GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Kill Bill II: ***
Touching The Void: ***1/2
Fjölmiðlafrumvarpið:hauskúpa


Líklega hafa margir óverdósað af stjörnugjöfum dablaðanna síðustu helgi og drattast í bíó til að sjá Kill Bill Vol. 2. Það gerði ég að minnsta kosti. Kalt mat: fín mynd en olli vonbrigðum. Endanleg niðurstaða:***

Áður en ég brá mér á myndina hafði ég aðeins heyrt gott af henni. Orðið á götunni var að Kill Bill II væri heilsteyptari, hefði meiri persónudýpt og þéttofnari söguþráð en Kill Bill I (****). Ég tek undir það í meginatriðum, en ég þvertek fyrir að síðari hlutinn sé áhugaverðari, skemmtilegri eða betri en sá fyrri. Vil ég jafnvel meina að Kill Bill II sé sísta mynd Tarantinos, til þessa. Er þá mikið sagt. Mun ég nú reyna að skýra mál mitt.

Mr. James Berardinelli, hvers tengill er hér til vinstri, var einn af fárra sem ekki hreifst af fyrri myndinni. Hann átti erfitt með að sætta sig við ákvörðun Tarantinos að skipta myndinni í tvennt og lét pirring sinn bitna á stjörnugjöfinni (**1/2). Eftir að hafa aðeins séð fyrri myndina, skildi ég hans sjónarmið að e-u leyti en ekki nógu til að draga hana niður um brot úr stjörnu. En eftir að hafa séð báðar myndirnar þykir mér ákvörðunin um tvískiptingu fullkomlega skiljanleg. Myndirnar eru algerlega ósamræmanlegar.

Á meðan fyrri myndin er POWER-HOUSE sem gneistar af er seinni myndin tregablús sem fade-ar út smátt og smátt. “Það vantar allt gos í þetta kók!!”, hugsaði ég við áhorf á myndina. Það vantar öll smáatriðin, alla sköpunargleði, öll einkenni Tarantinos. Það vantar þetta endurunna framúrstefnupönk sem hann hingað til hefur haft. Að vísu eru nokkur skemmtileg samtölin (pimpinn á barnum t.d.) sem bera sterklega hans höfundareinkenni en þau heyra til undantekninga. Annað sem angraði mig var óþarfa ofnotkun hans á mismunandi myndatökuaðferðum. Þau þjóðnuðu litlum tilgangi. Í eitt skiptið þrengdi hann rammann, í annað skipti hann honum í tvennt, seinna tók hann ýmist upp á oflýsingu eða vanlýsingu og um tíma slökkti hann alveg á ljósunum? Ég skynjaði engan tilgang með þessu effektaflippi, fannst heldur örla á örvæntingarfullri tilraun til blása lífi í glæðurnar.

Sá munur sem er hvað mest áberandi á myndunum tveimur er takturinn. Í Vol 1 er takturinn hraður, fastur og markviss. Í Vol 2 er takturinn hægur, ómarkviss og óstöðugur. Mín kenning er sú að taktur mynda í kvikmyndagerð sé miklvægastur undirliggjandi þátta fyrir áhrifamátt kvikmyndar á áhorfandann. Skiptir þá engu máli hvort taktur sé hægur eða hraður. Bara að hann sé stöðugur og sveiflist ekki óeðlilega mikið. Í Vol. 2 verður hægur takturinn hægari og hægari eftir því sem á líður. Við það tapar maður einbeitingunni og fer út af sporinu. Maður truflast við áhorfið og fer að huga að hvað tímanum líði. Ég veit ekki með ykkur lesendur góðir en ég skynja svona taktbreytingar mjög sterkt og get orðið mjög pirraður þegar illa fer með annars ágætar myndir af þessum sökum. Sama gildir um skrifað mál. Ef stíll fer úr stuttum setningum í langar fer einbeiting lesandans í vaskinn og efnið missir marks.

Sá hluti myndarinnar sem ég skemmti mér hvað best yfir var í lokin þegar glefsur úr fyrri myndinni rúlluðu yfir skjáinn. Maður fékk instant samanburð á myndunum báðum og hvað mig varðar hefur fyrri myndin tvímælalaust vinninginn.

Ætlaði að taka fyrir Touching the Void og fjölmiðlafrumvarpið líka. Er víst ekki tími til. Smá komment þó á bæði:

Touching the Void: ***1/2, taugatrekkjandi semi-heimildarmynd um fjallgöngugarpa sem lenda í kröppum dansi á hálum ís og vita ekkert hvaðan á sig stendur veðrið. Varð ég svo spenntur að ég nagaði neglur upp í kviku og kipptist til í tíma og ótíma. Loksins fær maður einhverja tilfinningu fyrir því hvað Haraldur Örn pólfaragimp hefur afrekað. Fær þessi mynd hiklaust meðmæli mín.

Fjölmiðlafrumvarpið: Hauskúpa
Orð sem koma í hugann. Kúkur, ofbeldi, nauðgun, forræðishyggja, misbeiting valds, krullurassgat, reiði, hatur og afturhvarf til haftastefnunnar.

