GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

miðvikudagur, desember 22, 2004

Jólagjafainnkaup

Senn koma jólin. Þau kalla á eitt mesta vesen ársins: jólagjafainnkaup.

Tala nú ekki um þegar það er engin "eazy-gjöf" sem maður getur keypt án umhugsunar en þó verið viss um að verði viðtakanda til ánægju. Þar sem eazy-gjafir eru þetta árið þarf ég því að ráfa um búðir eins og njóli í leit að einhverju sem þiggjendum kann að vanta eða langa í. (Trixið er þá alltaf að gefa eitthvað sem manni langar sjálfum í, annað er bara bull)

Ég hef þegar farið í eitt mission í Kringluna og eitt á laugaveginn. Ferðin í Kringluna var alger bilun. Allt stappað af fólki og hitastigið innandyra eins og í gufubaði. Gamlar kellingar að skoða hvern einasta hlut og spyrjandi um verð en í leiðinni að stífla gangveginn fyrir mér. Síðan ná þær að toppa pirringinn hjá mér með því að spyrja mig "fyrirgefðu, ert þú að vinna hérna?"

"Nei, andskotinn hafiða" hugsa ég með mér en svara heldur"nei, af hverju heldurðu það?"

Gamla kelling: "Æ, fyrirgefðu, þú ert í flíspeysu svo ég hélt þú værir að vinna hérna."

Já svona er komið fyrir flíspeysunum góðu. Maður er sjálfkrafa stimplaður sem starfsmaður í matvöruverslun þegar maður er í flísi. Það er varla að maður megi labba um bílastæði, þá kemur tóm innkaupakerra á fullri ferð í áttina til manns eins og það sé ekkert sjálfsagðara en að maður komi henni í kerruhólfin. Er flísið dautt? Maður spyr sig.

En ég fór líka á Laugaveginn. Ekki nærri eins mikið af fólki en ekki nærri eins mikið úrval. Þó er alltaf hægt að finna gjafir handa öllu liðinu. Erfiðast við Laugaveginn er að finna bílastæði. En ég fann eitt að lokum og afgreiddi gjafirnar á 1,5 klst. Og það bara nokkuð veglegar gjafir. Að vísu á ég einstaka smáatriði eins og pökkun eftir en nú þarf ég a.m.k. ekki að fara aftur í Kringluna né Smáralindina og get því tjillað á pakkanum fram að jólum.

Að lokum: Ef þið ætlið að gefa bækur í jólagjöf, þá getið þið sparað ykkur 1000-2000 per bók með því að kaupa þær í Bónus. Munar um minna. Getið bætt ofan á gjafirnar sem nemur mismuninum eða bara keypt eitthvað handa sjálfum ykkur t.d. disk, dvd, pylsur etc. Það eru nú einu sinni jólin. Óþarfi að fara á hausin vegna þeirra.

Óska öllum gleðilegra jóla.

Later


mánudagur, desember 20, 2004

Bobby Fischer frelsaður

Það hefur varla farið fram hjá mörgum landanum að við Íslendingar eigum von á fjölgun íbúa landsins um einn. Íslensk stjórnvöld hafa tekið þá ákvörðun að bjóða gamla skákjálknum Bobby Fischer að koma til Íslands og dvelja hér eins lengi og kempan hefur lyst eða löngun til.

Eins og flestir vita, þá kom Bobby til Íslands árið 1972 og sigraði hinn rússneska Spassky í heimsmeistaraeinvígi sem frægt varð. Skákin var háð í mjög pólitísku umhverfi og varð eiginlega hluti af kalda stríðinu. Sigurinn gerði Fischer því að hetju Bandaríkjanna enda var sérhverjum sigri á kommúnista ávallt vel fagnað. Hins vegar varð hann að skúrki þegar hann ákvað að endurtaka einvígið gegn Spassky í Serbíu árið 1992 í tráss við viðskiptabann Bandaríkjanna.

