GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, október 31, 2004

Bush eða Kerry?

Eins og flestum sem vita eitthvað um eitthvað ætti að vera ljóst eru forsetakosningar í Bandaríkjunum á allra næsta leyti. Nánar tiltekið eru þær á morgun, þriðjudaginn 2. nóvember. Meiri áhugi virðist vera fyrir kosningunum nú en áður úti um allan heim og þar með talið hérna á Klakanum. Þetta er líklega vegna þess hversu spennandi síðustu kosningar voru, hversu spennandi þessar kosningar líta út fyrir að verða og hversu mikill bavíani George W. Bush er.

Í sjálfu sér er ekki stór munur á köppunum. Báðir eru hægrisinnaðri en allt sem Íslendingar þekkja, báðir eru uppfullir af þjóðrembingi, báðir eru trúaðir og báðir munu verja Ísrael fram í rauðan dauðann. Kerry er reyndar aðeins minni öfgamaður en Bush. Til dæmis vill hann að byssuframleiðendur setji barnaöryggislás á vörur sínar og svo vill hann draga úr fjölda barna sem njóta ekki heilbrigðistrygginga. Ég sæi Íslendinga í anda rífast um þessi mál.

Helsti munurinn á Bush og Kerry er líklega sá að hinn síðarnefndi kann að lesa og skrifa og er greindari en 5 kíló af frauðplasti. Einnig virðist Kerry, þrátt fyrir trú sína, vera tilbúinn að nota nútímavísindi svona í bland við bænir. Til marks um hversu menntunarlega sinnaður Kerry er má nefna að tveir stærstu stuðningsaðilar hans fjárhagslega eru háskólar með Harvard í fararbroddi.

Eins og áður sagði var mjög mjótt á mununum í síðustu kosningum, Gore fékk 266 kjörmenn en Bush 271. Þetta hefur þó alls ekki alltaf verið svona. Clinton saltaði sína mótframbjóðendur í bæði skiptin (kjörmannalega séð a.m.k.). Bush eldri vann hann 370-168 og Bob Dole var tekinn 379-159.

Svo má auðvitað ekki gleyma þriðja frambjóðandanum, Ralph Nader. Þetta er gaur sem lætur sko ekki segjast, hann skeit á sig í síðustu kosningum og mun að öllum líkindum skíta á sig aftur. Framboð hans er Repúblíkönum mikill akkur þar sem hann er talinn taka fylgi frá Demókrötum aðallega. Margir bölva honum því fyrir þetta framboð þar sem það er alveg ljóst að hann á ekki breik en í raun er það kosningakerfið sem ætti að bölva. Það er nefnilega hannað þannig að enginn utan stóru flokkanna tveggja eigi séns á að hafa nokkur áhrif á kosningarnar. Raunar er það þannig að maður verður helst líka að vera bullríkur. Allir frambjóðendur stóru flokkanna núna, þ.e. Bush, Kerry, Cheney og Edwards eru milljarðamæringar á íslenskan mælikvarða. En því verður ekki neitað að Nader mun skaða Kerry og ef hann hefði ekki verið í framboði fyrir fjórum árum er nánast öruggt að Gore hefði unnið.

Jæja, það er nú víst til lítils að reyna að sannfæra þig, lesandi góður. Þú mátt ekkert kjósa. Vonum bara hið besta.

Góðar stundir.

fimmtudagur, október 28, 2004

Renee saknar stóru brjóstahaldanna!

Er ofangreind fyrirsögn upphafið að frétt ársins? Maður spyr sig. Í stuttu máli lýsir fréttin af mbl.is því hve fröken Zellweger hafi liðið vel í stórum fötum fyrir stórbeinóttar konur, en hún ku hafa bætt á sig ríflega tylft kílóa til að “passa”í hlutverk Birgittu Jóns.

“Hún sagði að það hefði verið góð tilfinning að passa í stærri stærðir en áður. Að ganga í fötum Bridget Jones var gott, sagði hún í viðtalinu.”

