GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, maí 31, 2004

Skíturinn fer í fríið

Eftir erfiðan og annasaman vetur er ritstjórn skítsins orðin lúin og þarfnast sinnar hvíldar. Regluleg skrif á Skítnum leggjast því niður næstu tvo mánuði en hefjast aftur af fullum krafti eftir verslunarmannahelgina. Fram að því verða þó pistlar birtir eftir því sem ritstjórnarmeðlimum dettur í hug. Sér í lagi skal bent á að Skíturinn mun senda sérlegan rannsóknarblaðamann til München í byrjun júlí sem mun senda reglulegar stöðuskýrslur heim.



Ritstjórn, er þetta ekki sú lengd á fríi sem menn voru að tala um? Vilja menn lengra eða styttra frí?

Gleðilegt sumar.

fimmtudagur, maí 27, 2004

EM nálgast

Nú eru aðeins nokkrir dagar í gargandi knattspyrnuveislu í boði UEFA. Hefjast herlegheitin 12 júní og standa í einhverjar vikur. Ljóst má vera að einhver heimili munu fara í hundana vegna rifrilda um hvaða stöð eigi að horfa á. Það er jú ekki hægt að horfa á Fólk með Sirrý á meðan Frakkland og Holland sparka sín á milli. Því spyr ég hina giftu Skítsmeðlimi: Hafið þið gert einhverjar ráðstafanir til að halda frúnum góðum?

Aldrei fá þær betri samningsstöðu en þegar EM eða HM í fótbolta stendur yfir. Það er þó alfarið þeirra að átta sig á því og færa sér það í nyt. Sambönd eru jú ekkert annað en samfelldur samningafundur og þau sambönd vara hvað lengst einkennast af sveigjanlegustu samningsaðilunum og fæstum ágreiningsefnum. Eða er það bara tóm vitleysa? Ég hvet því hér með ektakvinnur punga sinna að nýta þetta tækifæri til hins ítrasta og fara fram á ótrúlegustu hluti. Þannig geta stórmót í fótbolta verið ánægjulegur tími fyrir alla, konur sem kalla.

Upphitun er þegar hafin. Fyrir það fyrsta er búið að ræsa í Íslandsmótinu í knattspyrnu. DjíSÖSS hvað það er slakur bolti. Eins og að horfa á einfætlinga í grindahlaupi. Leikmenn geta nákvæmlega ekki neitt.Hlaupa alltaf rakleiðis með boltann útaf eins og það sé lykilatriði að fá sem flest innköst.Set hauskúpu á íslenska boltann og hvet fólk frekar til að taka til í garðinum hjá sér:stinga upp fífla eða klippa runna.

Annað sem hefur vakið athygli mína er fjöldi auglýsinga sem skarta fólki sem leikur listir með tölvugerðum fótbolta. Margar eru ansi hressandi líkt og OLE!-auglýsingin fyrir Nike hvar hinn skögultennti framherji, Ronaldinho, er tæklaður til ólífis af dómaranum.

Auglýsingin “Má Eiður koma út að leika” er alveg gallsúr og vandræðaleg með fyrirsjáanlegt punch-line. Maður hefur varla hugmynd um hvað er verið að auglýsa. Einhvern goslausan gosdrykk að öllum líkindum.

Slakasta fótboltaauglýsingin er “Landsbankadeildin”. Þetta er með því slakasta sem ég hef séð. Fáum öll fótboltavensl landsins til að grína fyrir okkur í klukkutímalangri auglýsingu inn í banka. Já klukkutíma segi ég því það er sem auglýsingin ætli engan endi að taka. Svo er spilað eitthvað endurunnið gítarvæl yfir þessu öllu sem knýr mann til að slökkva á meðan þetta sorp gengur yfir. Takið eftir hvað fagnaðarlætin eru mikil þegar markið er skorað: þ.e. ef þið endist út auglýsinguna. Alveg frábært.

