GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Klósettpistill #7? eða mambo # 5? maður spyr sig.

Lengi hafa klósett verið skítsmönnum hugleikin. Hafa fjölmargir lortar litið dagsins ljós í kjölfar ævintýralegra klósettferða í mismunandi löndum og við misjafnar aðstæður. Á klósettum og þá sérstaklega almenningsklósettum er alltaf hægt að finna efni til umfjöllunar í léttum pistli. Ætla ég í þetta skiptið að fara yfir þær aðferðir sem menn hafa til að þerra hendur eftir handþvott á klósetti.

Fyrst kemur smá "dilemma” sem ég bið lesendur um að leysa. Ég mun upplýsa hvernig ég brást við í næsta pistli.

Frásögn hefst
Ég lenti í heldur erfiðum aðstæðum á klósetti á Ítalíu nú fyrr í vetur. Klósettið var á hamborgarastað og ég var búinn að panta mér ólgandi kvartpundara með öllu tilheyrandi eftir að hafa beðið í röðinni í tæpar 10 mín. Eftir smá átök og afturkreisting hafði ég, að herramanna sið, plantað einum dökkbrúnum og gljáandi í kant eins klósettsins og gekk alsæll út úr básnum tilbúinn til handþvottar. Nema hvað, er ég skrúfa frá vatninu kemur bara brúnt vatn út. Nú voru góð ráð dýr. Ekki ætlaði ég að smakka vatnið til að sannreyna ágæti þess og því spurði ég mig hvort maður ætti nokkuð að þvo sér um hendur. Þetta hefði jú vel getað verið “grófhreinsað” skólpvatn. (Þessi Ítalir eru til alls líklegir). Frásögn lýkur
En hvað hefðu þið, lesendur góðir, gert í þessari stöðu?

a) Þvegið ykkur um hendur með brúna vatninu og treyst því að þetta væri nægilega hreint vatn.
b) Spýtt í lófana og notað hrákann sem sápu (pæling).
c) Sleppt því að þvo hendur.
d) Eitthvað annað

Athuga ber að hamborgarinn er á leiðinni á borðið, biðröð er 10 mín og þessi ákvörðun gæti kostað þig heilsuna.

En umfjöllunarefni þessa pistils átti að vera þerrun handa eftir handþvott á almenningsklósetti. Þær aðferðir sem manni standa yfirleitt til boða eru ekki margar. Fyrst skal nefna handklæðið sem manni ber að “draga hreint fyrir næsta mann”. Ég hef aldrei séð slíkt tæki án þess að saursósa tuskan lafi niður úr tækinu og tækið líti út fyrir að vera bilað. En ef tuskan lafir ekki og maður ætlar draga sér hreint, þá er það alltaf sama sagan: tuskan er föst og tæki er bilað. Þó eru undantekningar sem sanna regluna en þær eru fátíðari en fjögurra blaða smárar.

Annað tæki sem er út í hött er þurrkarinn. Þær eru ófáar athugasemdirnar sem ég vil koma á framfæri til þess hálvita sem fann upp þetta drasl. Reyndar er pælingin ágæt en virðist með öllu óframkvæmanleg með fullnægjandi hætti. Oftar en ekki er tækið það kraftlaust að það tekur nokkrar mínútur að þerra hendur og á eftir manni myndast slík röð að maður neyðist til að víkja hálfblautur. Líka er algengt að tækið þurfi að endurræsa á 3 sekúndna fresti því það er þannig stillt að menn eiga að þerrast á 3 sekúndum. Þetta er náttúrulega bara bull sem enginn nennir að standa í. Þetta minnir mig á annað vandamál þegar maður er í samkvæmi í heimahúsi. Þá þvær maður hendur og ætlar að þerra í handklæði við vaskinn. En þá er það orðið rennblautt af notkun fyrri klósettgesta. Á maður að þerra hendur í næsta handklæði, hugsanlega sparihandklæði einhvers ábúenda heimilisins? Maður spyr sig hvort það sé ekki bara betra að sleppa því að þerra hendur.