Hér er önnur safarík frétt fyrir fréttaþyrsta lesendur sem enginn má láta framhjá sér fara!!

Britney drekkur frjósemisdrykk á hverjum degi

Britney Spears drekkur nú frjósemisdrykkinn Kava á hverjum degi, en hún er stödd í brúðkaupsferð með Kevin Federline á Fídjí-eyju. Heimamenn segja henni að drykkurinn auki möguleika á því að hún verði ófrísk.

Heimildamaður The Sun segir að hjónakornin hafi bæði drukkið elexírinn af þrótti, en hann á að sögn að auka kyngetu karlmanna. „Britney hefur drukkið Kava á hverjum degi. Eina vandamálið er að drykkurinn er viðbjóðslegur á bragðið.“

Aldrei hefði ég trúað þessu. Ég velti því fyrir mér hvort heimildarmaður Sun hafi ekki öskrað af spenningi er hann tilkynnti ritstjóra sínum þessi stórtíðindi.

Þeir rétti upp hönd sem er ekki sama um það hvað frk. Spears lepur með morgunmatnum.

Lindsay Lohan lögð inn á sjúkrahús með háan hita
Leikkonan Lindsay Lohan var lögð inn á sjúkrahús um helgina með háan hita, að sögn talskonu hennar. Lohan, sem er 18 ára og lék m.a. í myndinni „Confessions of a Teenage Drama Queen“, hafði verið veik í nokkra daga og með allt að 39,4 stiga hita, eða 103 stig á Fahrenheit, eins og stendur í frétt Reuters.

Hún er nú að gangast undir ýmsar rannsóknir,“ segir Leslie Sloane Zelnik, fjölmiðlafulltrúi leikkonunnar. „Henni líður vel og hún hvílist,“ segir hún og bætir við að Lohan kunni að þjást af inflúensu.

Veikindin hafa valdið því að Lohan hefur misst úr nokkra daga af tökum á næstu mynd hennar, „Herbie: Fully Loaded“. Þá gat hún ekki leikið á móti kærasta sínum, Wilmer Valderrama, í gestahlutverki í þættinum Svona var það, eða „That '70s Show“.

Gefiði henni bara stíl. Maður getur ekki endalaust beðið eftir Herbie: Fully Loaded.

Ekki óvæntar tilnefningar í Vali fólksins
Julia Roberts og George Clooney eru meðal þeirra sem eru tilnefnd í Vali fólksins, „People's Choice Awards“, á eftirlætis kven- og karlleikurum ársins. Roberts hefur þegar unnið titilinn kvenleikari ársins níu sinnum. Aðrar leikkonur sem eru tilnefndar eru: Nicole Kidman, Julianne Moore, Reese Witherspoon og Charlize Theron.

Í karlaflokki eru auk Clooney: Johnny Depp, Tom Hanks, Denzel Washington og Tom Cruise, að´því er fram kemur á fréttavef BBC.
Nýjasta mynd Roberts og Clooneys er Ocean's Twelve, sjálfstætt framhald kvikmyndarinnar Ocean's Eleven.


Dýrka allar fréttir tengdar fröken Roberts. Alveg ótrúleg leikkona. Já sæll.

Ofantaldar fréttir eru af fréttamiðli Íslands, mbl.is. Þeir hafa svo sannarlega nef fyrir mikilvægum fréttum.

Biðst afsökuna á svo slælegum vinnubrögðum og ódýrri lausn. Verður vonandi skárra næst.
L

mánudagur, október 25, 2004

Loftbylgjur

Nú er nýlokið hinni árlegu tónlistarhátíð Iceland Airwaves. Í fyrsta sinn festi ég kaup á armbandi sem veitti aðgang á alla atburði hátíðarinnar. Ég notaði það reyndar mun minna en ég reiknaði með en náði þó upp í kostnað vegna bandsins.

