GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, september 05, 2004

Vopnaval

Eins og einhverjir lesendur Skítsins kannski vita er ég einhleypur. Hvers vegna það er veit ég ekki alveg. Sambandsviljinn er alveg fyrir hendi svo að ekki er það vandamálið. Því hlýtur annað tveggja eiginlega að vera satt: Annaðhvort er ég mjög óáhugaverður eða ég er að beita röngum aðferðum í tilraunum mínum til þess að komast í kynni við hitt kynið. Ef hið fyrra er rétt er lítið við því að gera og raunar frekar niðurdrepandi. Gerum því ráð fyrir að það sé seinna atriðið sem sé satt.

Viðreynsla getur í grundvallaratriðum endað á tvo vegu: Með árangri eða höfnun. Það sem knýr mann til viðreynslu er að sjálfsögðu löngunin til þess að ná téðum árangri og það sem heldur aftur af manni er óttinn við höfnunina. Spurningin er bara hvort löngunin til árangurs yfirstígur óttann við höfnun. Í raun snýst þetta um væntar afleiðingar viðreynslunnar, þ.e. hvers virði telur maður árangurinn, hversu slæmt er að láta hafna sér og hverjar líkurnar á hvoru fyrir sig eru.

Mér sýnist fjórar aðferðir koma til greina:

i) Sniperinn. Hérna er eingöngu stefnt að besta mögulega árangri. Þessi aðferð felst í því að kanna alla möguleika, meta hvern og einn vel og vandlega, velja það skotmark sem hefur hæst árangursgildi og jafnframt jákvætt væntigildi og eyða öllum nauðsynlegum tíma og orku í viðkomandi skotmark.

ii) Hálfsjálfvirka. Þessi aðferð felst í því að hámarka væntigildi kvölds. Hér er reynt við allt sem hefur jákvætt væntigildi. Aðferðin gengur út á það að á endanum hlýtur eitthvað að takast sem maður kann að meta án þess að líða mikið fyrir hafnanir. Lítið vægi er sett á höfnun.

iii) Shotgun. Þessi aðferð felst í því að hámarka líkur á einhverjum árangri. Hún gengur út á að reyna hratt og örugglega við allt sem maður sér. Viðreynsluhraðinn er svo keyrður meira upp eftir því sem á kvöldið líður. Svo fremi sem maður sé ekki stórslys ætti að vera ómögulegt að ná ekki árangri með þessari aðferð. Árangurinn getur hins vegar verið mjög umdeildur. Ekkert vægi er sett á höfnun.

iv) Byssustingur. Þessi aðferð felst í því að lágmarka líkur á höfnun. Hér er beðið eftir algjöru dauðafæri. Bráðin er lokkuð hægt og rólega án þess að taka nokkra alvöru áhættu á höfnun. Þegar alveg ljóst er í hvað stefnir er látið til skarar skríða. Þessi aðferð er ekki mjög afkastamikil en ætti að skila manni mjög öruggum og traustum árangri þegar hún gengur.

Allar hafa þessar aðferðir kosti og galla og eflaust eru til fleiri. Sjálfur held ég að ég beiti byssustingnum of mikið. Hann er hægvirkt veiðitæki sem áhættufælnir sækja oft í. Ég hef séð menn í shotgun-ham og á erfitt með að sjá sjálfan mig með haglarann að vopni. Fyrir áhorfendur er þó shotgun líklegast með hæst skemmtanagildi.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com