Að lokum skal minna á landsleik Íslands og Englands þann 5 júní. Ég hef skv. áreiðanlegum heimildum að Íslenska liðið ætli að fara óhefðbundnar leiðir við að stöðva ensku leikmennina: Reyna að losa reimar andstæðingsins í hverju einasta fasta leikatriði og trasha eiginkonur leikmannanna. Þannig ætlar Indriði Sig. a.m.k. að lækka rostan í Beckham. Losa reimarnar hjá honum, segja “pardon me, sir, but is that a shit on your neck?”, nippla hann og hirða af honum boltann.SmÚt. Getur ekki klikkað. Mín spá fyrir leikinn: England-Ísland: 1-2 . Annað markið okkar kemur kjölfar vítis sem Heiðar Helguson fiskar af Sol Campell.

Farinn í bolta...

mánudagur, maí 24, 2004

Meistaraverk

Í síðustu viku féll dómur í málverkafölsunarmálinu svokallaða. Málið snerist um fölsun á tugum verka hinna “gömlu íslensku meistara”. Málið hefur verið í gangi í 6-7 ár og tvisvar hefur verið sakfellt en nú sýknaði Hæstiréttur. Listasamfélagið er allt á annarri hliðinni, sérfræðingar Listasafns Íslands sármóðgaðir og Félag íslenskra listamanna veit ekki sitt rjúkandi ráð.

Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef haft meiri samúð með fórnarlömbum annarra glæpa. Þarna er verið að kaupa myndir sem eru álitnar mikil listaverk og verðmæt en virðast einskis virði þegar í ljós kemur að gaurinn sem málaði þau er ekki einn af hinum steindauðu “gömlu meisturum” heldur sprelllifandi gutti. Hér er ekki verið að kaupa list heldur einhvers konar snobb stimpil – sá sem á listaverk eftir meistara eins og Kjarval hlýtur að vera býsna merkilegur sjálfur. Mistök Kjarval og félaga voru að skrifa ekki nafnið sitt á skeinipappír og selja á síðustu árum ævinnar, snobbelítan hefði væntanlega slegist um slík meistaraverk.

Fölsun sem slík er að sjálfsögðu ekki réttlætanleg en hér eru augljóslega færir myndlistamenn á ferð sem mála myndir í stíl við myndir gömlu meistaranna. Myndirnar eru greinilega það góðar að einhverjum þykir ástæða að borga háar fjárhæðir en list er ekki list nema einhver lisTaMaðuR sé á bak við hana og fólk borgar ekki fyrir listina heldur fyrir að tengjast lisTaManninuM á einhvern hátt og reyna að vera með í hæpinu í kringum hann.

Er ekki bara spurning um að starta öfugu snobbi og safna fölsunum? Vera bara með attitúd: “Orginalar eru fyrir aumingja, ég kaupi bara falsanir”.

Að lokum vil ég ávarpa sanntrúaða jafnréttispostula sem voru að væla undan misskiptum hlut karla og kvenna í verðlaunafé efstu deildar í fótbolta. Mikið var gert úr því að sigurlið karla fær fimm sinnum meira verðlaunafé en sigurlið kvenna og jafnvel falllið karla fá meira en sigurlið kvenna. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá að í efstu deild á Íslandi í meistaraflokki er þetta að mestu leyti skemmtanaiðnaður. Í yngri flokkum á auðvitað að gera iðkendum af báðum kynjum kleift að stunda sitt sport enda um uppeldi og mannrækt að ræða sem snýr að einstaklingunum sem sportið stunda. Í skemmtanaiðnaði eins og efsta deild í knattspyrnu á að vera (skemmtanagildið er reyndar ekki mjög hátt) er þessu öðruvísi farið því þar á að greiða þeim mest sem mest áhorf fær og mesta skemmtun veitir. Ég þori að veðja hægri eistnalyppunni að karlaboltinn fær miklu meira áhorf og á þar af leiðandi að fá miklu meiri pening. Þarna á jafnréttisbaráttan einfaldlega ekki við vegna þess að karlmenn eru betri í fótbolta en konur og trekkja þar af leiðandi fleiri áhorfendur. Vælendur, hættiði nú þessu væli og farið að einbeita ykkur að málum þar sem þið eigið breik.