Á meðan á Airwaves stendur færist mikill fjörleiki yfir bæinn. Mun meira af fólki er í bænum og það sem mér finnst líka betra, fólk mætir fyrr í bæinn. Fyrstu tónleikarnir hófust upp úr kl. 20 hvert kvöld og þaðan í frá var mikið af fólki í bænum. Ekki alveg eins og venjulega þegar enginn með örðu af sjálfsvirðingu mæti í bæinn fyrir klukkan hálftvö.

Airwaves er að sjálfsögðu listahátíð og á listahátíðum eru það listamenn sem ráða lögum og lofum. Listamenn hafa hæfileika til þess að skapa eitthvað sjónrænt eða hljóðrænt sem hefur áhrif á upplifun og skynjun annarra, yfirleitt á fagurfræðilegum nótum. Hins vegar festast sumir listamenn á hinu rósrauða skýi listamennskunnar og ofmetnast af eigin sköpunargáfu. Þá verður oft til hinn ofursvali töffari sem er yfirleitt á móti “kerfinu” en er tilbúinn að hjálpa til við að bjarga heiminum, svona með öðrum verkum. Ég lenti á tónleikum hjá einum slíkum. Það var söngvarinn í hljómsveitinni Touch, sem ég held að gangi undir því ágæta töffaranafni Böddi. Hann var að sjálfsögðu með hatt eins og allir góðir og gegnir listamenn og týpur ættu að gera. Þá var hann í bol með áletruninni “I only sleep with the best”. Ó, je! Böddi spjallaði auðvitað við okkur áhorfendurna milli laga og benti okkur á hvað mætti betur fara í heiminum. Eitt af því sem hann ákvað að benda okkur að gera var að “ekki fokkin skjóta fólk”. Ég veit ekki alveg hvort hann hélt að Osama og Mullah Omar væru að hlusta eða hvað en síðast þegar ég vissi var það nú ekki stærsta vandamál Íslendinga að menn væru að skjóta hverjir aðra í massavís. Eitt púðurskot frá Bödda þarna. Síðan var hann að kynna eitt laga hljómsveitarinnar sem var víst eina lagið sem þeir höfðu gefið út. Það hafði þá komið út á safnplötu til styrktar börnum í Palestínu. Á þessum tímapunkti bráðnaði alveg hjartað í manni. Ég hef auðvitað aldrei heyrt um þessa hljómsveit eða safnplötu áður (enda alveg kaldur á tónlistarpúlsinum) en ég efast stórlega um að Böddi hafi hjálpað mörgum börnum í henni Palestínu. Það er samt fínt að hafa á CV-inu að hafa lagt svo mikilvægu málefni lið. Góð tilraun hjá Bödda. Það gengur vonandi betur næst. Annars tók ég eiginlega ekkert eftir tónlistinni hjá Touch. Ég var of upptekinn við að hlusta milli laga. Getur kannski einhver fyllt í þá eyðu?

Ég er auðvitað ekkert að útiloka að listamenn geti haft eitthvað til heimsmálanna að leggja, langt í frá. Hins vegar finnst mér kómískt þegar menn ákveða að reyna að meika það á einu sviði í krafti hæfileika á allt öðru sviði. Til dæmis var Michael Jordan besti körfuboltamaður heims. Það hjálpaði honum ekki mikið í hafnaboltanum. Þá nenni ég ekki að sjá myndir með Eric Cantona, jafnvel þótt hann hafi verið hörkuknattspyrnu maður (í vitlausu liði reyndar). Þegar maður fer út fyrir sitt svið verður maður að sætta sig við að byrja á núllpunkti og þá eru alltaf ágætislíkur á því að maður komist ekki langt. Böddi, stick to what you know. Hvað sem það nú kann að vera.

Að lokum vil ég setja hauskúpu á Vegamót. Stemmningin þar var súrasta súrt á laugardaginn.

fimmtudagur, október 21, 2004

Búgalú?

