GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, apríl 01, 2004

The Passion of the Christ ***

Jæja, þá er maður búinn að sjá Passion of The Christ. Ég slapp við grátur og gnístran tanna og fann enga þörf til að játa á mig einhverja glæpi úr fortíð meðan á sýningu stóð. Enda harður nagli. Myndin er vissulega ofbeldisfull og drjúg í blóðsúthellingum og safaríkum húðflettingum en ég tek ekki undir þá gagnrýni að myndin fari yfir strikið í þeim tilburðum. Þvert á móti vil ég meina að ofbeldið í myndinni sé bara akkúrat. Hvorki of né van. Þannig tel ég að prestar og sadó-masókískir pervertar geti haft jafn mikið gagn og gaman af þessari mynd .

Ég mæli með að fólk sjái þessa til þess aðeins að fá meiri tilfinningu og hugmynd um það sem “raunverulega” gerðist á tímum Jesú. Hingað til hafa hugmyndir manns um Jesú píslarsöguna aðallega komið úr kristnifræðitímum í barnaskóla þar sem einhver biblíusagnahefti voru lesin í duft og sýndar voru teiknimyndir talsettar silkimjúkum leikararöddum. Hvorki var það til að kveikja áhuga manns á kristinni trú né trúarbrögðum almennt. Manni þótti meiri spenna í því að standa í strokleðrastríði og bomba gömlu nesti í hnakkann á einhverju bekkjarsystkini. En Passion of The Christ varpar öðru ljósi á Jesú, vekur áhuga manns í smástund á trúarbrögðum og hvetur til umræðna manna á meðal.

Á meðan ég maulaði mitt súkkulaði og horfði á myndina fékk ég á tilfinninguna að Jesú og Lærisveinarnir hefðu verið e-s konar sértrúarsöfnuður í neikvæðum nútímaskilningi þess orðs. Þeirra trú stríddi gegn því sem hinn almenni maður trúði. Með kraftaverkum og góðmennsku söfnuðu þeir að sér fylgi og eftir því sem fylgismönnum fjölgaði urðu þeir ógn við ríkjandi stjórnvöld og almennar skoðanir manna. Ríkjandi öfl skynjuðu ógnina og beittu sér fyrir útrýmingu þessa trúarhóps sem sem á endanum var fullkomnuð með krossfestingu leiðtogans, Jesú.

Útrýming sem þessi hefur átt sér stað með reglulegu millibili síðan krossfesting Jesú á að hafa átt sér stað. En ýmist sér trúarhópurinn sjálfur um eigin tortímingu eða honum er tortímt af yfirvöldum. Hver man ekki eftir trúarhópnum í Waco eða trúarhópnum sem framdí sjálfsmorð er Hale-Bop halastjarnan fór framhjá jörðu? Á meðal yfirvalda og almennings er starfsemi á borð við trúarhópa og sértrúarsöfnuði oftast flokkuð sem skipulagður heilaþvottur tengdur kynlífssvalli, mannfórnum og peningasvindli. Eflaust er eitthvað til í því en í flestum tilvikum er áreiðanlega um vænsta fólk að ræða sem vill aðeins hjálpa eða vera hjálpað

Því get ég vel ímyndað mér að ef Jesú myndi birtast okkur nú á tímum myndi fara eins fyrir honum og forðum daga. Sá sem segðist vera Jesú endurfæddur yrði handtekinn og settur í varanlegt varðhald hvar hans daglega brauð yrði að vera buffaður í steininum og nauðgað auk þess sem fylgismenn hans yrðu ofsóttir af prestum, stjórmálamönnum, fólki heilbrigðisgeirans o.s.frv.

Meira segja er vel hugsanlegt að Jesú hafi þegar endurfæðst á okkar tímum og sé haldið í dag á einhverri stofnun fyrir geðsjúka enda eitt helsta einkenni geðveikra að þeir haldi því fram að þeir séu Jesús endurfæddur. Því spyr maður sig hvort ekki sé búið að drepa endurfæddan Jesú oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og í dag refsi Guð okkur fyrir það með stríðum um allan heim, hungursneyð, náttúruhamförum og daglegu óláni. Ætli Ástþór Magnússon sé Jesú endurfæddur? Maður spyr sig. Hann er a.m.k. nógu friðelskandi og nógu geðveikur. En hvað kom þá fyrir augun í honum?

Því er sömuleiðis hugsanlegt er að einhverjir fylgismanna þessara Jesúa nútímans hafi afneitað honum þrisvar til að sleppa við fangelsisvist og séu í þessum töluðu orðum að skrifa sín guðspjöll sem eftir 100 ár munu koma út hjá Eddu miðlun undir heitinu Biblían: Sagan endurtekur sig eftir Peter McDuffin Leigubílstjóra. Pæling.

Nema hvað, The Passion of The Christ fær *** í mínum bókum. Söguþráður er ekki þéttofinn, nánast eitt samfellt atriði í slow motion.Svo er myndin krydduð með blóðslettum, búningum úr Gladiator og sviðsmynd úr Hidalgo sem brátt verður tekin til sýninga hér á landi og skartar Viggo Mortensen, manninum sem margt kvenið myndi fórna hendi til að eiga barn með. En það er efni í annað guðspjall.

Farinn í messu

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com