GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, september 26, 2004

Fegurðin skapar hamingjuna

Eftir bolta í gær hlammaði ég mér fyrir framan sjónvarpið. Sunnudagseftirmiðdegið er afleitur sjónvarpstími. Þar er ekkert að sjá, nema mögulega ef það er góður leikur í enska boltanum. Þar sem það kom að sjálfsögðu ekki til greina að rífa sig upp úr rassaförunum í sófanum varð ég að reyna að finna það skásta sem til staðar var. Ég veit ekki hvort ég valdi rétt en Extreme Makeover varð fyrir valinu. Auðvitað ætti að vera óþarfi að skýra frá því um hvað þátturinn fjallar en fyrir lesendur Skítsins á Jan Mayen og Grænhöfðaeyjum þá er í þáttunum venjulegt fólk í Bandaríkjunum tekið í gegn útlitslega og sagt frá hvílík áhrif þetta hefur á líf viðkomandi.

Í þættinum í gær var fjallað um tvær konur sem voru þeirrar blessunar aðnjótandi að fá að vera teknar í yfirhalningu. Annars vegar var það u.þ.b. þrítug, þeldökk, offeit kona með klofna vör. Hún er reyndar dæmi þar sem mér finnst lýtaaðgerðir vera réttlætanlegar. Fæðingargallar eru gallar og galla er eðlilegt að lagfæra ef mögulegt er. Stúlka þessi hafði enda orðið fyrir miklu aðkasti á skólagöngu sinni og ævi sinni allri. Að sjálfsögðu var það ekki bara klofna vörin sem var tekin í gegn. Brjóst, læri og magi fengu að kenna á fitusoginu til þess að sýna hvað þetta er sniðug tækni.

Hin konan var þessi týpíska, venjulega, miðaldra, hvíta húsmóðir að sunnan. Hennar draumur var að fara til Hollywood og láta pússa sig svolítið upp og fá svo bónorð þegar hún kæmi fín og sæt til baka og viti menn, henni varð að ósk sinni. Bónorðið fékk hún frá þessum fína gaur með yfirvaraskegg og kúrekahatt. Það er deginum ljósara að smá fitusog, sílíkon og botox getur fært manni ást og hamingju.

Persónulega held ég að lýtaaðgerðir leysi sjaldan stór vandamál. Gamla góða hlaupogsprikla-aðferðin er mun gjöfulli. Ég trúi því ekki að margir karlar vilji gerviefni frekar en the real stuff. Svo vil ég líka hvetja stúlkur sem eru í vandræðum með sjálfar sig og vantar ást og hamingju að prófa Bótó áður en þær prófa botox, vúúú.

Góðar stundir.

fimmtudagur, september 23, 2004

Aumkunarverður samtíningur

Nú er nákvæmlega vika þar til ég afhendi á skrifstofu Háskóla Íslands mína BS-ritgerð í hagfræði. Hvílíka hrákasmíð hef ég vart séð á minni lífsleið. Fyrir utan fjölmiðlafrumvarpið sáluga version 1,2 og 3. En það er nú önnur saga. Nema hvað, ritgerð verður skilað og það í eitt skipti fyrir öll. Hef ég þá lokið skólagöngu um ókomna tíð og við tekur hark og rembingur á íslenskum vinnumarkaði. En þegar þessi orð eru skrifuð bíð ég milli vonar og ótta eftir að kona nokkur úti í bæ hjá virðulegu fyrirtæki hringi í mig og segi:

"Sæll Ellert, okkur líst svo vel á þig eftir viðtalið að við ætlum að ráða þig. Ertu til í að koma hingað uppettir og skrifa undir nokkra pappíra."

Ef hún hinsvegar bryddar uppá synjun með tilheyrandi upplífgunarorðum tekur við óvissa og ömurleiki, alltof hár visareikningur og lestur atvinnusíðna Moggans.

Hressan starfskraft vantar í fjölbreytt og áhugavert ræstingarstarf. Góð laun í boði fyrir gott fólk....Einmitt. Ótrúlega fjölbreytt.

