Miðvikudagskvöld við Imbann
Herra forseti, frú, ráðherrar og aðrir landsmenn. Velkomin á Grænan skít. Ég hef hugsað mér að taka Gísla Martein Baldursson til fyrirmyndar í gríni og glensi enda er hann botnlaus brunnur gamanmáls og frumlegra athugasemda. Tókst honum og Evu Maríu Jónsdóttur að gera Hin Íslensku Tónlistarverðlaun að svo fyndnum sjónvarpsþætti að ég hélt ég væri að horfa á áramótaskaupið. Svei mér þá.
Annars eyddi ég gærkvöldinu í heild sinn í prumpusófanum fræga og seytti lofttegundum, andfýlu og svita út í andrúmsloftið milli þess sem ég bölvaði tónlistarverðlaununum, íþróttafréttum á Rúv og svo Pressuþættinum á Rúv.
Nenni ekki að fara í ítarlegar lýsingar á tónlistarverðlaununum. Athyglin var mest í byrjun hvar ég varð vitni að uppvakningunum í Hljómum spangóla einhverja drullu (“þú, ég, við, saman, gaman, sólarlag og hundakex, O-LE!”), hrynjandi í sundur af elli. Ágætis skemmtiatriði þar á ferð. Eftir það fór allt í rugl, einhver klassísk atriði sem engan enda ætluðu að taka og svo grín Gísla og Evu Maríu sem hefði örugglega þótt bara nokkuð gott á Grænu deildinni á Sólbrekku, gamla leikskólanum mínum.
En besta tónlistaratriði þessara verðlauna var sóló Hilmars Jenssonar á rafgítarinn sinn. Hingað til hefur Hilmar virkað á mig sem snarbilaður jazzgeggjari án jarðsambands sem aðeins hefur getað framið gallsúra,taktlausa hávaðagrauta með volumetökkum og feedbacki. Í þetta sinn lék hann “no bullshit”-lag eftir sjálfan sig og hafði flutningur hans algera yfirburði yfir aðra gjörninga á þessari hátíð. Fagmennska í fyrirrúmi.
Þar á eftir voru ræðuhöld og rembingur allsráðandi og ég nennti ekki að horfa meir. Skipti því yfir á Skjá 1 og sá að Jón Gnarr var að setjast í settið hjá henni Sirrý. Og viti menn, þetta var trúlega eitt besta viðtal sem ég hef séð Jón koma fram í. Ótrúlegt en satt. Þema þáttarins var trú og trúarbrögð. Sem fyrr var salurinn fullur af hlandbrunnum gimpum með þrefaldar undirhökur. En til að gera langa sögu stutta fór Gnarrinn á kostum og lék við hvurn sinn fingur. Öfugt við það sem maður á að venjast var kallinn bara einlægur og hreinskilinn og alveg mör-fyndinn út viðtalið í útskýringum á trúnni og viðhorfi manna almenn til trúarbragða. Þetta var allavegna betra en síðasti Ali g sem olli mér miklum vonbrigðum og hvet ég fólk hiklaust að horfa á endursýningu þessa þáttar, jafnvel þótt Sirrý geti verið með alveg viðbjóðslega leiðinlega þætti sem fjalla yfirleitt um kökukrem og sellólíta.
En eftir verðlaunin tók ég enn eitt kastið á íþróttadeild rúv sem sagði Eið Smára hafa skorað í kvöld en ætlaði ekki að sýna markið heldur sýna 5 mínútna úttekt á stjörnuleik kvenna í körfubolta. Er ekki allt í LAGI!!!. Ég nánast missti saur og andann af brjálæði þegar þessi óskapnaður birtist í stað marks Eiðs Smára. Þeir þurfa að vara fólk við svona myndum af konum í körfubolta . En kannski ekki bara konum þetta á líka við karla í körfu. Þetta er bara svo leiðinleg íþrótt að mig langar helst að senda þessu íþróttafólki samúðarskeyti.
Að lokum kíkti ég á Pressukvöld. Þetta var alveg ótrúlega slakur þáttur. Jón Ásgeir sat fyrir svörum og sem fyrr sendi hann spyrjendur sína (sem skulfu eins kjúklingar bíðandi eftir eigin slátrun) grenjandi heim með skottið á milli lappanna. En alveg þykir mér undarlegur ómálefnalegur þessi málflutningur Sjálfstæðismanna og Framsóknar sem vilja koma á lögum um eignarhald á fjölmiðlum. Vil ég meina að hér sé um ofsóknarbrjálæði og móðursýki að ræða. Engin rök eða staðreyndir eru borin á borð bara kenningar um hitt og þetta sem ekkert er á bak við. Og viti menn, það er loks nú sem Morgunblaðið þarf að fara að gera eitthvað. Rembast við að gefa út hálfgerð Fókusblöð, hafa lækkað smáauglýsingaverð niður í 500, eru farnir að koma fram í fjölmiðlum og látnir svara fyrir sig usw.usw. Kominn tími á þetta ellihruma blað að gera eitthvað.
Niðurstaða kvöldsins var að Fólk með Sirrý var áhugaverðasta sjónvarpsefni þessa kvölds. Er þá ekki eitthvað að í þessum heimi? Nei, ég bara spyr.
<< Home