GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, janúar 20, 2005

Örviðtöl

Lengi hef ég verið uppiskroppa með umræðuefni hér á Sketunni grænu. Les blöðin eins og vitfirringur en finn ekki baun til að fjalla um. Maður er kannski ekki nógu einbeittur við þetta. Kannski farinn að eldast. Kannski maður sé orðinn svo ánetjaður launaðri vinnu að maður gerir ekki neitt nema fá borgað fyrir það.

Bjarni er eini sem heldur ótrauður áfram og á hann hrós skilið fyrir það. Ekki einleikið að vera með ritgerð á mánudagsmorgni vikulega. Nógu erfitt að sulla mjólkinni á Cherrios-ið án þess að allt fari niður á gólf.

Nema hvað.

Nú er mér er orðið sama um hverja einustu frétt í blöðum og sjónvarpi, er hættur að kippa mér upp við skoðanir vitmagurra stjórnmálamanna og er kominn í poppið. Öll lesendabréfin um láglaunaða útlendinga að Kárahnjúkum, utanríkismálanefnd Alþingis, hamfarirnar í Asíu og undirbúning íslenska handknattleiksliðsins fara beint í tunnuna.Horfi bara á E! og les bara fólk í fréttum, Fókus og F2. Eins og kelling sem hlustar bara á Bylgjuna.

Þá er ein tegund lesefnis sem ég hef sérstaklega gaman af að lesa og les af mikilli áfergju. Það eru örviðtöl. Þessi hérna, sjáiði til:

“Hvað ertu með í vasanum”? : Dæmigert svar: Lykla, tyggjó, bíómiða, visakvittanir
“Besta bók sem þú hefur lesið”?
“Kynþokkafyllsta kona í heimi”
“Á hvað ertu að hlusta”?
“hvað ertu að lesa”?
O.s.frv.

Þessi viðtöl finnst mér einna skemmtilegust og hvað mest upplýsandi um þann sem spurður er. Hreinlega skera úr um hvort viðkomandi sé fáviti eða bara þokkalegasta manneskja. Þessi örviðtöl eru a.m.k. miklu betri 4 síðna Mannlífsviðtöl um einhvað kjaftæði eins og leiðina að frægðinni, veikindin, móðurmissi, sorgina, skilnaðinn eða eitthvað álíka ömurlegt raus. Mannlífsviðtöl og opnuviðtöl í DV segja manni ekkert nema að viðkomandi hefur ekkert áhugavert að segja og er í tómu tjóni alla daga en tekur einn dag fyrir í einu.

Nú er ég orðinn svo mikill spekúlant að ég er farinn að brennimerkja fólk eftir því hvernig það svarar ákveðnum spurningum.

Dæmi 1
Ef stúlkukind (t.d. leikarastelpa eða hljómlistarkona) svarar eftirfarandi spurningu með eftirfarandi hætti:
“ Hver er besta bók sem þú hefur lesið? ”
Svar: Englar Alheimsins
þá hugsa ég með mér. Já sæll að hún hafi lesið þá bók, hvað þá haldið á bók almennt. Kannski séð myndina, en bókina? Ekki séns.

Dæmi 2
Ef karlmaður er spurður “hver er fallegasta kona sem þú hefur séð (fyrir utan maka)?” og hann svarar einhverju af eftirfarandi :

  • a) mamma
  • b) amma
  • c) tengdó

Þá er eftirfarandi einstaklingur

  • a) vangefinn
  • b) fífl
  • c) vangefinn
  • d) undir hælnum hjá frúnni og sambandið á bláþræði.

Dæmi 3
Ef einhver er spurður “Á hvað ertu að hlusta”?
og hann svarar einhverju af eftirfarandi :

  • a) Slowblow
  • b) Damien Rice
  • c) Tom Waits
  • d) Where´s my drumstick með Funky Chicken

þá er viðkomandi einstaklingur

a) að rembast b) illt í maganum c) með harðlífi.

Dæmi 4
Ef einhver er spurður “hvað ertu með í vasanum?” og “ógreiddir reikningar” kemur fyrir í svarinu þá er viðkomandi

a) leikari

b) tónlistamaður

c) að ljúga til að fólk haldi að hann sé a) leikari b) tónlistamaður c) töff.

