstöðvum. Þorsteinn er starfsmaður Sýnar, sem tapaði fyrir Skjánum í sumar í baráttunni um boltann. Það er helst tvennt í þessu sem fer illilega í taugarnar á mér.

Fyrra atriðið er það að sjálfsögðu sú staðreynd að þessar reglur séu til staðar. Þetta er fáránlegt í alla staði. Í fyrsta lagi er út í hött að það sé leyfilegt að senda boltann út án hljóðs en ekki með ensku spjalli yfir. Í öðru lagi eru auðvitað fullt af erlendum sjónvarpsstöðvum sem íslenskir dreifendur áframsenda til Íslendinga og ekki eru þær textaðar. Hvar er samræmið? Fyrir utan þetta er að sjálfsögðu fáránlegt að vera að banna fólki að gera það sem það vill svo fremi sem það gengur að engu leyti á rétt annarra. Það sem Mörður Árnason, sjálfskipaður verndari íslenskrar tungu nr.1, hefur um málið að segja er það að Skjáreinn sé nískur! Hann vill bara að Skjárinn pungi út nauðsynlegum peningi fyrir þessu ef hann vill sýna þetta. Á sama tíma er hann auðvitað fylgjandi því að fólk sé neytt til þess að greiða Ríkisútvarpinu hvort sem það horfir á það eða ekki og skemmir möguleika Skjáseins (og annarra sjónvarpsstöðva) á að afla peninga til þess að þeir geti hætt að vera nískir og borgi fyrir íslenskuna.

Seinna atriðið er þessi aumingjaskapur í Þorsteini og félögum. Þeir vita sem er að þeir geta engan veginn keppt við ensku kollega sína enda standa flestir íslensku lýsendurnir enskunum langt að baki. Eins og minni máttar gera oft þegar þeir lenda í slag sem þeir geta ekki unnið klagaði Þorsteinn í þann eina sem getur hjálpað honum í baráttunni gegn hinum hæfari. Það er reyndar spurning hvað íslenskuráð (eða hvað það nú heitir) segir um íslenskuna sem íslensku lýsendurnir beita fyrir sig. Þeir eru fæstir vel mælandi á íslenska tungu og hafa eflaust mjög skemmandi áhrif á æskuna sem er að leggja sig fram við að læra íslensku máltækin sem eru mörg svo ágæt. Svo man ég líka eftir því þegar Þorsteinn mælti svo skáldlega: "Þarna sveif Hermann [Hreiðarsson] eins og Heimaklettur". Ha?

Ég vona svo sannarlega að Skjárinn muni hafa betur í baráttunni framundan og þeir geti haldið áfram að sýna góðan bolta með góðum lýsendum.

Áfram Skjáreinn!

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com