Efst á Baugi
-pólitík
Heitasta heitt í pólitík þessa dagana er væntanlegt frumvarp forsætisráðherra til nýrra laga um eignarhald fjölmiðla. Ekki eru allir á eitt sáttir um ágæti frumvarpsins og jafnvel mörgum finnst aðdragandi þess ekki eðlilegur. Grundvöllur þessa frumvarps er skýrsla sem hefur ekki verið gerð opinber en allir hafa lesið og í dag fá þingflokkar stjórnarflokkanna frumvarpið í fyrsta sinn. Fréttaritari skítsins fór á stúfana og kannaði málið. Áður en lengra er haldið skal þess getið að, eftir ítarlega athugun og vangaveltur komst undirritaður að því að líklegast mun frumvarpið ekki koma til með að hafa áhrif á rekstur Græns Skíts, að svo stöddu að minnsta kosti.
Aðdragandi málsins er að sjálfsögðu sá að Baugsfeðgar hafa verið að kaupa upp hvern fjölmiðilinn á kúpunni á fætur öðrum. Í kjölfarið er markaðshlutdeild heildarfélagsins, Norðurljósa, að verða nokkuð mikil og það hugnast ekki öllum, og sérstaklega ekki Davíð Oddssyni.
Á þessu stigi málsins virðist innihald frumvarpsins aðallega snúast um tvö atriði:
1) Sami aðili má ekki eiga dagblað og ljósvakamiðil (sjónvarp eða hljóðvarp).
2) Markaðsráðandi fyrirtæki í óskyldum rekstri má ekki eiga fjölmiðil.
Glöggur lesandinn sér að þessi atriði ná því markmiði að kljúfa Norðurljós og koma Baugsfeðgum út af fjölmiðlamarkaði. Í fljótu bragði virðist hvorugt þessara atriða skipta miklu máli upp á að viðhalda öflugum fjölmiðlum á Íslandi.
Hver hefði til dæmis áhyggjur af því ef sjónvarpsstöðin Omega færi að gefa út dagblað? Er nauðsynlegt að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst? Kannski af heilbrigðis- og mannverndarástæðum en ekki vegna þess að slíkt myndi stofna lýðræði í landinu í hættu.
Hvað er svo verra við það að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu eignist fjölmiðil heldur en önnur fyrirtæki? Samkeppnislögin eru til staðar til þess að vernda minni fyrirtæki í samkeppni við stærri. Nefnt hefur verið að óeðlilegt væri að stærri fyrirtæki gætu auglýst ódýrar í eigin fjölmiðlum og jafnvel neitað öðrum fyrirtækjum að auglýsa en það myndi að sjálfsögðu valda lakari rekstri á fjölmiðlunum og því auka raunverulegan auglýsingakostnað.
Fjölmiðlar eru upplýsingaveitur og til þess að þeir stuðli að öflugri og lýðræðislegri þjóðfélagsumræðu er aðalatriðið að allar tiltækar upplýsingar komi fram og öll sjónarmið hafi málsvara. Í þessu máli er aðalatriðið því að sjálfsögðu ekki hvers konar aðilar eiga fjölmiðla eða hvernig fjölmiðla þeir eiga. Það sem máli skiptir er hversu mikla markaðshlutdeild fjölmiðlar hafa, að fólk viti hvaðan upplýsingar koma og hverjir eru á bak við þær.
Ef lagasetning er nauðsynleg er ljóst að hún á að snúa að því að auka gegnsæi í fjölmiðlum, gera öllum ljóst hver á hvaða fjölmiðla og tryggja sjálfstæði fréttastofa gagnvart eigendum sínum. Þá má einnig athuga hvort einstakir aðilar, hvort sem það eru einstaklingar, lítil fyrirtæki, stór fyrirtæki eða ríkið hafi of stóra hlutdeild af fjölmiðlamarkaðinum.
Einnig er alveg ljóst að ef setja á skorður um eignarhald fjölmiðla og rekstur fjölmiðla og þar með þrengja möguleika á hagkvæmum rekstri er algjörlega nauðsynlegt að taka á hinum stóra aðilanum á fjölmiðlamarkaði sem gerir öllum eðlilega reknum fjölmiðlum erfitt fyrir en það er að sjálfsögðu okkar ástkæra Ríkisútvarp. Algjörlega óásættanlegt er að þessi risi fái að blómstra á kostnað skattborgara og í skjóli óeðlilegra laga á meðan aðrir fjölmiðlar lepja dauðann úr skel.
Loks vil ég minnast á ummæli Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar og RÚV-ista með meiru, í Kastljósinu í gær. Hann nefndi hugmyndir um að skylda alla ljósvakamiðla til að hafa ákveðið hlutfall af innlendu efni. Slíkt er að sjálfsögðu fásinna. Það myndi erfiða litlum aðilum mjög að koma inn á markað og nógu er víst sóað í lélegt innlent sjónvarpsefni á heimabóli Marðar, Ríkisútvarpinu.
Góðar stundir.
<< Home