Góðar stundir.

fimmtudagur, maí 20, 2004

Halló Akureyri.

Góðan daginn kæru lesendur. Það er lertinn sem talar. Uppstrílaður og vatnsgreiddur með skítinn í brókunum. Sem stendur er ég staddur á e-i ráðstefnu sem ég skil ekkert í. Fræðimenn blaðra e-ð bull sem gæti verið á hebresku og allir kinka kolli í takt.Til að falla inn í hópinn kinka ég líka kolli og þykist skrifa eitthvað comment á blaðið fyrir framan mig.

Nema hvað. Akureyrin er alltaf söm við sig. Ekkert að gerast hérna. Takið Laugaveginn á fimmtudagskvöldi og deilið með tíu. Útkoman? Akureyri. Menn taka hér sína útgáfu af laugavegsrúntinum. Keyra 100 hringi í kringum eina húsaröð og biba á hver annan í von um fæting. Kl. 10 í gærkvöldi hafði ég ekki snætt í lengri tíma. Gekk ég því eins og vitstola mongóliti um allan bæ í leit að bita. Allt var lokað. Enginn á ferli. Að lokum kem ég að lítilli sjoppu við hliðiná bíóhúsinu.

Tvö bólugrafin gerpi með aflitað hár að afgreiða. Einn stór, annar lítill.

Með hverju mæliði? spyr ég.

McGrady borgarinn er alltaf vinsæll. Segja þeir.

Einn McGrady þá. Segi ég, forvitinn og hungrið gerði það að verkum að ég var til í hvaða drullu sem er. Meðan þeir steikja hakkið tylli ég mér og kíki í bæjarblaðið.Ekkert í því. Nýr róló í þessu hverfi, bæjarlistamaðurinn er þessi, hreinsunardagurinn er um helgina, hvað er bæjarstjórinn að hugsa? Heyri ég þá á tal þeirra bóluhjálma.

"hva verða engar tjellingar þarna?"

"nei, engar hænur"

Fínt spjall. Kemur þá borgarinn. Þvílíkur viðbjóður er vandfundinn undir sólinni. 1mm sneið af kjöti og 20 franskar í brauði. Akureyri special. Í ofanálag, 1 dl af kokteilsósu. Ég var nær dauða en lífi eftir að hafa torgað þessum djöfli. Svimaði af seddu. Þurfti handklæði til að þerra sósuna framanúr mér.Viðbjóður.

Drollaðist heim og fékk nokkur bíbb frá heimamönnum. Forðaði mér heim áður en ég yrði fyrir skyndiárásum þessara apakatta.

Verð nú að kveðja, næsti fyrirlestur er að hefjast. Verð að finna penna, verð að halda mér vakandi.

Góðar stundir.

mánudagur, maí 17, 2004

Ég fer í fríið

Síðan ég kláraði 8. bekk í Hagaskóla hef ég unnið hvert einasta sumar (í einhverjum skilningi að minnsta kosti). Flestir námsmenn þekkja þetta; um leið og vorprófum sleppir er byrjað að vinna fyrir neyslu næsta vetrar. Því þekkja íslenskir námsmenn vart það að eiga frí og slappa bara af. Þegar maður hins vegar verður stór, hættir í skóla og byrjar að vinna fær maður á hverju ári einhverja frídaga sem maður getur tekið til þess að gera það sem manni dettur í hug. Fjöldi þessara frídaga er mjög breytilegur eftir löndum og á Íslandi geta launþegar búist við um 6 vikna fríi á ári.

Ég er nú nýbúinn að klára mína síðustu próftörn í Háskóla Íslands og hef innan skamms störf hjá banka þeim er við Ísland er kenndur. Ég ákvað að bíða ekki eftir því að vinna mér inn frí heldur taka mér bara þessar 6 vikur nú eftir prófin. Því mun ég slappa af næstu 6 vikurnar þar til ég held til ævintýralandsins Þýskalands þar sem mín bíður gríðarlega krefjandi þýskunám.