Og svona gæti ég haldið áfram endalaust að dæma fólk eftir örviðtölum. Nú bíð ég bara eftir að vera tekinn í örviðtal af einhverju blaðinu til að ég geti svarað einhverju ógeðslega frumlegu. En það er einmitt það sem maður er alltaf að bíða eftir. Að einhver komi með ný svör við klisjukenndum spurningum. Einhver svari “No lettuce on my hamburgahh” með Double Cheeseburgah þegar hann er spurður “á hvað ertu að hlusta?” í stað þess að segjast vera að hlusta á nýju plötuna með Tom Waits, Slowblow, Sigurrós eða eitthvað annað jarm sem enginn nennir að hlusta á en allir segjast vera að hlusta.

Og svo búið.

mánudagur, janúar 17, 2005

RÚV á dauðadeildina!

Í síðustu viku voru þrjár útvarpsstöðvar lagðar niður, X-ið, Skonrokk og Stjarnan. Fyrri tvær stöðvarnar eru þær "hörðustu" á landinu og þessar stöðvar eru hvað vinsælastar hjá þeim sem hlusta ekki á commercial main stream drasl sem er spilað á FM og Bylgjunni. Ég hugsa að við Skítsmenn föllum flestir í þann svala hóp en jafnframt er Rás 2 fyllilega áhlustanleg, á köflum að minnsta kosti. Strax tveimur dögum seinna var ný stöð send í loftið, X-FM, sem á að byggja á sama hlustendahópi og gamla X-ið gerði.

Útvarpsstöðvar koma og fara enda er langt í frá auðvelt að halda úti einhverri dagskrárgerð að ráði án þess að þurfa að þola viðvarandi taprekstur. Það eru helst þrjár stöðvar sem maður sér lifa í gegnum hvað sem er: Bylgjan, FM og Rás 2. Bylgjan og FM ná að gera það með mjög almennri tónlistarstefnu sem margir hlusta á og hvað FM varðar er það einnig lykilþáttur í velgengninni að þættirnir eru yfirleitt einfaldir, þ.e. þeir byggja yfirleitt á litlu spjalli, mikilli tónlist og umfram allt góðu sponsi. Galdur Rásar 2 er hins vegar sígildur og hefur tíðkast víða, sérstaklega þar sem framþróun lýðræðis hefur ekki náð langt, en það er eitt stykki ríkisstjórn sem borgar reikninginn.

Raunar er það ekki svo einfalt að ríkið borgar reikninginn heldur eru sjónvarpseigendur skyldaðir til þess að greiða fyrir rekstur ríkisútvarpsins hvort sem þeim líkar betur eða verr og hvort sem þeir nota einhvern tímann þá þjónustu sem þeir greiða fyrir. Til dæmis þarf sá sem á sjónvarp og horfir bara á SkjáEinn og Stöð 2 að borga á meðan sá sem á bara útvarp og gerir ekki annað en að hlusta á Rás 1 og 2 allan daginn fær þá "gæðadagskrá" ókeypis í boði sjónvarpseigandans. Sumum finnst þetta kannski sanngjarnt. Á þessu ári munu 2,5 milljarðar fara frá sjónvarpseigendum til ríkisútvarpsins í gegnum afnotagjöldin.

Rökin fyrir því að viðhalda ríkisútvarpi (bæði sjón- og hljóðvarpi) eru yfirleitt af menningarlegum toga. Almennt er það nefnilega þannig að ef fólk fær að velja hvað það framleiðir og hlustar eða horfir á þá er það yfirleitt ómerkilegt, heimskulegt eða í besta falli ekki mjög menningarlegt. Þá gæti það fallið í þá gryfju að velja erlent lágmenningarefni í stað íslenskrar gæðaframleiðslu sem má auðvitað ekki gerast. Við verðum bara að sætta okkur við þá staðreynd að það er menntaelíta sem veit betur hvað okkur er fyrir bestu að hlusta á, við megum ekki láta glepjast út í það að hlusta á það sem okkur dettur í hug hverju sinni.

Reyndar hefur Rás 2 vaxið mjög í áliti hjá mér síðustu ár. Hún er, að mínu mati, mjög góð blanda af fréttum, fréttatengdu efni og góðri tónlist. Hún hefur enda fjárhaginn til þess. Rás 2 missti hins vegar mörg stig hjá mér þegar ég sá hina silfurhærðu Andreu Jónsdóttur, annan helstu rokk/poppspekinga rásarinnar (hinn er auðvitað Óli Palli), tjá sig um ástandið sem væri að myndast með færri útvarpssöðvum og erfiðum rekstri. Ég man nú ekki hvort henni fannst þetta mjög jákvætt eða neikvætt en hún gat ekki neitað því að auðvitað væri dagskrá hinna útvarpsstöðvanna nú ekki mjög merkileg. Þar væri þunn dagskrá sem fólk sem "veit mjög lítið um tónlist" stjórnar. Ef ég væri ekki jafnprúður ungur maður og raun ber vitni þá myndi ég segja henni að troða þessu snobbi ásamt silfurlokkunum í eitthvað vel valið gat.

