GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, mars 11, 2004

School of Rock**

Það var á mánudagskvöld síðastliðið að ég ákvað að skella mér í bíó enda rúm vika síðan maður kíkti síðast. En, ég stóð frammi fyrir ákveðnum vanda. Allar myndir í íslenskum kvikmyndahúsum sem stóðust síuna mína hafði ég þegar séð. Fyrir utan tvær: Igby goes down og School of Rock. Ég gat strax útilokað Mr. Igby þar sem minn helsti bíóbuddy var nýbúinn að sjá hana. Því varð School of Rock fyrir valinu. Varð sú ákvörðun síðar til staðfestingar á því að sían mín er langt frá því að vera fullkomin.

Þó svo að ég eigi að vera fordómalaus gagnvart kvikmyndum sem standast síuna mína þá verð ég að viðurkenna að svo er ekki. Má finna fjölmarga leikara, leikkonur og leiksstjóra í síuheldum myndum sem ég hef miklar skoðanir á og ýmist elska eða hata. Jafnvel elska að hata. Á meðal þeirra sem ég hef alla tíð hatað af miklum hita og áfergju er leikarafíflið og ófyndna mörbuffið Jack Black. Það er mér hulin ráðgáta hvernig fólki getur fundist þessi göltur í mannsmynd fyndinn. Þennan mann hef ég fordæmt og bölsótast út í allt frá þeirri stundu er hann birtist á skjánum í myndinni High Fidelity. Þar lék hann nákvæmlega sömu týpuna og í School of Rock: feita, lata, sell-out-fóbíska hippagelgju sem vill bara hlusta á leiðinlegt klisjurokk og troða því upp á saklausa borgara með ofbeldi og stælum.

En af hverju þykir mér Jack Black ekki fyndinn?

Fyrir það fyrsta er Jack Black ekkert nema rembingurinn. Ég hef alltaf á tilfinningunni að hann sé að rembast við það að vera fyndinn. Líkt og dauðadæmt hirðfífl í örvætningarfullri leit að eigin höfuðlausn. Allt hans grín er fyrirsjáanlegt, einsleitt og grunnt og að mínu mati skortir hann alla hæfileika til gamanleiks. Hann er ekki snöggur í tilsvörum, hann er engin eftirherma, hefur engar tímasetningar og er alls ekkert fyndinn í útliti. Ekki frekar en Pálmi Gestsson. Eina sem hann hefur er hrísgrjónavömb sem hann hristir sem mest hann getur auk þess að glenna út augun sem óður maður og geifla sig í framan. Hann minnir mig einna helst á Chris Farley heitinn sem var sjúklega ofmetinn og leiðinlegur gamanleikari. Þessir leiktilburðir þykja mér ekki fyndnir. Í besta falli kjánalegir og pirrandi.

Nóg um það. Myndin School of Rock er hörmung (rólegur), eða því sem næst. Ég gef henni ** fyrir þau þrjú atriði sem ég hló að. Öll voru þau með litlum kínverskum strák sem var illa málhaltur og freðinn píanónörd sem þráði ekkert heitara en að vera kúl (sem er náttúrulega vonlaust). Það var allt og sumt, en dáldið fyndið. Smá nýbúagrín í gangi en það er ekki ómerkilegra en hvað annað (reyndar er allt nýbúagrín með Jackie Chan, þar sem hann mismælir sig á ensku alveg óþolandi ömurlegt og ómerkilegt mismælagrín sem á ekki heima í bíó. Kannski Friends-þáttum en ekki í bíó).

Háttvirtur James Berardinelli (sem linkað er á hér til hægri) dró söguþráð School of Rock vel saman er hann lýsti myndinni sem Sister Act vs.Dangerous Minds. Vil ég bæta við þessa lýsingu hans og segja að School of Rock sé Sister Act vs. Dangerous Minds vs. Love Actually vs. Beautiful Mind. Svo Björn, hér er mynd sniðin fyrir þig og þína tú....spúsu.

Djöfull eru United búnir að missa það... ha? Ég á bara ekki orð....

Stay black......

De Boomkikker



Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com