GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, mars 07, 2005

X-F

Gemmér "F"! Gemmér "Á"! Gemmér "V"! Gemmér "I"! Gemmér "T"! Gemmér "A"! Gemmér "R"! Hvað er það? "Frjálsyndi flokkurinn"!

Ágætt að byrja pistilinn á málefnalegu nótunum.

Það hefur annars farið fram hjá fáum að flokkar halda nú landsþing sín eins og óðir væru. Frjálslyndi flokkurinn var grand á því og hélt sinn á Kaffi Reykjavík. Mig langar að taka fyrir nokkur af þeim atriðum sem þeim fannst ástæða að setja í stjórnmálayfirlýsingu þessa landsþings.

"Flokkurinn lýsir mikilli andúð sinni á ýmsum þáttum í framkvæmd einkavæðingar núverandi ríkisstjórnar. Frjálslyndi flokkurinn vísar með öllu á bug hugmyndum um einkavæðingu Landsvirkjunar og telur áform um sölu fyrirtækisins til útlenskra auðjöfra fráleit."
-Þetta er við fyrstu sýn alveg málefnaleg afstaða og ef menn hefðu ekki farið að bulla um einhverja útlenska auðjöfra hefði alveg mátt halda að þarna væri skynsamt fólk með ákveðna skoðun að tala.

"Frjálslyndi flokkurinn ítrekar þá afstöðu sína til Evrópusambandsins að aðild sé engan veginn tímabær. Kvótakerfi með frjálsu framsali útgerðar á óveiddum fiski getur ekki samrýmst aðild að Evrópusambandinu. EES-samningurinn virðist enn duga Íslendingum vel og þar eigum við sameiginlega hagsmuni með Noregi. Eftir inngöngu 10 nýrra aðildarríkja í Evrópusambandið er skynsamlegt að sjá hver þróunin verður. Meðan samstaða er um EES-samninginn milli Norðmanna og Íslendinga er ákvörðun um umsókn að Evrópusambandinu ástæðulaus."
-Fyrstu tvær setningarnar eru allt sem hér er ástæða til að lesa. Ha? Notar Frjálslyndi flokkurinn kvótakerfið til að vera á móti Evrópusambandi? En Frjálslyndir eru á móti kvótakerfinu. Eru þeir þá í raun hlynntir aðild að Evrópusambandinu? Þetta hljómar eins og einhver útgáfa af grískri þversögn.

"Frjálslyndi flokkurinn vill efla ríkisfjölmiðlana til styrktar móðurmáli og menningu."
-Ég sannfærist enn í afstöðu minni gegn ríkisfjölmiðlum fyrst Frjálslyndir eru hlynntir þeim.

"Þeim, sem eiga íslenska táknmálið að móðurmáli verði tryggt jafnræði í samfélaginu. Íslenska táknmálið verði formlega viðurkennt í stjórnarskrá Íslands til jafns við íslenskuna sem móðurmál. Þá leggur Frjálslyndi flokkurinn ríka áherslu á textun sjónvarpsefnis, til hagsbóta fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta, sem og útlendinga sem eru að læra tungumálið."
-Vel meint en samt svolítið barnalegt.

"Frjálslyndi flokkurinn leggur til að landið verði allt eitt kjördæmi og kosningaréttur jafn."
-Sammála

"Frjálslyndi flokkurinn hefur ávallt krafist aðskilnaðar ríkis og kirkju svo öllum trúfélögum sé gert jafnhátt undir höfði."
-Það var laglegt! Er ég kannski Frjálslyndur undir niðri?

"Frjálslyndi flokkurinn ályktar að verðtrygging verði með öllu afnumin. Nýleg dæmi sanna að umfram vaxtabyrði íslenskra fjölskyldna og einstaklinga er langtum hærri en þekkist í nágrannalöndunum."
-Nei, það gat ekki verið. Það er gott að vera frjálslynt kjánaprik. Þá getur maður bara sagt að peningar séu vondir og vextir séu verkfæri bankanna (skrifast héðan í frá djöflanna). Mér finnst leiðinlegt (einmitt) að eyðileggja frjálslyndu paradísina en það er sama hvað stjórnmálamenn reyna að afnema verðtryggingu. Verðtryggingin er ekki ástæða hás vaxtakostnaðar, hún er bara eitt form vaxtakostnaðarins. Staðreynd málsins er sú að það er ekkert mál að sleppa við verðtrygginguna á lánum ef maður vill, það verða þá bara hærri vextir. Þetta hlýtur að vera djöflunum að kenna, er það ekki? Neibb, það eru í raun tvennir aðilar sem ákvarða vexti: Seðlabankinn (sem reyndar heitir banki en getur vart talist sem einn af djöflunum) og fjárfestar, sem í aðalatriðum eru lífeyrissjóðir. Það eru í raun helst hinir útlensku auðmenn og erlendir djöflar sem hafa hjálpað við að lækka vexti til íslenskrar alþýðu. Gunnar "hinn margdæmdi" Örlygsson tók svo glæsilegt dæmi þar sem hann bar saman vaxtabyrði norskrar fjölskyldu (um 2,5-3% á ári) við íslenska (um 7,5-8% á ári) og fannst hann snjall. Hann gleymdi hins vegar að nefna að stýrivextir norska seðlabankans eru 1,75% en 8,75% vextir hjá þeim íslenska. Lykilatriði, Gunnar, að bulla ekki um það sem maður veit ekkert um.

"Frjálslyndi flokkurinn lýsir því yfir að hann muni leggja sitt af mörkum til að sem allra fyrst verði skipt um ríkisstjórn á Íslandi."
-Ég er nú ekki fullkomlega ánægður með núverandi ríkisstjórn en guð forði okkur ef Frjálslyndir verða í þeirri næstu.

Síðan hafði ég heyrt að þeir vildu stefna að 18-20 jarðgöngum á næstu árum en fann það því miður ekki meðal samþykktanna. Það hefði verið gaman að gagnrýna það.

Kjósum nú eitthvað annað en Frjálslynda næst.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com