GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, maí 10, 2004

Frá Kína til Íslands (og svo aftur til Kína að sjálfsögðu)

Eins og gengur og gerist í prófum reynir maður að finna hvaða afsökun sem er til þess þurfa ekki að halda áfram að læra. Ég kíkti á textavarpið í gær í örvæntingu minni. Ég rakst á áhugaverða frétt af íslenskri ferðaþjónustu.

Ferðaþjónustan er í stöðugum vexti og sífellt er leitað að nýjum tækifærum til þess að lokka erlenda seðla í fylgd ferðamanna til landsins. Fréttin sagði frá tækifærum til þess að fá efnaða Kínverja til að koma og verja fríinu sínu á Íslandi. Kínverjar eru víst óðum að byggja upp stétt auðmanna sem veit ekki alveg hvernig best er að eyða öllum peningunum sínum. Hvernig það passar inn í kínverska kommúnismann veit ég ekki en það skiptir annars ekki máli.

Vandamálið við kínverska ferðamenn er hins vegar það að þeir eiga það til að fara í frí til útlanda og koma bara ekkert aftur til Kína. Þetta finnst Hu Jintao forseta og vinum hans ekki sniðugt. Þess vegna vill Hu hafa allan varann á þegar hann sleppir Kínverjum út í sumarfríið. Lausnin er sú að gera samninga við erlend ríki um að þau leyfi kínverskum ferðamönnum ekki að staldra við deginum lengur en fríið átti að vara og segi þeim að drífa sig heim. Svona samningar hafa, samkvæmt fréttinni, verið gerðir við einhver ríki í V-Evrópu og nú stendur víst til að Íslendingar geri svipaðan samning.

Já, það er gott til þess að vita að Íslendingar styðja við bakið á landsfeðrunum í Kína við að missa ekki gott fólk úr landi. Það er engin ástæða til þess að leyfa þessu fólki að fara eitthvað út í heim og yfirgefa sitt ástkæra heimaland. Eins gott að Hu og félagar vita betur og hjálpa þessu vesalings fólki að átta sig á því hvar er best að vera.

Afleiðingarnar gætu líka orðið hræðilegar ef svona væri ekki staðið að málunum. Ef fólk fengi að kaupa miða bara aðra leiðina eins og kjánar gætu einhverjir farið að vilja tjá sig opinberlega og kannski skrifa í blöð og kínversk stjórnvöld vita jafnvel og íslensk að það gengur auðvitað ekki. Sumir skrifa nefnilega bara bölvaða vitleysu eins og að stjórnvöld viti ekki allt best og að leiðtoganum geti skjátlast.

Ferðaþjónustan er vissulega í miklum vexti og bjart framundan. Það er vonandi að við getum blóðmjólkað þessa tímabundnu gesti okkar, svona áður en við hendum þeim aftur til síns heima. Það er hvort eð er allt of mikill hagvöxtur þarna fyrir austan.


Eins og áður sagði rakst ég á þessa frétt á textavarpinu í gær en þegar ég ætlaði að skoða hana aftur var hún farin og ég hef raunar hvergi annars staðar séð hana. Ekki veit ég hvort þetta hefur verið tálsýn eða hvort þeir hafi bara hætt við allt heila klabbið þegar þeir fréttu að Skíturinn væri kominn í málið.

Að lokum vil ég benda fólki á Norðurljósalagið hans Bubba. Ég hafði nokkuð gaman af því.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com