Farinn í próf

mánudagur, apríl 26, 2004

Efst á Baugi
-pólitík

Heitasta heitt í pólitík þessa dagana er væntanlegt frumvarp forsætisráðherra til nýrra laga um eignarhald fjölmiðla. Ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti frumvarpsins og jafnvel mörgum finnst aðdragandi þess ekki eðlilegur. Grundvöllur þessa frumvarps er skýrsla sem hefur ekki verið gerð opinber en allir hafa lesið og í dag fá þingflokkar stjórnarflokkanna frumvarpið í fyrsta sinn. Fréttaritari skítsins fór á stúfana og kannaði málið. Áður en lengra er haldið skal þess getið að, eftir ítarlega athugun og vangaveltur komst undirritaður að því að líklegast mun frumvarpið ekki koma til með að hafa áhrif á rekstur Græns Skíts, að svo stöddu að minnsta kosti.

Aðdragandi málsins er að sjálfsögðu sá að Baugsfeðgar hafa verið að kaupa upp hvern fjölmiðilinn á kúpunni á fætur öðrum. Í kjölfarið er markaðshlutdeild heildarfélagsins, Norðurljósa, að verða nokkuð mikil og það hugnast ekki öllum, og sérstaklega ekki Davíð Oddssyni.

Á þessu stigi málsins virðist innihald frumvarpsins aðallega snúast um tvö atriði:

1) Sami aðili má ekki eiga dagblað og ljósvakamiðil (sjónvarp eða hljóðvarp).

2) Markaðsráðandi fyrirtæki í óskyldum rekstri má ekki eiga fjölmiðil.

Glöggur lesandinn sér að þessi atriði ná því markmiði að kljúfa Norðurljós og koma Baugsfeðgum út af fjölmiðlamarkaði. Í fljótu bragði virðist hvorugt þessara atriða skipta miklu máli upp á að viðhalda öflugum fjölmiðlum á Íslandi.

Hver hefði til dæmis áhyggjur af því ef sjónvarpsstöðin Omega færi að gefa út dagblað? Er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst? Kannski af heilbrigðis- og mannverndarástæðum en ekki vegna þess að slíkt myndi stofna lýðræði í landinu í hættu.

Hvað er svo verra við það að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu eignist fjölmiðil heldur en önnur fyrirtæki? Samkeppnislögin eru til staðar til þess að vernda minni fyrirtæki í samkeppni við stærri. Nefnt hefur verið að óeðlilegt væri að stærri fyrirtæki gætu auglýst ódýrar í eigin fjölmiðlum og jafnvel neitað öðrum fyrirtækjum að auglýsa en það myndi að sjálfsögðu valda lakari rekstri á fjölmiðlunum og því auka raunverulegan auglýsingakostnað.

Fjölmiðlar eru upplýsingaveitur og til þess að þeir stuðli að öflugri og lýðræðislegri þjóðfélagsumræðu er aðalatriðið að allar tiltækar upplýsingar komi fram og öll sjónarmið hafi málsvara. Í þessu máli er aðalatriðið því að sjálfsögðu ekki hvers konar aðilar eiga fjölmiðla eða hvernig fjölmiðla þeir eiga. Það sem máli skiptir er hversu mikla markaðshlutdeild fjölmiðlar hafa, að fólk viti hvaðan upplýsingar koma og hverjir eru á bak við þær.

Ef lagasetning er nauðsynleg er ljóst að hún á að snúa að því að auka gegnsæi í fjölmiðlum, gera öllum ljóst hver á hvaða fjölmiðla og tryggja sjálfstæði fréttastofa gagnvart eigendum sínum. Þá má einnig athuga hvort einstakir aðilar, hvort sem það eru einstaklingar, lítil fyrirtæki, stór fyrirtæki eða ríkið hafi of stóra hlutdeild af fjölmiðlamarkaðinum.

Einnig er alveg ljóst að ef setja á skorður um eignarhald fjölmiðla og rekstur fjölmiðla og þar með þrengja möguleika á hagkvæmum rekstri er algjörlega nauðsynlegt að taka á hinum stóra aðilanum á fjölmiðlamarkaði sem gerir öllum eðlilega reknum fjölmiðlum erfitt fyrir en það er að sjálfsögðu okkar ástkæra Ríkisútvarp. Algjörlega óásættanlegt er að þessi risi fái að blómstra á kostnað skattborgara og í skjóli óeðlilegra laga á meðan aðrir fjölmiðlar lepja dauðann úr skel.

Loks vil ég minnast á ummæli Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar og RÚV-ista með meiru, í Kastljósinu í gær. Hann nefndi hugmyndir um að skylda alla ljósvakamiðla til að hafa ákveðið hlutfall af innlendu efni. Slíkt er að sjálfsögðu fásinna. Það myndi erfiða litlum aðilum mjög að koma inn á markað og nógu er víst sóað í lélegt innlent sjónvarpsefni á heimabóli Marðar, Ríkisútvarpinu.

Góðar stundir.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Pistill á heimsmælikvarða: Gummi Torfa og Gaupi Grill missa mysing í brækur. Harmsaga

Ja nú er ég hlessa. Niðurstöður síðustu könnunar leiddu í ljós að meirihluti lesenda grænu dellunnar er kvenkyns. Niðurstaðan var 14 g-strengir á móti 12 pungbindum. Og ég sem hélt að kven læsu bara Femin.is og Tíkina. Ég verð að endurskoða minn hugsanagang, þó fyrr hefði verið. Nema hvað, ég verð víst að hryggja þær dömur með léttsteiktum fótboltapistli, enda heldur langt síðan sá síðasti leit dagsins ljós. Þær hafa líka gott af því að rækta punginn í sér.