Þá er komið að smá vandamáli. Það er nefnilega svo ótrúlegt að ef maður sleppir því að þurrka sér um hendur eftir handþvott þá hittir maður alltaf einhvern sem réttir fram spaðann. Þá er mjög óþægilegt að þurrka sér á hendi náungans og þeim mun verra að taka ekki í hönd náungans. En verst er að segjast vera nýkominn af klósettinu og hún sé öll blaut þ.a. maður getur ekki tekið í spaðann á viðkomandi. Þá líður manni alltaf eins og maður hafi alls ekkert þvegið sér um hendur. Þetta er vesen.

Bestu almenningssalernin eru þannig úr garði gerð að við vaskinn er kasssi fullur af einnota pappírsservéttum sem hægt er að þurrka sér í og henda í ruslið. Það er fljótlegt og þægilegt og maður getur tekið í hönd allra eftir á alveg óhræddur, og tilbúinn að takast á við öll vandamál. Bravó.

Farinn að hakka í mig afganga frá sprengidegi....svo gott í morgunsárið.

mánudagur, febrúar 23, 2004

Framkvæmdarstjóri ástarmála óskast

Hér með auglýsist eftir umsækjendum í stöðu framkvæmdarstjóra ástarmála gagnkynhneigðs karlkyns einstaklings. Einstaklingurinn sem um ræðir er þolanlega viðkunnanlegur og vel meinandi en þarfnast stjórnunar á umræddu sviði.

Starfslýsing

Hlutverk framkvæmdarstjóra felst í því að stýra ástarmálum einstaklingsins með það að markmiði að styðja við framþróun ástarlífsins en koma á sama tíma í veg fyrir álitshnekki og viðhalda góðu orðspori einstaklingsins. Í þessu felst að koma í veg fyrir slæmar ákvarðanir, teknar undir ölvun, stýra aðflugi í samböndum og útbúa flóttaáætlanir. Framkvæmdarstjóra er ekki ætlað að stofna til sambandsins eða á einhvern hátt koma einstaklingnum á framfæri heldur stýra þróun sambands eftir að frumsamband hefur náðst.

Hæfnikröfur

Umsækjendur mega vera hvort sem er karlkyns eða kvenkyns en gagnkynhneigð umsækjanda er talin ófrávíkjanlegt forskilyrði fyrir starfið. Umsækjendur skulu umfram allt hafa góða félagslega hæfni, hafa nokkra reynslu af málaflokknum og vera af góðu þekktir af þeirri reynslu sinni. Sér í lagi skulu karlkyns umsækjendur ekki hafa skilið eftir sig sviðna jörð í samböndum sínum nema mögulega aðeins snemma á ferlinum og kvenkyns umsækjendur mega ekki vera sækóbitches. Grunnþekking á gæðastjórnun er æskileg en verður ekki sett sem forkrafa ef umsækjandi getur sýnt fram á mikla hæfni að öðru leyti. Þrátt fyrir að starfið feli í sér þó nokkra stjórnun mega umsækjendur ekki vera haldnir stjórnunaráráttu. Þá eru velviljaðir einstaklingar líklegri til að hreppa starfið en aðrir.

Reynsla

Umsækjendur skulu hafa a.m.k. 5 ára reynslu sem virkir þátttakendur á hinum gagnkynhneigða markaði og hafa að baki 3 eða fleiri sambönd sem spanna yfir meira en tveggja mánuða tímabil.

Laun

Laun eru eftir samkomulagi en verða væntanlega að mestu leyti í formi árangurstengds klapps á bakið.


Að lokum skal minnst á það að æskilegt er að umsækjendur sjái leiðir til þess að bæta fyrir þann skaða sem auglýsing þessi veldur.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Hindúíska blökkukonan sem tók 200 kíló í bekkpressu

Lengi vel horfði ég á sjónvarpssápuna um læknana á Bráðavaktinni. Þetta voru jafnan bombuþættir, að mér fannst, með mikilli dramatík og miklum sviptingum en alltaf sama trausta leikaraliðinu. En smám saman þóttu mér þættirnir staðna allsvakalega þegar rauðhærða hækjan Kerry Weawer (þessi með hækjuna) fór að vera aðalpersóna þáttanna, grenjandi og stynjandi yfir öllu. Þá var mér nóg boðið og nú hef ég ekki horft á Bráðavaktina svo árum skiptir og sakna þeirra ekkert.