Því legg ég til (eins og líklega einhvern tímann áður) að Ríkisútvarpið verði lagt niður eða selt hið snarasta. Ef alþjóð sér ástæða til þess að verja fjármunum í íslenska dagskrárgerð (sem ég geri ekki) væri miklu eðlilegra að gera slíkt með því að styrkja þætti sem vel eru gerðir heldur en að láta eina útvarpsstöð fá fullt af pening til þess að leika sér með.

Að lokum vil ég hvetja aðra Skítsmenn til skrifa. Í síðustu viku birtust 2 pistlar.

Góðar stundir.

sunnudagur, janúar 09, 2005

Allt er þegar þrennt er

Frá örófi alda hefur það verið æðsti draumur hvers karlmanns að hafa mök við fleiri en eina konu í einu. Í samfélagi nútímans þar sem konur njóta mannréttinda nánast til jafns við karlmenn og ganga ekki kaupum og sölum hefur dregið mjög úr möguleikum karlmanna til þessa og flestir verða að láta sér nægja eina í einu. En draumurinn um kynlíf með mörgum konum lifir enn í hjörtum karla en nú lifir hann aðeins sem draumurinn um að vera með tveimur konum í einu. Draumurinn um trekant.

Til að byrja með vil ég draga þær stelpur, sem halda að kærastann þeirra dreymi ekki um þetta, niður á jörðina. Gagnkynhneigður karlmaður sem reynir að halda því fram að hann langi ekki að fá eina stelpu til viðbótar í gleðina er ekki einasta lygari, hann er fokkin lygari.

En hvernig lætur maður slíkan draum rætast? Þetta er auðvitað mjög viðkvæmt mál og vandmeðfarið. Fyrir þá sem þegar eru í sambandi og ætla sér ekki að halda fram hjá kærustunni verða þeir einhvern veginn að koma því við að hún komist inn á sömu línu. Auðvitað væri draumur að hún styngi bara upp á þessu en slíkt er væntanlega óraunhæft. Líklegast er erfitt að spyrja bara beint út án þess að lenda í löðrungum eða öðru ofbeldi og úthúðunum. Gáfulegast er að reyna að læða inn hugmyndinni í léttu hjali og láta helst umræðuna þróast þannig að forvitni læðist að henni og jafnvel þannig að það endi á því að hún haldi að hún hafi átt hugmyndina. Hvernig maður opnar slíkt hlýtur alltaf að vera háð hverju pari. Samt sem áður ætti ekki að vera erfitt að hefja máls á því á léttu nótunum. Til dæmis finnst mér fullkomlega réttlætanlegt að velta því upp hvað kærustunni finnst um að kyssa aðrar stelpur og svo er hægt að feta sig lengra ef viðbrögðin eru jákvæð.

Reyndar er ég mjög forvitinn að vita hvað kæmi út úr svona spurningum. Ég er sannfærður um að konur eru mun opnari fyrir snertingu við aðrar konur heldur en karlar að koma nálægt öðrum körlum. Flestir gagnkynhneigðir karlar eru hómófóbískari en andskotinn og þeir sem eru það ekki þora að sjálfsögðu ekki að nefna annað af ótta við fordæmingu þorrans. Sjálfur sé ég ekki neinar aðstæður þar sem ég gæti hugsað mér að vera staddur í einhvers konar kynferðislegum athöfnum þar sem annar karl væri nálægt. Það þyrftu að minnsta kosti að vera margar konur á milli sem kæmu í veg fyrir alla mögulega snertingu milli okkar gauranna. Konur eru hins vegar ekki jafnharðar í sinni afstöðu og jafnvel nokkuð sveigjanlegar í þessum málum. [Stúlkum sem finnast þær hafa eitthvað til málanna að leggja á þessu stigi málsins er bent á kommentin að neðan.]

