GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, janúar 12, 2004

Hass eða bjór?

Undirheimar Íslands hafa mikið verið í umræðunni að undanförnu. Bankarán eru í tísku og æ meira heyrist af ofbeldisverkum. Að mjög miklu leyti virðist þetta eiga rætur sínar að rekja til fíkniefnaheimsins. Á RÚV er nú í gangi heimildaþáttaröð sem ber nafnið “Dópstríðið” og fjallar um ýmsa þætti þessa grimma heims. Undirritaður sá síðasta þátt sem var í sjónvarpinu í gær.

Eyðileggingaráhrif fíkniefnaneyslu má í megindráttum flokka í tvennt: Annars vegar er hið líkamlegt tjón sem neytandinn verður fyrir við neyslu og áhrif þess á aðstandendur. Hins vegar er það skaði sem fólk sem kemur fíkniefnaheiminum ekkert við. Þar má nefna innbrot eða rán til þess að fjármagna neyslu og ofbeldisverk sem unnin eru annaðhvort af neytendum í vímu eða af innheimtuaðilum gagnvart aðstandendum eða öðrum tengdum neytendum. Þegar aðgerðir í stríðinu gegn fíkniefnum eru athugaðar verður að skoða hvaða áhrif þær hafa á þessa tvo þætti.

Eins og staðan er núna er baráttan við fíkniefnin háð þannig að harðir dómar (á íslenskan mælikvarða a.m.k.) liggja við innflutningi og sölu fíkniefna og mikilli löggæslu gagnvart innflutningi. Þetta veldur því að minna er af fíkniefnum er í umferð en ella og því er væntanlega samanlagt líkamlegt tjón allra neytenda minna. Hins vegar veldur þetta háu verði á fíkniefnum. Því verður neytandinn oft að afla fjár til neyslunnar á ólögmætan hátt sem bitnar yfirleitt á heiðarlegu fólki sem á ekki sökótt við neinn. Erfitt er fyrir neytendur að losna út úr þessum lífshætti þar sem vandamál þess er yfirleitt vel falið enda ólöglegt. Einnig er ofbeldið gróft þar sem dómar gegn ofbeldi eru vægir.

Til þess að ná betri árangri gegn fíkniefnum og fylgifiskum þeirra tel ég að lykilatriði sé að hækka refsingu við grófum líkamsmeiðingum. Eins og staðan er núna er refsiramminn fyrir grófa líkamsárás aðeins 3 ár nema “stórfellt líkams- eða heilsutjón” hljótist af og sá refsirammi er sjaldnast nýttur til fulls. Löggjafinn verður að senda skilaboð til dómstóla með þyngdri löggjöf gagnvart ofbeldisglæpum.

Lögleiðing “léttari” efnanna, hass og marijúana, er einnig eitthvað sem mér finnst eðlilegt að athuga. Ef eitthvað er að marka áðurnefndan heimildarþátt þá standa þessi efni fyrir 2/3 af allri veltu í fíkniefnaheiminum. Með því að draga þá veltu upp á yfirborðið yrðu völd og áhrif hinna ofbeldisfullu eiturlyfjasala minnkuð niður í þriðjung miðað við núverandi ástand. Verð þessara efna myndi einnig lækka og neytendur þeirra bæði þyrftu síður að snúa sér til glæpa til þess að afla fjár til neyslunnar og myndu hika frekar við það þar sem þeir væru enn ekki búnir að stíga skrefið yfir línunna milli hins löglega og ólöglega.

Ókostir lögleiðingarinnar eru að sjálfsögðu þó nokkrir. Augljóslega myndi neysla á hassi og marijúana aukast, með lægra verði og auknu aðgengi myndu fleiri prófa efnin auk þess sem þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að vera að gera eitthvað rangt. Þrátt fyrir að þessi efni séu vissulega skaðleg er þó nokkuð umdeilt hvort þau séu skaðlegri en okkar löglegi vímugjafi, áfengið, og eftir því sem ég best veit eru þau minna ávanabindandi en áfengið. Einnig eru þau slævandi þannig að þau auka ekki árásarhneigð manna eins og áfengið gerir. Því er alls óvíst að hófleg neysla þessara efna myndi vera nokkuð verri fyrir þjóðfélagið en sú firrta áfengismenning sem viðgengst á Íslandi. Mögulega yrðu áhrifin á neytendurna verri en áhrif á þá sem utan fíkniefna standa myndu minnka.

Einnig verður að velta fyrir sér hvort aukin neysla hass og marijúana myndi leiða til aukinnar neyslu á hinum sterkari efnum, kókaíni, amfetamíni, e-töflum og morfínefnum eins og heróíni. Vel gæti verið að hinn aukni neytendafjöldi myndi valda því að fleiri myndu leita til sterkari efna en ég tel einnig að verið gæti að fíkniefnaþörf fólks yrði svalað í áfengi, hassi og marijúana og fólk myndi frekar hika við að fara í sterkari efnin þar sem þá væri stigið yfir fyrrnefnda línu milli rétts og rangs.

Því hvet ég hina fjölmörgu lesendur skítsins sem á Alþingi sitja til þess að herða löggjöf gegn ofbeldisglæpum og kanna kosti og galla lögleiðingar kannabissefna án fordóma.

Það skal tekið fram að undirritaður hefur ekki reynt neitt sterkara en 47,5% gin svo að hann getur seint talist fræðimaður um fíkniefni.


Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com