En um daginn, eftir mánudagsbolta, varð mér litið á þátt sem að mörgu leyti svipar til Bráðavaktarinnar en er alger andhverfa í efnistökum og áhrifum á áhorfendur. Nei, ekki Chicago Hope (það var nú meiri viðbjóðurinn). Það er þátturinn Nýgræðingar eða Scrubs á Rúv. Maður er alveg kaldur að hafa ekki séð þetta fyrr. Mikið djöfulli er þetta fyndinn andskoti. Af hverju hafa sjónvarpssjúklingar sem alltaf eru að röfla yfir raunveruleikasjónvarpi og skítaþáttum ekki bent á þennan gullþátt? Maður spyr sig.

Reyndar er ég aðeins búinn að sjá tvo þætti svo maður þorir ekki að hengja sig upp á gæði þessa þáttar en þessir tveir voru þvílíkar bombur að maður sá fram á bombu- mánudagskvöld út veturinn. En að sjálfsögðu vill þannig til að síðasti þáttur í seríunni er á mánudaginn kemur. Maður verður því bara að bera harm sinn hljóði og bíða eftir næstu seríu.

Annars kíkti kallinn á Gaukinn í gær. Þar fór hljómsveitin Blúsbyltan hamförum á sviðinu. Léku þeir blússkotið rokkabillí djúspönk reif, drifið áfram af skondnum textum og léttleika. Lék bandið þrjú ný lög en að sjálfsögðu mátti líka heyra nýklassísk lög á borð við Skítugt vatn, Síðasta Blaðsíðan og Brotinn Kompás. Var Blúsbyltan fersk allan tímann en þó aldrei ferskari en í lokalaginu sem leikið var eftir uppklapp nr. 2. Lagið (sem ég man ekki hvað heitir) var æpandi morðballaða sem hefði sómað sér vel á morðballöðudisk Nikka Hellis og að mínu mati langbesta lag þessa annars stórfínu tónleika. Þess ber að geta að Blúsbyltan mun halda uppi fjörinu á Grandrokk annað kvöld og hefst tónlistarflutningur uppúr miðnætti. Vertu þar eða vertu aspas. Kallinn!!

Að lokum má benda fólki að kíkja á stórmyndina The House of Sand and Fog ***1/2. Þetta er önnur myndin í röð sem Ben Kingsley fer á kostum í. Hin myndin var Sexy Beast sem er bara total snilld. Svo er Jennifer Connelly alltaf hugguleg á hvíta tjaldinu og fer hún vel með sína rullu í þessari mynd.

Allt virðist nú stefna í það að Guðmundur verði krýndur (rakaður) hnakki skítsins. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess. Guðmundur virðist ekki sáttur. En ég spyr Guðmund, er þetta ekki bara ágætt?? Þetta er rosa gott á CV-ið. Laaalllllleeeeeeeeeeeegt!!!

Smyr L-i á´etta.
Farinn á sundæfingu..

mánudagur, febrúar 16, 2004

Góð ákvörðun?

Laugardagskvöldinu síðastliðnu varði ég í afmælisteiti einni og naut ég hennar bara ágætlega. Veru minni í teitinni lauk þegar ég og tveir aðrir pistlahöfundar Skítsins ákváðum að rétt væri að kanna hvað miðbær Reykjavíkur hefði upp á að bjóða. Sú ákvörðun var tekin um kl. 2. Við þurftum að sjálfsögðu að bíða nokkuð eftir leigubíl eins og vaninn er á þessum tíma svo að við vorum ekki komnir niður í bæ fyrr en rúmlega hálf þrjú. Þar var allt eins og við mátti búast, brjálaðar raðir á alla sómasamlega staði og eftir að hafa týnt öðrum samferðamanni mínum fórum við hinir tveir fljótlega heim. Við vorum nokkuð sammála um að það hefði verið slæm ákvörðun að fara niður í bæ. Við vorum hins vegar allsendis ósammála um hvers vegna ákvörðunin hafði verið slæm. Hann vildi meina að það væri vegna þess að bæjarferðin reyndist misheppnuð á meðan ég hélt því fram að hún ákvörðunin hefði verið slæm þar sem við hefðum átt að geta sagt okkur að bæjarferðin yrði misheppnuð. Ég stend nefnilega fastur á því að gæði ákvarðanar séu alfarið óháð afleiðingum hennar.

