Væntingar og vonbrigði
“Nú er góðæri” heyrist oft frá sitjandi ríkisstjórnum, allt er gott og verður áfram á meðan þær eru við völd. Ekki eru stjórnarandstæðingar jafnsannfærðir og telja að allt verði betra þegar þeir komast til valda. Erfitt er að koma með gott svar af eða á en ein leiðin er að taka púlsinn á fólkinu í landinu. Finnst þeim ástandið vera gott og er það að batna eða versna?
Þetta er víða gert. Í Bandaríkjunum bíða markaðir spenntir eftir því að heyra hvort neytendur eru bjartsýnir eða svartsýnir og hlutabréfaverð hreyfist oft í takt við niðurstöður slíkra kannana. Á Íslandi er þetta einnig gert. Gallup mælir væntingavísitölu sem er ætlað að meta hvað fólki finnst um atvinnuástand og efnahagsmál. Íslenski markaðurinn virðist þó ekki vera jafnnæmur fyrir breytingum í þessari vísitölu og erlendis. Annars er fólk í stuttu máli fremur bjartsýnt núna. Nóg virðist vera af peningum í þjóðfélaginu, fólk sér fram á að geta farið að neyta með hjálp húsnæðislána og allt er til alls. Það er samt ekki það sem er skemmtilegast við þessar mælingar að mínu mati. Mér finnst skemmtilegast að bera saman hversu bjartsýnir hinir ýmsu þjóðfélagshópar eru hver miðað við annan. Það augljósasta er auðvitað hvernig fjárhagsstaða hefur áhrif á afstöðu manna. Það er mjög marktækt hversu bjarstýnna tekjuhærra fólk er en tekjulægra og kemur varla á óvart. Á sama hátt eykst bjartsýni stöðugt með meiri menntun fólks. Búseta hefur eitthvað að segja. Íslendingar á suðvesturhorninu eru bjartsýnni en aðrir og þá er ungt fólk einnig bjartsýnna en eldra. En svo er það rúsínan í pylsuendanum, samanburður á kynjunum. Hvort sem allir syndi í seðlum eða allt sé á leiðinni til andskotans, þá er það alltaf þannig að karlar eru bjarstýnni en konur og það talsvert.
Ég hef alltaf gaman að því þegar marktækur munur mælist á hæfileikum eða hugsunum karla og kvennam, í hvora áttina sem er. Ég stend nefnilega fastur á því að konur og karlar séu ólíkar skepnur sem eru mishæfar í mismunandi störf. Með þessu tek ég alls enga afstöðu hvort kynið er hæfara í hvaða starf enda held ég að þjóðfélagið eigi nógu erfitt með að samþykkja síðustu setningu.
Allt í allt eru það því gamlar, ómenntaðar konur úti á landi með lágar tekjur sem eru svartsýnastar og ungir, háskólamenntaðir karlmenn á höfuðborgarsvæðinu með háar tekjur sem eru bjarstýnastir.
Persónulega held ég að Ísland sé í þokkalegustu málum. Hvað finnst þér?
<< Home