Samdægurs ritgerðarskilum verður haldið til Köbenhavn og síðar Lundar í Svíþjóð hvar dreypt verður á heimabruggi baunans og síðasta golfkúlan sleginn fyrir komandi vetur. Bankað verður uppá hjá ritstjóranum Guðmundi og sannreynt hvort dönsku klósettin séu jafn snyrtileg og hann vill meina.

Að lokum. Því miður sýnist mér á öllu að Bush verði áfram við völd í Bandaríkjunum. Þessi Kerry er einfaldlega of slakur. Slakari en Gore. Slakari en Kolbrún Halldórsdóttir. En það eru enn nokkrar vikur til stefnu. Spurning hvort hann hafi einhver tromp upp í erminni.Vonandi.

Farinn í mat


sunnudagur, september 19, 2004

Grunnskólanemar! Til hamingju!

Í dag hefst skemmtilegasti hluti skólagöngunnar fyrir marga, fyrsta kennaraverkfallið. Fyrir grunnskólanema hljómar orðið “kennaraverkfall” eins og “ókeypis bjór” fyrir háskólanema, maður trúir því ekki fyrr en maður sér það og reynir að svolgra eins miklu í sig og mögulegt er. Tímasetning þessa verkfalls er örlítið leiðinleg, skólinn er rétt nýbyrjaður og fæstir orðnir mjög þreyttir á honum. Það er samt eins og þegar ókeypis bjórinn er volgur, maður kvartar eilítið en heldur svo áfram að drekka, sáttur við sitt.

Ég man eftir einu verkfalli á minni skólagöngu. Það var í níunda bekk og miðað við tíðni kennaraverkfalla hlýt ég eiginlega að hafa lent í öðru verkfalli fyrr á skólagöngu minni en hvað um það? Eins og áður segir var verkfallið mitt í níunda bekk, bekk sem er þekktur fyrir að vera einhvers konar millibilsbekkur sem enginn stressar sig yfir. Maður tekur út gagnfræðaskólasjokkið í áttunda bekk og svo eru samræmdu prófin ekki fyrr en eftir tíunda bekk. Tímasetning þess verkfalls var líka fullkomin, frá byrjun febrúar til miðs marsmánaðar. Á vorönn er maður alltaf lúnari en á haustönn og verkfallið klauf vorönnina glæsilega og gaf manni séns á að slappa aðeins af án þess þó að valda einhverju sérstöku stressi í kringum prófin. Versti hluti verkfallsins var kvöldið sem ég hlustaði á fréttir af samningaviðræðum í beinni sem lauk með samningum. 6 vikna verkfalli var lokið.

Sem verkfallsþegi á sínum tíma hugsaði maður lítið um neikvæð áhrif svona verkfalls en í dag sitja tæplega 50.000 Íslendingar heima vegna verkfallsins, 43.000 skólabörn og 4.500 kennarar. Kennarar búa reyndar að feitum verkfallssjóði en það er eflaust misjafnt hvaða úrræði foreldrar hafa til þess að geyma blessuð börnin yfir daginn svo að kannski sitja einhverjir foreldrar heima líka.

Þá er það ótrúlegt hvað forystu Kennarasambandsins hefur tekist vel upp með að eyðileggja málstað kennara og samúð. Forysta KÍ sakaði foreldra og fyrirtæki um siðleysi vegna áforma um að að koma upp tímabundinni barnagæslu. Hún vill greinilega bara fá eitt allsherjarsamúðarverkfall hjá þjóðinni. Forystan hefur unnið það afrek að snúa því sem næst öllum atvinnurekendum og foreldrum upp á móti kennurum, þessari menntuðustu láglaunastétt landsins. Til hamingju, KÍ. Ég held að Eiríkur formaður sé að verða kominn á síðasta söludag.