Airwaves hófst í gær. Veit ekki meðetta. Verður ekki allt troðið allstaðar og maður endar með að sjá ekki neitt nema hnakkan á næsta manni í röðinni? Er þá ekki bara betra að sleppa því að fara? Segi svona.
Kannski maður kíki á Byltuna í 34 skiptið. Nei varla, kíki þá frekar á Tristian. Þorbjörn, hvort á maður að sjá?

Þegar ég lít yfir dagskrána sker laugardagskvöldið sig algerlega úr. Og þá er Nasa tvímælalaust staðurinn til að vera á. Aðrir staðir verða í ruglinu.Þetta kvöld eru Trabant, Quarashi, Gusgus, Mugison og fleiri góðir að sýna sínar bestu hliðar við Austurvöll. Þetta eru líklega með hressari böndum þessa festivals þó ég vilji ekki fullyrða um neitt enda ófá böndin á hátíðinni sem ég hef aldrei heyrt um.

Get varla beðið eftir laugardagseftirmiðdegi er ég útskrifast. Fer allur á flug við tilhugsunina um að sitja í sveittri og myglaðri laugardalshöll hlustandi á frænda hans Skúla, Pál Skúlason, berja í pontu og rausa í míkrófón eitthvað um gildi menntunar, samkeppni háskólanna, kennaraverkfallið og aðra síbylju. Er ekki hægt að hafa bara einhver skemmtiatriði og drulla þessu af. Maður spyr sig.

Fór á litlu kvikmyndahátíðina og sá Outfoxed :*** 1/2.Stutt og laggóð mynd um sjónvarpsstöðina Fox og þann einhliða fréttaflutning sem stöðin eldar ofan í fáfróðan bandarískan almúgan. Mæli með þessari mynd. Fréttaflutningurinn er svo fáránlegur á köflum að maður liggur af hlátri. Ætla að kíkja á fleiri myndir á þessari hátíð. Gott í essu.

Las moggann í gær. Skítablað.

skummelú baba


mánudagur, október 18, 2004

Kirkjan leysi kennaradeiluna!

Í dag hefst fimmta viku kennaraverkfallsins. Foreldrar eru að verða ráðþrota, foreldrafélög farin að krefjast þess að deilan verði leyst en ekkert virðist ganga milli samningsaðila. Reyndar spjallaði ég við frænku mína í níunda bekk um helgina og hún var ekkert sérstaklega áhyggjufull yfir því að deilan drægist svona á langinn en hvað um það.

Nú eru margir búnir að kvarta og kveina yfir deilunni og “krefjast” þess að deilan verði leyst en hafa svo ekki minnstu hugmynd eða vilja til að leggja eitthvað fram til deilunnar. Nú síðast var það biskupi Íslands sem féllust hendur vegna málsins. Hann sagði eftirfarandi á Kirkjuþingi 2004 nú um helgina:

“Kennaraverkfallið hefur sett mark sitt á þjóðlífið og snertir flest heimili í landinu með einum eða öðrum hætti. Það að kennarar skuli enn og aftur finna sig knúna að beita verkfallsvopninu í kjarabaráttu sinni er óþolandi. Vegna þess að það bitnar á þeim sem síst skyldi, skólabörnunum. Það er brýnt að fundin verði leið til að tryggja kennurum viðunandi kjör. Um það verða samningsaðilar og stjórnvöld að taka höndum saman. Með starfi skólanna er lagður grundvöllur að menntun og menningu, velferð og velmegun þjóðarinnar og þar má ekkert slaka á.“

Ég er í rauninni ekkert ósammála biskupi. Hann er góður maður sem vill vel og sér nauðsynina í því að hafa skólakerfið gott til þess að tryggja áframhaldandi velmegun Íslendinga. En hverju er biskupinn tilbúinn að fórna fyrir þessa velmegun?