Þessi gjörningur er allur hinn steiktasti. Skákhreyfingin á Íslandi er búin að grafa sig niður í skotgrafir og gerir allt til þess að fá hetjuna sína til landsins og svo er Garðar Sverrisson af öllum mönnum mættur til að hjálpa. Hann ætlar greinilega að reyna að verða aftur maður ársins á Rás 2. Svo tekur Davíð Oddsson af skarið og leggur fram formlegt boð til Bobbys. Kenning mín um ástæður þess er sú að ég held að þetta sé auglýsingatrix hjá Dabba. Hann er að reyna að hrista af sér Kanamellustimpilinn sem er svo rækilega fastur á honum eftir Íraksstríðið og allt því tengt. Hann velur þetta auma smámál sem Bandaríkjamönnum gæti varla verið meira sama um og reynir að gefa Íslendingum þá mynd af sér að hann sé tilbúinn að standa uppi í hárinu á Bandaríkjamönnum. Ágætis ryksláttur hjá honum.

Ástæðurnar sem eru nefndar eru síðan svo smáborgaralegar og snobbaðar að hið hálfa væri tvisvar sinnum of mikið. Það er talað um þennan “mikla skáksnilling” sem “kom Íslandi á kortið” og fleira þess háttar. Staðreyndin er náttúrulega bara sú að hann er þekktur geðsjúklingur með vafasamar skoðanir sem hann básúnar þegar hann fær tækifæri til og þessar skákir sem hann hefur verið að tefla, á Íslandi og í Serbíu, eru bara gróðaleið fyrir hann. Sá sem borgar nóg fær Fischerinn, hvort sem það er einræðisherra í þjóðernishreinsunum eða einhver annar.

Á sama tíma er svo verið að vísa útlendingum sem eru giftir Íslendingum úr landi. Ég myndi miklu frekar fá vinnusaman ungan einstakling heldur en þennan gamla geðsjúkling. Mér skilst samt að hann eigi fullt af pening og það róar mig að hluta að hann geti að minnsta kosti borgað undir sig.

Enn er þó ekki útséð um það hvort þessi “Íslandsvinur” komi til landsins jafnvel þótt íslenskir fjölmiðlar segi að hann langi mikið að koma til Íslands. Reyndar sagði Bobby það ekki alveg nákvæmlega heldur “I want to get out of this fucking Jap place” en það er um það bil það sama. En hvað sem öðru líður verður eflaust forvitnilegt að sjá hvað verður um þann gamla og eflaust mun hann verða okkur til gamans með vitleysisgangi sínum. Svo segir mér líka hugur um að hann gæti birst í áramótaskaupinu.

Pís át.

miðvikudagur, desember 15, 2004

Tilkynnist hér með að líkt og Björninn þá hef ég fjárfest í seríu 1-3 af Seinfeld á dvd. Aaúúúúúúúú. Fékketta á rúman 5000 kall á amazon. Kemur í hús á mánudag. Verður því lítið annað gert um jólin en að liggja uppí prumpusófa og hlæja með jólaöl í annarri og veislumat í hinni.

Það verður sífellt erfiðara og erfiðara að ropa upp úr sér pistli. Lengi var trixið að röfla bara um einhverja mynd sem maður sá í bíó kvöldið áður. Tala nú ekki um ef það var röfl um einhverja vandræðilega leiðinlega mynd á borð við Lord of the rings sem allir virtust elska meir en móður sína.

Nú er ekki svo gott að fara í bíó þar sem það er ekki neina einustu mynd að sjá og hefur ekki verið lengi. Nema kannski Alien vs. Pretador. Já sæll. En burtséð frá henni þá er ekki "jack" í bíó.

En ég hef reynt að kíkja á eina og eina dvd-mynd en þó engar sem ég nenni að tala um á þessum vettvangi. Eða hvað? Um daginn varð mér litið á mynd eftir "meistara" Peter Jackson, hinn sama og gerði Lord of the Rings (geispa við tilhugsunina um þær myndir). Myndin heitir Heavenly Creatures. Ég hafði aðeins heyrt góða hluti um þessa mynd. Að hún "sýndi vel hvers megnugur meistari Peter Jackson væri sem leikstjóri" og bla, bla, bla. Til að gera langa sögu stutta þá var myndin var vægast sagt léleg. Sjaldan hefur jafn leiðinleg mynd farið í DVD spilarann minn. Blossi (eða 810551) með Páli Banine er snilld í samanburði við þessa vælupíku-mynd. Ég var farinn að svitna af óþreygju og mæna upp í loft í tíma og ótíma, svo slöpp var myndin. Set því * á Heavenly Creatures fyrir auma viðleitni og vara alla við þessu djönki.

