GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, mars 29, 2004

Í fullorðinna manna tölu

Nú er fermingarvertíðin rétt nýhafin og flykkist glórulaus æskan í hús Guðs, játar trú sína og lofar að lifa eftir lögmálum Hans og boðorðum. Ég var sviptur seinni hálfleik í Arsenal-ManU af fermingarbarni í gær. Ég þurfti þó aðeins að mæta í veisluna en slapp við messuna sjálfa og tel ég mig heppinn enda fátt verra en að sitja undir því þegar kirkjufylli af því sem næst trúlausu fólki játar trú sína á Guð, Jesú, píslarsöguna og allt sem því fylgir.

Eftir að hafa gefið sig trúnni á vald fékk blessað fermingarbarnið svo sín andlegu verðlaun eins og tölvu, stafræna myndavél og fleira sem gott og guðrækið fólk verður að eiga. Já, það er gott að trúa. Ég velti því fyrir mér hvort er verra, að fermast í kirkju þrátt fyrir að trúin sé lítil sem engin eða spóla bara í gegnum hræsnina og skella sér í borgaralega fermingu. Halda bara veislu og þiggja gjafir fyrir að vera búinn með 8. bekk. Borgaraleg ferming er náttúrulega argasta bull og í hrópandi mótsögn við sjálfa sig. Má þá ekki alveg eins tala um aðrar borgaralegar trúarathafnir? Ég fór til dæmis í borgarlega altarisgöngu á föstudagskvöldið síðasta, drakk blóð hins borgaralega krists (bjór) í lítravís og gæddi mér á líkama hins borgaralega frelsara (pizzum).

Það er að sjálfsögðu ekki við blessuð börnin að sakast. Þegar ég fermdist fyrir þó nokkrum árum og kílóum síðan datt mér aldrei annað í hug en að fermast. Þetta var bara eitthvað sem fólk gerði og á þessum árum er maður ekki beint að leita að leiðum til þess að skera sig úr fjöldanum. Það er þjóðfélagið sem leggur þessa (nánast) skyldu á herðar æskunni.

Þetta er kannski óþarfa væl í mér. Kannski er bara rétt að búa til einhvern “merkisáfanga” í líf unglinga þegar allt er voðalega erfitt, maður er bólugrafinn í mútum og er ekkert nema vandræðaleikinn uppmálaður. Það er fínt að fá gjafir því maður á ekki neitt og ekki hjálpar sumarvinnan mikið, tuttuguþúsundkall á ári úr unglingavinnunni fleytir manni víst ekki langt í eignamyndun. Mér finnst samt helvíti hart að það sé normið að játa á sig eitthvað, sem meiri líkur eru á en minni að maður muni hafna síðar, til þess eins að fá gjafir og vera ekki öðruvísi. Svona er ég bara.

Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 25, 2004

Rétt skal vera rétt er réttur er manni réttur á borð

Eins og við var að búast vilja flestir kjósendur fara á Pixies tónleika ef þeir hefðu aðeins um eina tónleika að velja. Pixies hafa lengi glumið í partýgræjum landans og og kannast eflaust margir við að hafa þanið raddböndin við (þreytt?) lög á borð við Hey og Here comes your man tjúnuð í botn. Svo þegar hið endurlífgaða Fight Club-lag Where is my mind er farið að væla og fólk farið að æla er yfirleitt kominn tími á bæinn. Í mínum huga að minnsta kosti.

Sjálfur myndi ég kjósa að fara á Placebo tónleika. Tel þá hafa hafa meira edge og bíta betur öfugt við Pixies sem mér þykja orðnir heldur bitlausir. Reyndar full hart af mér að segja þá bitlausa enda aðeins heyrt Doolittle. Placebo hefur maður lengi dáðst að. Þeir hafa urrandi kraft og drífandi bassalínur sem leggja grunn að grípandi laglínum fluttum af pervisna leðurgimpinu Brian Molko sem syngur og plokkar strengi. Ef þeir munu ná bara broti af því geðbilaða sándi sem einkennir þá þá eiga íslenskir áhorfendur gott í vændum. Þá þá þá....
Reyndar ætlaði ég ekki að efna til orðaskaks eða gera upp á milli þessara hljómsveita enda báðar góðar.

Ég ætlaði að velta upp spurningu er varðar réttarstöðu manns á veitingahúsi.