Þannig var á þriðjudaginn að ég lá uppí prumpusófa og tróð í mig kók og prins á meðan ég glápti á leikinn Mónakó-Chelsea í meistaradeildinni. Líkt og flestir vita fór leikurinn 3-1 fyrir Mónakó og þeir Mónakóprinsar virðast komnir með annan fótinn og hluta úr eista í undanúrslit keppninnar.

En, það kom alltof oft fyrir að prins pólóið stóð í mér og kókið freyddi upp í nef. Af hverju var það? Jú, Gaupi og Gummi Torfa rassanjólar lýstu leiknum eins og sullaveikir sjíta múslimar og gleymdu að lýsa aðalatriðum leiksins. Allt þeirra púður fór í að dásama Eið Smára a.k.a. Gudda feita.

Dæmi:
“Eiður Smári er býr yfir guðdómlegum leikskilningi, já hann er alveg ótrúlegur, pilturinn”
“Haldiði að það væri ekki saga til næsta bæjar ef íslendingar ættu mann í úrslitum Meistaradeildarinnar”
“Sjáiði þessa boltameðferð, drengurinn er hreint með ólíkindum”
“hann hefur ekki stigið feilnótu allan leikinn”
“hann er svona maður sem getur búið sér til mat úr öllu”
“Þetta er skot á heimsmælikvarða”
Dæmum lýkur

Hvernig stígur maður feilnótu og hvað er ekki á heimsmælikvarða? Búa sér til mat úr öllu? Er ég að horfa á popptíví?

Ég ætla að fara að nota orðið heimsmælikvarði oftar. Það er svo skemmtilega innihaldslaust.

Einhver: Hvernig var bærinn í gær?
Ég: Hann var á heimsmælikvarða.

Síðustu þrjár setningarnar í dæmunum að ofan gerðu það að verkum að ég hreinlega missti mig. Teygði mig í fjarstýringuna og negldi á “Mute”-takkann. Það er náttúrulega ekki hægt að láta bjóða sér svona fíflagang. Fyrir þá sem sáu leikinn var greinilegt að Gaupan og Torfhausinn voru með mysinginn í brókunum allan leikin. Ekkert að fylgjast með. Að vísu átti Eiður Smári þátt í því að Crespo skoraði eina mark Chelsea í leiknum. En þáttur Eiðs Smára var klárlega heppni. Hann var í dauðafæri, datt á rassinn eins og feit skúringakona, drollaðist á fætur og rétt grísaðist til að sulla boltanum á Crespo sem datt ekki á rassinn, heldur nelgdi tuðrunni í netið, eins og Eiður átti vera löngu búinn að gera.

Þetta sáu Gaupi og Torfheilinn ekki. Fóru í afneitun og töluðu um snilldar boltatækni Eiðs Smára og frábæra sendingu. Mennirnir eru náttúrulega blindaðir af aðdáun.

Héldu þeir síðan uppteknum hætti meirihluta leiksins. Slefandi á skjáinn og segjandi aulabrandara. Ekki að vinna vinnuna sína. Enda kom það á daginn að Mónakó skoraði í andlitið á Chelsea sem Gummi Torfa og Gaupi voru búnir að dæma í úrslit. Eftir það, á 78 mínútu leiksins rankaði Gummi Torfa við sér og sagði gullmolann:

“Við verðum að muna eftir því að það eru tvö lið inni á vellinum”

Ég gríp þessa setningu á lofti og öskra í sófanum frussandi þannig að háræðar höfði sprungu : “ÞÚ SEGIR EKKI, GIMPIÐ ‘ITT !!! ”

Jæja, farinn í Qi Gong

mánudagur, apríl 19, 2004

Kúl að vera glaður og öfugt?

Ég var á rúntinum í gær og stoppaði á rauðu ljósi. Mér var litið í kringum mig og vinstra megin við mig sá ég nýlegan silfurlitaðan BMW. Inni í honum sat gaur með stífgelað hár, í þröngum stuttermabol sem náði náði að sýna gaddavírstattú á sólbrúnum sverum upphandleggnum. Á meðan sat ég málningarhvítur með jarðarberjasjeik í hönd að hlusta Cyndi Lauper á “100% fjörefni” á Mix FM. (Ég var að gefa Mix séns í fyrsta og síðasta sinn). Nágranni minn á vinstri hönd hlýtur að dæmast meiri töffari í hinum hefðbundna skilningi og selur væntanlega kúlið ekki fyrr en á grafarbakkanum. Ég fór að velta því fyrir mér hvor væri nú ánægðari og lífsglaðari, ég eða hann. Er fylgni milli þess að vera kúl og glaður?

Gleði er tilfinning sem flestum líkar vel við og flestir hafa nokkuð góða hugmynd um hvað gleði er. Góðvinur minn dictionary.com lýsir gleði sem ákafri og glaðværri hamingjutilfinningu. Gleði getur hins vegar orsakast af ýmsum ástæðum og því má greina gleði nokkuð niður. Til dæmis má nefna einlæga barnslega gleði, húmorska stundargleði, hlakkandi gleði og samgleði.