Tökum mjög einfalt dæmi. Ímyndum okkur að einhver greindarskertur einstaklingur bjóði upp á happdrætti þar sem 90% líkur eru á því að tvöfalda það sem lagt er undir en 10% líkur á að tapa öllu. Ég tel það mjög góða ákvörðun að taka þátt í þessu happdrætti enda væntigildi þess 90% hagnaður! Ég kaupi því miða en lendi í þeirri ógæfu að tapa þrátt fyrir litlar líkur á tapi. Ef ég álykta nú að þar sem ég tapaði hafi ég tekið slæma ákvörðun þegar ég ákvað að kaupa miða get ég ómögulega tekið þátt aftur í happdrættinu þar sem væri þá að taka sömu ákvörðun og áður sem hlýtur þar af leiðandi að vera slæm. Því hætti ég þáttöku í happdrættinu og kem í veg fyrir að ég geti grætt peninga þangað til áðurnefndur greindarskertlingur fer á hausinn. Þetta finnst mér ekki skynsamlegt. Því verð ég að halda mig við það mat mitt að ákvörðunin um að taka þátt í happdrættinu hafi verið góð þrátt fyrir að ég hafi lent í því að tapa.

Örlítið flóknara dæmi: Sem einhleypur maður hef ég tilhneigingu til þess að reyna við stelpur. Oft felur það í sér fjárútgjöld í formi vökvunarkostnaðar og annarra tilfallandi gjalda. Þegar ég reyni við stelpu eru einhverjar líkur á að það takist og einhverjar á að það mistakist (af virðingarskyni við sjálfan mig ætla ég ekki að reyna að meta þær líkur). Augljóslega mistekst viðreynslan stundum og ég stend upp einhverjum krónum fátækari en ég sé sjaldnast eftir því að hafa reynt enda tók ég góða ákvörðun á grundvelli mats á líkum á árangri.

Eina tilfellið sem afleiðingar ákvörðunar geta haft áhrif á mat mitt á gæðum hennar er þegar afleiðingarnar leiða í ljós að ég gæti hafa mismetið líkur á árangri. Í því tilfelli var ákvörðunin mögulega byggð á röngum forsendum og gat því ekki verið eins góð og ef forsendurnar hefðu verið rétt metnar.

Því vil ég endilega hvetja fólk til þess að hugsa sig tvisvar um áður en það fer að sjá eftir einhverju sem það gerir. Ef eftirsjáin kemur upp í hugann, hugsaðu þá um hvort leiðindaafleiðingarnar voru fyrirsjáanlegar eða ekki. Ef ómögulegt var að sjá fyrir að væntanlega yrði afleiðingarnar slæmar er ekki, með neinni skynsemi, hægt að vera reiður út í sjálfan sig, þetta var bara óheppni. Ef leiðindin voru fyrirsjáanleg má hins vegar alveg skalla vegg, slíta rassahár eða refsa sér á einhvern annan hátt fyrir slæma ákvörðun.

Góðar stundir.

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

Feminísk umræða um lýtaaðgerðir auk bíórýni

Það heitasta í umræðunni þessa dagana (á eftir móðursýki Bandaríkjamanna vegna geirvörtu fröken Jackson) eru lýtaaðgerðirnar á stöð 2. Rut Reginalds ætlar að lappa uppá síðuspikið og signa tepokana og reyna aðeins að strekkja á augnlokunum sem eru orðin svo slöpp að mælieiningin augnablik er búin að lengjast um helming hjá henni. Virðist fólk og þá einkum kvenfólk hafa miklar skoðanir á hugtökunum “siðferði” og “ábyrgð” í þessari umræðu. Er siðferðislega rétt að framkvæma slíka aðgerði í “beinni útsendingu” ?; brýtur þetta ekki gegn siðareglum lækna? Bera fjölmiðlar enga ábyrgð lengur? o.s.frv. Í kastljósinu í gær komu þrjár konur í viðtal til að ræða þetta mál. Ein var þingkonan Dagný Teamplayer, önnur var verkefnastjóri lýtaaðgerðar Rutar og sú þriðja sat í miðjunni og ég náði ekki hvað hún var eða gerði eða hvað hún var að segja. Ekki mjög eftirminnileg týpa. Hinar tvær voru öllu eftirminnilegri. Verkefnastjórinn hafði greinilega látið strekkja á sér andlitið nokkrum sinnum því það minnti einna helst á andlit e-s sem hefur strekkt sokkabuxur yfir andlit sitt og sullað smá andlitsmálingu yfir. Þingkonan var eftirminnileg fyrir það að hún gat ekki fært nein rök fyrir því af hverju það væri rangt að hafa lýtaaðgerð fyrir sjónvarpsefni. Hún talaði um að pressan á kvenfólki um að halda útlitinu sem bestu væri þegar svo mikil að það væri ekki á það bætandi. Konur eigi að vera sáttar við sig eins og þær eru og bla. bla. bla.

