GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, nóvember 29, 2004

Er ég efni í poppstjörnu?

Það er ótrúlegt elementið í manni sem telur manni trú um að hæfileikar manns séu meiri en þeir raunverulega eru. Til dæmis held ég stundum, þegar ég sleppi mér í söngnum í sturtunni, að ég hafi hæfileika til þess að verða poppstjarna. Hugsunin staldrar yfirleitt stutt við en hún kemur upp í hausnum á mér við og við. Þegar ég horfi á fótbolta og sé einhvern atvinnumanninn gera mistök þá dettur mér líka ótrúlega oft í hug að ég sé betri en viðkomandi og gæti allt eins verið að spila þarna. Það kemur meira að segja stundum yfir mig einhver svekkelsistilfinning vegna þess að ég fór að æfa handbolta (sem er óverjandi) en ekki fótbolta þegar ég var yngri. Þá hefði ég kannski verið kominn í atvinnumennskuna núna og fjárhagsleg framtíð mín væri örugg. Síðan man ég hvað ég var nú lélegur í handbolta og að ég er engu betri (og líklega lélegri) en meðaláhugamaðurinn í fótbolta sem spilar einu sinni í viku með félögunum og ég kem aftur niður á jörðina. Ég er núna endanlega búinn að gefa upp knattspyrnudraumana enda hafa fáir náð langt sem ekki hafa byrjað að æfa fyrir 24 ára aldurinn. Hins vegar hafa margir orðið poppstjörnur eldri en það og svo er ég örugglega ágætis leikari, ég hef bara ekki fengið tækifæri enn til þess að sanna mig. Ég get alveg meikað það ennþá á þessum sviðum. Hvað veldur svona firrtum hugsunarhætti hjá fólki, jafnvel jarðbundnum og raunsæum einstaklingum eins og mér?

Í gegnum þróunarsöguna hafa væntanlega þeir bjartsýnu sem héldu að þeir væru æðislegastir í öllu haft sig nógu mikið í frammi og verið nógu framtakssamir að þeir hafa náð að hitta einstakling af hinu kyninu og framleiða lífvænlega okfrumu. Þannig hefur þessi firring mannsins um að hann sé líklega bestur í flestu flust niður eftir kynslóðum. Firringin einbeitist síðan að þeim sviðum sem virðast ekki neitt sérstaklega flókin, svona fljótt á litið. Það er í sjálfu sér ekkert flókið að spila fótbolta, maður gleymir því bara stundum að atvinnumenn eru flestir búnir að æfa í fjöldamörg ár af slíkum krafti að jafnvel með mesta ofáti gæti maður ekki viðhaldið 24% fitumagni eins og sumum ágætum knattspyrnumönnum tekst. Síðan virðist það nú ekki mikið mál að verða söngvari eða hljóðfæraleikari og detta niður á einhverja góða melódíu og vera bara set for life. Flestir sem það gera hafa samt auðvitað lært og stundað í fjöldamörg ár og jafnvel lifað við sult á meðan allur tími og orka eru sett í tónlistina. Hins vegar dreymir færri um að verða kjarnorkueðlisfræðingar eða heilaskurðlæknar, það er einhvern veginn ekki alveg í augsýn að maður detti inn í það fyrir einhverja slembilukku og kannski er það ekki jafneftirsóknarvert.