Ennfremur þykir mér ólíklegt að ég þrauki á fleiri myndum eftir þennan baggalút sem Peter Jackson er.

Annars er íslenski körfuboltinn kominn á fullt. Ætla ekki allir að mæta á Grindavík-Tindastól á eftir. Smút.




mánudagur, desember 13, 2004

Verum töff!

Ég sá myndband við lagið "5 á Richter" með Nylon um helgina. Það þarf ekki að taka fram að þetta var alveg ýkt geðveikt gott lag. Gæti eitthvað sem Einar Bárðar snertir klikkað? Það sem vakti athygli mína í þessu myndbandi, fyrir utan hvað lagið er ýkt geðveikt gott, er umhverfið og andinn í myndbandinu og laginu. Þema lagsins er "hart" ef það er mögulegt hjá stelpnabandi og það fjallar um einhvern rosalegan gaur sem er "5 á Richter" (sem er reyndar ekki neitt neitt, það rétt myndi mælast). Myndbandið gerist svo í og við búr þar sem menn slást og veðjað er á útkomuna. Að sjálfsögðu er þetta allt með berum hnefum og tilheyrandi blóði. Þar sem allt conceptið á bak við Nylon er að reyna að höfða til sem flestra og koma með vöru sem selur verð ég að draga þá ályktun að ofbeldið sé þarna sett inn þar sem það er töff og ætti því að selja. Nokkuð svipað var uppi á teningnum í laginu Race City með Quarashi. Það var frekar hart rokk/rapplag og myndbandið fólst aðallega í því að sýna andlit sem varð æ blóðugra eftir því sem leið á lagið.

Það er svo sem mjög eðlilegt hjá Einari að reyna að nota ofbeldi sem markaðssetningu. Vinsælast mainstream tónlistarstefnan um þessar mundir er líklegast rapp sem kennt er við gangstera. Það gengur út á að lýsa hvernig best er að vinna sig út úr fátækt, eymd og öðrum aðstæðum. Það er að sjálfsögðu með góðri mixtúru af dópsölu, pimpi og svo töfraefninu, ofbeldi. Það er fátt sem hjálpar manni meira en að hamsa einhvern gaur rækilega. Það eru meira að segja komnir tölvuleikir þar sem maður er settur í gervi blökkumanns sem þarf að ræna, berja og drepa til þess að komast áfram í lífinu. Svo er það hliðarbúgrein í leikjunum að berja túrista, gamlar konur og löggur, annaðhvort með gömlu góðu hnefunum eða þá einhverri góðri kylfu.

Svo er það heldur ekki eins og íslenskt samfélag refsi mönnum að ráði fyrir ofbeldi. Gjaldkeri Símans var dæmdur í 6 ára fangelsi ef ég man rétt fyrir stuld á um 200 milljónum. Á sama tíma eru síbrotamenn dæmdir í 1-3 ára fangelsi fyrir fjölda líkamsárása sem dómstólar kalla "sérlega fólskulegar". Ég ætla svo sem ekkert að eyða mikilli orku í að verja fjárdráttinn en persónulega myndi ég frekar vilja láta stela af mér öllu sem ég á en að verða fyrir sérlega fólskulegri líkamsárás en það er bara ég.

Nú eru líka tvö nýleg dæmi þess að menn hafi fengið eitt höfuðhögg og látist eftir það. Væntanlega fá þeir einhvern lágmarksdóm enda hafa þeir bestu afsökun fyrir morði sem til er: "Æ, sorrý. Ég ætlaði bara að buffa hann." Hún virðist hafa virkað ágætlega hingað til. Svo er líka hin sígilda: "Æ, ég ætlaði ekkert að drep'ann, mar. Ég ætlaði bara að berj'ann í mauk."