Ég óska skólabörnum langs og ánægjulegs verkfalls. Annars óska ég nú kennurum líka feitrar launahækkunar. Ég vil endilega að kennarar verði komnir með mannsæmandi laun þegar ég fer að henda eigin krökkum inn í menntakerfið. Ég man eftir að hafa haft kennara sem var ruslatæknir (öskukarl) að aukastarfi til þess að drýgja kennaratekjurnar. Ég óska börnunum mínum einhvers betra.

fimmtudagur, september 16, 2004

Dead-æði

Er ég var lítill strákur í Mýrarhúsaskóla gerðu nokkur "æði" vart við sig meðal krakka á mínum aldri. Minnistæðust eru brjáæðisleg söfnun á Garbage Pail Kids myndum, körfuboltamyndum, Jordan körfuboltaskór, LA-Gear skór með ljósum í hælnum, LA-Gear skór með pumpu í tungunni JóJó (eftir að heimsmeistarinn í JóJó kom í skólann) og fleira drasl. Í seinni tíð hafa hlutir eins og Pokemon, Pox og tölvugæludýrin verið það heitasta. Ég veit ekki hvað er það heitasta í dag hjá krökkum í barnaskóla. Gemsar? Fartölvur? McFly? Skiptir ekki ölllu. En öll þessi æði áttu það sameiginlegt að breiðst hratt út en jafnframt deyja út hraðar.

Er mér var litið á "stöðuna til þessa" eða current results í könnuninni hér til hliðar varð ég dálítið hryggur í bragði. Af hverju? Jú, því nú er Dead-jakkinn minn sem ég keypti síðustu helgi orðinn verðlaus. Ég sem ætlaði að jazza á Sirkús næstu helgi og taka í spaðann á öllu fólkinu í listháskólanum og tala um dada-isma og lagið ( ) með Sigurrós . Verð bara að fá að skila jakkanum.

En grínlaust þá held ég að dagar Nonnabúðar séu taldir, a.m.k. dagar Dead-vörumerkisins. Þetta var æði á meðal listaelítunnar á meðan fræga fólkið millilenti hér en ú þegar fræga fólksins nýtur ekki lengur við er alveg Dead að vera í Dead. Því eins og listaelítan veit hvað best þá er það ekki jákvætt þegar "underground" verður "commercial". Þá er listamaðurinn orðinn "sell-out" sem er það lágkúrulegasta sem listamaður getur gert aðdáendum sínum. Hversu töff er það að vera í Dead jakka þegar Gísli Marteinn er farinn að spóka sig í einum slíkum? Svar: Núll töff. Eða hvað?

En það er ekki alltaf sem listamenn deyja eftir að þeir koma upp á yfirborðið og byrja að selja í massavís. Stundum nær æðið það miklum hæðum að listamennirnir geta gefið skít í sína fyrri aðdáendur og lifað ævilangt á blómlegu æðinu. Er það bara ágætt. En því miður held ég að Nonni hafi ekki ná það miklum vinsældum meðal almúgans að hann geti sest í helgan stein. Nema þá helgan legstein. Væri það ekki fullkominn endir á Dead ævintýrinu? Pæling.




mánudagur, september 13, 2004

Kynlíf a la Móses

Ég var að átta mig á að ég hef ekki skrifað trúarlegan pistil í þó nokkurn tíma og fannst rétt að bæta úr því.

Flest höfum við lesið boðorðin tíu og flestir gætu tilgreint að minnsta kosti sjö eða átta þeirra án mikilla vandræða. Hins vegar vita ekki allir að Móses fékk mun ítarlegri reglur til þess að færa þjóð sinni en bara þessar tíu einföldu sem allir hafa heyrt af. Ég las nokkrar síður úr Þriðju Mósebók, eins og góðum Kristni sæmir og vil nú deila þeirri lesningu með kristnum bræðrum mínum og systrum sem vilja lifa góðu og guðræknu líferni.

Augu mín stöðvuðust að sjálfsögðu á kafla sem ber yfirskriftina “Kynlíf” (18. kapitula Þriðju Mósebókar). Ég renndi yfir hann og hafði nokkuð gaman af. Þar er löng upptalning á skyldmennum og tengdum aðilum sem ekki er talið eðlilegt að maður hafi kynferðislegt samneyti með og fleira. Ég taldi þennan kafla reyndar ekki nógu athyglisverðan til þess að skrifa pistil um hann, að minnsta kosti ekki fyrr en ég las 20. kapitula sömu bókar sem ber yfirskriftina “Afbrot dauða verð”. Sniðmengi þess kafla og kynlífskaflans var gríðarlega stórt, mér til nokkurrar undrunar.

