Ljúfsár móment
Þá sem ekki eru vel drukknir eða sérstaklega tilfinninganæmir vil ég biðja að staldra aðeins við og reyna að tengja við innri manninn.
Ég var að koma af sídasta djamminu hérna í München. Það er óhætt að segja að það hafi verið ljúfsárt. Fyrir mig var ágústmánuðurinn nokkuð öflugri en júlí og kynntist ég nokkrum krökkum mjög vel núna í ágúst. Því var það nokkuð súrt að þurfa að kveðja fólk sem maður hafði smám saman verið að átta sig á að manni líkaði mjög vel við.
Að kynnast nýju fólki til skamms tíma hefur þann kost og stundum ókost að væntanlega mun maður aldrei hitta viðkomandi aftur. Það er ágætt þegar maður kynnist engum sem mann langar að þekkja en þegar maður hittir einhvern sem maður virkilega fílar vel er það nokkuð erfitt að sætta sig við það að væntanlega muni maður aldrei hitta viðkomandi aftur. Vissulega reynir fólk að sannfæra hvort annað um að það muni halda sambandi í gegnum tölvupóst og þvílíkt en auðvitað er það bara blekking. Í raun og veru er viðkomandi samband á enda.
Ég sé eftir tveimur vinum sem ég hefði alveg getað ímyndað mér að ég gæti þróað vináttu til lengri tíma með. Þeir voru reyndar nokkuð eldri en ég, 29 og 27 ára, en það skiptir auðvitað litlu máli þegar komið er fram yfir tvítugsaldurinn. Þeir verða báðir áfram hér í München og munu reyna að vera í sambandi við Ögmundinn eftir tækifærum. Auðvitað er skynsama hugsunin í mér ánægð með að fólk sem mér líkar vel við á báða bóga geti haldið áfram að skemmta sér. Hins vegar er undirmeðvitundin öfundsjúk yfir því að ég fái ekki að vera með.
Þetta er allt saman mjög sérstakt og skrítið að fara í gegnum. Ég hef einu sinni gengið í gegnum þetta áður en annaðhvort áttaði ég mig ekki á aðstæðunum jafnvel þá eða ég er of drukkinn núna.
Á endanum hlýtur maður að fagna þeirri reynslu sem maður hefur þó fengið. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og það er víst alveg öruggt að heildaráhrif svona reynslu eru jákvæð. Þetta vekur vissulega von um að það sé nóg af viðkunnanlegu fólki í heiminum. Leitið og þér munið finna segir einhvers staðar í biblíunni að ég held og þótt ég sé langt frá því að vera trúaður þá má víða finna vit í heilögu bókinni og þarna held ég að naglinn sé sleginn í hausinn.
Allt ofansagt er skrifað í fullri alvöru svo að fólk er vinsamlegast beðið um að halda aftur af hláturtaugunum.
Þangað til á Íslandi.
<< Home