Yfirlýsing
Eins og ég óttaðist hef ég fengið ódýr skot á mig vegna síðasta pistils og þess vegna finnst mér rétt að segja nokkur orð um markmið mitt með ritun hans.
Markmið pistilsins var ekki að varpa nýju ljósi á samskipti manna og dýra, enda tel ég að slík samskipti séu alfarið ónauðsynleg fyrir utan ræktun til manneldis.
Ég var einfaldlega að reyna að fá fólk til þess að hugsa utan við "tabú-rammann". Í gegnum tíðina hafa verið mörg tabú-málefni sem hafa ekki verið rædd vegna tabú-hræðsluástands, enginn þorir að nefna tabú-ið af ótta við fordæmingu eins og ég er að fá smáskammt af núna og það frá frekar opinhugsandi fólki.
Birni tókst að hugsa utan rammans, sbr. komment hjá honum varðandi val á riðnu eða óriðnu lambakjöti.
Það að geta og vera tilbúinn að velta fyrir sér rökum með málefni sem að skiptir mann engu persónulega og/eða maður er alls ósammála er lykillinn að því að geta haldið opnum hug og koma í veg fyrir fordóma. Svo geta að sjálfsögðu verið mun sterkari rök fyrir hinni hlið málsins.
Með þessari yfirlýsingu vil ég á engan hátt gera lítið úr málefnalegum mótrökum sem bárust, einmitt frá systur Björns sem ber nafnið Björk. Hún tók umræðuna í sínar hendur á málefnalegan hátt og er ekkert nema gott um það að segja.
Hetjudáðir
Oft hefur maður heyrt fréttir af hetjudáðum, sumum dáist maður að en aðrar hetjudáðir eru þess eðlis að býsna súran gaur hefði þurft til þess að sleppa því að vinna þær. Eru það virkilega hetjudáðir? Mér finnst ekki svo vera.
Eins og við umræðu um nördaskap leitaði ég á náðir dictionary.com til þess að átta mig á hvaða skilning eigi að leggja í orðið hetja. Ég fékk fullkomna staðfestingu á mínum skilningi. Skilgreiningin var eftirfarandi (í minni þýðingu):
"Hetja er einstaklingur sem er þekktur fyrir mikið hugrekki eða göfugan tilgang, sérstaklega einhver sem hefur hætt eða fórnað lífi sínu."
Tvö dæmi úr fréttum sem ég man eftir og dreg fram varðandi þetta, ég vona að ég muni staðreyndir málanna rétt. Fyrra dæmið varðar mann sem dró meðvitundarlausan dreng upp úr sundlaug og bjargaði lífi hans. Gott mál, lífi drengsins var bjargað en það sem maðurinn gerði var ekkert mál, aðeins illmenni hefði sleppt því að bjarga drengnum og maðurinn hafði nákvæmlega engu að tapa. Þessi maður var góður maður en engin hetja fyrir þetta afrek. Hitt málið varðar ungan föður sem lenti í því að kviknaði í húsi hans. Hann, kona hans og eldra barn komust út en yngra barnið komst ekki út. Faðirinn hljóp inn í brennandi húsið í leit að barninu en kom aldrei út, faðir og ungt barn hans létust bæði. Þarna náðist enginn árangur en göfuglyndi og hugrekki mannsins verður ekki dregið í efa, hann tók hina mestu áhættu, að missa lífið, og tapaði. Þessi maður var hetja.
Hér bendi ég á að árangur er ekki nauðsyn þess að vera hetja, þetta er að nokkru leyti svipað málflutningi mínum varðandi hvenær ákvörðun er góð eða slæm. Aðalatriðið er hvaða hugur er að baki verknaðinum og hvaða áhætta er tekin, hetjan tekur þá ákvörðun að reyna að vinna gott verk vitandi það að hann getur tapað á því. Hvað tapast og hvað vinnst er svo allt annað mál.
Hetja er ekki hetja vegna aðstæðnanna sem hún lendir í heldur hvernig hún bregst við þeim.
Góðar stundir.
<< Home