Auðvitað er það dauðasök að sofa með nokkrum náskyldum ættingja, og eða maka einhvers náskylds ættingja. Slíkt þarf ekki að taka fram. Þá er að sjálfsögðu allur hommaskapur dauðasynd eða eins og guðinn okkar góði sagði í 13. versi: “Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.” Guð virðist ekki hafa neitt á móti lesbíum. Hann sagði Móse alla vega ekki frá því. Guð er kannski svona upplýstur og víðsýnn. 14. versið takmarkar möguleika á samanburði á bólgetu mismunandi kynslóða: “Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar.” Þetta er greinilega slík synd að ákveðin aftökuaðferð er nauðsynleg til þess að losa samfélagið við syndina, dauði einn og sér er ekki nægjandi. Dýrakynlíf er tæklað í 15. og 16. versi: “Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa. Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.” Fyrir konur virðist það vera nóg að nálgast dýrið í annarlegum tilgangi til þess að eiga dauðann skilinn. Það er spurning hvernig sönnunarbyrðin er ef konan nálgast dýr en kveðst eingöngu hafa kristilegan tilgang í huga. Svo er nú líka svolítið ósanngjarnt að refsa skynlausri skepnunni fyrir sína þátttöku í syndinni, hún veit jú ekki betur. Einnig skal bent á eina kynlífssyndina enn sem við fyrstu sín virðist kannski saklaus en krefst við nánari athugun dauðarefsingar, 18. vers: “Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar – hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns –, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni.”

Þá vil ég vara Halla á RÚV og hina veðurfræðingana sem dirfast að reyna að spá fyrir um veðrið. Það er aldrei að vita nema Gunnar í krossinum mæti og reyni að framfylgja 27. versinu: “Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim.”

Já, það er alltaf gott að rifja upp hin kristnu gildi sem er svo mikilvægt að hafa í hávegum og gleyma ekki. Svo á víst að fara að gefa út glænýja þýðingu á biblíunni, þá fyrstu í næstum 100 ár. Ef einhver er að leita að afmælis- eða jólagjöf handa mér þá er þarna komin úrvalshugmynd.

fimmtudagur, september 09, 2004

DV og Landsliðið

Íslenska landsliðið skeit og meig allhressilega á sig í gær í leiknum gegn Ungverjalandi. Fyrri hálfleikur var mjög góður af okkar hálfu, vörnin stóð í lappirnar og Eiður stangaði einn bolta í mark andstæðinganna. Ungverjarnir höfðu ekkert fram að færa, nema kannski gúllas fyrir gesti vallarins.

Ég sagði við sjálfan mig í hálfleik að ef þeir myndu tapa fyrir þessu liði þá væri það hneyksli. Og hver varð raunin? Jú, hneyklsi með raddaðri áherslu á n-ið. Vörnin var ekki að standa sig og þá sérstaklega ekki Kristján Orri Stefánsson og tréhesturinn Hermann Hreiðarsson. Undir venjulegum kringumstæðum eru þetta jafnbestu mennirnir, fljótir og öruggir varnarmenn sem berjast út í eitt. Í gær börðust þeir vel en gleymdu sér í tvö skipti. Í bæði skiptin urðu þeir að ná í boltan í markið og byrja á miðju.

Í ofanálag virðist sem Árni G(r)autur sé búinn að tapa öllu sjálfstrausti í markinu. Hann virðist aldrei nálægt því að flæma hendi í þessa drullubolta sem fara framhjá honum trekk í trekk. Það virðist vanta allt skap í manninn. Sóknarmenn sjá bara einhvern pappírspésa í Árna og negla á markið. Öfugt við það þegar markmenn á borð við Kahn eða Lehman eru í markinu. Þá verða sóknarmenn einfaldlega hræddir um líf sitt og sulla einhverjum blöðruboltum á markið sem allir geta varið, jafnvel Gummi Hrafnkels.

