GRÆNN SKÍTUR UPPRISINN??

Hugsanleg uppvakning hins Græna á veraldarvefnum? AMK upptaktur.

sunnudagur, september 26, 2004

Fegurðin skapar hamingjuna

Eftir bolta í gær hlammaði ég mér fyrir framan sjónvarpið. Sunnudagseftirmiðdegið er afleitur sjónvarpstími. Þar er ekkert að sjá, nema mögulega ef það er góður leikur í enska boltanum. Þar sem það kom að sjálfsögðu ekki til greina að rífa sig upp úr rassaförunum í sófanum varð ég að reyna að finna það skásta sem til staðar var. Ég veit ekki hvort ég valdi rétt en Extreme Makeover varð fyrir valinu. Auðvitað ætti að vera óþarfi að skýra frá því um hvað þátturinn fjallar en fyrir lesendur Skítsins á Jan Mayen og Grænhöfðaeyjum þá er í þáttunum venjulegt fólk í Bandaríkjunum tekið í gegn útlitslega og sagt frá hvílík áhrif þetta hefur á líf viðkomandi.

Í þættinum í gær var fjallað um tvær konur sem voru þeirrar blessunar aðnjótandi að fá að vera teknar í yfirhalningu. Annars vegar var það u.þ.b. þrítug, þeldökk, offeit kona með klofna vör. Hún er reyndar dæmi þar sem mér finnst lýtaaðgerðir vera réttlætanlegar. Fæðingargallar eru gallar og galla er eðlilegt að lagfæra ef mögulegt er. Stúlka þessi hafði enda orðið fyrir miklu aðkasti á skólagöngu sinni og ævi sinni allri. Að sjálfsögðu var það ekki bara klofna vörin sem var tekin í gegn. Brjóst, læri og magi fengu að kenna á fitusoginu til þess að sýna hvað þetta er sniðug tækni.

Hin konan var þessi týpíska, venjulega, miðaldra, hvíta húsmóðir að sunnan. Hennar draumur var að fara til Hollywood og láta pússa sig svolítið upp og fá svo bónorð þegar hún kæmi fín og sæt til baka og viti menn, henni varð að ósk sinni. Bónorðið fékk hún frá þessum fína gaur með yfirvaraskegg og kúrekahatt. Það er deginum ljósara að smá fitusog, sílíkon og botox getur fært manni ást og hamingju.

Persónulega held ég að lýtaaðgerðir leysi sjaldan stór vandamál. Gamla góða hlaupogsprikla-aðferðin er mun gjöfulli. Ég trúi því ekki að margir karlar vilji gerviefni frekar en the real stuff. Svo vil ég líka hvetja stúlkur sem eru í vandræðum með sjálfar sig og vantar ást og hamingju að prófa Bótó áður en þær prófa botox, vúúú.

Góðar stundir.

Weblog Commenting and Trackback by HaloScan.com