HR eða HÍ ?
Síðustu helgi var ég fenginn til að svara spurningum framhaldsskólanemenda um námið í Viðskipta og Hagfræðideild. Þar sem ég er í hagfræði þá reyndi ég eftir bestu getu að svara spurningum um það nám, kennsluna, aðbúnað og fleira og passaði mig að vera hlutlaus í svörum, enda hef ég engra hagsmuna að gæta. Algengustu spurningarnar voru: Hvað er hagfræði?, Hver er munurinn á viðskipta- og hagfræði? o.s.frv. Sú spurning sem ég átti hvað erfiðast með að svara var: Af hverju á ég að fara í HÍ en ekki HR ?
Varð mér þá hugsað til þess rígs og rógburðar sem nemendur HÍ hafa stundað gagnvart HR. Er talað um keyptar einkunnir í HR, námið sé auðveldara, metnaður sé minni og fólk þar sé að öllu jöfnu treggáfaðra en fólk í sama námi í HÍ. Því til stuðnings er bent á að fólk sem var nánast heiladautt í menntaskóla sé nú með áttur og níur á prófum. Sömuleiðis er sagt að þeir kennarar sem ekki vilji skala einkunnir upp á við fái fljótt reisupassann enda sporni hátt fallhlutfall gegn aukinni aðsókn í skólann og þar af leiðandi innstreymi peninga.
Fyrir mér eru þessar ályktanir af sama meiði og sá hroki og vanvirðing sem ríkir í MR gagnvart Versló. Hafa þá gamlir MR ingar (þar á meðal ég) síðar komist að því að það er bara ekkert að þessum Verslingum þó þeir hugsi aðeins meir um útlitið en aðrir. Að minnsta kosti virðist námsárangur þeirra í HÍ ekki vera lakari en MR inga. Að sama skapi er það ekki nemenda HÍ að dæma um ágæti HR heldur eldri nemenda HR svo og vinnumarkaðarins sem tekur þessa nemendur í sína þjónustu að námi loknu.
Því hugsaði ég með mér að benda framhaldsskólanemendunum á þann mun sem er hvað bersýnilegastur á HÍ og HR. Sá munur felst einkum í aðbúnaði nemenda og skólagjöldum. Í aðbúnaði hafa Nemendur HR algera yfirburði og eru þeir skapaðir með innheimtu á skólagjöldum en HÍ rukkar ekki skólagjöld (fyrir utan 35 þúsund kallinn í skráningargjald) og er aðbúnaðurinn í hönk. Fyrir mér eru því skólagjöldin eini munurinn sem hægt er að fullyrða um en við útskrift hefur sérhver nemandi í HR (sem fjármagnar grunnnám sitt með námslánum) margafalda skuld sérhvers nemanda í HÍ á bakinu. Mörgum blöskrar við þeim upphæðum sem nemendur HR þurfa að borga og sýnist sitt hverjum en hafa ber í huga að skólagjöldin gefa (eða öllu heldur eiga að gefa) nemendunum aukin völd. En þessi völd ber líka að meta.
Fyrir það fyrsta eiga nemendur að geta gert auknar kröfur til námsins, kennara og aðbúnaðar auk þess að námið sé sambærilegt og helst betra en það sem boðið er upp á ókeypis í HÍ. (Ef ekki, hví ætti nokkur maður að fara í HR??) Þessar kröfur geta nemendur HÍ ekki gert enda fá þeir allt ókeypis, kennarar eru (margir hverjir) æviráðnir, metnaðarlausir hverúlantar á lágum launum hjá ríkinu og enginn sér ástæðu til að breyta neinu. Byggingar eru að hruni komnar, kennt er í 100 manna bekkjum og allt er unnið í hópvinnu. Ofan á þetta er HÍ er með heilt stúdentaráð til að berjast fyrir auknum aðbúnaði og er árangur þess gegnum tíðina lýsandi dæmi fyrir þann litla áhrifamátt sem nemendur í HÍ hafa.
Vel má vera að sá orðrómur sem ríkt hafi í kringum HR sé að einhverju leyti réttur en ég er þess fullviss að þar hafi verið um byrjunarörugleika að ræða og spái ég að orðspor HR muni nú fara stigvaxandi og brátt laða að sér metnaðarfyllstu nemendurna, færustu kennarana, og skila af sér hæfasta starfsfólkinu út í atvinnulífið í þeim fögum sem skólinn mun kenna. Þetta þykir mér augljós og óumflýjanleg þróun en hún er vitaskuld háð því að HÍ taki ekki upp skólagjöld.
Í ljósi þessa þykir mér einkennilegt að ákveðnir hópar sem telja sig berjast fyrir hagsmunum HÍ og nemenda þeirra séu að mótmæla skólagjöldum án nokkurrar umræðu um kosti og galla skólagjalda og mótmæli ég hér með þeirra mótmælafundi þann 22. mars næstkomandi og hvet fólk til að velta þessu aðeins fyrir sér með opnum huga.
<< Home