Gömlu konurnar í varamannaskýlinu, Ásgeir og Logi, klóruðu sér bara í skallanum og vildu kenna dómaranum um. Þeim er ég ekki sammála þó svo að dómarinn hafi verið arfaslakur. Því, ekki var það dómarinn sem komst inn fyrir vörnina og skoraði auðveldlega hjá Árna Gaut í þrígang. Og ekki fengum við fleiri færi en þessi 1og ½ sem við náðum að skora 2 mörk úr. Gef landsliðinu 2** fyrir frammistöðu sína í þessum leik og *1/2 stjörnu fyrir frammistöðu í mótinu til þessa.

Úr einu í annað.

Ég hreinlega verð að benda lesendum á að DV er skemmtilegasta dagblað landsins í dag. A.m.k. er þetta það blað sem ég eyði hvað mestum tíma að lesa á daginn. Þetta er ekki beint fréttaskýringablað þar sem gerður er ítarlegur samanburður á íbúðalánum bankanna dag eftir dag heldur snaggaralegt og flugbeitt blað sem hikar ekki við að nota húmor í sínum skrifum. Vil ég meina að þetta sé eina dagblað landsins sem hafi stíl. Fréttablaðið og Mogginn eru mosavaxin flatneskja sem ég fletti í gegn á innan við 5 mínútum. Allar fréttir fyrirsjáanlegar, þurrpumpulegar og gamlar og innsendu greinarnar eru alltaf frá sama pakkinu sem rausar um ekki neitt. DV hins vegar reynir búa til eitthvað skemmtilegt, fer stundum frjálslega með staðreyndir og skrifar með skemmtilegum hætti um flest mál, allt frá íþróttum fatlaðra til baktjaldamakks í atvinnulífinu. Svo slæða þeir að sjálfsögðu inn einstaka smásálar-fréttum sem oft koma á forsíðunni t.d. fá fórnalömb nauðgana oft mikla umfjöllun svo og örykjar sem kerfið hefur skellt á í síma ofl. ofl. Hvet lesendur til að nálgast eitt eintak og gera samanburð.

L

sunnudagur, september 05, 2004

Vopnaval

Eins og einhverjir lesendur Skítsins kannski vita er ég einhleypur. Hvers vegna það er veit ég ekki alveg. Sambandsviljinn er alveg fyrir hendi svo að ekki er það vandamálið. Því hlýtur annað tveggja eiginlega að vera satt: Annaðhvort er ég mjög óáhugaverður eða ég er að beita röngum aðferðum í tilraunum mínum til þess að komast í kynni við hitt kynið. Ef hið fyrra er rétt er lítið við því að gera og raunar frekar niðurdrepandi. Gerum því ráð fyrir að það sé seinna atriðið sem sé satt.

Viðreynsla getur í grundvallaratriðum endað á tvo vegu: Með árangri eða höfnun. Það sem knýr mann til viðreynslu er að sjálfsögðu löngunin til þess að ná téðum árangri og það sem heldur aftur af manni er óttinn við höfnunina. Spurningin er bara hvort löngunin til árangurs yfirstígur óttann við höfnun. Í raun snýst þetta um væntar afleiðingar viðreynslunnar, þ.e. hvers virði telur maður árangurinn, hversu slæmt er að láta hafna sér og hverjar líkurnar á hvoru fyrir sig eru.

Mér sýnist fjórar aðferðir koma til greina:

i) Sniperinn. Hérna er eingöngu stefnt að besta mögulega árangri. Þessi aðferð felst í því að kanna alla möguleika, meta hvern og einn vel og vandlega, velja það skotmark sem hefur hæst árangursgildi og jafnframt jákvætt væntigildi og eyða öllum nauðsynlegum tíma og orku í viðkomandi skotmark.

ii) Hálfsjálfvirka. Þessi aðferð felst í því að hámarka væntigildi kvölds. Hér er reynt við allt sem hefur jákvætt væntigildi. Aðferðin gengur út á það að á endanum hlýtur eitthvað að takast sem maður kann að meta án þess að líða mikið fyrir hafnanir. Lítið vægi er sett á höfnun.