Ég tel að gleði megi í grunninn flokka í tvennt, sem ég vil kalla gleðiyin (gyin) og gleðiyang (gyang). Hin upprunalegu yin og yang tákna hin tvö grundvallaröfl náttúrunnar, yin er hið kvenlega, hlutlausa, myrka, neikvæða, jarðneska, kalda og mjúka á meðan yang er hið karlmannlega, virka, bjarta, jákvæði, himneska, heita og harða. Gleðielementin gyin og gyang skilgreini ég áfram eftir kynjum, gyin mun standa fyrir hið kvenlega og gyang hið karlmannlega. Gyin stendur svo fyrir absolut gleði, gleði sem er óháð samanburði og orsakast aðeins af stöðu og líðan einstaklingsins. Gyang stendur hins vegar fyrir afstæða gleði, gleði sem orsakast af stöðu og líðan einstaklingsins miðað við stöðu og líðan annarra einstaklinga, hér er gleðin fólgin í því að hafa það betra en aðrir. Þannig stendur gyin að mörgu leyti fyrir hið góða, umburðalynda, nægjusama og friðsama á meðan gyang stendur fyrir hið illa, gráðuga og aggressíva.

Með þessi hugtök að vopni má greina nánast hvaða gleði sem er.

Varðandi gyangið og kúlið þá tel ég einnig að það skorði nokkuð mögulega gleði að halda kúlinu. Ef maður skorðar sig við að viðhalda ákveðinni afstæðri stöðu gagnvart öðrum (t.d. að halda kúlinu) er nokkurri gleði fórnað.

Því segi ég að við eigum að selja kúlið og gefa okkur gyininu á vald. Eins og Paul McCartney sagði í Hey Jude:

“For well you know that it’s a fool who plays it cool
By making his world a little colder.”

Góðar stundir.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Dagblöðin og PTV 6 í 1909

Í dag er svo ástatt fyrir blöðum þessa lands að ég nenni ekki að lesa neitt af því sem stendur í þeim. Ég held að meðaltíminn sem fer hjá mér í lestur þessara blaða hafi hríðfallið á síðustu árum og sé nú í rúmum 10 mínútum. Nema þegar maður í prófum, þá reynir maður mjólka hverja hverja einustu landsbyggðarfrétt út í hörgul. Lesa allt um matsvepparækt á Suðurlandi og mann þyrstir í að vita meira hvað Júlli í Kaupfélaginu á Barðaströnd er að bardúsa eftir vinnu með kellingunni úti í bílskúr. Jú, búa til kerti og kertastjaka. Þvílíkt spennandi.

Í lestur Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fer nánast jafn stuttur tími enda jafnsúr blöð, hvort á sinn hátt. Þessi fallandi lestartími á sér einfalda skýringu. Þegar maður hangir á internetinu svo stóran hluta dags, hlustar á hádegisfréttirnar og horfir á sjónvarpsfréttir þá er maður búinn að heyra og lesa um 95% af því sem mun koma í dagblöðunum daginn eftir. Sjaldan eða aldrei hafa dagblöðin einhverju við að bæta. Einhver myndi benda á innsendar greinar sem hægt er að lesa og má það vel vera en ég nenni sjaldnast að lesa þær nema að höfundur þeirra sé einhver sérstakur. Sama gildir um minningagreinar, maður nennir ekki að lesa þær nema maður kannist við nafn hins látna eða þekki einhvern sem þekkti viðkomandi.

Þessu hafa blöðin tekið eftir og þá sérstaklega Mogginn. Er hann nú farinn að gefa út alls kyns innihaldslaust aukaefni á borð við Tímarit Morgunblaðsins, Fólkið og aðra auglýsingabæklinga sem í besta falli er hægt að lesa á klósettinu í léttu Twista-sessione.

En í dagblöðum landsins er hægt að finna einn bloggara, sem ég les yfirleitt. Það er hann Víkverji. Alltaf hefur hann eitthvað að segja enda örugglega 10 manns sem skrifa fyrir hans hönd. Og þó, ekki ólíklegt að það séu 5 manns sem rita. Iðulega eitthvað um umferðarmenninguna, sögur úr daglega lífinu en mjög oft fjallar hann um kvikmyndahúsin og bíómenningu okkar Íslendinga. Í þau skipti gruna ég að Árni Þórarinsson sé Víkverjinn enda er hann sá penni í bústnu og útjöskuðu pennaveski Morgunblaðsins sem skrifar hvað best um kvikmyndir. Þar er hann að gera góða hluti með krítik sinni á fábrotnu framboði, hléum á kvikmyndasýningum, auglýsingum fyrir sýningar og svo umfjöllun um einstaka myndir og leikstjóra. Þykir mér vanta að hann taki fyrir kvikmyndaumfjöllun blaðanna enda er hún oft á tíðum fyrir neðan allar hellur, sbr. skrif Hildar Loftsdóttur sem ég minntist á í síðasta pistli. En skiljanlega gerir hann það ekki enda óeðlilegt að sletta skyri í sessunauta á síðum dagblaðanna fyrir lélega frammistöðu.

En hvert er inntak þessa pistils? Maður spyr sig. Ég spyr mig. Þú spyrð væntanlega sjálfan þig, lesandi góður. Ætli svarið sé ekki falið í því að líkt og dagblöðin þarf skíturinn að fylla upp í tómarúmið og það er ekki svo hæglega gert á tímum þegar ekkert er að gerast.

