GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, apríl 19, 2004

Kúl að vera glaður og öfugt?

Ég var á rúntinum í gær og stoppaði á rauðu ljósi. Mér var litið í kringum mig og vinstra megin við mig sá ég nýlegan silfurlitaðan BMW. Inni í honum sat gaur með stífgelað hár, í þröngum stuttermabol sem náði náði að sýna gaddavírstattú á sólbrúnum sverum upphandleggnum. Á meðan sat ég málningarhvítur með jarðarberjasjeik í hönd að hlusta Cyndi Lauper á “100% fjörefni” á Mix FM. (Ég var að gefa Mix séns í fyrsta og síðasta sinn). Nágranni minn á vinstri hönd hlýtur að dæmast meiri töffari í hinum hefðbundna skilningi og selur væntanlega kúlið ekki fyrr en á grafarbakkanum. Ég fór að velta því fyrir mér hvor væri nú ánægðari og lífsglaðari, ég eða hann. Er fylgni milli þess að vera kúl og glaður?

Gleði er tilfinning sem flestum líkar vel við og flestir hafa nokkuð góða hugmynd um hvað gleði er. Góðvinur minn dictionary.com lýsir gleði sem ákafri og glaðværri hamingjutilfinningu. Gleði getur hins vegar orsakast af ýmsum ástæðum og því má greina gleði nokkuð niður. Til dæmis má nefna einlæga barnslega gleði, húmorska stundargleði, hlakkandi gleði og samgleði.

Ég tel að gleði megi í grunninn flokka í tvennt, sem ég vil kalla gleðiyin (gyin) og gleðiyang (gyang). Hin upprunalegu yin og yang tákna hin tvö grundvallaröfl náttúrunnar, yin er hið kvenlega, hlutlausa, myrka, neikvæða, jarðneska, kalda og mjúka á meðan yang er hið karlmannlega, virka, bjarta, jákvæði, himneska, heita og harða. Gleðielementin gyin og gyang skilgreini ég áfram eftir kynjum, gyin mun standa fyrir hið kvenlega og gyang hið karlmannlega. Gyin stendur svo fyrir absolut gleði, gleði sem er óháð samanburði og orsakast aðeins af stöðu og líðan einstaklingsins. Gyang stendur hins vegar fyrir afstæða gleði, gleði sem orsakast af stöðu og líðan einstaklingsins miðað við stöðu og líðan annarra einstaklinga, hér er gleðin fólgin í því að hafa það betra en aðrir. Þannig stendur gyin að mörgu leyti fyrir hið góða, umburðalynda, nægjusama og friðsama á meðan gyang stendur fyrir hið illa, gráðuga og aggressíva.

Með þessi hugtök að vopni má greina nánast hvaða gleði sem er.

Varðandi gyangið og kúlið þá tel ég einnig að það skorði nokkuð mögulega gleði að halda kúlinu. Ef maður skorðar sig við að viðhalda ákveðinni afstæðri stöðu gagnvart öðrum (t.d. að halda kúlinu) er nokkurri gleði fórnað.

Því segi ég að við eigum að selja kúlið og gefa okkur gyininu á vald. Eins og Paul McCartney sagði í Hey Jude:

“For well you know that it’s a fool who plays it cool
By making his world a little colder.”

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com