Að sjálfsögðu settist ég niður og fór að reikna. Ég fór á uppáhaldsvefinn minn, www.fjarlog.is, og kíkti hversu miklu íslenska ríkið eyðir í kirkjuna á ári hverju. Helstu útgjaldaþættir eru biskupsembættið, 1.224 milljónir, og sóknargjöld, 1.636 milljónir. Samtals eru þetta því um 2.860 milljónir á ári. Nú er kirkjan að sjálfsögðu algjörlega óþörf stofnun sem á ekki að koma nálægt ríkinu. Því verðum við að reyna að finna einhvern skynsamlegri stað fyrir alla þessa peninga. Lausnin er því að loka kirkjunni og setja peningana í deiluna. Þannig yrðu ríki og kirkja aðskilin (sem meirihluti þjóðarinnar vill), kennaradeilan yrði leyst (sem meirihluti þjóðarinnar vill og bæði menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra yrðu hetjur. Með þessum 2.860 milljónum væri nefnilega hægt að hækka laun hvers hinna 4.300 kennara um 55.000 krónur á mánuði. Það hlýtur að fara langt með að uppfylla kröfur kennara í bili.

Ég hvet því biskup til að leggja fram þessa sáttatillögu hið snarasta og leysa málið. Sjálfur afsala ég mér öllum þökkum fyrir hugmyndina. Það er mér nóg gleði að blessuð börnin geti snúið aftur til náms áður en þau villast á refstigum verkfallsins og leiðast út í fíkniefnaneyslu eða ótímabært kynlíf.

Eins og önnur vandamál mætti leysa þetta með því að hætta landbúnaðarstyrkjum en ég bíð með að reikna það dæmi til enda þangað til bændur fara að tjá sig um málið. Reyndar er mjög ólíklegt að það gerist þar sem bændur hafa væntanlega lítinn áhuga á að auka menntastigið í landinu.

(Útreikningarnir gera ekki ráð fyrir launatengdum gjöldum enda hef ég ekki hgumynd hversu há þau eru)

fimmtudagur, október 14, 2004

mmhmmm....

Fimmtudagur og svo virðist sem þetta sé fyrsti pistill vikunnar. Boto brást í fyrsta sinn á mánudag og hefur enn ekki komið með haldbærar skýringar. Þorbjörn hetjutenór ropar í míkrófón með Sykurmola Íslands og gefur skít í skítinn ( Er það hægt? Sjá Vísindavefinn). Björn Brie er með niðurgang vegan óhóflegrar neyslu á mygluostum og kassarauðvíni og gott ef hann er ekki að fallbeygja einhverjar franskar sagnir þess á milli. Aldrei hefur lærdómur þótt lögleg afsökun fyrir pistlavöntun, hvað þá neysla matar og drykkjar. Það er af sem áður var.

Pistill dagsins í dag er fyrirsjáanlegur. Fótboltapistill……Ole (au lait fyrir björninn). Er ekki kominn tími á að kornhænurnar við stjórnvölinn, Ásgeir og Logi, taki pokann sinn og snúi sér að því sem þeir gera best, krosssaumi. Af hverju að vera með aðeins þrjá menn í vörn gegn einu sókndjarfasta liði Evrópu? Er eitthvað að?

Svo eru nokkrir leikmenn sem ég skil ekki hvernig geta talist fótboltamenn. Brynjar Björn Gunnarson a.k.a. skakklappa hýenan. Hvaða íþrótt er þessi maður að spila? Grindahlaup? 99% líkur á því að boltinn fari útaf ef hann kemur við boltann. Staðreynd.

Þórður Guðjónsson: Fljótur leikmaður og baráttuglaður en eftir næstum 10 ár í atvinnumennsku er ótrúlegt að hann drífi ekki inní teig frá kanti nema í undantekningartilvikum.

Heiðar Helguson: Ef hann væri ekki svo góður skallamaður þá væri hann í fangelsi.