Hér er mín skoðun á þessu máli. Lýtaaðgerðir í sjónvarpi eru fínt mál. Þetta er forvitnilegt, að mörgu leyti fræðandi og vekur mann til umhugsunar. Á sama tíma er ómögulegt að skilja hvernig þetta setur pressu á konur. Af hverju á sjónvarpsefnið að setja meiri pressu á kvenfólk en þegar illa hirt og forljót kona er tekin í gegn í sjónvarpi, klædd upp á nýtt, greidd upp á nýtt og förðuð upp á nýtt. Fyrir mér er þetta sami hluturinn. Eini munurinn er kostnaður fegurðarinnar og svo það að breytingar lýtaaðgerða eru varanlegar.

En ég veit ekki hvað þingkonan óttast að muni gerast í kjölfar þessara þátta. Óttast hún að allar konur á fertugsaldri rjúki á biðlista með 5 milljónir í vasanum til að lyfta aðeins á sér “júllunum”. Hefur hún enga trú á kvenfólki? Maður spyr sig. Þær verða jú sjálfráða við 18 ára aldur og ættu að geta tekið ábyrgð á sjálfri sér, sínum líkama, sínum fjárráðum og sínu útliti þó svo þær sjái sjónvarpsþátt hvar framkvæmd er fegurðaraðgerð fyrir milljónir. Mér þætti bara forvitnilegt að sjá fleiri aðgerðum fylgt í sjónvarpi. Flestir þurfa einhvern tíma að gangast undir aðgerð einhvers konar og þætti mér ekkert verra að hafa fræðst aðeins um aðgerðina fyrirfram, í máli og myndum.

En úr þessu viðbjóðslega leiðinlega topic-i yfir í þem máli skiptir. Kvikmyndir. Hér eru smá komment á þær sem ég sá síðan síðast.

Monster ***1/2: Átakanleg mynd sem skartar Charlize Theron í aðalhlutverki. Líkt og Þorbjörn komst að orði eftir myndina þá er andrúmsloft myndarinnar mjög svipað og í Boys Don´t Cry, það er dapurlegt og vonlítið. Frammistaða Theron er með þvílíkum ágætum að hún getur farið að fægja arinhilluna undir Óskarinn. Leikur hún alveg fáránlega vel og fái hún ekki Óskarinn er eitthvað að.

Óvinurinn eða L’adversarie ***:
Líkt og Monster er þessi mynd byggð á sönnum atburðum. Mér gæti ekki verið meira sama. Góðar myndir eru góðar og lélegar myndir eru lélegar óháð því hvort verið sé að segja frá sönnum atburðum eður ei. Þessi mynd er í þyngri kantinum og hægari en Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra. En það er stíll yfir myndinni og hún er vel leikin.

Lost in Translation ***: Fín mynd en ég bjóst við meiru. Ég átti von á meiri karakterum, áhugaverðugri samtölum og meiri tilfinningum. Myndin er þó aldrei leiðinleg, langt því frá, og vakti athygli mína hvað Scarlett Johanson (Ghost World) er alveg óhugnanlega aðlaðandi leikkona. Minna persónutöfrar hennar á aðra upprennandi leikkonu, Maggie Gyllenhal (Secretary). Báðar mjög svo hrífandi leikkonur. Bill Murray er solid allan tíma en ég gútera engan Óskar fyrir þessa frammistöðu. Það þarf meira til.

Farinn að hlusta á nýja diskinn með Noruh Jones......

