GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, maí 17, 2004

Ég fer í fríið

Síðan ég kláraði 8. bekk í Hagaskóla hef ég unnið hvert einasta sumar (í einhverjum skilningi að minnsta kosti). Flestir námsmenn þekkja þetta; um leið og vorprófum sleppir er byrjað að vinna fyrir neyslu næsta vetrar. Því þekkja íslenskir námsmenn vart það að eiga frí og slappa bara af. Þegar maður hins vegar verður stór, hættir í skóla og byrjar að vinna fær maður á hverju ári einhverja frídaga sem maður getur tekið til þess að gera það sem manni dettur í hug. Fjöldi þessara frídaga er mjög breytilegur eftir löndum og á Íslandi geta launþegar búist við um 6 vikna fríi á ári.

Ég er nú nýbúinn að klára mína síðustu próftörn í Háskóla Íslands og hef innan skamms störf hjá banka þeim er við Ísland er kenndur. Ég ákvað að bíða ekki eftir því að vinna mér inn frí heldur taka mér bara þessar 6 vikur nú eftir prófin. Því mun ég slappa af næstu 6 vikurnar þar til ég held til ævintýralandsins Þýskalands þar sem mín bíður gríðarlega krefjandi þýskunám.

Allt frá því að ég tók þessa ákvörðun að fara í ærlegt afslöppunarfrí hef ég verið að velta því fyrir mér hvernig sé best að fara með þessa fjölmörgu daga sem fríið hefur að geyma. Ég er kominn með ýmsar hugmyndir og langan bókalista. Svo hef ég að markmiði að hreyfa mig eitthvað á hverjum virkum degi að minnsta kosti. Ég velti því fyrir mér hver útkoman verður. Kem ég stæltur, útitekinn og víðlesinn til Þýskalands eða mun ég sofa 14 tíma á dag, drekka 2-3 kvöld í viku, taka svo júnímánuð í það að horfa á alla leiki EM og flytja inn til Þýskalands eitthvað sem ekki vantar þar, enn eina bjórvömbina?

Já, ég held nú út í hið íslenska vor til að njóta þess til hins ýtrasta og vonandi mun vorið blása nýju lífi í mín skrif sem og annarra skítsmanna. Það vita lesendur skítsins að oft var þörf en nú er nauðsyn.

Ef einhver veit um góðar bækur til þess að lesa væri vel þegið að fá þær nefndar í commenti að neðan.

Að lokum vil ég benda andstæðingum fjölmiðlafrumvarpsins á undirskriftalista til að hvetja Ólaf Ragnar til þess að skrifa ekki undir fruvarpið.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com