iii) Shotgun. Þessi aðferð felst í því að hámarka líkur á einhverjum árangri. Hún gengur út á að reyna hratt og örugglega við allt sem maður sér. Viðreynsluhraðinn er svo keyrður meira upp eftir því sem á kvöldið líður. Svo fremi sem maður sé ekki stórslys ætti að vera ómögulegt að ná ekki árangri með þessari aðferð. Árangurinn getur hins vegar verið mjög umdeildur. Ekkert vægi er sett á höfnun.

iv) Byssustingur. Þessi aðferð felst í því að lágmarka líkur á höfnun. Hér er beðið eftir algjöru dauðafæri. Bráðin er lokkuð hægt og rólega án þess að taka nokkra alvöru áhættu á höfnun. Þegar alveg ljóst er í hvað stefnir er látið til skarar skríða. Þessi aðferð er ekki mjög afkastamikil en ætti að skila manni mjög öruggum og traustum árangri þegar hún gengur.

Allar hafa þessar aðferðir kosti og galla og eflaust eru til fleiri. Sjálfur held ég að ég beiti byssustingnum of mikið. Hann er hægvirkt veiðitæki sem áhættufælnir sækja oft í. Ég hef séð menn í shotgun-ham og á erfitt með að sjá sjálfan mig með haglarann að vopni. Fyrir áhorfendur er þó shotgun líklegast með hæst skemmtanagildi.

fimmtudagur, september 02, 2004

Þjóðminjasafnið (hauskúpa)

Býð lortinn velkominn aftur. Byrjar þó ekki vel. Björninn klippti á sinn áður en hann leit dagsins ljós. Aldrei hefur það boðað gott. Stefnir í harðlífi hjá Birninum.

En áður en lengra er haldið vil ég vekja athygli á hengli sem barst sem athugasemd í þarsíðasta pistli BoTo. Á Sylvía nokkur heiðurinn af honum og erum við skítsmenn svo og allir áhugamenn um klósettmenningu henni afar þakklátir fyrir áhugavert innleg í umræðuna. Þetta er krispí texti sem gaman er að lesa.

Nema hvað. Í gær gerðist sá ótrúlegi atburður að bragginn risavaxni við suðurgötuna (sem einhverjir kalla arkítektúr), nánar tiltekið Þjóðminjasafnið, var tekinn í notkun á ný eftir 6 ára viðgerð sem kostaði næstum 1500 milljónir. Var ekki hægt að eyða aðeins meiru í þetta? Maður spyr sig.

1500 milljónir eru ekkert mál enda hverri þjóð nauðsynlegt að búa vel að sínum ryðguðum hurðahúnum og brjóstnælum. Svo er líka alltaf gaman að rykföllnum hauskúpum og gömlum taflborðum. Ég heyrði í óspurðum fréttum að skrifborð Jóns Sigurðssonar væri þarna að finna. Get nú varla beðið eftir því að sjá það, örugglega allt öðruvísi en skrifborðið mitt. Ótrúlegt.

Eins óþjóðlega og það kann að hljóma þá saknaði ég Þjóðminjasafnsins afskaplega lítið. Held ég að ég sé ekki einn um það. Er ég var yngri þótti mjög töff að hljóla á BMX-hjólinu upp í Þjóðminjasafn til að sjá hauskúpur og hluta úr gömlum sverðum. Hefur eitthvað bæst við safnið síðan þá? Jú kannski einstaka kertastjakar en ekkert til að missa saur yfir.

1500 milljónir eru mikill peningur. En það kæmi mér ekki á óvart ef nú sé komið nýtt árlegt fréttaefni fyrir fréttastöðvar landsins í svæsnustu gúrkunni, þar sem fréttirnar verða svo: “Rekstur Þjóðminjasafnsins í hættu, hefur farið 300 milljónir fram úr fjárhagsáætlun.” Kannski dálítið ýkt tala en alls ekkert fáránleg og jafnvel bara nokkuð líkleg. Bið lesendur því um að minnast þessa pistils þegar fyrsta frétt birtist af hallarekstri safnsins, vetrarlokunum, frostskemmdum á klæðningu bla, bla, bla.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com