Pétur Marteinsson: Klassaleikmaður en varla hægt að treysta á að hann geti neitt nýstiginn upp úr meiðslum.

Eiður Smári: Hverning nennir hann að spila með þessum amatörum. Alger yfirburðamaður í landsliðinu og betri en allir miðjumenn Íslands til samans jafnvel með pulsu í annarri og hamborgara í hinni.

Sá sem kom hvað mest á óvart með leik sínum var varamaðurinn Hjálmar Jónsson er leikur með IFK Gautaborg í Svíþjóð. Þessi maður var solid út í gegn, ógnandi og gerði engin mistök. Besti maður íslenska liðsins ásamt Eiði Smára.

Nenni ekki að fjalla um fleiri leikmenn. Minni fólk á að horfa á og koma sér inn í þáttinn Scrubs (Nýgræðinga) á rúv. Hann er í kvöld. Viðbjóðslega fyndinn þáttur.


fimmtudagur, október 07, 2004

Útgjöld Ellans fyrstu 3 ársfjórðunga

Jæja, þá er maður kominn aftur á frosið frónið.Þvílíkt skítaveður er hér alla daga. Á engin orð yfir þennan fimbulkulda eftir að hafa spókað mig um í kóngsins köbenhavn við stofuhita. Biðst velvirðingar á því að hafa skilað auðu síðasta fimmtudag. Hef enga afsökun á reiðum höndum aðra en leti. Skammarlegt og ég skammast mín.

Guðmundur reifaði ágætlega kvöldið góða er hlýtt var á The Hunches á rokkbúllunni Lades. Fantaþétt band sem kemur manni í gírinn. Veit ekki hvort ég myndi kaupa diskinn þeirra en ég myndi hiklaust mæta á tónleika með þeim aftur og sjá sveitt bassakvendið þjöstnast á bassahelvítinu. Sjón er sögu ríkari og því ætla ég ekki að reyna að lýsa hennar bassaleik. En ég mæli með ðö Hönches.

Varðandi könnunina góðu: Hvaða apakettir kusu Britney? Hún er alveg dead.

Nema hvað. Þar sem ég er nú kominn með vinnu ákvað ég að gera upp notkun mína á vísakortinu mínu frá áramótum og skoða í hvað peningar mínir fara að jafnaði. Ennfremur, hvort ég geti ekki dregið úr einhverjum kostnaðarliðum og lagt e-ð til hliðar svo maður geti komið úr foreldrahúsum einhvern tíma.

Eftirfarandi er uppgjörið en þess skal getið að inn í það vantar notkun á debetkorti (sem reyndar er nánast 0) og úttektir erlendis vantar líka.Alls hef ég eytt tæpum 400.000 krónum innanlands og var þeim eytt með eftirfarandi hætti:

ÁTVR: 23.886
Leigubílar: 26.864
Áfengi og aðgangseyrir: 36.630
Skyndi og þynnkubiti: 64.784
Bíó og DVD*: 47.772
Út að borða: 17.550
Símakostnaður**: 28.871
Matarinnkaup: 16.041
Bensín: 9.431
Þjónustugjöld Visa: 5.342
Tryggingar: 3.091
Annað***: 119.000



*Bíó og DVD er aðgangseyrir að kvikmyndahúsum og leiga á DVD-diskum auk drykkja og snakks er vill fylgja kvikmyndaáhorfi.
** Símakostnaður: Þar af eru 14.000 úborgun í nýjum síma.
*** Annað: Vallargjöld á golvelli, tannlæknakostnaður, klippingar, fatakaup,stöðumælasektir, bílaþvottur, bókakaup etc.)
Matarinnkaup og Bensín: Úgjöld sem eiga sér aðeins stað þegar foreldrar eru í útlöndum.