Hver kannast ekki við það að vera á fínum veitingastað í sínu fínasta pússi og tilbúinn í einhverja geðbilaða máltíð. Eftir að hafa skoðað matseðilinn og lengi velt vöngum ákveður maður að taka einhverja flamberaða steik í tryllidýrasósu með kartöflgeðsýki og salatfargani “on-the-side”. Vitaskuld heitir rétturinn yfirleitt einhverju frönsku nafni og allt lætur svo vel í eyrum að maður fær vatn í munninn og verður hungraður sem ljón. Svo bíður maður spenntur eftir því að sjá hvað maður fær og líka vill maður sjá hvað sessunautar fá. Ég hlæ oft innra með mér þegar ég sé að sessunautar hafa keypt köttinn í sekknum og fá eitthvað drasl á diskinn sinn.

En oftar en ekki er það maður sjálfur sem fær eitthvað drasl. Og hvað meina ég með drasli? Jú, að fá einhvern kjöttening ofan á saltatblaði með teskeið af kartöflumús og nokkrum dropum af sósuseyði þegar maður pantaði steik í tryllidýrasósu með kartöflugeðsýki. Maður getur orðið brjálaður. Svo er stráð saltí í sárin með því að rukka mann um 5000+ kall.

En spurning mín er sú hvort maður hafi ekki rétt á því að neita að borga. Maður fékk ekki það sem maður taldi sig vera að fá. Er hér ekki um samningsbrot að ræða? Á maður rétt á ábót? Á maður rétt á afslætti? Getur veitingastaðurinn komist upp með svona vinnubrögð?

Í raun gildir þessi spurning líka þegar matur er hreinlega vondur og sömuleiðis um skyndibitastaði þar sem maður telur sig vera að kaupa það sem er á myndinni en fær svo bara eitthvað sveitt og feitt sem búið er að liggja undir hitalömpum í 3 tíma. Er maður alveg réttlaus gagnvart svona skipulagðri glæpastarfsemi? Ég bara spyr.

Farinn á Holtið.......

mánudagur, mars 22, 2004

Eru pör leiðinleg?

Ég er mikill áhugamaður um gott grín og hef sem slíkur horft á ýmsa gamanþætti og sér í lagi marga sitcom-þætti. Í flestum þáttum er spilað mikið upp á samskipti kynjanna og oftar en ekki má finna gaura sem eru vonleysislega ástfangnir af gellum og aldrei gengur neitt. Hins vegar gerist það oft þegar líður á þættina að ástir eru látnar takast með fólki. Slík þróun hefur mér yfirleitt fundist marka upphaf hnignunarskeiðs í sitcom-þáttum. Ég pældi mikið í af hverju framþróun persónanna olli mér svo miklum leiðindum, er öll þróun í svona gamanþáttum slæm? Þá var mér bent á mögulega skýringu: Eru einhleypingar skemmtilegri en pör?

Áður en lengra verður haldið er rétt að nefna nokkur dæmi um þetta. Friends finnst mér vera besta dæmið, hverjum finnst Chandler skemmtilegri eftir að hann og Monica byrjuðu saman? Og það þarf nú ekki einu sinni að nefna það slys (sem mér skilst að hafi verið afstýrt) að setja Joey og Rachel í samband. Dæmi má einnig finna annars staðar, Niles náði Daphne í Frasier og George í Seinfeld var nærri því búinn að gifta sig. Seinfeld og félagar sáu þó í hvað stefndi og skrifuðu unnustu George glæsilega út úr þáttunum með því að láta hana sleikja eitruð frímerki.

Hvers vegna voru þessar persónur skemmtilegri einhleypar? Jú, stór hluti þeirra brandara fólst í misheppnuðum viðreynslum og kjánalegum samskiptum við hitt kynið. Eftir að þeir voru komnir í sambönd var lítið hægt að gera nema kokka upp brandara um hvað konur eru ráðríkar og restin að miklu leyti væmni sem á hvergi heima nærri nokkru því sem á að vera fyndið.

