GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

fimmtudagur, október 07, 2004

Útgjöld Ellans fyrstu 3 ársfjórðunga

Jæja, þá er maður kominn aftur á frosið frónið.Þvílíkt skítaveður er hér alla daga. Á engin orð yfir þennan fimbulkulda eftir að hafa spókað mig um í kóngsins köbenhavn við stofuhita. Biðst velvirðingar á því að hafa skilað auðu síðasta fimmtudag. Hef enga afsökun á reiðum höndum aðra en leti. Skammarlegt og ég skammast mín.

Guðmundur reifaði ágætlega kvöldið góða er hlýtt var á The Hunches á rokkbúllunni Lades. Fantaþétt band sem kemur manni í gírinn. Veit ekki hvort ég myndi kaupa diskinn þeirra en ég myndi hiklaust mæta á tónleika með þeim aftur og sjá sveitt bassakvendið þjöstnast á bassahelvítinu. Sjón er sögu ríkari og því ætla ég ekki að reyna að lýsa hennar bassaleik. En ég mæli með ðö Hönches.

Varðandi könnunina góðu: Hvaða apakettir kusu Britney? Hún er alveg dead.

Nema hvað. Þar sem ég er nú kominn með vinnu ákvað ég að gera upp notkun mína á vísakortinu mínu frá áramótum og skoða í hvað peningar mínir fara að jafnaði. Ennfremur, hvort ég geti ekki dregið úr einhverjum kostnaðarliðum og lagt e-ð til hliðar svo maður geti komið úr foreldrahúsum einhvern tíma.

Eftirfarandi er uppgjörið en þess skal getið að inn í það vantar notkun á debetkorti (sem reyndar er nánast 0) og úttektir erlendis vantar líka.Alls hef ég eytt tæpum 400.000 krónum innanlands og var þeim eytt með eftirfarandi hætti:

ÁTVR: 23.886
Leigubílar: 26.864
Áfengi og aðgangseyrir: 36.630
Skyndi og þynnkubiti: 64.784
Bíó og DVD*: 47.772
Út að borða: 17.550
Símakostnaður**: 28.871
Matarinnkaup: 16.041
Bensín: 9.431
Þjónustugjöld Visa: 5.342
Tryggingar: 3.091
Annað***: 119.000



*Bíó og DVD er aðgangseyrir að kvikmyndahúsum og leiga á DVD-diskum auk drykkja og snakks er vill fylgja kvikmyndaáhorfi.
** Símakostnaður: Þar af eru 14.000 úborgun í nýjum síma.
*** Annað: Vallargjöld á golvelli, tannlæknakostnaður, klippingar, fatakaup,stöðumælasektir, bílaþvottur, bókakaup etc.)
Matarinnkaup og Bensín: Úgjöld sem eiga sér aðeins stað þegar foreldrar eru í útlöndum.

Ljóst má vera að ég get dregið allsvakalega úr neyslu skyndi-og þynnkubita auk þess sem neysla á börum bæjarins og leigubílakostnaður mætti alveg dragast saman um helming. Á móti kemur að ég get búist við aukinni bensínnotkun með nýju starfi og líklega mun tryggingaliður hækka með bíleign. Bíóliðurinn er heilagur og mun ekki minnka nema kvikmyndahúsin sýni fleiri ömurlegar myndir. Svo er ekki hægt að hunsa “annað” liðinn. Líklega mun hann þenjast eitthvað út með auknum tekjum.

400.000 eru kannski ekki mikill peningur í margra augum. Eru t.a.m. margir með hærri mánaðarlegan yfirdrátt á sínum debetkortum. Eiga þeir samúð mína, sérstaklega ef þeir sóa sínum peningum með svipuðum hætti og ég, og það á yfirdráttarvöxtum.

Farinn í vinnuna.

Góðar stundir

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com