Því hlýtur það að vera ljóst að ofbeldi er töff og ekkert sérstaklega refsivert. Þarna er komin fyrirbragðsleið til þess að öðlast smá virðingu og álit í þjóðfélaginu án þess að leggja sig mikið fram eða taka mikla áhættu. Við sem hingað til höfum ekki verið neitt sérstaklega töff getum nú orðið töff á einni nóttu með því að buffa einhvern í kássu.

Verum töff – buffum fólk.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Það er ekkert að því að vera útskrifaður úr skólanum og byrjaður að vinna. Nema hvað maður gerir og hugsar lítið um annað en vinnuna. Þannig hefur a.m.k. ástandið verið síðustu 2 mánuði hvað svo sem síðar verður. Er ég handsalaði ráðningarsamninginn hafði yfirmaður minn töluverðar áhyggjur af því að lítið yrði um verkefni fram að áramótum. Annað hefur komið á daginn og hefur það bitnað gróflega á vikulegum skítaskrifum. Er það miður en ég vonast til að geta sinnt honum aðeins betur næstu vikur.

En það eru líka ýmsir kostir við að vera útskrifaður og farinn að vinna. Bankareikningurinn blæs skemmtilega út út í stað þess að fuðra upp í gamla góða atlasinn um hver mánaðarmót.

Ennfremur eru viðbrigði að þurfa ekki að fara í jólapróf með kúkinn upp á bak, blaðrandi í símann úr hófi fram og leitandi í örvæntingu að glósum og gömlum próflausnum hjá skólasystkinum. En ég vorkenni fólki í prófum svosum ekki neitt því eftir prófin fara flestir í 2 vikna jólafrí meðan ég strita pungsveittur ?dag sem dimma nátt? (Björn, syngdu með).

Talandi um að reyna á sig. Ljóst og ég og Boto verðum mazzaðri en Skúli og Tobo þegar að dómsdegi kemur (hvenær sem hann er). Bjarni segist hafa farið 9 sinnum (reyndar áður en að keppni hófst) og ég lýg engu þegar ég segist vera búinn að fara 7 sinnum (eftir að keppni hófst). Ég finn nú þegar hvernig massinn er farinn að láta á sér kræla. Kemst varla í skyrtuna á morgnana og stutt í að maður detti í próteinsjeika og skræpóttar lyftingabuxur. Boto er hins vegar farinn að vinna allsvakalega á þessum 24% og kominn í galla með belti und alles. Skúli og Tobo, þið getið gleymt þessari keppni. Við eigum sigurinn vísan.

mánudagur, desember 06, 2004

Þjóðarblómið

Nýlega var kosið þjóðarblóm okkar Íslendinga. Leitað var að því blómi sem telst hvað best lýsandi fyrir Íslendinga og íslenska náttúru. Fyrir valinu varð holtasóleyin. Ég kaus hana reyndar en hefði ekki gert það hefði ég vitað af neðansjávarplöntu einni sem vex í Mývatni. Þetta er einhvers konar þörungabolti og ber það ágæta nafn, kúluskítur. Ekki nóg með það heldur er þetta fagurgræn planta sem er líklegast eins nálægt því og nokkur einstakur hlutur að vera grænn skítur. Ég vil því fagna kúluskítnum og býð hann velkominn á Græna skítinn.

Fyrir áhugasama bendi ég á Kúluskítshátíðina sem nú þegar er byrjað að skipuleggja og auglýsa þótt tæpt ár sé í hana.

Svo má líka hafa gaman að því að þýða kúluskítinn yfir á erlenda tungu. Til dæmis myndi hann útleggjast sem ballshit á ensku og Kugelscheisse á þýsku. Kannski geta erlendir fréttaritarar skítsins lagt mér lið við fleiri þýðingar.

Þetta er kúluskíturinn í öllu sínu veldi:

.

Ég þakka þeim sem lásu.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com