Grundvallarmunur einhleypra og para felst að sjálfsögðu í því að flestir einhleypir eru ávallt að reyna að finna maka og þótt það sé kannski einhver vinna sem fer í það að halda sambandi saman getur það vart jafnast á við átökin sem það er að reyna að komast í samband. Því eru einhleypir í stöðugri þekkingarleit og tilraunastarfsemi til þess að finna rétta svarið en einhleypir eru smám saman að reyna að fullkomna sambandið. Þessu má því að mörgu leyti líkja við samanburðinn: Nám vs. Vinna. Hinn einhleypi er að læra eitthvað nýtt og þótt hann falli á prófum við og við þá er hann stöðugt á tánum að reyna að fullkomna sínar aðferðir. Hinn einhleypi er að læra inn á hitt kynið sem heild. Pörin eru á meðan í hægri þróun í átt að hinni gullnu rútínu og læra inn á einn maka.

Sögur af einhleypum eru líka yfirleitt nokkuð meira hressandi en parasögur. Margar snúa þær að viðreynslum, ýmist vel eða illa heppnuðum og oft eru mistökin sem einhleypir gera vítaverð og fáránleg í augum paraðra enda eru einhleypir (sérstaklega langtímaeinhleypingar) oft með ýmsar ranghugmyndir og misskilning um hvað hinu kyninu finnst sniðugt. Þessar sögur þykja jafnan hafa meira skemmtanagildi en: “Við fórum á svo gott leikrit í gær” eða eitthvað viðlíka sem pör gætu misst út úr sér. Það er reyndar þannig að klúður þykir jafnan skemmtilegra frásagnar en eitthvað sem tekst vel upp og ef eitthvað klúðrast í sambandi getur það haft leiðindaafleiðingar á meðan einhleypingurinn snýr sér bara að næsta skotmarki.

Með þessum pistli er ég ekkert að reyna að dásama stöðu mína sem einhleypur maður og reyna að sannfæra sjálfan mig um að ég sé best settur einhleypur. Ég skemmti mér reyndar alveg konunglega hart nær hverja helgi við að reyna að vinna mér kvenhylli en ég hugsa að þegar í samband verður komið verði ég líka nokkuð sáttur þar.

Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 18, 2004

HR eða HÍ ?

Síðustu helgi var ég fenginn til að svara spurningum framhaldsskólanemenda um námið í Viðskipta og Hagfræðideild. Þar sem ég er í hagfræði þá reyndi ég eftir bestu getu að svara spurningum um það nám, kennsluna, aðbúnað og fleira og passaði mig að vera hlutlaus í svörum, enda hef ég engra hagsmuna að gæta. Algengustu spurningarnar voru: Hvað er hagfræði?, Hver er munurinn á viðskipta- og hagfræði? o.s.frv. Sú spurning sem ég átti hvað erfiðast með að svara var: Af hverju á ég að fara í HÍ en ekki HR ?

Varð mér þá hugsað til þess rígs og rógburðar sem nemendur HÍ hafa stundað gagnvart HR. Er talað um keyptar einkunnir í HR, námið sé auðveldara, metnaður sé minni og fólk þar sé að öllu jöfnu treggáfaðra en fólk í sama námi í HÍ. Því til stuðnings er bent á að fólk sem var nánast heiladautt í menntaskóla sé nú með áttur og níur á prófum. Sömuleiðis er sagt að þeir kennarar sem ekki vilji skala einkunnir upp á við fái fljótt reisupassann enda sporni hátt fallhlutfall gegn aukinni aðsókn í skólann og þar af leiðandi innstreymi peninga.

Fyrir mér eru þessar ályktanir af sama meiði og sá hroki og vanvirðing sem ríkir í MR gagnvart Versló. Hafa þá gamlir MR ingar (þar á meðal ég) síðar komist að því að það er bara ekkert að þessum Verslingum þó þeir hugsi aðeins meir um útlitið en aðrir. Að minnsta kosti virðist námsárangur þeirra í HÍ ekki vera lakari en MR inga. Að sama skapi er það ekki nemenda HÍ að dæma um ágæti HR heldur eldri nemenda HR svo og vinnumarkaðarins sem tekur þessa nemendur í sína þjónustu að námi loknu.

