Sullumbull
Þessi pistill verður súr. Ég velti fyrir mér hvernig skítur mun þróast eftir útskrift úr háskóla? Hvernig mun maður hátta skrifum sínum? Á maður að halda áfram skítkasti og fíflaskap eða munu ytri aðstæður knýja mann til fágaðri efnistaka og stílbragða? Sjálfur vona ég ekki en það er farið að ganga all verulega á saurhrauk þann er ég nota til skítkasts og ljóst að nýrra pælinga er þörf til að forðast þá stöðnun sem margur listamaðurinn líkir við dauða. Skítsmenn eru miklir listamenn ofan á það að vera nördar (og gott ef ekki leynist hnakki á meðal okkar). Smút. Því kann stöðnun að verða okkur jafn bráður bani og þessum hugmyndasnauðu hordrýlum á listamannalaunum sem setja spegla upp í loft og rukka inn í nafni listarinnar.
En hvert á Skíturinn að þróast? Á þetta að verða pólitískt vefrit? Það hlýtur að teljast ólíklegt enda bara tveir Skítsmanna sem hafa greinilegan áhuga á innlendum stjórnmálum. Annar kostur er að Sketan verði vettvangur kveðskapar og opinnar umræðu um menningu og listir. Ekki er það svo galin hugmynd enda nokkrar vísbendingar um að Saurinn mjakist nú þegar í þá átt. Vísa ég þá til umfjöllunar Skítsmanna um sjónvarpsþætti, tónleikaferðir, kvikmyndaáhorf og samskipti kynjanna svo ekki sé minnst á ferskeytluæðið í byrjun árs og nýútkomna greinaflokkinn Menn og Meinsemdir.
Bjarni fór inn á nýjar brautir í síðasta pistli með umræðu um dýraverndunarlög og lögmæti þess að svala kynlífsfýsnum með mállausum dýrum. Ekki laust við að maður hafi smá áhyggjur af áramótaheiti Bjarna og á hvaða brautir það kann að leiða hann en ég læt mig ekki málið varða fyrr en hann mætir með einhverja illþefjandi rollu á næsta ritstjórnarfund. Þangað til er svosem ágætt að menn komi með nýja vinkla á samskipti manna og dýra.
Til að bæta aðeins við sjónvarpsþátt Björnsins þá datt mér í hug að mæðgur gætu keppt sín á milli auk þess sem ein þraut væri keppni í því að gera sig klára áður en haldið er í bíó,leikhús, út að borða o.s.frv. Fengi þá kvenfólkið stig fyrir hraða, útlit og fyrirferð þ.e. hve mikið umrót á sér stað. Því minna umrót því fleiri stig. En með umróti er átt við hve margir fermetrar eru undirlagðir af snyrtivörudóti, skópörum og flíkum á tíma undirbúnings og við ímyndaða brottför. Pæling. Önnur hugmynd væri rop- og prumpukeppni kvenna. Það væri eitthvað. Efast ekki um að þær þurfi jafn mikið að leysa vind og karlar og þætti mér ansi áhugavert að sjá þær takast á á þessum vettvangi. Fengjust þá stig fyrir hæsta tón og lægsta, lengd og svo stíl. Svo mætti koma með útfærslur á þessu með prumkeppni í ákv. þyngdar og aldursflokkum og keppni milli þyngdarflokka. Pæling.
Að lokum smyr ég *** á American Splendor sem mér þótti fín en varla mikið meira. Paul Giamatti er alltaf traustur en ég var ekki jafn ánægður með hann í þessari mynd og t.d. Storytelling eða Man on The Moon. Kann betur við hann í aukahlutverki. Annars kíkti ég á imdb til að fræðast aðeins um manninn og kemur þá í ljós að þessi silakeppur er sprenglærður frá Yale háskóla í bandaríkjunum. Hefði betur getað ímyndað mér að hann hefði verið uppgötvaður á einhverri poolstofunni í Minnesota með rótarbjór á bringunni í götóttum hlýrabol. En svona geta menn leynt á sér.
Farinn í leikhús...
<< Home