GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

mánudagur, október 25, 2004

Loftbylgjur

Nú er nýlokið hinni árlegu tónlistarhátíð Iceland Airwaves. Í fyrsta sinn festi ég kaup á armbandi sem veitti aðgang á alla atburði hátíðarinnar. Ég notaði það reyndar mun minna en ég reiknaði með en náði þó upp í kostnað vegna bandsins.

Á meðan á Airwaves stendur færist mikill fjörleiki yfir bæinn. Mun meira af fólki er í bænum og það sem mér finnst líka betra, fólk mætir fyrr í bæinn. Fyrstu tónleikarnir hófust upp úr kl. 20 hvert kvöld og þaðan í frá var mikið af fólki í bænum. Ekki alveg eins og venjulega þegar enginn með örðu af sjálfsvirðingu mæti í bæinn fyrir klukkan hálftvö.

Airwaves er að sjálfsögðu listahátíð og á listahátíðum eru það listamenn sem ráða lögum og lofum. Listamenn hafa hæfileika til þess að skapa eitthvað sjónrænt eða hljóðrænt sem hefur áhrif á upplifun og skynjun annarra, yfirleitt á fagurfræðilegum nótum. Hins vegar festast sumir listamenn á hinu rósrauða skýi listamennskunnar og ofmetnast af eigin sköpunargáfu. Þá verður oft til hinn ofursvali töffari sem er yfirleitt á móti “kerfinu” en er tilbúinn að hjálpa til við að bjarga heiminum, svona með öðrum verkum. Ég lenti á tónleikum hjá einum slíkum. Það var söngvarinn í hljómsveitinni Touch, sem ég held að gangi undir því ágæta töffaranafni Böddi. Hann var að sjálfsögðu með hatt eins og allir góðir og gegnir listamenn og týpur ættu að gera. Þá var hann í bol með áletruninni “I only sleep with the best”. Ó, je! Böddi spjallaði auðvitað við okkur áhorfendurna milli laga og benti okkur á hvað mætti betur fara í heiminum. Eitt af því sem hann ákvað að benda okkur að gera var að “ekki fokkin skjóta fólk”. Ég veit ekki alveg hvort hann hélt að Osama og Mullah Omar væru að hlusta eða hvað en síðast þegar ég vissi var það nú ekki stærsta vandamál Íslendinga að menn væru að skjóta hverjir aðra í massavís. Eitt púðurskot frá Bödda þarna. Síðan var hann að kynna eitt laga hljómsveitarinnar sem var víst eina lagið sem þeir höfðu gefið út. Það hafði þá komið út á safnplötu til styrktar börnum í Palestínu. Á þessum tímapunkti bráðnaði alveg hjartað í manni. Ég hef auðvitað aldrei heyrt um þessa hljómsveit eða safnplötu áður (enda alveg kaldur á tónlistarpúlsinum) en ég efast stórlega um að Böddi hafi hjálpað mörgum börnum í henni Palestínu. Það er samt fínt að hafa á CV-inu að hafa lagt svo mikilvægu málefni lið. Góð tilraun hjá Bödda. Það gengur vonandi betur næst. Annars tók ég eiginlega ekkert eftir tónlistinni hjá Touch. Ég var of upptekinn við að hlusta milli laga. Getur kannski einhver fyllt í þá eyðu?

Ég er auðvitað ekkert að útiloka að listamenn geti haft eitthvað til heimsmálanna að leggja, langt í frá. Hins vegar finnst mér kómískt þegar menn ákveða að reyna að meika það á einu sviði í krafti hæfileika á allt öðru sviði. Til dæmis var Michael Jordan besti körfuboltamaður heims. Það hjálpaði honum ekki mikið í hafnaboltanum. Þá nenni ég ekki að sjá myndir með Eric Cantona, jafnvel þótt hann hafi verið hörkuknattspyrnu maður (í vitlausu liði reyndar). Þegar maður fer út fyrir sitt svið verður maður að sætta sig við að byrja á núllpunkti og þá eru alltaf ágætislíkur á því að maður komist ekki langt. Böddi, stick to what you know. Hvað sem það nú kann að vera.

Að lokum vil ég setja hauskúpu á Vegamót. Stemmningin þar var súrasta súrt á laugardaginn.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com