Því hugsaði ég með mér að benda framhaldsskólanemendunum á þann mun sem er hvað bersýnilegastur á HÍ og HR. Sá munur felst einkum í aðbúnaði nemenda og skólagjöldum. Í aðbúnaði hafa Nemendur HR algera yfirburði og eru þeir skapaðir með innheimtu á skólagjöldum en HÍ rukkar ekki skólagjöld (fyrir utan 35 þúsund kallinn í skráningargjald) og er aðbúnaðurinn í hönk. Fyrir mér eru því skólagjöldin eini munurinn sem hægt er að fullyrða um en við útskrift hefur sérhver nemandi í HR (sem fjármagnar grunnnám sitt með námslánum) margafalda skuld sérhvers nemanda í HÍ á bakinu. Mörgum blöskrar við þeim upphæðum sem nemendur HR þurfa að borga og sýnist sitt hverjum en hafa ber í huga að skólagjöldin gefa (eða öllu heldur eiga að gefa) nemendunum aukin völd. En þessi völd ber líka að meta.

Fyrir það fyrsta eiga nemendur að geta gert auknar kröfur til námsins, kennara og aðbúnaðar auk þess að námið sé sambærilegt og helst betra en það sem boðið er upp á ókeypis í HÍ. (Ef ekki, hví ætti nokkur maður að fara í HR??) Þessar kröfur geta nemendur HÍ ekki gert enda fá þeir allt ókeypis, kennarar eru (margir hverjir) æviráðnir, metnaðarlausir hverúlantar á lágum launum hjá ríkinu og enginn sér ástæðu til að breyta neinu. Byggingar eru að hruni komnar, kennt er í 100 manna bekkjum og allt er unnið í hópvinnu. Ofan á þetta er HÍ er með heilt stúdentaráð til að berjast fyrir auknum aðbúnaði og er árangur þess gegnum tíðina lýsandi dæmi fyrir þann litla áhrifamátt sem nemendur í HÍ hafa.

Vel má vera að sá orðrómur sem ríkt hafi í kringum HR sé að einhverju leyti réttur en ég er þess fullviss að þar hafi verið um byrjunarörugleika að ræða og spái ég að orðspor HR muni nú fara stigvaxandi og brátt laða að sér metnaðarfyllstu nemendurna, færustu kennarana, og skila af sér hæfasta starfsfólkinu út í atvinnulífið í þeim fögum sem skólinn mun kenna. Þetta þykir mér augljós og óumflýjanleg þróun en hún er vitaskuld háð því að HÍ taki ekki upp skólagjöld.

Í ljósi þessa þykir mér einkennilegt að ákveðnir hópar sem telja sig berjast fyrir hagsmunum HÍ og nemenda þeirra séu að mótmæla skólagjöldum án nokkurrar umræðu um kosti og galla skólagjalda og mótmæli ég hér með þeirra mótmælafundi þann 22. mars næstkomandi og hvet fólk til að velta þessu aðeins fyrir sér með opnum huga.


mánudagur, mars 15, 2004

Er líf eftir háskóla?

Nú er vor að komast í loftið, sólin kitlaði Reykvíkinga í fyrsta skipti í langan tíma í dag og jafndægur á vori er aðeins í 6 daga fjarlægð. Þetta vor er tímamótavor fyrir okkur á Skítnum því fjórir grænleitir skítapésar ganga nú inn í sitt síðasta vor í prófum (í bili a.m.k.) og arka inn í óvissuna sem bíður utan við háskólaveggina.

Ég held nú að flestir séum við fegnir að klára þennan áfanga enda orðnir með eldri mönnum BS-námsins. Hins vegar mun ég sakna nokkuð hinna fjölmörgu ferða sem við vísindi eru kenndar og hafa séð okkur námsmönnunum fyrir áfengi þegar hart hefur verið í ári. Þegar mikið hefur verið að gera og vinnuvikan búin að þyngja geðið hafa vísindaferðirnar komið eins og brú yfir boðaföllin og svipt manni úr heimi menntunar og inn í heim skemmtunar. Flýgur mér þá í hug staka:

Nú vikan er búin og víst var hún snúin
En vísindaferð tekur við
Ég frekar var lúinn en finnst ég nú knúinn
Að finna nú hitt kynið

Nú ræða menn heitir, reifir og teitir
Og refsa mjög bjórunum
Mér ölið kjark veitir, nú er ekkert sem heitir
Ég arka að stelpunum.

Svo verður hver að klára kvæðið eins og honum finnst líklegast að það endi.