JÁ SÆÆÆÆÆÆÆÆLLLL!!!!!!

mánudagur, febrúar 09, 2004

Einfalt líf?

Á sunnudagskvöldum er nú í gangi “raunveruleikaþáttur” sem nefnist “Simple Life”. Hann felst í því að tvær ríkar ofdekraðar gellur sem ekkert hafa gert um ævina nema að djamma eru sendar á sveitabæ þar sem þær eiga að taka þátt í hinum ýmsu daglegu verkum. Þetta eru þær Nicole Richie, dóttir ballöðukóngsins Lionel Richie, og Paris Hilton sem er ein af erfingjum Hilton-hótelaveldisins.

Þær stöllur eru orðnar frægar fyrir það að vera af frægum komnar, djamma stíft og svo síðast en ekki síst fyrir að vera gellur. Richie-stelpan er reyndar ekkert off-the-chart falleg en ef hún væri sett einhvers staðar annars staðar en við hliðina á Paris Hilton þætti hún örugglega ágæt. Paris þessi er nefnilega ein sú svaðalegasta í bransanum og nokkrar mínútur með hana fyrir augunum eru nóg til þess að gera mann afhuga nokkurri annarri í þó nokkurn tíma. Það bætir svo gráu ofan á svart að vinkonurnar eru með stöðugar kynferðislegar tilvísanir sem er alveg til þess að æra óstöðugan. Sú litla huggun sem maður fær felst í því að vita hversu rosalega útkeyrð þessi höfuðborg Frakka er. Það er frægt orðið og náði hápunkti þegar hún týndi heimagerðu myndbandi þar sem hún þiggur aftanígjöf frá góðvini sínum. Þessi ágæti vinur hennar laumaði víst myndbandinu stoltur út á alnetið þar sem almenningur gat vegið og metið þessa ágætu stúlku.

En að mergnum málsins. Eins og áður segir er Paris slíkt augnakonfekt að ekki er annað hægt en að hún rugli mælikvarða manns á fegurð í ríminu. Björn velti fegurð fyrir sér fyrir 12 dögum síðan í áhugaverðum pistli. Niðurstaðan úr umræðu í kjölfar þess pistils varð sú að þrátt fyri að fólk myndi líklegast fríkka með tímanum yrði alltaf til fegurðarelíta sem skemmir fyrir öllum hinum með óeðlilegum samanburði. Paris er hiklaust ein þeirra en ég segi að þegar heimurinn verður orðinn það fallegur að hún væri meðalmanneskja þá held ég að fólk neyðist til að hætta að kvarta.

Hingað til hefur umræðan um svo óeðlilegar fyrirmyndir í sjónvarpi og tískutímaritum snúist um þjáningarnar sem stúlkur þurfa að ganga í gegnum til þess að halda í við þá fegurðarímynd sem þessir miðlar skapa. Ég vil hins vegar beina umræðunni að okkur strákunum. Hvers eigum við að gjalda þegar svona er haft fyrir framan augun á okkur daginn út og inn, vitandi það að svona nokkuð mun aldrei koma innan kílómetra radíuss frá okkur? Við erum hin sönnu fórnarlömb í þessu máli, okkur eru stöðugt sett þau markmið að ná í gellur á borð við Paris (eða eitthvað nærri henni) á meðan framboð á slíkum varningi er takmarkað en eftirspurnin næg og vel það.

Já, það er margt bölið sem við búum við og margur vandinn sem við stöndum frammi fyrir. Það er því alveg ljóst að þótt stelpur þurfi að búa við geðsveiflur, mánaðarlegar og aðrar, þá er það langt í frá að hjá okkur piltunum sé þetta einfalt líf.

Að lokum vil ég þakka lesendum skítsins fyrir að veita mér þann heiður að kjósa mig nörd skítsins. Slíka yfirburðakosningu hefur maður ekki hlotið síðan ég, Björn og Guðmundur vorum kosnir eftirminnilega í stjórn Kvikmyndadeildar Listafélags MR.

Góðar stundir.

P.S.
Björn, þú átt könnun þessa vikuna.