Í lokin minni ég lesendur á að senda sms-ið PTV 6 nokkrum sinnum í númerið 1909 og stykja þar með gott málefni. Hnakka Lú í Sketchakeppni popptíví. Ef Hnakkinn vinnur er aldrei að vita nema gleðskapur verði haldinn í kjölfarið með pomp og prakt.

“ég ætla að fá tvö pomp, takk.”

Góðar stundir

mánudagur, apríl 12, 2004

Blanda af ofsteiktu grænmeti

Nú er páskahátíðin senn liðin en á páskunum minnumst við andláts Jesú og upprisu hans. Sumir halda upp á páskana með því að láta krossfesta sig, aðrir með því að éta páskaegg og flestir fagna fríinu sem páskunum fylgir. Þetta árið fékk píslargangan óvenjumikla athygli vegna myndar Mel Gibson, The Passion of the Christ. Ég sá hana og kíkti reyndar líka á mynd Monty Python, Life of Brian, sem fjallar um krossfestinguna á annan hátt. Með hugann svo fastan við píslargönguna fann ég umfjöllun um hana á stað sem ég reiknaði ekki með, í þungarokklagi.

Lagið sem um ræðir er vinsælt meðal ritstjórnar Skítsins og nefnist Chop Suey eftir System of a Down. Ég minntist á það í kommenti í síðustu viku en langaði til þess að útlista mínar pælingar um lagið. Textinn í heild sinni fylgir á eftir pistlinum en annars ætla ég bara að brjóta textann niður, kafla fyrir kafla (texti lagsins er skáletraður og á eftir fylgir túlkun), endurtekin textabrot eru ekki endurútskýrð.

Lagið hefst eftir að barsmíðum og pyntingum á Jesú hefur lokið og krossfestingin nálgast:

Wake up,
Grab a brush and put a little (makeup),
Grab a brush and put a little,
Hide the scars to fade away the (shakeup)
Hide the scars to fade away the,
Why'd you leave the keys upon the table?
Here you go create another fable


Verðirnir vekja Jesúm harkalega og segja honum háðskulega að drattast á lappir og gera sig snyrtilegan fyrir gönguna upp á Golgata, hann verði að fela örin sem hann fékk við pyntinguna. Lyklatilvísunina skil ég eins og að verðirnir séu að spyrja Jesúm hvers vegna í ósköpunum hann hafi gert handtökuna og refsinguna svona auðvelda. Í stað þess að neita sök og gangast við mannleika sínum, hvers vegna gefur hann tilefni til refsingar? Síðasta línan þarf svo vart skýringa við.

Því næst tekur Jesús við:

I don't think you trust,
In, my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die, Die.


Jesús áttar sig ekki alveg á því hvers vegna þessi fórn hans fær ekki þann skilning sem eðlilegt er. Hér kemur fram háðskuleg afstaða textahöfundar gagnvart Jesú sem kristallast í orðunum self righteous (sjálfumglatt), höfundi telur Jesúm greinilega vera of sannfærðan um eigið ágæti. Ég er ekki alveg pottþéttur á síðustu línunni en ég held að meiningin sé sú að Jesú hryggist þegar englar á borð við hann eru taldir eiga dauðann skilinn.

Síðustu tveir hlutarnir eru þeir sem komu mér á sporið varðandi efni textans og eru þeir báðir einræða Jesú við hinn almáttuga föður sinn:

Father, Father, Father, Father,
Father/ Into your hands/I/commend my spirit,
Father, into your hands,


Hér er bein biblíutilvitnun, t.d. stendur í Lúkasarguðspjalli, 23:46:

Then Jesus, crying with a loud voice, said, “Father, into your hands I commend my spirit.” Having said this, he breathed his last.

Hinn hlutinn:

Why have you forsaken me,
In your eyes forsaken me,
In your thoughts forsaken me,
In your heart forsaken, me oh,


Aftur bein biblíutilvitnun, Mattheus 27:46:

And about three o'clock Jesus cried with a loud voice, "Eli, Eli, lema sabachthani?" that is, "My God, my God, why have you forsaken me?"

Titilinn skil ég ekki alveg, en hann er nafn á kínverskum rétt sem er víst upprunninn í Bandaríkjunum og er blanda af ofsteiktu/ofsoðnu grænmeti. Ég sé ekki alveg tenginguna hér. Ef einhver hefur frekari skýringar við texta lagsins vil ég endilega heyra þær, enda búinn að pæla svolítið í þessu. Að lokum vil ég benda þeim sem vilja heyra lagið á að sækja það hérna, en slíkt má að sjálfsögðu ekki gera nema fá leyfi frá hljómsveitinni. Þeim sem hafa fengið slíkt leyfi bendi ég á að hægrismella hérna.

Góðar stundir.