Nú þegar útskriftin nálgast leiðir maður hugann að því hvað maður hefur lært á þessum árum í háskólanum. Ég segi fyrir mína parta að svona helmingur af efninu sem ég á að hafa lært sitji eftir að einhverju leyti og þykir mér það heldur lágt hlutfall. Ætli meirihluti háskólamenntaðs fólks hafi sömu sögu að segja? Þá kemur í huga Matteusarguðspjallið, kapítuli 12, vers 33:

Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð.”

En hlýtur þá ekki ávöxturinn að þekkjast af trénu? Og hvað ef eitt epli skemmir alla tunnuna, skemmir það þá ekki öll hin trén? Þarna er kannski svarið komið.

Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 11, 2004

School of Rock**

Það var á mánudagskvöld síðastliðið að ég ákvað að skella mér í bíó enda rúm vika síðan maður kíkti síðast. En, ég stóð frammi fyrir ákveðnum vanda. Allar myndir í íslenskum kvikmyndahúsum sem stóðust síuna mína hafði ég þegar séð. Fyrir utan tvær: Igby goes down og School of Rock. Ég gat strax útilokað Mr. Igby þar sem minn helsti bíóbuddy var nýbúinn að sjá hana. Því varð School of Rock fyrir valinu. Varð sú ákvörðun síðar til staðfestingar á því að sían mín er langt frá því að vera fullkomin.

Þó svo að ég eigi að vera fordómalaus gagnvart kvikmyndum sem standast síuna mína þá verð ég að viðurkenna að svo er ekki. Má finna fjölmarga leikara, leikkonur og leiksstjóra í síuheldum myndum sem ég hef miklar skoðanir á og ýmist elska eða hata. Jafnvel elska að hata. Á meðal þeirra sem ég hef alla tíð hatað af miklum hita og áfergju er leikarafíflið og ófyndna mörbuffið Jack Black. Það er mér hulin ráðgáta hvernig fólki getur fundist þessi göltur í mannsmynd fyndinn. Þennan mann hef ég fordæmt og bölsótast út í allt frá þeirri stundu er hann birtist á skjánum í myndinni High Fidelity. Þar lék hann nákvæmlega sömu týpuna og í School of Rock: feita, lata, sell-out-fóbíska hippagelgju sem vill bara hlusta á leiðinlegt klisjurokk og troða því upp á saklausa borgara með ofbeldi og stælum.

En af hverju þykir mér Jack Black ekki fyndinn?

Fyrir það fyrsta er Jack Black ekkert nema rembingurinn. Ég hef alltaf á tilfinningunni að hann sé að rembast við það að vera fyndinn. Líkt og dauðadæmt hirðfífl í örvætningarfullri leit að eigin höfuðlausn. Allt hans grín er fyrirsjáanlegt, einsleitt og grunnt og að mínu mati skortir hann alla hæfileika til gamanleiks. Hann er ekki snöggur í tilsvörum, hann er engin eftirherma, hefur engar tímasetningar og er alls ekkert fyndinn í útliti. Ekki frekar en Pálmi Gestsson. Eina sem hann hefur er hrísgrjónavömb sem hann hristir sem mest hann getur auk þess að glenna út augun sem óður maður og geifla sig í framan. Hann minnir mig einna helst á Chris Farley heitinn sem var sjúklega ofmetinn og leiðinlegur gamanleikari. Þessir leiktilburðir þykja mér ekki fyndnir. Í besta falli kjánalegir og pirrandi.

Nóg um það. Myndin School of Rock er hörmung (rólegur), eða því sem næst. Ég gef henni ** fyrir þau þrjú atriði sem ég hló að. Öll voru þau með litlum kínverskum strák sem var illa málhaltur og freðinn píanónörd sem þráði ekkert heitara en að vera kúl (sem er náttúrulega vonlaust). Það var allt og sumt, en dáldið fyndið. Smá nýbúagrín í gangi en það er ekki ómerkilegra en hvað annað (reyndar er allt nýbúagrín með Jackie Chan, þar sem hann mismælir sig á ensku alveg óþolandi ömurlegt og ómerkilegt mismælagrín sem á ekki heima í bíó. Kannski Friends-þáttum en ekki í bíó).