En hvað á maður eiginlega að halda þegar gaurar eins og Jón Sigurðsson eru að gefa út breiðskífur? Ég hef svo sem ekki hugmynd um það hvort eitthvað er að seljast hjá honum eða muni gera það en einhver hefur a.m.k. séð fjármunum sínum vel varið í að framleiða og gefa út heila plötu með honum. Maður hlýtur að spyrja sig hvort maður eigi ekki góða sénsa þegar munnhörpuröddin í honum er ekki einasta tekin upp og varðveitt heldur líka fjölfölduð og loks er reynt að selja hana fólki til yndisauka! Maður skilur fyrirbæri eins og Nylon, þær eru hörkusætar og kunna ágætlega að syngja, þótt þær hafi auðvitað ekki mikið nýtt fram að færa. En að lifa í þjóðfélagi sem samþykkir að Jón Sigurðsson sé poppstjarna sem ástæða er að koma á framfæri hjálpar lítið til að eyða firringunni sem blossar upp í hausnum á manni við og við. Ef Jón getur orðið poppstjarna þá hlýt ég að geta það líka. Maður fer kannski bara að preppa sig fyrir Idolið á næsta ári.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Í kómískum öldudal?

Ég hældi Spaugstofunni fyrir viku þvert á almenna skoðun ungra Íslendinga. Ég horfði líka á hana nú um liðna helgi og var ekki alveg jafnhrifinn. Þegar maður horfir á svona þátt sem í besta falli getur talist meðalgóður og tekur það með í reikninginn að hann sé “Besti skemmtiþáttur” í íslensku sjónvarpi hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort íslensk gamansemi sé í lægð.

Ég horfði á nokkra gamla Fóstbræðraþætti um helgina og fór þá að muna hvernig gott grín hljómar á íslensku. Sketsjar eins og “Persónulegi trúbadúrinn Helgi”, “Hitler í karaoke”, “Leigubílstjóri dauðans” og slatti af prumpudjókum ylja manni nú þegar köldustu nóvemberdagar í fleiri aldir gera heiðarlega tilraun til að frysta af manni útlimina. Fóstbræður voru yndisleg samsuða af frábærum grínistum sem gátu framleitt bull og vitleysu í tonnatali og svo snilldarleikurum sem tóku efnið og færðu það í slíkan búning að 24,1% fituhlutfallið nötraði og skalf utan á manni. Fóstbræður voru þéttur pakki af 100% gríni sem hafði varla veikan blett, nema undir blálokin kannski.

Fyrir utan eilífðarvélina, sem Spaugstofan er, má helst nefna grínteymi Norðurljósa, 70 mínútna gengið og svo Tvíhöfða sem eru að gera eitthvað í gríni á Íslandi. 70 mínútur eru vissulega aðhlæjanlegar á köflum en þær eru samt ekki mikið meira en góður spjallþáttur, hlutfall meðalskemmtilegs spjalls er allt of hátt. Ferskleikinn er líka stöðugt minni enda eru þeir félagar að fara að leggja upp laupana um áramótin. Svínasúpan gerði heiðarlega tilraun til að fylla upp í tómarúmið sem Fóstbræður skildu eftir sig en mistókst því miður. Mjög stór hluti sketsjanna er einfaldlega ekki fyndinn og flestir fyndnu sketsjanna eru þannig að maður rétt glottir en nær ekki alveg að hlæja. Leikararnir eru líka ekkert á við gömlu góðu Fóstbræðurna eða elliheimilismatinn í Spaugstofunni. Svo er reyndar Tvíhöfði aftur orðinn rétt mannaður eftir sorglegt tímabil þar sem verri helmingur ásamt handahófskenndum gestum reyndi að halda haus. Guði sé lof fyrir að Jón Gnarr er kominn aftur.

Það er kannski bara málið að Jón Gnarr er ekki allt í öllu í gríninu þessa dagana. Hann var auðvitað driffjöðurin í gamla góða Tvíhöfðanum og svo líka hjartað í Fóstbræðrum. Meira að segja hefur honum nú upp á síðkastið tekist að breytast úr farsakenndum vitleysingi í bráðsmellinn heimspeking með alvarlegum undirtóni. Ég verð ætíð þakklátur fyrir það að Jón rambaði úr leigubílabransanum inn í útvarp. Það má kannski bara vera að það sé engin lægð núna, það er bara ekki sama gullöldin og fyrir nokkrum árum þegar Jón var hvað víðtækastur.