Allt frá því að ég tók þessa ákvörðun að fara í ærlegt afslöppunarfrí hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig sé best að fara með þessa fjölmörgu daga sem fríið hefur að geyma. Ég er kominn með ýmsar hugmyndir og langan bókalista. Svo hef ég að markmiði að hreyfa mig eitthvað á hverjum virkum degi að minnsta kosti. Ég velti því fyrir mér hver útkoman verður. Kem ég stæltur, útitekinn og víðlesinn til Þýskalands eða mun ég sofa 14 tíma á dag, drekka 2-3 kvöld í viku, taka svo júnímánuð í það að horfa á alla leiki EM og flytja inn til Þýskalands eitthvað sem ekki vantar þar, enn eina bjórvömbina?

Já, ég held nú út í hið íslenska vor til að njóta þess til hins ýtrasta og vonandi mun vorið blása nýju lífi í mín skrif sem og annarra skítsmanna. Það vita lesendur skítsins að oft var þörf en nú er nauðsyn.

Ef einhver veit um góðar bækur til þess að lesa væri vel þegið að fá þær nefndar í commenti að neðan.

Að lokum vil ég benda andstæðingum fjölmiðlafrumvarpsins á undirskriftalista til að hvetja Ólaf Ragnar til þess að skrifa ekki undir fruvarpið.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Gúrka? Veitingahúsagagnrýni

Mér virðist sem skíturinn hafi aldrei upplifað jafnmikla gúrkutíð og nú. Björn kom með einn stysta pistil sem birst hefur á skítnum fyrr og síðar. Styttri en Angel Eyes gagnrýnin góða.Ætla ég að reyna að kreista eitthvað út og kem því með smá veitingahúsagagnrýni til að fylla upp í tómið.

Það var í gærkveld að ég fór með nokkrum verðandi hagfræðingum á knæpu hér í borg er heitir Kaffi Victor. Um helgar er staðurinn einna þekktastur fyrir að vera smekkfullur af útlendingum og íslenskum, fráskildum, ofmeikuðum kerlingum á fimmtugsaldri með skínandi kameltær í leit að refsingu. En á virkum kvöldum skilst mér að staðurinn sé vel sóttur af kaffihúsarottum sem kunni vel að meta góðan skyndibita sem er í meðallagi dýr. Líkt og á Kaffibrennslunni og Vegamótum.

Er á staðinn var komið voru útlendingarnir á staðnum en engar kameltær sjáanlegar. Einhver gelgjuhjörð var þarna að horfa á Evróvision svo og einhverjar saumaklúbbsstúlkur sem hefðu vel getað verið í Nylon.Var stungið úr einum eða tveimur flötum og matur pantaður af fjölbreyttum matseðli. Kallinn bað um Cajun kjúklinga-baquette með rauðlauk, sveppum, frönskum og hvítlaukssósu fyrir léttar 1390 krónur staðgreitt. Hinir fengu sér borgara hússins á 970 radísur. Þeim virtist vel líka kjötbollan í brauðinu og ég var hæstánægður með hvítketið sem var mikið og gott.Baquette-ið var nýbakað og sveppirnir vel grillaðir. Þjónustustúlkur voru snarar í snúningum og bið eftir mat var innan fimmtán mínútna. Allt eins og það á að vera. Staðurinn fær solid *** af 5 mögulegum.

Nú verð ég að hætta þessu prumpi enda próf innan skamms.

mánudagur, maí 10, 2004

Frá Kína til Íslands (og svo aftur til Kína að sjálfsögðu)

Eins og gengur og gerist í prófum reynir maður að finna hvaða afsökun sem er til þess þurfa ekki að halda áfram að læra. Ég kíkti á textavarpið í gær í örvæntingu minni. Ég rakst á áhugaverða frétt af íslenskri ferðaþjónustu.