Háttvirtur James Berardinelli (sem linkað er á hér til hægri) dró söguþráð School of Rock vel saman er hann lýsti myndinni sem Sister Act vs.Dangerous Minds. Vil ég bæta við þessa lýsingu hans og segja að School of Rock sé Sister Act vs. Dangerous Minds vs. Love Actually vs. Beautiful Mind. Svo Björn, hér er mynd sniðin fyrir þig og þína tú....spúsu.

Djöfull eru United búnir að missa það... ha? Ég á bara ekki orð....

Stay black......

De Boomkikker



mánudagur, mars 08, 2004

Yfirlýsing

Eins og ég óttaðist hef ég fengið ódýr skot á mig vegna síðasta pistils og þess vegna finnst mér rétt að segja nokkur orð um markmið mitt með ritun hans.

Markmið pistilsins var ekki að varpa nýju ljósi á samskipti manna og dýra, enda tel ég að slík samskipti séu alfarið ónauðsynleg fyrir utan ræktun til manneldis.

Ég var einfaldlega að reyna að fá fólk til þess að hugsa utan við "tabú-rammann". Í gegnum tíðina hafa verið mörg tabú-málefni sem hafa ekki verið rædd vegna tabú-hræðsluástands, enginn þorir að nefna tabú-ið af ótta við fordæmingu eins og ég er að fá smáskammt af núna og það frá frekar opinhugsandi fólki.

Birni tókst að hugsa utan rammans, sbr. komment hjá honum varðandi val á riðnu eða óriðnu lambakjöti.

Það að geta og vera tilbúinn að velta fyrir sér rökum með málefni sem að skiptir mann engu persónulega og/eða maður er alls ósammála er lykillinn að því að geta haldið opnum hug og koma í veg fyrir fordóma. Svo geta að sjálfsögðu verið mun sterkari rök fyrir hinni hlið málsins.

Með þessari yfirlýsingu vil ég á engan hátt gera lítið úr málefnalegum mótrökum sem bárust, einmitt frá systur Björns sem ber nafnið Björk. Hún tók umræðuna í sínar hendur á málefnalegan hátt og er ekkert nema gott um það að segja.

Hetjudáðir

Oft hefur maður heyrt fréttir af hetjudáðum, sumum dáist maður að en aðrar hetjudáðir eru þess eðlis að býsna súran gaur hefði þurft til þess að sleppa því að vinna þær. Eru það virkilega hetjudáðir? Mér finnst ekki svo vera.

Eins og við umræðu um nördaskap leitaði ég á náðir dictionary.com til þess að átta mig á hvaða skilning eigi að leggja í orðið hetja. Ég fékk fullkomna staðfestingu á mínum skilningi. Skilgreiningin var eftirfarandi (í minni þýðingu):

"Hetja er einstaklingur sem er þekktur fyrir mikið hugrekki eða göfugan tilgang, sérstaklega einhver sem hefur hætt eða fórnað lífi sínu."

Tvö dæmi úr fréttum sem ég man eftir og dreg fram varðandi þetta, ég vona að ég muni staðreyndir málanna rétt. Fyrra dæmið varðar mann sem dró meðvitundarlausan dreng upp úr sundlaug og bjargaði lífi hans. Gott mál, lífi drengsins var bjargað en það sem maðurinn gerði var ekkert mál, aðeins illmenni hefði sleppt því að bjarga drengnum og maðurinn hafði nákvæmlega engu að tapa. Þessi maður var góður maður en engin hetja fyrir þetta afrek. Hitt málið varðar ungan föður sem lenti í því að kviknaði í húsi hans. Hann, kona hans og eldra barn komust út en yngra barnið komst ekki út. Faðirinn hljóp inn í brennandi húsið í leit að barninu en kom aldrei út, faðir og ungt barn hans létust bæði. Þarna náðist enginn árangur en göfuglyndi og hugrekki mannsins verður ekki dregið í efa, hann tók hina mestu áhættu, að missa lífið, og tapaði. Þessi maður var hetja.

Hér bendi ég á að árangur er ekki nauðsyn þess að vera hetja, þetta er að nokkru leyti svipað málflutningi mínum varðandi hvenær ákvörðun er góð eða slæm. Aðalatriðið er hvaða hugur er að baki verknaðinum og hvaða áhætta er tekin, hetjan tekur þá ákvörðun að reyna að vinna gott verk vitandi það að hann getur tapað á því. Hvað tapast og hvað vinnst er svo allt annað mál.