Ljóst má vera að ég get dregið allsvakalega úr neyslu skyndi-og þynnkubita auk þess sem neysla á börum bæjarins og leigubílakostnaður mætti alveg dragast saman um helming. Á móti kemur að ég get búist við aukinni bensínnotkun með nýju starfi og líklega mun tryggingaliður hækka með bíleign. Bíóliðurinn er heilagur og mun ekki minnka nema kvikmyndahúsin sýni fleiri ömurlegar myndir. Svo er ekki hægt að hunsa “annað” liðinn. Líklega mun hann þenjast eitthvað út með auknum tekjum.

400.000 eru kannski ekki mikill peningur í margra augum. Eru t.a.m. margir með hærri mánaðarlegan yfirdrátt á sínum debetkortum. Eiga þeir samúð mína, sérstaklega ef þeir sóa sínum peningum með svipuðum hætti og ég, og það á yfirdráttarvöxtum.

Farinn í vinnuna.

Góðar stundir

mánudagur, október 04, 2004

Væntingar og vonbrigði

“Nú er góðæri” heyrist oft frá sitjandi ríkisstjórnum, allt er gott og verður áfram á meðan þær eru við völd. Ekki eru stjórnarandstæðingar jafnsannfærðir og telja að allt verði betra þegar þeir komast til valda. Erfitt er að koma með gott svar af eða á en ein leiðin er að taka púlsinn á fólkinu í landinu. Finnst þeim ástandið vera gott og er það að batna eða versna?

Þetta er víða gert. Í Bandaríkjunum bíða markaðir spenntir eftir því að heyra hvort neytendur eru bjartsýnir eða svartsýnir og hlutabréfaverð hreyfist oft í takt við niðurstöður slíkra kannana. Á Íslandi er þetta einnig gert. Gallup mælir væntingavísitölu sem er ætlað að meta hvað fólki finnst um atvinnuástand og efnahagsmál. Íslenski markaðurinn virðist þó ekki vera jafnnæmur fyrir breytingum í þessari vísitölu og erlendis. Annars er fólk í stuttu máli fremur bjartsýnt núna. Nóg virðist vera af peningum í þjóðfélaginu, fólk sér fram á að geta farið að neyta með hjálp húsnæðislána og allt er til alls. Það er samt ekki það sem er skemmtilegast við þessar mælingar að mínu mati. Mér finnst skemmtilegast að bera saman hversu bjartsýnir hinir ýmsu þjóðfélagshópar eru hver miðað við annan. Það augljósasta er auðvitað hvernig fjárhagsstaða hefur áhrif á afstöðu manna. Það er mjög marktækt hversu bjarstýnna tekjuhærra fólk er en tekjulægra og kemur varla á óvart. Á sama hátt eykst bjartsýni stöðugt með meiri menntun fólks. Búseta hefur eitthvað að segja. Íslendingar á suðvesturhorninu eru bjartsýnni en aðrir og þá er ungt fólk einnig bjartsýnna en eldra. En svo er það rúsínan í pylsuendanum, samanburður á kynjunum. Hvort sem allir syndi í seðlum eða allt sé á leiðinni til andskotans, þá er það alltaf þannig að karlar eru bjarstýnni en konur og það talsvert.

Ég hef alltaf gaman að því þegar marktækur munur mælist á hæfileikum eða hugsunum karla og kvennam, í hvora áttina sem er. Ég stend nefnilega fastur á því að konur og karlar séu ólíkar skepnur sem eru mishæfar í mismunandi störf. Með þessu tek ég alls enga afstöðu hvort kynið er hæfara í hvaða starf enda held ég að þjóðfélagið eigi nógu erfitt með að samþykkja síðustu setningu.

Allt í allt eru það því gamlar, ómenntaðar konur úti á landi með lágar tekjur sem eru svartsýnastar og ungir, háskólamenntaðir karlmenn á höfuðborgarsvæðinu með háar tekjur sem eru bjarstýnastir.

Persónulega held ég að Ísland sé í þokkalegustu málum. Hvað finnst þér?

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com