Er líf eftir háskóla?
Nú er vor að komast í loftið, sólin kitlaði Reykvíkinga í fyrsta skipti í langan tíma í dag og jafndægur á vori er aðeins í 6 daga fjarlægð. Þetta vor er tímamótavor fyrir okkur á Skítnum því fjórir grænleitir skítapésar ganga nú inn í sitt síðasta vor í prófum (í bili a.m.k.) og arka inn í óvissuna sem bíður utan við háskólaveggina.
Ég held nú að flestir séum við fegnir að klára þennan áfanga enda orðnir með eldri mönnum BS-námsins. Hins vegar mun ég sakna nokkuð hinna fjölmörgu ferða sem við vísindi eru kenndar og hafa séð okkur námsmönnunum fyrir áfengi þegar hart hefur verið í ári. Þegar mikið hefur verið að gera og vinnuvikan búin að þyngja geðið hafa vísindaferðirnar komið eins og brú yfir boðaföllin og svipt manni úr heimi menntunar og inn í heim skemmtunar. Flýgur mér þá í hug staka:
Nú vikan er búin og víst var hún snúin
En vísindaferð tekur við
Ég frekar var lúinn en finnst ég nú knúinn
Að finna nú hitt kynið
Nú ræða menn heitir, reifir og teitir
Og refsa mjög bjórunum
Mér ölið kjark veitir, nú er ekkert sem heitir
Ég arka að stelpunum.
Svo verður hver að klára kvæðið eins og honum finnst líklegast að það endi.
Nú þegar útskriftin nálgast leiðir maður hugann að því hvað maður hefur lært á þessum árum í háskólanum. Ég segi fyrir mína parta að svona helmingur af efninu sem ég á að hafa lært sitji eftir að einhverju leyti og þykir mér það heldur lágt hlutfall. Ætli meirihluti háskólamenntaðs fólks hafi sömu sögu að segja? Þá kemur í huga Matteusarguðspjallið, kapítuli 12, vers 33:
“Annaðhvort er tréð gott og ávöxturinn góður eða tréð vont og ávöxturinn vondur. Því af ávextinum þekkist tréð.”
En hlýtur þá ekki ávöxturinn að þekkjast af trénu? Og hvað ef eitt epli skemmir alla tunnuna, skemmir það þá ekki öll hin trén? Þarna er kannski svarið komið.
Góðar stundir.
<< Home