Hetja er ekki hetja vegna aðstæðnanna sem hún lendir í heldur hvernig hún bregst við þeim.

Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 04, 2004

Sullumbull

Þessi pistill verður súr. Ég velti fyrir mér hvernig skítur mun þróast eftir útskrift úr háskóla? Hvernig mun maður hátta skrifum sínum? Á maður að halda áfram skítkasti og fíflaskap eða munu ytri aðstæður knýja mann til fágaðri efnistaka og stílbragða? Sjálfur vona ég ekki en það er farið að ganga all verulega á saurhrauk þann er ég nota til skítkasts og ljóst að nýrra pælinga er þörf til að forðast þá stöðnun sem margur listamaðurinn líkir við dauða. Skítsmenn eru miklir listamenn ofan á það að vera nördar (og gott ef ekki leynist hnakki á meðal okkar). Smút. Því kann stöðnun að verða okkur jafn bráður bani og þessum hugmyndasnauðu hordrýlum á listamannalaunum sem setja spegla upp í loft og rukka inn í nafni listarinnar.

En hvert á Skíturinn að þróast? Á þetta að verða pólitískt vefrit? Það hlýtur að teljast ólíklegt enda bara tveir Skítsmanna sem hafa greinilegan áhuga á innlendum stjórnmálum. Annar kostur er að Sketan verði vettvangur kveðskapar og opinnar umræðu um menningu og listir. Ekki er það svo galin hugmynd enda nokkrar vísbendingar um að Saurinn mjakist nú þegar í þá átt. Vísa ég þá til umfjöllunar Skítsmanna um sjónvarpsþætti, tónleikaferðir, kvikmyndaáhorf og samskipti kynjanna svo ekki sé minnst á ferskeytluæðið í byrjun árs og nýútkomna greinaflokkinn Menn og Meinsemdir.

Bjarni fór inn á nýjar brautir í síðasta pistli með umræðu um dýraverndunarlög og lögmæti þess að svala kynlífsfýsnum með mállausum dýrum. Ekki laust við að maður hafi smá áhyggjur af áramótaheiti Bjarna og á hvaða brautir það kann að leiða hann en ég læt mig ekki málið varða fyrr en hann mætir með einhverja illþefjandi rollu á næsta ritstjórnarfund. Þangað til er svosem ágætt að menn komi með nýja vinkla á samskipti manna og dýra.

Til að bæta aðeins við sjónvarpsþátt Björnsins þá datt mér í hug að mæðgur gætu keppt sín á milli auk þess sem ein þraut væri keppni í því að gera sig klára áður en haldið er í bíó,leikhús, út að borða o.s.frv. Fengi þá kvenfólkið stig fyrir hraða, útlit og fyrirferð þ.e. hve mikið umrót á sér stað. Því minna umrót því fleiri stig. En með umróti er átt við hve margir fermetrar eru undirlagðir af snyrtivörudóti, skópörum og flíkum á tíma undirbúnings og við ímyndaða brottför. Pæling. Önnur hugmynd væri rop- og prumpukeppni kvenna. Það væri eitthvað. Efast ekki um að þær þurfi jafn mikið að leysa vind og karlar og þætti mér ansi áhugavert að sjá þær takast á á þessum vettvangi. Fengjust þá stig fyrir hæsta tón og lægsta, lengd og svo stíl. Svo mætti koma með útfærslur á þessu með prumkeppni í ákv. þyngdar og aldursflokkum og keppni milli þyngdarflokka. Pæling.

Að lokum smyr ég *** á American Splendor sem mér þótti fín en varla mikið meira. Paul Giamatti er alltaf traustur en ég var ekki jafn ánægður með hann í þessari mynd og t.d. Storytelling eða Man on The Moon. Kann betur við hann í aukahlutverki. Annars kíkti ég á imdb til að fræðast aðeins um manninn og kemur þá í ljós að þessi silakeppur er sprenglærður frá Yale háskóla í bandaríkjunum. Hefði betur getað ímyndað mér að hann hefði verið uppgötvaður á einhverri poolstofunni í Minnesota með rótarbjór á bringunni í götóttum hlýrabol. En svona geta menn leynt á sér.

Farinn í leikhús...

mánudagur, mars 01, 2004

Náttúrulegt?