Fyrir einhleypa tel ég nokkuð betri möguleika á að lenda í tækifæri á góðu þríhyrningsspili. Eins og áður verður alltaf mjög erfitt að hefja máls á þessu sisona eða ætla að reyna að fara í missjón og ná sér í tvær í leikinn. Bestu aðstæður til þríleiks tel ég að hljóti að vera í lok djamms þegar kvöldið er að verða búið og fyrir einhverja tilviljun er maður skyndilega staddur einn í rými ásamt tveimur stúlkum. Þá er málið að ýja að þessu lauslega, ekki ósvipað og með kærustunni, en athugið það piltar að hér er mun minni skaði ef allt springur í andlitið á manni. Versta útkoma hér er að enda með punginn jafnfullan af sæði og áður en besta útkoman er eitthvað sem maður getur sett á CV-ið án þess að blikna. Því er málið að reyna ekki að stefna að þessu um of en að vera vakandi fyrir tækifærinu þegar það kemur. Líklega kemur það ekki nema einu sinni eða tvisvar um ævina svo að það er eins gott að skjóta ekki fram hjá þegar í færið er komið.

Góðar stundir.

sunnudagur, janúar 02, 2005

Ísland, ríka Ísland

Ísland er ríkt. Ég held að flestir Íslendingar geri sér grein fyrir þessu og þið ykkar sem gerið þið ekki, vaknið þið sem fyrst. Það er nefnilega gott að búa á Íslandi. Íslendingar eru ofarlega á flestum topp-tíu listum yfir landsframleiðslu, lífsgæði og annað í heiminum. Við fáum góðar tekjur, fáum nóg að borða og verðum frekar gömul í okkar ágæta heilbrigðiskerfi. Fátækt er vissulega til staðar á Íslandi en mælikvarðinn á fátækt er talsvert annar hér en víðast hvar í heiminum. Hér þýðir það að vera fátækur að maður fái ekkert sérstaklega góðan mat, börnin manns geti ekki stundað íþróttir og maður geti almennt ekki leyft sér mikinn munað. Þetta er vissulega ekki gott en samanborið við það að svelta í hel er þetta samt bara helvíti fínt. Já, Ísland er ríkt.

En einn er sá lúxusinn sem hvergi kemur fram á topp-tíu listum alþjóðagjaldeyrissjóðsins, alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eða heimsbankans. Það er íslenska kvenfólkið. Ég hef ferðast svolítið og dvalist í nokkurn tíma erlendis og hef jafnframt borið saman bækur mínar við aðra Íslendinga sem búið hafa erlendis í nokkurn tíma. Við erum sammála um eitt: Íslenskar konur eiga sér vart hliðstæðu í heiminum. Persónulega hef ég ágætan samanburð við Ítalíu og Þýskaland. Ítalir eru nú nokkuð rómaðir fyrir fallegt fólk og ég get skrifað undir það að nokkru leyti. Á Ítalíu er mjög mikið um ásættanlegar konur en Ísland á miklu fleiri drottningar. Þýskaland á svo ekki nokkurn séns í neinn samanburð við Ísland í þessum málum. Já, Ísland er ríkt.

En Ísland er líka dýrt. Við fáum góðar tekjur en við vinnum mikið. Með þessum háu tekjum getum við svo keypt góðan mat sem er svo dýr. Og heilbrigðiskerfið er gott en við borgum líka nokkuð háa skatta. Að sama skapi er kvennamarkaðurinn nokkuð skilvirkur og réttilega hátt verðlagður. Íslenskar konur eru fallegar, vita það best sjálfar og ætla ekki að selja sig ódýrt. [Bara svona til að koma í veg fyrir væl, byggt á misskilningi, skal bent á það að hugtökin verð og dýr geta svo sannarlega átt við annað en peninga. Þannig getur það verið "dýrt" eða "kostnaðarsamt" að eyða löngum tíma í eitthvað, þurfa að leggja sig mjög fram við eitthvað eða eitthvað í þá áttina án þess að peningar eða veraldleg verðmæti komi nokkurn tíma við sögu] Ekki veit ég alveg hvort íslenskir karlmenn eru sama gæðavaran og íslenskar konur, enda hef ég ekki hugmynd um hvernig konur verðmeta karla. En ef karlþjóðin er jafngóð og kvenþjóðin er augljóst að við meðalmennirnir þurfum að hafa okkur alla við til þess að landa einhverjum af þessum úrvalskvendum sem landið elur af sér. Því er ekkert að gera nema bara bretta upp ermarnar og halda áfram að njóta hagstæðs kvennaástands á landinu á nýju ári.

Verum því bara sátt við lífið og njótum okkar gæfu því jú, Ísland er ríkt.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com