Kirkjan leysi kennaradeiluna!
Í dag hefst fimmta viku kennaraverkfallsins. Foreldrar eru að verða ráðþrota, foreldrafélög farin að krefjast þess að deilan verði leyst en ekkert virðist ganga milli samningsaðila. Reyndar spjallaði ég við frænku mína í níunda bekk um helgina og hún var ekkert sérstaklega áhyggjufull yfir því að deilan drægist svona á langinn en hvað um það.
Nú eru margir búnir að kvarta og kveina yfir deilunni og “krefjast” þess að deilan verði leyst en hafa svo ekki minnstu hugmynd eða vilja til að leggja eitthvað fram til deilunnar. Nú síðast var það biskupi Íslands sem féllust hendur vegna málsins. Hann sagði eftirfarandi á Kirkjuþingi 2004 nú um helgina:
“Kennaraverkfallið hefur sett mark sitt á þjóðlífið og snertir flest heimili í landinu með einum eða öðrum hætti. Það að kennarar skuli enn og aftur finna sig knúna að beita verkfallsvopninu í kjarabaráttu sinni er óþolandi. Vegna þess að það bitnar á þeim sem síst skyldi, skólabörnunum. Það er brýnt að fundin verði leið til að tryggja kennurum viðunandi kjör. Um það verða samningsaðilar og stjórnvöld að taka höndum saman. Með starfi skólanna er lagður grundvöllur að menntun og menningu, velferð og velmegun þjóðarinnar og þar má ekkert slaka á.“
Ég er í rauninni ekkert ósammála biskupi. Hann er góður maður sem vill vel og sér nauðsynina í því að hafa skólakerfið gott til þess að tryggja áframhaldandi velmegun Íslendinga. En hverju er biskupinn tilbúinn að fórna fyrir þessa velmegun?
Að sjálfsögðu settist ég niður og fór að reikna. Ég fór á uppáhaldsvefinn minn, www.fjarlog.is, og kíkti hversu miklu íslenska ríkið eyðir í kirkjuna á ári hverju. Helstu útgjaldaþættir eru biskupsembættið, 1.224 milljónir, og sóknargjöld, 1.636 milljónir. Samtals eru þetta því um 2.860 milljónir á ári. Nú er kirkjan að sjálfsögðu algjörlega óþörf stofnun sem á ekki að koma nálægt ríkinu. Því verðum við að reyna að finna einhvern skynsamlegri stað fyrir alla þessa peninga. Lausnin er því að loka kirkjunni og setja peningana í deiluna. Þannig yrðu ríki og kirkja aðskilin (sem meirihluti þjóðarinnar vill), kennaradeilan yrði leyst (sem meirihluti þjóðarinnar vill og bæði menntamálaráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra yrðu hetjur. Með þessum 2.860 milljónum væri nefnilega hægt að hækka laun hvers hinna 4.300 kennara um 55.000 krónur á mánuði. Það hlýtur að fara langt með að uppfylla kröfur kennara í bili.
Ég hvet því biskup til að leggja fram þessa sáttatillögu hið snarasta og leysa málið. Sjálfur afsala ég mér öllum þökkum fyrir hugmyndina. Það er mér nóg gleði að blessuð börnin geti snúið aftur til náms áður en þau villast á refstigum verkfallsins og leiðast út í fíkniefnaneyslu eða ótímabært kynlíf.
Eins og önnur vandamál mætti leysa þetta með því að hætta landbúnaðarstyrkjum en ég bíð með að reikna það dæmi til enda þangað til bændur fara að tjá sig um málið. Reyndar er mjög ólíklegt að það gerist þar sem bændur hafa væntanlega lítinn áhuga á að auka menntastigið í landinu.
(Útreikningarnir gera ekki ráð fyrir launatengdum gjöldum enda hef ég ekki hgumynd hversu há þau eru)
<< Home