Chop Suey

Wake up,
Grab a brush and put a little (makeup),
Grab a brush and put a little,
Hide the scars to fade away the (shakeup)
Hide the scars to fade away the,
Why'd you leave the keys upon the table?
Here you go create another fable

You wanted to,
Grab a brush and put a little makeup,
You wanted to,
Hide the scars to fade away the shakeup,
You wanted to,
Why'd you leave the keys upon the table,
You wanted to,

I don't think you trust,
In, my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die, Die,

Wake up,
Grab a brush and put a little (makeup),
Grab a brush and put a little,
Hide the scars to fade away the (shakeup)
Hide the scars to fade away the,
Why'd you leave the keys upon the table?
Here you go create another fable

You wanted to,
Grab a brush and put a little makeup,
You wanted to,
Hide the scars to fade away the shakeup,
You wanted to,
Why'd you leave the keys upon the table,
You wanted to,

I don't think you trust,
In, my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die
In my, self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die

Father, Father, Father, Father,
Father/ Into your hands/I/commend my spirit,
Father, into your hands,

Why have you forsaken me,
In your eyes forsaken me,
In your thoughts forsaken me,
In your heart forsaken, me oh,

Trust in my self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die,
In my self righteous suicide,
I, cry, when angels deserve to die.

fimmtudagur, apríl 08, 2004

The Barbarian Invasions ****

Ekki löngu eftir að ég hafi svaraði kommentinu “Eru allar myndir eins í þínum huga. Þær fá allar 3 stjörnur?” skellti ég mér í bíó á kanadísku myndina The Barbarian Invasions. Til að gera langa sögu stutta þá er myndin scaareeeamin´ góð og fær mín hæstu meðmæli ****. Það er vonin um að sjá myndir á borð við þessa sem dregur mig í bíó næstum 70-90 sinnum á ári. Hef ekki séð jafn magnaða mynd síðan ég sá fyrri hluta Kill Bill. Nú ætla ég ekki að reyfa söguþráðinn en lofa því að hver einasti maður sem fer á þetta meistaraverk mun jafnt míga í sig úr hlátri og hágráta úr sorg. Hún kallar fram allan skalann og þú færð engu við ráðið. Öfugt við hið mannskemmandi rusl á borð við 50 first dates sem Björninn setti neytendaviðvörun á. Það liggur við að maður höfði mál á hendur kvikmyndahúsunum fyrir að sýna svona drasl og rukka inn fyrir það í ofanálag.

Nú kann einhver að benda á að Mogginn hafi gefið The Barbarian Invasions **. Ég skal reyna að skýra það mál. Dómurinn var kveðinn upp af einum óhæfasta penna Íslands og þó víðar væri leitað. Heitir sú kona Hildur Loftsdóttir og hlýtur Loftur faðir hennar að hafa togað í einhverja strengi eða sleikt einhverjar rassaholur til að Hildur dóttir sín fengi að smyrja sínum stjörnum í Moggann. Af skrifum hennar að dæma ímynda ég mér útlit hennar og hegðun með eftirfarandi hætti.

Feit og jussuleg kelling sem gengur um í þykkum peysum með bangsamyndum á og skærgrænum stretchbuxum með teygju undir hælinn. Girðir sig hátt og lætur kameltánna blakta í vindinum. Hún borðar grænmetisbuff, döðlur og myglað skyr í öll mál og les sænskar uppeldisbækur daginn út og daginn inn milli þess sem hún fer í bíó til að ganrýna myndir.Hennar blygðurnarkenndar þröskuldur er á við kínamúrinn enda rakkar hún í svaðið allar þær myndir sem blótað er í eða brjóst á konu sést í fókus. Hún á hvorki sjónvarp né útvarp. Spurning um að googla hana til að tékka hvort ímynd mín sé rétt. Alltaf er maður jafn málefnalegur og sanngjarn.

Ef mig misminnir ekki gaf hún I am Sam (þar sem Sean Penn leikur þroskaheftan mann í forræðisdeilu) **** og Saving Private Ryan *. Í dómi hennar um I am Sam, lýsti hún því hvernig hún grét og grét og grét á myndinni. Og hún grét líka í bílnum á leiðinni heim og svo líka eftir að hún var komin heim. Hún er gjörsamlega í ruglinu og það nær ekki nokkuri átt að hún skuli fá að skrifa í Moggan og opinbera þannig fávisku sína og áhugaleysi á kvikmyndum.

Annars er Skírdagur í dag. Alveg er það magnað. Á þessum degi á Jesú víst að hafa farið í síðasta brunch-inn með félögunum og tekið að sér að þvo tærnar á þeim öllum. Ekki amalegt það. Táfýlan hefur líklegast verið að drepa alla. Eða ekki. Annars mikilvægt að minnast þessa dags. Ég mun a.m.k. minnast þessa dags og geri það með því að liggja uppí prumpusófa og góna upp í loftið.

Bógus

Hor

Ha?

mánudagur, apríl 05, 2004

Sunnudagssorpið

Í gær var ég fremur þróttlaus, eftirstöðvar áfengis frá kvöldinu áður veittu mér ekki mikinn drifkraft svo að eftir bolta hlammaði ég mér fyrir framan sjónvarpið og vonaði það besta. Fékk fyrst Silfur Egils sem ég kann vel að meta og sofnaði svo út frá fréttum. Yfir matnum var svo RÚV í gangi eins og venja er á mínu heimili, fréttir og Kastljós eru svo sem í lagi. Svo nálgaðist klukkan 20 og óttinn byggðist upp, ég vissi að það yrði erfitt að agitera fyrir því að skipta um stöð vegna íhaldssemi foreldra minna og ég hafði ekki orku í að standa upp. Ótti minn var á rökum reistur því að þegar klukkan fyllti tuttugustu klukkustundina birtist á skjánum mynd sem byrjaði á myndefni úr íslenskum firði og undir var þjóðlegt tónlistarbreim; Gamla brýnið - heimildamynd um hlunnindabúskap í Ófeigsfirði á Ströndum var hafin.

