GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, janúar 26, 2004

Bushido

Ég fór, eins og fleiri úr ritstjórn skítsins, á Síðasta samúræjann fyrir helgi. Myndin var nokkuð góð, ágætis skemmtun en þó nokkuð um klisjur og galla sem koma í veg fyrir að mér finnist hún komast í hóp gæðamynda. Ég myndi setja 2,75 stjörnur á hana. Hins vegar vakti hún áhuga minn á samúræjum og lífsmáta þeirra. Í kjölfarið skellti ég mér á alnetið og aflaði mér upplýsinga.

Samúræjar voru, eins og flestir vita, stríðsmenn með ágætum. Þeir beittu ýmsum vopnum en sverðið er þeirra frægast. Raunar var það kennimerki samúræja sem hóps að þeir báru tvö sverð á meðan aðrir báru aðeins eitt. Ímyndin sem fyrrnefnd kvikmynd dregur upp af samúraæjanum er rómantísk, hann er náttúruunnandi og virðist nokkurs konar frelsishetja sem berst fyrir réttlæti gegn ranglæti. Þessi mynd er ekki alveg rétt því sannleikinn var sá að samúræjar voru stétt málaliða. Þeir voru hermenn Japans til forna nokkuð svipað og riddarar miðaldanna í Evrópu. Þeir þjónuðu stríðsherrum, daimyo, sem svöruðu svo aftur til shogunsins sem var æðsti stríðsherra Japans. Hollusta við húsbóndann var ávallt það mikilvægasta í lífi samúræjans.

Sem herstétt nutu þeir forréttinda og í þjóðfélagsstiganum komu þeir á undan bændum, verkamönnum og í raun öllum nema ofangreindum stríðsherrum. Þannig má velda því fyrir sér hvort tilgangur þeirra hafi verið göfugur eða hvort margir þeirra hafi einfaldlega séð frama í því að gerast samúræjar og verið tilbúnir að berjast fyrir slíkum frama.

Því er þó ekki að neita að lífsreglur samúræjans eru harðar og bera mikinn vott um aga og æðruleysi. Örlög hvers manns verða ekki umflúin og því best að óttast ekkert og taka öllu með stóískri ró. Dauðinn er álitinn jafnmikilvægur og lífið og glæsilegur dauðdagi er lykilatriði. Að mörgu leyti komast AHA-menn best að orði um þetta í laginu Living Daylights er þeir segja: “Living’s in the way we die”. Einnig er það lýsandi fyrir það hversu dauðinn er álitinn sjálfsagður og eðlilegur að í ummælum 16. aldar samúræjans Torii Mototada veltir hann fyrir sér hinum hræðilegu afleiðingum þess ef samúræjinn færi að meta líf sitt einhvers. Reyndar var þetta æðruleysi og húsbóndahollusta líklegast útbreitt meðal allra Japana sem aðhylltust heimspeki Konfúsíusar hins kínverska. Því er spurning hversu mikið samúræjar skörðuðu fram úr öðrum í þeim efnum.

Á friðartímum var samúræjinn í vandræðum. Mikið atvinnuleysi var í stéttinni og margir samúræjar urðu húsbóndalausir og kölluðust þá Ronin. Samúræjar lögðu þá sverðin umvörpum frá sér og urðu möppudýr eða kennarar og sitthvað þess háttar.

Heimspeki samúræjanna, bushido, er þó hrein og heiður, hollusta og óttaleysi voru öll lykilatriði í henni. Ég hef skellt saman tveimur limrupörum um málið.

Sorgmæddi samúræjinn

Frá fæðingu ljóst var að yrði
Aldrei mitt líf neins virði.
Í æsku ég var
Inntur um það
Hvort berjast og drepa ég þyrði.

Um líf mitt er þetta að segja:
Ég á bara stríð að heyja,
Setja upp verð,
Draga mitt sverð
Og sigra en ellegar deyja.

Spillti samúræjinn

Ég fæ alltaf nóg að borða,
Ég á jafnvel aukaforða
Já, ég hef það fínt
Því ég hef það sýnt
Að ég kann á flugbeittan korða.

Um fjöll og firnindi þeysi,
Og berst og brenni fólks hreysi.
Ég gef engin grið
Ég vil engan frið
Því þá kemur atvinnuleysi.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com