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Af nördum og nærbrókum

Já sælir lesendur. Björn slöngutemjari fór mikinn í síðasta pistli og sköpuðust heiftarlegar umræður í kjölfar skrifa hans. Kæmi ekki á óvart ef Morgunblaðið tæki þessa umræðu upp á arma sína eða a.m.k. birti hluta pistilsins í dálknum “Hlerað af netinu”. Nema hvað, þá vill Björninn hafa snákinn frjálsan bak við buxnaklauf og þá er líklega einfaldast að hann fleygi ammoníaksýrðum Spee-do brókunum sínum á haugana og fjárfesti í boxerum. Ekki flóknara en það. Óþarfi að eyðileggja heilu kvartbuxurnar í tómu hugsanaleysi. Önnur hugmynd er að Björn hanni e-s konar flísnörrur sem anda og falla sem flís við rass. Myndi ekki skemma að hafa 66°Norður merkið framan á slíkri brók. SmÚÚÚt.

Lengi hef ég veld þessari nördaumræðu fyrir mér. Tel mig vera nörd og sé ekkert að því. Því ef maður er ekki nörd, hvað er maður þá? (Góð spurning, þó ég segi sjálfur frá.) Persónulega vil ég frekar flokkast sem nörd en til dæmis hnakki (*) eða tjokkó (**) eða jafnvel eitthvað hip-hop wannabe með derhúfu. Verst þætti mér líklegast að vera bara venjulegur og óskilgreindur. Það fólk er alveg út í hött. Ekki hægt að tala við það. Það hefur ekkert að segja, hefur engin áhugamál. Jú, það fór út í búð í gær og gleymdi veskinu út í bíl þegar það var komið að kassanum.“, ha haha, frábær saga hjá þér venjulega gimp. Hvað gerðist svo??” hugsar maður og setur upp gervihlátur. Svo er algengt meðal óskilgreinda fólksins að ef það mismælir sig þá mætti halda að það sé það fyndnasta sem það hafi lent í svo mánuðum skipti. Það vita allir um hvaða fólk ég er að tala. En ef þú lesandi góður veist það ekki, þá ertu örugglega bara venjulegur og óskilgreindur. Ah, kemur.

En svona í lokin þá kíkti ég á Big Fish síðustu helgi og þótti óttalegt miðjumoð. Í mínum bókum slefar hún ***. Hef aldrei fílað Tim Burton og hans ævintýrarembing. Myndin ku vera í anda Forrest Gump skv. auglýsingum kvikmyndahúsanna. Það er nú meira kjaftæðið.Vil benda fólki á að þegar myndir eru kynntar með þessum hætti þá eru meiri líkur en minni að myndin sé á jaðri þess að vera slök. Önnur dæmi í auglýsingabransanum eru að sjálfsögðu “ Í anda Tarantino!!” og “Frá meistara Luc Besson”. Þetta er bara vitleysa.

Annars kíkti ég líka á myndina Evrópugrautur eða L’auberge espagnole á frönsku kvikmyndahátíðinni í Háskólabíói. Þessi mynd er easy ***1/2 og viðbjóðslega fyndin út í gegn. Kom mér á óvart því hingað til hefur mér þótt franskur húmor farsakenndur, kjánalegur og leiðinlegri en Ding Dong á FM 957.Þeir eiga þó til að detta í gríngírinn og er þessi í góðum gír mest alla myndina. Ágætis tilbreyting frá eyrnaskemmandi steraöskrum úr LOTR og Last Samurai.

Læt þetta gott í bili.

Farinn á árshátíð.

(*) (hnakkur er líka til. Á það á við um extreme case, fólk með tribal tattoo og allan pakkann)

(**) (reyndar er maður bara svo náttúrulega dökkur að það er skiljanlegt að einhverjir flokki mann undir tjokkó. Laglegt).

mánudagur, febrúar 02, 2004

Er ég nörd?

Ég hef ávallt staðið staðfastur í þeirri trú minni að ég sé nörd. Ég hef gaman að góðum stærðfræðidjókum, hef tekið þátt í ófáum stærðfræðikeppnum snemma á laugardagsmorgnum og spila civilization 3, helst á netinu. Hins vegar hef ég jafnframt ávallt talið að ég sé fremur kúl af nörd að vera ef slíkt er hægt. Ég hef jafnframt oft deilt við menn um hvað felist í því að vera nörd og hvort það sé nauðsynlega slæmt að vera nörd. Því er mikilvægt að svara spurninginni: Hvað er nörd?

