GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, apríl 05, 2004

Sunnudagssorpið

Í gær var ég fremur þróttlaus, eftirstöðvar áfengis frá kvöldinu áður veittu mér ekki mikinn drifkraft svo að eftir bolta hlammaði ég mér fyrir framan sjónvarpið og vonaði það besta. Fékk fyrst Silfur Egils sem ég kann vel að meta og sofnaði svo út frá fréttum. Yfir matnum var svo RÚV í gangi eins og venja er á mínu heimili, fréttir og Kastljós eru svo sem í lagi. Svo nálgaðist klukkan 20 og óttinn byggðist upp, ég vissi að það yrði erfitt að agitera fyrir því að skipta um stöð vegna íhaldssemi foreldra minna og ég hafði ekki orku í að standa upp. Ótti minn var á rökum reistur því að þegar klukkan fyllti tuttugustu klukkustundina birtist á skjánum mynd sem byrjaði á myndefni úr íslenskum firði og undir var þjóðlegt tónlistarbreim; Gamla brýnið - heimildamynd um hlunnindabúskap í Ófeigsfirði á Ströndum var hafin.

Já, stöð 1 hefur þann vana að nota besta tíma á sunnudögum í að sýna það sem íslensk heimildamyndagerð hefur upp á að bjóða, gott og slæmt. Það er merkilegt hversu sían er gisin hjá þeim sem velja og hafna efni til að setja í sjónvarp á þessum tíma. Ég ákvað að renna yfir hvað hefur verið á þessum tíma á undanförnum misserum.

Mikið er um að heimildarmyndir séu gerðar um Íslendinga sem enginn þekkir en þykja (að mati þeirra sem gera myndirnar) mjög merkilegir og þess verðir að taka upp 50 mínútna mynd um þá og afrek þeirra. Nefna má myndir eins og Mótmælandi Íslands um Helga Hóseasson, Möhöguleikar (flippað nafn) um Sigurð Guðmundsson myndlistamann og Maður eigi einhamur um lista- og athafnamanninn Guðmund frá Miðdal. Aðrir sem fjallað hefur verið um eru til dæmis Magnús Pálsson listamaður, Jón Ásgeirsson tónskáld og Sigríður Zoëga ljósmyndari. Glöggir lesendur festa kannski augun á því að mikið er um að listamenn fái heimildamynd um sig enda merkilegri en annað fólk. Þá sá ég að tvær heimildamyndir um Vigdísi Finnbogadóttur hafa verið sýndar á síðustu 2 árum.

Einnig er nokkuð um það að hin margvíslegu vísindaafrek sem Íslendingar eru að vinna á hverjum degi séu fest á filmu, enda beinast augu heimsins jafnan að Íslandi þegar eitthvað er að gerast í vísindum. Oftar en ekki er Ari Trausti á bak við þessar myndir. Meðal þessara mynda eru Maðurinn sem gatar jökla um Sigfús Johnsen og rannsóknir hans á borkjörnum úr Grænlandsjökli og þriggja þátta röðina Víkingar: DNA-slóðin rakin um rannsóknir á erfðasögu Íslendinga á Grænlandi. Báðar myndirnar eru undan rifjum Ara Trausta runnar.

Saga Íslands er stórbrotin og æðisleg og hinir ýmsu þættir í henni eiga skilið að um þá sé fjallað. Til dæmis eiga myndir eins og Sauðaþjóðin, sem varpar ljósi á sögu Íslendinga sem sauðaþjóðar, fyllilega rétt á sér. Tyrkjaránið hefur tvívegis tekið fyrir á síðustu tveimur árum, annars vegar í Heilögu stríði í norðurhöfum og hins vegar í þriggja þátta seríu. Hin stórbrotna flugsaga Íslendinga þótti eiga fjóra þætti skilda og loks gerði Markús Örn Antonsson löngu tímabæra tveggja þátta röð um sjósókn Íslendinga á opnum bátum á öldum áður.

Fólk sem tekur upp vídeó-myndir í fríinu sínu virðist líka oft geta selt efnið til sjónvarpsins. Hannes Hólmsteini tókst að sjálfsögðu að selja mynd sem hann tók upp á ferðalagi sínu um staði úr lífi Halldórs Laxness. Karlakórinn Geysir tók upp mynd um ferð sína til Norðurlanda í tilefni 50 ára afmælis kórsins. Drauga- og tröllaskoðunarfélag Evrópu fór í ferð til Brüssel og leitaði að draugum meðal almennings og á krám, sem sagt fyllibyttur með ofskynjanir og þetta komst í gegn. Á einhvern óskiljanlegan hátt komst einnig í sjónvarpið myndin Norðan heiða sem, eins og segir í dagskrárlýsingunni, er "heimildarmynd um ferð 20 manna á 70 hestum í Mývatnssveit", spennandi stöff.

Saga stofnana er líka eitthvað sem er lygilega oft fest á filmu og þá jafnan á mjög gamaldags og ófrjóan hátt. Skólasetrið við Laugarvatn varð 75 ára á dögunum og eðlilega var gerð mynd um það, Félag ásatrúarmanna var tekið fyrir í einni mynd og á 150 ára afmæli Menntaskólans í Reykjavík var gerð mynd um skólann og sögu hans. Þessi mynd er eitt það versta sem fram hefur komið í heimildamyndagerð í seinni tíð og var alveg ljóst að gerandi þeirrar myndar hætti að uppfæra dagatalið sitt fyrir svona 30 árum. Sem leikandi í henni er ég stoltur eigandi þessarar myndar á VHS-snældu og ef einhver vill afrit er honum velkomið að hafa samband.

Nokkrar góðar myndir hafa þó læðst í gegn: Þriggja þátta serían Dópstríðið, verðlaunamyndin Hlemmur og þáttur um Airwaves auk þess sem ég skemmti mér nokkuð yfir myndinni Varði goes Europe.

Loks verð ég að minnast á myndina Noi, Pam og mennirnir þeirra sem er "heimildarmynd um tvær taílenskar frænkur sem búa með íslenskum mönnum norður í landi". Ég sá þessa mynd sem hafði nokkurt skemmtanagildi þar sem annar maðurinn var afdalabóndi sem minnti helst á karakter úr smiðju Jóns Gnarrs.

Þeim sem entust allan pistilinn óska ég góðra stunda.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com