GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, mars 22, 2004

Eru pör leiðinleg?

Ég er mikill áhugamaður um gott grín og hef sem slíkur horft á ýmsa gamanþætti og sér í lagi marga sitcom-þætti. Í flestum þáttum er spilað mikið upp á samskipti kynjanna og oftar en ekki má finna gaura sem eru vonleysislega ástfangnir af gellum og aldrei gengur neitt. Hins vegar gerist það oft þegar líður á þættina að ástir eru látnar takast með fólki. Slík þróun hefur mér yfirleitt fundist marka upphaf hnignunarskeiðs í sitcom-þáttum. Ég pældi mikið í af hverju framþróun persónanna olli mér svo miklum leiðindum, er öll þróun í svona gamanþáttum slæm? Þá var mér bent á mögulega skýringu: Eru einhleypingar skemmtilegri en pör?

Áður en lengra verður haldið er rétt að nefna nokkur dæmi um þetta. Friends finnst mér vera besta dæmið, hverjum finnst Chandler skemmtilegri eftir að hann og Monica byrjuðu saman? Og það þarf nú ekki einu sinni að nefna það slys (sem mér skilst að hafi verið afstýrt) að setja Joey og Rachel í samband. Dæmi má einnig finna annars staðar, Niles náði Daphne í Frasier og George í Seinfeld var nærri því búinn að gifta sig. Seinfeld og félagar sáu þó í hvað stefndi og skrifuðu unnustu George glæsilega út úr þáttunum með því að láta hana sleikja eitruð frímerki.

Hvers vegna voru þessar persónur skemmtilegri einhleypar? Jú, stór hluti þeirra brandara fólst í misheppnuðum viðreynslum og kjánalegum samskiptum við hitt kynið. Eftir að þeir voru komnir í sambönd var lítið hægt að gera nema kokka upp brandara um hvað konur eru ráðríkar og restin að miklu leyti væmni sem á hvergi heima nærri nokkru því sem á að vera fyndið.

Grundvallarmunur einhleypra og para felst að sjálfsögðu í því að flestir einhleypir eru ávallt að reyna að finna maka og þótt það sé kannski einhver vinna sem fer í það að halda sambandi saman getur það vart jafnast á við átökin sem það er að reyna að komast í samband. Því eru einhleypir í stöðugri þekkingarleit og tilraunastarfsemi til þess að finna rétta svarið en einhleypir eru smám saman að reyna að fullkomna sambandið. Þessu má því að mörgu leyti líkja við samanburðinn: Nám vs. Vinna. Hinn einhleypi er að læra eitthvað nýtt og þótt hann falli á prófum við og við þá er hann stöðugt á tánum að reyna að fullkomna sínar aðferðir. Hinn einhleypi er að læra inn á hitt kynið sem heild. Pörin eru á meðan í hægri þróun í átt að hinni gullnu rútínu og læra inn á einn maka.

Sögur af einhleypum eru líka yfirleitt nokkuð meira hressandi en parasögur. Margar snúa þær að viðreynslum, ýmist vel eða illa heppnuðum og oft eru mistökin sem einhleypir gera vítaverð og fáránleg í augum paraðra enda eru einhleypir (sérstaklega langtímaeinhleypingar) oft með ýmsar ranghugmyndir og misskilning um hvað hinu kyninu finnst sniðugt. Þessar sögur þykja jafnan hafa meira skemmtanagildi en: “Við fórum á svo gott leikrit í gær” eða eitthvað viðlíka sem pör gætu misst út úr sér. Það er reyndar þannig að klúður þykir jafnan skemmtilegra frásagnar en eitthvað sem tekst vel upp og ef eitthvað klúðrast í sambandi getur það haft leiðindaafleiðingar á meðan einhleypingurinn snýr sér bara að næsta skotmarki.

Með þessum pistli er ég ekkert að reyna að dásama stöðu mína sem einhleypur maður og reyna að sannfæra sjálfan mig um að ég sé best settur einhleypur. Ég skemmti mér reyndar alveg konunglega hart nær hverja helgi við að reyna að vinna mér kvenhylli en ég hugsa að þegar í samband verður komið verði ég líka nokkuð sáttur þar.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com