Bush eða Kerry?
Eins og flestum sem vita eitthvað um eitthvað ætti að vera ljóst eru forsetakosningar í Bandaríkjunum á allra næsta leyti. Nánar tiltekið eru þær á morgun, þriðjudaginn 2. nóvember. Meiri áhugi virðist vera fyrir kosningunum nú en áður úti um allan heim og þar með talið hérna á Klakanum. Þetta er líklega vegna þess hversu spennandi síðustu kosningar voru, hversu spennandi þessar kosningar líta út fyrir að verða og hversu mikill bavíani George W. Bush er.
Í sjálfu sér er ekki stór munur á köppunum. Báðir eru hægrisinnaðri en allt sem Íslendingar þekkja, báðir eru uppfullir af þjóðrembingi, báðir eru trúaðir og báðir munu verja Ísrael fram í rauðan dauðann. Kerry er reyndar aðeins minni öfgamaður en Bush. Til dæmis vill hann að byssuframleiðendur setji barnaöryggislás á vörur sínar og svo vill hann draga úr fjölda barna sem njóta ekki heilbrigðistrygginga. Ég sæi Íslendinga í anda rífast um þessi mál.
Helsti munurinn á Bush og Kerry er líklega sá að hinn síðarnefndi kann að lesa og skrifa og er greindari en 5 kíló af frauðplasti. Einnig virðist Kerry, þrátt fyrir trú sína, vera tilbúinn að nota nútímavísindi svona í bland við bænir. Til marks um hversu menntunarlega sinnaður Kerry er má nefna að tveir stærstu stuðningsaðilar hans fjárhagslega eru háskólar með Harvard í fararbroddi.
Eins og áður sagði var mjög mjótt á mununum í síðustu kosningum, Gore fékk 266 kjörmenn en Bush 271. Þetta hefur þó alls ekki alltaf verið svona. Clinton saltaði sína mótframbjóðendur í bæði skiptin (kjörmannalega séð a.m.k.). Bush eldri vann hann 370-168 og Bob Dole var tekinn 379-159.
Svo má auðvitað ekki gleyma þriðja frambjóðandanum, Ralph Nader. Þetta er gaur sem lætur sko ekki segjast, hann skeit á sig í síðustu kosningum og mun að öllum líkindum skíta á sig aftur. Framboð hans er Repúblíkönum mikill akkur þar sem hann er talinn taka fylgi frá Demókrötum aðallega. Margir bölva honum því fyrir þetta framboð þar sem það er alveg ljóst að hann á ekki breik en í raun er það kosningakerfið sem ætti að bölva. Það er nefnilega hannað þannig að enginn utan stóru flokkanna tveggja eigi séns á að hafa nokkur áhrif á kosningarnar. Raunar er það þannig að maður verður helst líka að vera bullríkur. Allir frambjóðendur stóru flokkanna núna, þ.e. Bush, Kerry, Cheney og Edwards eru milljarðamæringar á íslenskan mælikvarða. En því verður ekki neitað að Nader mun skaða Kerry og ef hann hefði ekki verið í framboði fyrir fjórum árum er nánast öruggt að Gore hefði unnið.
Jæja, það er nú víst til lítils að reyna að sannfæra þig, lesandi góður. Þú mátt ekkert kjósa. Vonum bara hið besta.
Góðar stundir.
<< Home