Hver hefur ekki heyrt brandara um rolluríðandi bónda og hlegið dátt að honum? Það er fátt sem fólki þykir pervertískara en að eiga í ástarsambandi við einstaklinga úr dýraríkinu sem ekki geta talist til homo sapiens. Slíkt ástarsamband er að sjálfsögðu mjög óhefðbundið, óeðlilegt og ónáttúrulegt en er ástæða til þess að það sé ólöglegt?

Áður en lengra er haldið vil ég biðja fólk að skilja sleggjudóma eftir hérna en hætta að lesa ella. Ég óttast nokkuð fordóma fólks sem tekur venjur samfélagsins sem sjálfgefinn hlut og er aldrei tilbúið að ræða aðrar hliðar málanna.

Skoðum aðeins hugtakið ónáttúrulegt kynlíf. Hinn náttúrulegi tilgangur kynlífs er fjölgun tegundarinnar og því telst dýrakynlíf auðvitað ónáttúrulegt, en þar með er einnig kynlíf samkynhneigðra sem og gagnkynhneigð endaþarms- og munnmök ónáttúruleg. Því getur það að ákveðin tegund kynlífs sé ónáttúruleg ekki verið fullnægjandi ástæða til þess að banna það alfarið.

Eðlilegt eða óhefðbundið er eins afstætt og hægt er og erfitt að byggja lagasetningu á skilningi á því. Hins vegar er það, að því er mér virðist, það eina sem kemur í veg fyrir að kynlíf með dýrum sé löglegt. Helsta lagalega ástæða þessa ólögleika er 209. gr. hegningarlaganna (sjá viðauka að neðan) sem byggir aðeins á því að verið sé að særa blygðunarsemi manna. Aðrar greinar banna ekki kynlíf með dýrum (sem kom mér nokkuð á óvart).

Helstu röksemdirnar fyrir slíku banni finnst mér vera verndunarrök gagnvart dýrunum. Að fá samþykki þeirra fyrir mökunum hlýtur að vera í erfiðari kantinum og kynlíf án samþykkis beggja aðila er óverjandi. Hins vegar hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort rolla, ef aðspurð og gæti svarað, myndi frekar kjósa slátrun fram yfir það að jarma við hamagang og stunur einhvers bóndans. Hver er fórnarlambið í þessu máli, fyrir utan lambið sem þarf að fórna sér fyrir bóndann? (búrúmm tssj) Er ekki bara rétt að leyfa þeim ólukkulegu einstaklingum sem ekki geta náð sér í annað að gamna sér með gimbrunum? Þegar þú, lesandi góður, svarar þessu gleymdu þá eigin þrám og löngunum og reyndu að hugsa upp góð rök fyrir banninu. Það þarf rök til að banna hluti en ekki til að leyfa þá.

Er kannski löglegt að ríða dýrum? (Þessi spurning er ætluð þeim fjölmörgu lögfræðingum og lögfræðidósentum sem skítinn lesa á hverjum degi.)

Til þess að stemma stigu við ýmsum dylgjum og voða fyndnu gríni í kommentum vil ég taka fram að ég er gagnkynhneigður og hef engan áhuga á kynmökum við dýr. Þá er ég hlynntur hjónaböndum og ættleiðingum samkynhneigðra en er að sjálfsögðu hvorki hlynntur hjónaböndum milli manna og dýra né ættleiðingum slíkra para.

Loks vil ég benda á að fyrsta útgáfa pistlasafnsins Manna & Meinsemda er komið út (sjá tengil uppi til vinstri) en það er safn manngreiningarpistla af Grænum skít.

Viðauki úr hegningarlögum

Ég setti inn 199. gr. einnig, svona til gamans.

199. gr. [Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann sem heldur ranglega að mökin eigi sér stað í hjónabandi eða óvígðri sambúð eða hann er í þeirri villu að hann eigi mök við einhvern annan skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Sömu refsingu varðar það ef samræði eða önnur kynferðismök eiga sér stað vegna þeirrar blekkingar að um læknisfræðilega eða aðra vísindalega meðferð sé að ræða.]1)

209. gr. [Hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis skal sæta fangelsi allt að 4 árum, en [fangelsi allt að 6 mánuðum]1) eða sektum ef brot er smávægilegt.]


Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com