Þegar flestir hugsa um nörd kemur upp strákslegur, álkulegur, örlítið bólugrafinn unglingur með gleraugu sem hefur mikinn áhuga á tölvum, stærðfræði eða öðrum greinum sem almenningur hefur ekki sterka löngun á að setja sig inn í. Ég hef hins vegar reynt að rökstyðja að nördar komi úr fleiri áttum en þessum viðteknu nördahópum. Ég hef verið að reyna að koma fótum undir eftirfarandi skilning á orðinu:

Nörd er sá sem er mjög sérhæfður á ákveðnu sviði og notar frístundir sínar til þess að sinna þessu áhugasviði sínu. Nörd byggir jafnframt húmor sinn að miklu leyti á áhugasviði sínu og segir því mestmegnis gamansögur sem aðeins samnördar hans geta hlegið að.

Með slíkum skilningi geta nördar komið úr flestum þáttum þjóðfélagsins. Menn geta þá verið tölvunördar, viðskiptanördar eða jafnvel knattspyrnunördar. Ég hef kynnst bankaheiminum nokkuð og hef orðið var við húmor sem byggir alfarið á hugtökum úr viðskiptaheiminum og utanbransamenn eiga erfitt með að skilja eða hlæja að. Þeir sem slíkan húmor iðka myndu því hiklaust teljast til nörda samkvæmt ofangreindum skilningi. Athygli skal vakin á því að það er ekkert sérstaklega slæmt að vera nörd í þessum skilningi.

Hins vegar hefur þessi skilningur minn ekki almennt verið samþykktur svo ég leitaði á mið orðabóka til þess að fá formlega skilgreiningu. Svona hljóðar skilgreiningin á nörd á dictionary.com (snarað lauslega yfir á íslensku):

1. Hlægileg, klaufaleg eða óaðlaðandi persóna.
2. Persóna sem hefur sérstaklega mikinn áhuga og sérhæfða þekkingu á ákveðnu sviði innan vísinda- eða tæknigreina en er álitin félagslega klaufaleg, skert eða vanhæf.

Hér má ljóst vera að heldur neikvæðari mynd er dregin upp af nördinum. Athugum þó að fyrri skilgreiningin er svo til innifalinn í þeirri seinni. Einnig er skilningurinn minn að ofan að mestu innifalinn í seinni skilgreiningunni. Að því sögðu legg ég til nýjan skilning og hugtakanotkun í umræðunni um nörda. Hún tekur mið af bæði mínum skilningi og formlegri skilgreiningu dictionary.com og felur í sér fjögur hugtök, nördinn, jákvæðan hálfnörd, neikvæðan hálfnörd og alnörd:

Jákvæður hálfnörd er sá sem er mjög sérhæfður á ákveðnu sviði og notar frístundir sínar til þess að sinna þessu áhugasviði sínu. Jákvæður hálfnörd byggir jafnframt húmor sinn að miklu leyti á áhugasviði sínu og segir því mestmegnis gamansögur sem aðeins samnördar hans geta hlegið að.

Neikvæður hálfnörd er hlægilegur, klaufalegur eða óaðlaðandi einstaklingur sem álitinn er félagslega klaufalegur, skertur eða vanhæfur.

Alnörd er sá sem telst bæði jákvæður og neikvæður hálfnörd.

Nörd er sá sem telst jákvæður hálfnörd, neikvæður hálfnörd eða alnörd.

Af öllu ofansögðu er deginum ljósara að ég er nörd en með þessum skilgreiningum get ég enn haldið í þá von mína að ég sé sá svali nörd sem jákvæðir hálfnördar geta verið án þess þó að taka á mig neikvæðnina sem felst í hinum neikvæða hálfnörd.

Fyrir þá sem velkjast í vafa um sinn innri nörd vísa ég á neðangreind próf. Bæði snúa þau þó að tölvunördum svo aðrir einstaklingar fá ekki staðfestingu á nördisma sínum með þeim. Fyrra prófið mælir hversu mikill nörd maður er (ég skoraði 31,91% í því). Seinna prófið er vafasamara og krefst þess að maður sé massatölvunörd til þess eins að geta skilið niðurstöðuna.

Er ég nörd?

Hvaða forritunarmál er ég?

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com