Í fullorðinna manna tölu
Nú er fermingarvertíðin rétt nýhafin og flykkist glórulaus æskan í hús Guðs, játar trú sína og lofar að lifa eftir lögmálum Hans og boðorðum. Ég var sviptur seinni hálfleik í Arsenal-ManU af fermingarbarni í gær. Ég þurfti þó aðeins að mæta í veisluna en slapp við messuna sjálfa og tel ég mig heppinn enda fátt verra en að sitja undir því þegar kirkjufylli af því sem næst trúlausu fólki játar trú sína á Guð, Jesú, píslarsöguna og allt sem því fylgir.
Eftir að hafa gefið sig trúnni á vald fékk blessað fermingarbarnið svo sín andlegu verðlaun eins og tölvu, stafræna myndavél og fleira sem gott og guðrækið fólk verður að eiga. Já, það er gott að trúa. Ég velti því fyrir mér hvort er verra, að fermast í kirkju þrátt fyrir að trúin sé lítil sem engin eða spóla bara í gegnum hræsnina og skella sér í borgaralega fermingu. Halda bara veislu og þiggja gjafir fyrir að vera búinn með 8. bekk. Borgaraleg ferming er náttúrulega argasta bull og í hrópandi mótsögn við sjálfa sig. Má þá ekki alveg eins tala um aðrar borgaralegar trúarathafnir? Ég fór til dæmis í borgarlega altarisgöngu á föstudagskvöldið síðasta, drakk blóð hins borgaralega krists (bjór) í lítravís og gæddi mér á líkama hins borgaralega frelsara (pizzum).
Það er að sjálfsögðu ekki við blessuð börnin að sakast. Þegar ég fermdist fyrir þó nokkrum árum og kílóum síðan datt mér aldrei annað í hug en að fermast. Þetta var bara eitthvað sem fólk gerði og á þessum árum er maður ekki beint að leita að leiðum til þess að skera sig úr fjöldanum. Það er þjóðfélagið sem leggur þessa (nánast) skyldu á herðar æskunni.
Þetta er kannski óþarfa væl í mér. Kannski er bara rétt að búa til einhvern “merkisáfanga” í líf unglinga þegar allt er voðalega erfitt, maður er bólugrafinn í mútum og er ekkert nema vandræðaleikinn uppmálaður. Það er fínt að fá gjafir því maður á ekki neitt og ekki hjálpar sumarvinnan mikið, tuttuguþúsundkall á ári úr unglingavinnunni fleytir manni víst ekki langt í eignamyndun. Mér finnst samt helvíti hart að það sé normið að játa á sig eitthvað, sem meiri líkur eru á en minni að maður muni hafna síðar, til þess eins að fá gjafir og vera ekki öðruvísi. Svona er ég bara.
Góðar stundir.
<< Home