Meistaraverk
Í síðustu viku féll dómur í málverkafölsunarmálinu svokallaða. Málið snerist um fölsun á tugum verka hinna “gömlu íslensku meistara”. Málið hefur verið í gangi í 6-7 ár og tvisvar hefur verið sakfellt en nú sýknaði Hæstiréttur. Listasamfélagið er allt á annarri hliðinni, sérfræðingar Listasafns Íslands sármóðgaðir og Félag íslenskra listamanna veit ekki sitt rjúkandi ráð.
Ég segi fyrir mitt leyti að ég hef haft meiri samúð með fórnarlömbum annarra glæpa. Þarna er verið að kaupa myndir sem eru álitnar mikil listaverk og verðmæt en virðast einskis virði þegar í ljós kemur að gaurinn sem málaði þau er ekki einn af hinum steindauðu “gömlu meisturum” heldur sprelllifandi gutti. Hér er ekki verið að kaupa list heldur einhvers konar snobb stimpil – sá sem á listaverk eftir meistara eins og Kjarval hlýtur að vera býsna merkilegur sjálfur. Mistök Kjarval og félaga voru að skrifa ekki nafnið sitt á skeinipappír og selja á síðustu árum ævinnar, snobbelítan hefði væntanlega slegist um slík meistaraverk.
Fölsun sem slík er að sjálfsögðu ekki réttlætanleg en hér eru augljóslega færir myndlistamenn á ferð sem mála myndir í stíl við myndir gömlu meistaranna. Myndirnar eru greinilega það góðar að einhverjum þykir ástæða að borga háar fjárhæðir en list er ekki list nema einhver lisTaMaðuR sé á bak við hana og fólk borgar ekki fyrir listina heldur fyrir að tengjast lisTaManninuM á einhvern hátt og reyna að vera með í hæpinu í kringum hann.
Er ekki bara spurning um að starta öfugu snobbi og safna fölsunum? Vera bara með attitúd: “Orginalar eru fyrir aumingja, ég kaupi bara falsanir”.
Að lokum vil ég ávarpa sanntrúaða jafnréttispostula sem voru að væla undan misskiptum hlut karla og kvenna í verðlaunafé efstu deildar í fótbolta. Mikið var gert úr því að sigurlið karla fær fimm sinnum meira verðlaunafé en sigurlið kvenna og jafnvel falllið karla fá meira en sigurlið kvenna. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá að í efstu deild á Íslandi í meistaraflokki er þetta að mestu leyti skemmtanaiðnaður. Í yngri flokkum á auðvitað að gera iðkendum af báðum kynjum kleift að stunda sitt sport enda um uppeldi og mannrækt að ræða sem snýr að einstaklingunum sem sportið stunda. Í skemmtanaiðnaði eins og efsta deild í knattspyrnu á að vera (skemmtanagildið er reyndar ekki mjög hátt) er þessu öðruvísi farið því þar á að greiða þeim mest sem mest áhorf fær og mesta skemmtun veitir. Ég þori að veðja hægri eistnalyppunni að karlaboltinn fær miklu meira áhorf og á þar af leiðandi að fá miklu meiri pening. Þarna á jafnréttisbaráttan einfaldlega ekki við vegna þess að karlmenn eru betri í fótbolta en konur og trekkja þar af leiðandi fleiri áhorfendur. Vælendur, hættiði nú þessu væli og farið að einbeita ykkur að málum þar sem þið eigið breik.
Góðar stundir.
<< Home