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Verkfall á enda, skinka, herinn.

Nú virðist sjá fyrir endan á þessu viðbóðslega leiðinlega verkfalli sem hefur einokað alla fréttatíma og spjallþætti landsins í 2 mánuði. Sömu fréttirnar hafa glumið í eyrum manns dag eftir dag og alltaf hefur hinn skögultennti Eiríkur Jónsson blasað við manni á hverri forsíðu og á skjánum í a.m.k. klukkutíma á dag. Mikið finnst mér Eiríkur þreytandi maður. Öfunda ekki samninganefnd sveitarfélaganna af því að díla við Eika í 2 mánuði. Örugglega viðurstyggilega andfúll náungi sem getur tuðað út í eitt um allt og alla.

Talandi um tuð. Ég verð að fá að tuða aðeins um skinku. Ég er dálítill skinkukall og vill alltaf skinku á mínar samlokur hvernig sem viðrar. Því vekur það alltaf athygli mína þegar ég fer til útlanda hvað skinkan í öðrum löndum er alltaf 1000 sinnum betri og fjölbreyttari en á Íslandi . Á Ítalíu eru a.m.k. fjórar grunngerðir af skinku og sú sem þykir viðbjóðslegust meðal Ítalanna er einmitt sú sem við troðum í okkur og höfum alltaf gert. Ég smakkaði þeirra tegund af okkar skinku og viti menn, þetta var rúmlega 3 sinnum bragðbetri skinka en við eigum að venjast hér heima. Hún var ennfremur þurr og í pakkningum sem hægt var að opna og loka án þess að þurfa trjáklippur til.

Þessi skinka hérna heima er ekki hundum bjóðandi. Bragðlaus vatnssósa fitubrjósk sem rukkað er kílóverð af. Hafa bara nógu mikið af vatni í umbúðunum til að geta rukkað fólk hærra verð fyrir skinkusneiðina.

Athyglisverð frétt í gær. Varnarliðið er að útbúa nýtt hlið við varðstöðina í keflavík. Við erum að tala um lítið búr og veghlið til að hleypa umferð í gegn. Verð aðeins 140 milljónir króna. Skot- og sprengjuhelt helvíti. Slaka á paranojunni.

Maður er að heyra að Útvarp Saga sé að fara í hundana. Útvarpsstöð með öryrkja og ellilífeyrisþega sem markhóp er ekki að fara að selja margar auglýsingar til að halda sér á floti, er það. Þarf enga spámenn til að sjá það fyrirfram. Sé fyrir mér gjaldþrot og illdeilur í fréttunum næstu vikur.

Góðar stundir




mánudagur, nóvember 15, 2004

Eddan

Í gærkvöldi fór fram afhending hinna árlegu íslensku sjónvarps- og kvikmyndaverðlauna, Eddunnar. Flestir Íslendingar þekkja þessi verðlaun sem minna um margt á Ólympíuleikar fatlaðra, nokkrir misfatlaðir keppa í hverjum flokki og sá minnst fatlaði vinnur. Við veitingu verðlaunanna er úrval sjónvarps- og kvikmyndaefnis sem Íslendingar hafa framleitt á síðasta ári skoðað og hið besta verðlaunað. Í ljósi þess hve lítið úrvalið er af íslenskum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum eru flestir flokkar aðeins með þremur tilnefningum. Til bestu myndar eru til dæmis tilnefndar þrjár myndir, sem þýðir yfirleitt allar íslenskar myndir sem drifu í bíó það árið. Einnig eru þrír sjónvarpsþættir tilnefndir sem besti þátturinn, það eru jafnan Sjálfstætt fólk, Fólk með Sirrý og svo einhver einn til viðbótar sem þetta árið var Í brennidepli. Fyrir besta skemmtiþátt eru svo líka þrír tilnefndir, Spaugstofan á fast sæti þar á meðal og Svínasúpan stefnir líka óðfluga að tilnefningaáskrift. Þriðji þátturinn í þessum flokki var svo Idolið. Eins og Tvíhöfðabræður bentu réttilega á er álíka skynsamlegt að tilnefna þennan “íslenska” þátt til Eddunnar og að tilnefna til dæmis Don Kíkóta eða einhverjar aðrar þýðingar á erlendum bókum til íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Þetta árið vann Spaugstofan í síðastnefndum þætti. Margir úr yngri kynslóðinni bölva þessu enda Sveppa- og Audda æði að tröllríða æskunni um þessar mundir. Ég verð hins vegar að lýsa ánægju minni með þessa verðlaunaveitingu og spaugstofuna almennt. Þetta er langbesta þjóðfélagsádeilan sem Íslendingar hafa. Þá er líka að finna fínustu fimmaura inn á milli. Um liðna helgi var til dæmis eftirfarandi fimmaur fluttur:

Örvar: “Það er nú agalegt ástandið þarna í Palestínu, hvað ætli þeir geri nú þegar Arafat er dáinn?”
Bogi: “Hva, hljóta þeir ekki að eiga varafat?”

Klassíker á ferðinni þarna. Einnig má nefna fasta liði eins og “Fólkið á bakvið tjöldin” sem er mjög ferskur dagskrárliður en ég ætla nú ekki að fara nánar út í hann. Að sjálfsögðu er ekki allt sama snilldin hjá þeim en ég hvet fólk til þess að horfa á næsta þátt með opnum hug og reyna að njóta þeirra brandara sem vel eru heppnaðir.

Nokkur fjölskyldubragur var á tilnefningum til bestu leikara þetta árið. Þeir feðgar, Ingvar E. Sigurðsson og Áslákur Ingvarsson börðust um útnefningu sem besti leikari og systir Ásláks, Snæfríður, var tilnefnd sem besti leikari/leikkona í aukahlutverki en aðeins faðirinn náði verðlaunum. Svona mikill fjölskyldubragur er svo sem ekkert einsdæmi og er ekki óalgengt að börn óskarsverðlaunahafa vinni til verðlauna og slíkt hið sama má svo sem líka segja um forsetakosningar í Bandaríkjunum en það er nú allt önnur Ella.

Látum þau orðin nægja í bili.

Góðar stundir.

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Köggull Skítsins

Góðan og blessaðan.

Hér með tilkynnist að keppnin Köggull Skítsins er farin í gang. Já góðir hálsar, hér er ekkert grín á ferð. Meðlimir skítsins (sumir hverjir) eru komnir með áhyggjur af vaxandi vömb sökum áfengis og pizzuneyslu og hægagangs í miðvikudagsboltanum margfræga. Hafa því 3 af 5 skítsmönnum (ég, BoTo og Tobo) fjárfest í árskorti í bótinni auk Skúla ljóðaprins sem grátbað um að fá vera með. Á meðan munu hinir skítsmeðlimirnir, þeir Gummo og Bjössi Vidda halda áfram að stappa í slagæðar og spreða í plömmer við hátíðleg tilefni.

Nema hvað. Keppt er í lækkun fituprósentu en hugsanlegt að keppt verði í fleiri undirflokkum eins og jafnhöttun, hnébeygju og mætingafjölda. Verður það ákveðið nánar síðar. Þetta er að sjálfsögðu liðakeppni og eru liðin eftifarandi.

BoTo og Ellert VS. Tobbi og Skúli ljóðaprins

"Whoever wins you lose".Drúm-tiss.

Yfirdómari og aðalráðgjafi keppninnar er hér með skipaður Grétar Dór Sigurðsson a.k.a. Da BeefMasta en hann hefur áratuga reynslu af lóðalyftingum og vöðvun. Fregnir herma að hann taki 100 kílógrömm í bekk með annarri á meðan hann sörfar á fjarstýringunni með hinni. Bogus.

