GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, janúar 05, 2004

Skák og mát

Jólaspilið í ár var ekki jafnhresst og party & co og ekki jafnháfleygt og Séð og heyrt spilið. Það er heldur ekki enn eitt spurningaspilið (það hefur ekki verið þörf fyrir slík spil síðan Trivial kom fyrst út). Nei, það er gamla og göfuga listin skák, sem oft hefur verið nefndur leikur konunga, færð í nýjan og skemmtilegan búning. Spilið nefnist Hrókurinn og kom nú fyrir jólin út í fyrsta skipti á íslensku.

Hrókurinn er leikinn á klassísku 8x8 svarthvítu taflborði með aukalínu af reitum í kring, þannig að borðið verður 10x10 reitir. Hver leikmaður fær svo 16 spjöld sem hver hefur tákn taflmanns, 8 peð, 2 riddarar, biskupar og hrókar ásamt kóngi og drottningu. Saman mynda þessi 16 spjöld því hina 16 taflmenn sem í klassíska taflinu eru. Svo er spjöldum hvers leikmanns raðað á sinn kant en á hvolfi og enginn veit hvaða spjöld eru hvar. Svo er byrjað að snúa spjöldunum smám saman við og þannig koma taflmenn hvers og eins í ljós en í handahófskenndri röð. Svo gildir almennur manngangur eftir að búið er að snúa spjöldunum við.

Spilið er sagt vera fyrir 2-4 en eftir að hafa spilað það í fjögurra manna hópi sé ég ekki hversu mikið er varið í að vera 2 eða 3 í því. Þegar ég spilaði það var spilað þannig að tveir og tveir voru saman í liði og er markmiðið, eins og í hinni klassísku skák, að króa hilmi andstæðingsins af og taka hann af lífi en í Hróknum þarf að máta hvorn tveggja andstæðinganna.

Í þessu spili er því eins konar parskák í gangi, liðsandinn er algjörlega nauðsynlegur og samvinna er algjör lykill að sigri. Hér er líka heppnin með í spilum þannig að lakari spilarar geta sigrað mun sterkari einstaklinga. Pirringur getur þó risið þegar makkerinn leikur af sér á krítísku augnabliki.

Hrókurinn er eins og segir í auglýsingunni skemmtilegur fyrir bæði lengra og stytt komna þótt venjulegir skákhæfileikar nýtist óneitanlega mjög vel í spilinu. Ég hlýt að mæla með spilinu við skákáhugamenn og loku er langt frá því að vera skotið fyrir að ég festi kaup á þessu ágæta spili. Ég veit ekki alveg hvað spilið kostar en þess skal þó getið að 300 krónur af andvirði hvers selds spils rennur til æskulýðsstarfs Skákfélagsins Hróksins.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com