Já, stöð 1 hefur þann vana að nota besta tíma á sunnudögum í að sýna það sem íslensk heimildamyndagerð hefur upp á að bjóða, gott og slæmt. Það er merkilegt hversu sían er gisin hjá þeim sem velja og hafna efni til að setja í sjónvarp á þessum tíma. Ég ákvað að renna yfir hvað hefur verið á þessum tíma á undanförnum misserum.

Mikið er um að heimildarmyndir séu gerðar um Íslendinga sem enginn þekkir en þykja (að mati þeirra sem gera myndirnar) mjög merkilegir og þess verðir að taka upp 50 mínútna mynd um þá og afrek þeirra. Nefna má myndir eins og Mótmælandi Íslands um Helga Hóseasson, Möhöguleikar (flippað nafn) um Sigurð Guðmundsson myndlistamann og Maður eigi einhamur um lista- og athafnamanninn Guðmund frá Miðdal. Aðrir sem fjallað hefur verið um eru til dæmis Magnús Pálsson listamaður, Jón Ásgeirsson tónskáld og Sigríður Zoëga ljósmyndari. Glöggir lesendur festa kannski augun á því að mikið er um að listamenn fái heimildamynd um sig enda merkilegri en annað fólk. Þá sá ég að tvær heimildamyndir um Vigdísi Finnbogadóttur hafa verið sýndar á síðustu 2 árum.

Einnig er nokkuð um það að hin margvíslegu vísindaafrek sem Íslendingar eru að vinna á hverjum degi séu fest á filmu, enda beinast augu heimsins jafnan að Íslandi þegar eitthvað er að gerast í vísindum. Oftar en ekki er Ari Trausti á bak við þessar myndir. Meðal þessara mynda eru Maðurinn sem gatar jökla um Sigfús Johnsen og rannsóknir hans á borkjörnum úr Grænlandsjökli og þriggja þátta röðina Víkingar: DNA-slóðin rakin um rannsóknir á erfðasögu Íslendinga á Grænlandi. Báðar myndirnar eru undan rifjum Ara Trausta runnar.

Saga Íslands er stórbrotin og æðisleg og hinir ýmsu þættir í henni eiga skilið að um þá sé fjallað. Til dæmis eiga myndir eins og Sauðaþjóðin, sem varpar ljósi á sögu Íslendinga sem sauðaþjóðar, fyllilega rétt á sér. Tyrkjaránið hefur tvívegis tekið fyrir á síðustu tveimur árum, annars vegar í Heilögu stríði í norðurhöfum og hins vegar í þriggja þátta seríu. Hin stórbrotna flugsaga Íslendinga þótti eiga fjóra þætti skilda og loks gerði Markús Örn Antonsson löngu tímabæra tveggja þátta röð um sjósókn Íslendinga á opnum bátum á öldum áður.

Fólk sem tekur upp vídeó-myndir í fríinu sínu virðist líka oft geta selt efnið til sjónvarpsins. Hannes Hólmsteini tókst að sjálfsögðu að selja mynd sem hann tók upp á ferðalagi sínu um staði úr lífi Halldórs Laxness. Karlakórinn Geysir tók upp mynd um ferð sína til Norðurlanda í tilefni 50 ára afmælis kórsins. Drauga- og tröllaskoðunarfélag Evrópu fór í ferð til Brüssel og leitaði að draugum meðal almennings og á krám, sem sagt fyllibyttur með ofskynjanir og þetta komst í gegn. Á einhvern óskiljanlegan hátt komst einnig í sjónvarpið myndin Norðan heiða sem, eins og segir í dagskrárlýsingunni, er "heimildarmynd um ferð 20 manna á 70 hestum í Mývatnssveit", spennandi stöff.

Saga stofnana er líka eitthvað sem er lygilega oft fest á filmu og þá jafnan á mjög gamaldags og ófrjóan hátt. Skólasetrið við Laugarvatn varð 75 ára á dögunum og eðlilega var gerð mynd um það, Félag ásatrúarmanna var tekið fyrir í einni mynd og á 150 ára afmæli Menntaskólans í Reykjavík var gerð mynd um skólann og sögu hans. Þessi mynd er eitt það versta sem fram hefur komið í heimildamyndagerð í seinni tíð og var alveg ljóst að gerandi þeirrar myndar hætti að uppfæra dagatalið sitt fyrir svona 30 árum. Sem leikandi í henni er ég stoltur eigandi þessarar myndar á VHS-snældu og ef einhver vill afrit er honum velkomið að hafa samband.

Nokkrar góðar myndir hafa þó læðst í gegn: Þriggja þátta serían Dópstríðið, verðlaunamyndin Hlemmur og þáttur um Airwaves auk þess sem ég skemmti mér nokkuð yfir myndinni Varði goes Europe.

Loks verð ég að minnast á myndina Noi, Pam og mennirnir þeirra sem er "heimildarmynd um tvær taílenskar frænkur sem búa með íslenskum mönnum norður í landi". Ég sá þessa mynd sem hafði nokkurt skemmtanagildi þar sem annar maðurinn var afdalabóndi sem minnti helst á karakter úr smiðju Jóns Gnarrs.

