Af mæli í prófum
Þrátt fyrir annríki prófanna sá ég mér fært að líta upp úr bókunum á laugardagskvöldið til þess að heiðra fjölskyldumeðlim á 40 ára afmæli viðkomandi. Þetta var reyndar annað fertugsafmæli mitt á tveimur vikum en það kemur ekkert því við sem ég hef að segja.
Ég held að þetta fertugsafmæli hafi verið fremur dæmigert, fyrst voru veitingar, fastar og fljótandi, og svo ræðuhöld og “skemmtiatriði” sem jafnan þurfa að vera í svona samkvæmum. Að öllum þessum dagskrárliðum loknum tók síðan tónlistin við. Menn biðu spenntir enda hafði það spurst út að stórhljómsveitin Sálin hans Jónasar ætti að spila undir dansi. Síðan leið og beið og loks mætti bandið á staðinn og það var hvorki meira né minna en tveggja manna sveit. Annar var vopnaður gítar og míkrafón en hinn mætti með þungavopnin, skemmtarann.
Tónlistin byrjaði að óma, fyrst var það Nína og svo slagarar á borð við Manstu ekki eftir mér. Svo heyrði maður allt í einu saxófón óma í fjarska og leit í kringum sig, nei, þetta er skemmtarinn auðvitað. Svona geta skemmtarar komið manni skemmtilega á óvart. Það er líka merkilegt hvað svona minni bönd eins og Sálin hans Jónasar virðast ekki kunna á volume-takkann, ef maður vildi eitthvað segja við næsta mann varð maður að bíða þangað til 5 sekúndna þögn gafst milli laga og lauma gullmolanum að þá.
Kannski var það bara planið að hafa tónlistina svona háværa, útiloka fólk frá því að geta talað saman og knýja það þannig út á dansgólfið. Það eiga allir að dansa enda virðist það verða mun skemmtilegra að dansa eftir því sem maður eldist, þegar þreyttar mæður sleppa loksins út úr húsi úr krakkaskaranum er ekkert betra en dansa og syngja við gamla og nýja Stuðmannaslagara.
Ég velti því fyrir mér hvort ég muni kjósa að hafa tveggja manna coverband á mínum fertugasta afmælisdegi fremur en nota bara þessa sniðugu tækni sem hljómflutningstæki eru. Það væri reyndar óneitanlega gamana að fá einhvern snjallan á skemmtara og kannski munnhörpu til þess að sýna listir sínar. Þorbjörn, ert þú laus þann 17. desember 2020?
Góðar stundir.
<< Home