Ferðaþjónustan er í stöðugum vexti og sífellt er leitað að nýjum tækifærum til þess að lokka erlenda seðla í fylgd ferðamanna til landsins. Fréttin sagði frá tækifærum til þess að fá efnaða Kínverja til að koma og verja fríinu sínu á Íslandi. Kínverjar eru víst óðum að byggja upp stétt auðmanna sem veit ekki alveg hvernig best er að eyða öllum peningunum sínum. Hvernig það passar inn í kínverska kommúnismann veit ég ekki en það skiptir annars ekki máli.

Vandamálið við kínverska ferðamenn er hins vegar það að þeir eiga það til að fara í frí til útlanda og koma bara ekkert aftur til Kína. Þetta finnst Hu Jintao forseta og vinum hans ekki sniðugt. Þess vegna vill Hu hafa allan varann á þegar hann sleppir Kínverjum út í sumarfríið. Lausnin er sú að gera samninga við erlend ríki um að þau leyfi kínverskum ferðamönnum ekki að staldra við deginum lengur en fríið átti að vara og segi þeim að drífa sig heim. Svona samningar hafa, samkvæmt fréttinni, verið gerðir við einhver ríki í V-Evrópu og nú stendur víst til að Íslendingar geri svipaðan samning.

Já, það er gott til þess að vita að Íslendingar styðja við bakið á landsfeðrunum í Kína við að missa ekki gott fólk úr landi. Það er engin ástæða til þess að leyfa þessu fólki að fara eitthvað út í heim og yfirgefa sitt ástkæra heimaland. Eins gott að Hu og félagar vita betur og hjálpa þessu vesalings fólki að átta sig á því hvar er best að vera.

Afleiðingarnar gætu líka orðið hræðilegar ef svona væri ekki staðið að málunum. Ef fólk fengi að kaupa miða bara aðra leiðina eins og kjánar gætu einhverjir farið að vilja tjá sig opinberlega og kannski skrifa í blöð og kínversk stjórnvöld vita jafnvel og íslensk að það gengur auðvitað ekki. Sumir skrifa nefnilega bara bölvaða vitleysu eins og að stjórnvöld viti ekki allt best og að leiðtoganum geti skjátlast.

Ferðaþjónustan er vissulega í miklum vexti og bjart framundan. Það er vonandi að við getum blóðmjólkað þessa tímabundnu gesti okkar, svona áður en við hendum þeim aftur til síns heima. Það er hvort eð er allt of mikill hagvöxtur þarna fyrir austan.


Eins og áður sagði rakst ég á þessa frétt á textavarpinu í gær en þegar ég ætlaði að skoða hana aftur var hún farin og ég hef raunar hvergi annars staðar séð hana. Ekki veit ég hvort þetta hefur verið tálsýn eða hvort þeir hafi bara hætt við allt heila klabbið þegar þeir fréttu að Skíturinn væri kominn í málið.

Að lokum vil ég benda fólki á Norðurljósalagið hans Bubba. Ég hafði nokkuð gaman af því.

Góðar stundir.

fimmtudagur, maí 06, 2004

Dagur í Rugli

Dagurinn er í rugli, verð að fá skilafrest fram á laugardag. Ég ætlaði að koma með flugbeitta gagnrýni á brandarasmurning Guðmundar á skítinn. Verð að láta smá komment duga. Ég hélt að það hefði verið fyrir löngu búið að banna copy-paste pistla þar sem brandarar úr einhverjum brandarabönkum eru paste-aðir á skítinn sem fylliefni. Brandarar eiga heima í Séð og Heyrt en ekki á skítnum.

En ég verð þó að paste-a smá drullu sem ég fékk í tölvupósti í gær. Mér barst tilboð. Það hljóðaði svo:

Sögufélag vill bjóða starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands nýútkomið rit um sögu Stjórnarráðs Íslands á sérstöku tilboðsverði. Ykkur býðst allt verkið, alls 3 bindi, á kr. 14.900 í stað almenns verðs, kr. 20.700 og skipta má greiðslum í tvennt eða jafnvel þrennt. Tvö bindanna eru þegar komin út en þeir sem kaupa bindin þrjú munu fá hið þriðja sent heim um leið og það kemur úr prentun í júní næstkomandi.