Þeim sem entust allan pistilinn óska ég góðra stunda.

fimmtudagur, apríl 01, 2004

The Passion of the Christ ***

Jæja, þá er maður búinn að sjá Passion of The Christ. Ég slapp við grátur og gnístran tanna og fann enga þörf til að játa á mig einhverja glæpi úr fortíð meðan á sýningu stóð. Enda harður nagli. Myndin er vissulega ofbeldisfull og drjúg í blóðsúthellingum og safaríkum húðflettingum en ég tek ekki undir þá gagnrýni að myndin fari yfir strikið í þeim tilburðum. Þvert á móti vil ég meina að ofbeldið í myndinni sé bara akkúrat. Hvorki of né van. Þannig tel ég að prestar og sadó-masókískir pervertar geti haft jafn mikið gagn og gaman af þessari mynd .

Ég mæli með að fólk sjái þessa til þess aðeins að fá meiri tilfinningu og hugmynd um það sem “raunverulega” gerðist á tímum Jesú. Hingað til hafa hugmyndir manns um Jesú píslarsöguna aðallega komið úr kristnifræðitímum í barnaskóla þar sem einhver biblíusagnahefti voru lesin í duft og sýndar voru teiknimyndir talsettar silkimjúkum leikararöddum. Hvorki var það til að kveikja áhuga manns á kristinni trú né trúarbrögðum almennt. Manni þótti meiri spenna í því að standa í strokleðrastríði og bomba gömlu nesti í hnakkann á einhverju bekkjarsystkini. En Passion of The Christ varpar öðru ljósi á Jesú, vekur áhuga manns í smástund á trúarbrögðum og hvetur til umræðna manna á meðal.

Á meðan ég maulaði mitt súkkulaði og horfði á myndina fékk ég á tilfinninguna að Jesú og Lærisveinarnir hefðu verið e-s konar sértrúarsöfnuður í neikvæðum nútímaskilningi þess orðs. Þeirra trú stríddi gegn því sem hinn almenni maður trúði. Með kraftaverkum og góðmennsku söfnuðu þeir að sér fylgi og eftir því sem fylgismönnum fjölgaði urðu þeir ógn við ríkjandi stjórnvöld og almennar skoðanir manna. Ríkjandi öfl skynjuðu ógnina og beittu sér fyrir útrýmingu þessa trúarhóps sem sem á endanum var fullkomnuð með krossfestingu leiðtogans, Jesú.

Útrýming sem þessi hefur átt sér stað með reglulegu millibili síðan krossfesting Jesú á að hafa átt sér stað. En ýmist sér trúarhópurinn sjálfur um eigin tortímingu eða honum er tortímt af yfirvöldum. Hver man ekki eftir trúarhópnum í Waco eða trúarhópnum sem framdí sjálfsmorð er Hale-Bop halastjarnan fór framhjá jörðu? Á meðal yfirvalda og almennings er starfsemi á borð við trúarhópa og sértrúarsöfnuði oftast flokkuð sem skipulagður heilaþvottur tengdur kynlífssvalli, mannfórnum og peningasvindli. Eflaust er eitthvað til í því en í flestum tilvikum er áreiðanlega um vænsta fólk að ræða sem vill aðeins hjálpa eða vera hjálpað

Því get ég vel ímyndað mér að ef Jesú myndi birtast okkur nú á tímum myndi fara eins fyrir honum og forðum daga. Sá sem segðist vera Jesú endurfæddur yrði handtekinn og settur í varanlegt varðhald hvar hans daglega brauð yrði að vera buffaður í steininum og nauðgað auk þess sem fylgismenn hans yrðu ofsóttir af prestum, stjórmálamönnum, fólki heilbrigðisgeirans o.s.frv.

Meira segja er vel hugsanlegt að Jesú hafi þegar endurfæðst á okkar tímum og sé haldið í dag á einhverri stofnun fyrir geðsjúka enda eitt helsta einkenni geðveikra að þeir haldi því fram að þeir séu Jesús endurfæddur. Því spyr maður sig hvort ekki sé búið að drepa endurfæddan Jesú oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og í dag refsi Guð okkur fyrir það með stríðum um allan heim, hungursneyð, náttúruhamförum og daglegu óláni. Ætli Ástþór Magnússon sé Jesú endurfæddur? Maður spyr sig. Hann er a.m.k. nógu friðelskandi og nógu geðveikur. En hvað kom þá fyrir augun í honum?

Því er sömuleiðis hugsanlegt er að einhverjir fylgismanna þessara Jesúa nútímans hafi afneitað honum þrisvar til að sleppa við fangelsisvist og séu í þessum töluðu orðum að skrifa sín guðspjöll sem eftir 100 ár munu koma út hjá Eddu miðlun undir heitinu Biblían: Sagan endurtekur sig eftir Peter McDuffin Leigubílstjóra. Pæling.

Nema hvað, The Passion of The Christ fær *** í mínum bókum. Söguþráður er ekki þéttofinn, nánast eitt samfellt atriði í slow motion.Svo er myndin krydduð með blóðslettum, búningum úr Gladiator og sviðsmynd úr Hidalgo sem brátt verður tekin til sýninga hér á landi og skartar Viggo Mortensen, manninum sem margt kvenið myndi fórna hendi til að eiga barn með. En það er efni í annað guðspjall.

Farinn í messu

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com