Rétt skal vera rétt er réttur er manni réttur á borð
Eins og við var að búast vilja flestir kjósendur fara á Pixies tónleika ef þeir hefðu aðeins um eina tónleika að velja. Pixies hafa lengi glumið í partýgræjum landans og og kannast eflaust margir við að hafa þanið raddböndin við (þreytt?) lög á borð við Hey og Here comes your man tjúnuð í botn. Svo þegar hið endurlífgaða Fight Club-lag Where is my mind er farið að væla og fólk farið að æla er yfirleitt kominn tími á bæinn. Í mínum huga að minnsta kosti.
Sjálfur myndi ég kjósa að fara á Placebo tónleika. Tel þá hafa hafa meira edge og bíta betur öfugt við Pixies sem mér þykja orðnir heldur bitlausir. Reyndar full hart af mér að segja þá bitlausa enda aðeins heyrt Doolittle. Placebo hefur maður lengi dáðst að. Þeir hafa urrandi kraft og drífandi bassalínur sem leggja grunn að grípandi laglínum fluttum af pervisna leðurgimpinu Brian Molko sem syngur og plokkar strengi. Ef þeir munu ná bara broti af því geðbilaða sándi sem einkennir þá þá eiga íslenskir áhorfendur gott í vændum. Þá þá þá....
Reyndar ætlaði ég ekki að efna til orðaskaks eða gera upp á milli þessara hljómsveita enda báðar góðar.
Ég ætlaði að velta upp spurningu er varðar réttarstöðu manns á veitingahúsi.
Hver kannast ekki við það að vera á fínum veitingastað í sínu fínasta pússi og tilbúinn í einhverja geðbilaða máltíð. Eftir að hafa skoðað matseðilinn og lengi velt vöngum ákveður maður að taka einhverja flamberaða steik í tryllidýrasósu með kartöflgeðsýki og salatfargani “on-the-side”. Vitaskuld heitir rétturinn yfirleitt einhverju frönsku nafni og allt lætur svo vel í eyrum að maður fær vatn í munninn og verður hungraður sem ljón. Svo bíður maður spenntur eftir því að sjá hvað maður fær og líka vill maður sjá hvað sessunautar fá. Ég hlæ oft innra með mér þegar ég sé að sessunautar hafa keypt köttinn í sekknum og fá eitthvað drasl á diskinn sinn.
En oftar en ekki er það maður sjálfur sem fær eitthvað drasl. Og hvað meina ég með drasli? Jú, að fá einhvern kjöttening ofan á saltatblaði með teskeið af kartöflumús og nokkrum dropum af sósuseyði þegar maður pantaði steik í tryllidýrasósu með kartöflugeðsýki. Maður getur orðið brjálaður. Svo er stráð saltí í sárin með því að rukka mann um 5000+ kall.
En spurning mín er sú hvort maður hafi ekki rétt á því að neita að borga. Maður fékk ekki það sem maður taldi sig vera að fá. Er hér ekki um samningsbrot að ræða? Á maður rétt á ábót? Á maður rétt á afslætti? Getur veitingastaðurinn komist upp með svona vinnubrögð?
Í raun gildir þessi spurning líka þegar matur er hreinlega vondur og sömuleiðis um skyndibitastaði þar sem maður telur sig vera að kaupa það sem er á myndinni en fær svo bara eitthvað sveitt og feitt sem búið er að liggja undir hitalömpum í 3 tíma. Er maður alveg réttlaus gagnvart svona skipulagðri glæpastarfsemi? Ég bara spyr.
Farinn á Holtið.......
<< Home