"Jú, ég ætla að fá tvö tilboð, þetta er nánast ókeypis! " Eins og að fara á Stælinn í ostborgaratilboð.

En hvað er eiginlega að? Eru menn alveg firrtir? Ég hugsa að fjöldi áhugasamra um þetta tilboð hlaupi á bilinu 3-8, eru þá höfundar meðtaldir. Gætu allt eins boðið mér símaskrá Úsbekistan til sölu fyrir 100.000 kall og pakka af húbba búbba í kaupbæti. Ef svo ólíklega vildi til í framtíðinni að ég hefði áhuga á að lesa kápuna á þessari sögu Stjórnarráðsins, þá fer ég bara á bókasafnið. Ver því að hafna þessu tilboði.

Verð að þjóta að nýju, en mun að öllum líkindum smyrja pistli á laugardag. Í bætur fyrir slaka frammistöðu í dag. Ég skammast mín fyrir þessi vinnubrögð en það verður bara að hafa það.



Eh, hchem....

Afsakið aumingjaskapinn en pistill verður ekki kominn fyrr en uppúr 13:30 vegna ófyrirséðra atvika sem of langt mál er að útskýra hér og nú. Lofa engu um ágæti pistilsins en kvikmyndaáhorf Björns fær einhverja umfjöllun svo og brandarahorn Guðmundar.

Stay tuned for da shit.

mánudagur, maí 03, 2004

Af mæli í prófum

Þrátt fyrir annríki prófanna sá ég mér fært að líta upp úr bókunum á laugardagskvöldið til þess að heiðra fjölskyldumeðlim á 40 ára afmæli viðkomandi. Þetta var reyndar annað fertugsafmæli mitt á tveimur vikum en það kemur ekkert því við sem ég hef að segja.

Ég held að þetta fertugsafmæli hafi verið fremur dæmigert, fyrst voru veitingar, fastar og fljótandi, og svo ræðuhöld og “skemmtiatriði” sem jafnan þurfa að vera í svona samkvæmum. Að öllum þessum dagskrárliðum loknum tók síðan tónlistin við. Menn biðu spenntir enda hafði það spurst út að stórhljómsveitin Sálin hans Jónasar ætti að spila undir dansi. Síðan leið og beið og loks mætti bandið á staðinn og það var hvorki meira né minna en tveggja manna sveit. Annar var vopnaður gítar og míkrafón en hinn mætti með þungavopnin, skemmtarann.

Tónlistin byrjaði að óma, fyrst var það Nína og svo slagarar á borð við Manstu ekki eftir mér. Svo heyrði maður allt í einu saxófón óma í fjarska og leit í kringum sig, nei, þetta er skemmtarinn auðvitað. Svona geta skemmtarar komið manni skemmtilega á óvart. Það er líka merkilegt hvað svona minni bönd eins og Sálin hans Jónasar virðast ekki kunna á volume-takkann, ef maður vildi eitthvað segja við næsta mann varð maður að bíða þangað til 5 sekúndna þögn gafst milli laga og lauma gullmolanum að þá.

Kannski var það bara planið að hafa tónlistina svona háværa, útiloka fólk frá því að geta talað saman og knýja það þannig út á dansgólfið. Það eiga allir að dansa enda virðist það verða mun skemmtilegra að dansa eftir því sem maður eldist, þegar þreyttar mæður sleppa loksins út úr húsi úr krakkaskaranum er ekkert betra en dansa og syngja við gamla og nýja Stuðmannaslagara.

Ég velti því fyrir mér hvort ég muni kjósa að hafa tveggja manna coverband á mínum fertugasta afmælisdegi fremur en nota bara þessa sniðugu tækni sem hljómflutningstæki eru. Það væri reyndar óneitanlega gamana að fá einhvern snjallan á skemmtara og kannski munnhörpu til þess að sýna listir sínar. Þorbjörn, ert þú laus þann 17. desember 2020?

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com