Í lok árs verður sigurliðið verðlaunað með bjórkassa í boði tapliðsins. Ekki amaleg verðlaun það.

Svo nú er það bara skyr og banani í öll mál. Já sæll.

Farinn á stælinn.








mánudagur, nóvember 08, 2004

Bingó!

Í síharðnandi samkeppni á sjónvarpsmarkaði er stöðug pressa á að sjónvarpsstöðvar komi með eitthvað nýtt og ferskt. Holskefla raunveruleikaþátta hefur tröllriðið heiminum að undanförnu en þeir byggja aðallega á því að fólk hefur gaman að keppni, hvort sem það er með í keppninni eða bara áhorfendur. En stundum þarf ekki nýja hugmynd, stundum er nóg að klæða gamla hgumynd í nýjan búning. Skjáreinn er búinn að gera þetta í nýjum þætti þar sem er farið bakk tú ðe beisix. Þetta er þátturinn Bingó með Villa úr 200.000 naglbítum.

Í stuttu máli er þátturinn ekki ósvipaður Bingó Lottó með Ingva Hrafni frá því í den nema með slatta af túrett, dash af geðklofa og reglur sem má sveigja fram og aftur. Það er í raun bara verið að spila Bingó, Villi dregur númer og maður bíður eftir því að fá heilar línur lárétt, lóðrétt eða fullt spjald. Allir geta verið með og allt er ókeypis ef ég skil þetta rétt. Ef Villa dettur það í hug sleppir hann því að draga tölur og velur tölur eftir eigin geðþótta. Síðan eru vinningar algjörlega háðir skyndiákvörðunum Villa og allt er þetta við undirspil skemmtaraorgels. Meðal vinninga í síðasta þætti voru bíll, playstation tölva, ferðageislaspilari, 40 kg af hrísgrjónum, matarolía, full frystikista af pylsum og playmo.

Ég mæli með því að fólk skjóti Sjálfstætt fólk með Jóni Ársæli og helli sér í Bingóið á sunnudagskvöldum klukkan 20. Nánari upplýsingar um Bingó fást hérna.

Úti í Ameríku er svo ávallt verið að reyna að fylgja tíðarandanum og búa til nýja þætti sem fjalla um málefni líðandi stundar. Nýjasta tískan eru hryðjuverkaþættir. Á sunnudagskvöldum á Stöð 2 er hryðjuverkaþátturinn Grid sem á að sýna baráttu bandarískra og breskra öryggisstofnana gegn hryðjuverkaöflunum. Þetta er kannski tilbreyting frá öllum raunveruleikaþáttunum en ég finn mig ekki alveg í þessum hryðjuverkapælingum. Þátturinn missti líka slatta trúverðugleika þegar sagan færðist til Egyptalands. Þar voru tveir Arabar, þar af annar massahryðjuverkamaður, að spjalla saman og þeir skiptu mikið milli enskunnar og arabískunnar. Það komu fínir kaflar á arabísku en svo fannst þáttahöfundum greinilega að áhorfendur þyldu ekki meira og skiptu yfir í ensku. Þannig fá áhorfendur smá pásu áður en næsti kafli á arabísku hefst aftur. Þetta fer í mínar fínustu. Gæti einhver ímyndað sér að þegar Osama, Al Zarqawi og Múlla Ómar hittast þá spjalli þeir saman á arabísku og ensku svona í bland? Sumt hljómar reyndar miklu meira kúl á ensku en á arabísku en samt sem áður held ég að þeir myndu frekar taka hópsjálfsmorðsárás saman heldur en að spjalla á tungu óvinarins.

Þá vil ég tilkynna skipulagsbreytingar. Ellert mun taka yfir miðvikudaga og Bjössi tekur fimmtudaga, ef ég hef skilið þetta rétt. Þá þýðir það væntanlega líka að Ellert á könnun.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com